Færsluflokkur: Ferðalög
17.11.2006 | 17:37
Þegar kóngur vill sigla
Þegar kóngur vill sigla . tja þá pakkar maður bara niður í töskuna og leggur af stað. Þannig var það allavega hjá mér því það var í brúðkaupsferðinni minni á Kanaríeyjum s.l. vor að konan mín tilkynnti mér að hún hefði fundið á netinu einstakt tilboð á ferð til Barcelona næsta haust. Já það var ekki nóg með að kóngur væri að sigla heldur vildi hann sigla meira svo auðvitað fékk hún að kaupa ferðina enda lofaði hún því að taka það til athugunar hvort ég fengi að koma með. Ég hafði orð á þessu á leiðinni á flugvöllinn að kóngur væri farinn að sigla ansi oft en eina svarið sem ég fékk var: Haltu þér saman ég tók þó Hirðfíflið með núna. Konan hafði tilkynnt mér viku fyrir brottför að þessi ferð væri einungis ætluð til afslöppunar, þetta ætti alls ekki að vera verslunarferð og því ástæðulaust að taka einhverjar stórar ferðatöskur og mikið dót fyrir eina viku í afslöppun. Það gekk því greiðlega að innrita sig á flugvellinum enda farangurinn lítill en þegar við komum upp í fríhöfnina var það eins og að koma í Kringluna á Þorláksmessu. Fólksmergðin var slík að það var hvergi hægt að setjast niður og að ætla að reyna að versla eitthvað var nánast útilokað vegna þrengsla. Þarna sérðu hvað það hafa margir nýtt sér þetta frábæra ferðatilboð eins og ég sagði konan hróðug um leið og hún tróðst inn í eina búðina og hrifsaði whisky pela af gamalli kerlingu og greiddi hann í snatri svo Hirðfíflið þyrfti ekki að vera alveg þurrbrjósta á leiðinni út. Á meðan kíkti ég á brottfararskjáinn og sá að það voru 9 vélar að fara í loftið á svipuðum tíma og okkar vél svo einhverjir hafa væntanlega verið að nýta sér önnur ferðatilboð. Þegar það var svo kallað út í vél kom babb í bátinn. Konan dró upp vegabréfið sitt og brottfararspjaldið en þá kom í ljós að rangt nafn hafði verið ritað á brottfararspjaldið og konan hét allt í einu orðið Inga Alfreðsdóttir. Nú varð mikil rekistefna og konan var að komast í ham og ýtti mér að borðinu og tjáði konunni sem þar sat að ég væri maðurinn sinn og gæti staðfest að við værum að ferðast saman. Er það rétt sem hún segir spurði konan við borðið ert þú maðurinn hennar. Áður en ég svara þessu gæti ég þá fengið að sjá hvernig þessi Inga Alfreðsdóttir lítur út spurði ég sakleysislega en konan við borðið hló bara og sagði að þar sem vélinn væri að fara væri og seint að breyta þessu og ákvað að hleypa konunni um borð. Þegar um borð í vélina kom hélt ég svo að við hefðum villst því að ég sá ekki nokkurn mann en þegar nánar var að gáð kom í ljós að það voru 32 farþegar í þessari 200 manna vél. Þegar í loftið var komið gat ég ekki stillt mig um að benda konunni á þann gríðarlega fjölda sem hafði nýtt sér þetta frábæra ferðatilboð sem hún fann á netinu en nú brá svo við að hún harðneitaði að ræða málið frekar og steinþagði reyndar og náði sér ekki á strik aftur fyrr en ég pantaði mér þriðja bjórinn og þriðja whisky snapsinn með enda hæg heimatökin það var ein flugreyja á hverja fimm farþega. Það er nú óþarfi að drekka sig blindfullann áður en leiðin er hálfnuð sagði konan byrst, þú verður að standa í lappirnar þegar við komum út bætti hún við og horfði illilega á mig. Ég skal bara láta þig vita það að ég læt ekki einhverja Ingu Alfreðsdóttur skipta sér að því hvað ég drekk sagði ég hinn rólegasti meðan ég sötraði bjórinn og ég ætla sko að fá mér annann á eftir bætti ég við. Konan lét þar við sitja og skipti sér ekki frekar af bjórdrykkju minni það sem eftir var af þessari flugferð. Eftir góðan nætursvefn í Barcelonuborg trítluðum við svo út í sólina og konan tók stefnuna beint á stærsta verslunar magasínið í borginni og þuldi upp fyrir mig á leiðinni hvað hún ætlaði að kaupa og sá listi var sko ekki stuttur. Ég hélt að það væri meiningin að þetta yrði afslöppunarferð en ekki verslunarferð sagði ég og þessvegna tókum við bara litlu töskurnar með bætti ég við en konan leit á mig og brosti og sagði að þetta væri nú bara svona smáhlutir sem ætti að kaupa og hún yrði í engum vandræðum með að koma því í töskurnar. Eftir að hafa farið í gegnum 2000 fermetra ilmvatnsvörubúð lá mér við yfirliði en fékk kærkomna hvíld uppi á næstu hæð þar sem var 2000 fermetra skóbúð, því konunni vantaði að eigin sögn nauðsynlega eina götuskó og eina spariskó. Ég gat því setið í rólegheitum í tvo tíma meðan konan mátaði einhverja tugi af skópörum en var ekki ánægð með neitt af þeim og sagðist ætla að skoða í fleiri skóbúðir. Síðan var þrammað búð úr búð að leita að spariskóm og götuskóm en hvergi fann konan það sem hún var ánægð með. Það var ekki fyrr en á fjórða degi og eftir að minnsta kosti 100 km. labb í leit að þessum fjandans skóm að konunni var litið út um gluggann á hótelinu okkar og kom auga á skóbúð hinumegin við götuna og brunaði náttúrulega út og viti menn þar fann hún að eigin sögn nákvæmlega réttu skóna. Þetta kallaðist í minni sveit að leita langt yfir skammt, þarna voru skórnir í 30 metra fjarðlægð frá hóteldyrunum en þetta var örugglega síðasta skóbúðin í borginni sem konan átti eftir að skoða. Í tilefni þess að hafa fundið skóna bauð konan mér á uppáhalds veitingahúsið mitt í borginni og þar fékk ég rosalega kálfasteik og hefði skammturinn dugað vel í fjögurra manna veislu og þessu fylgdi svo tveggja lítra kanna af bjór. Eftir að hafa dundað við þetta í meira en klukkutíma gat ég svo ekki meira og var orðið hálf illt af öllu átinu en konan pantaði án þess að hika glas af Irish Coffy handa mér og þegar að rjóminn bættist við bjórinn og kjötið fann ég að litlu mætti muna að kransæðarnar segðu stopp og hafði orð á því við konuna að með þessu áframhaldi fengi ég hjartaáfall. Konunni brá og hún jesússaði sig í bak og fyrir og tjáði mér að hjartaáfall mætti ég alls ekki fá. Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar ég sá hvað mikla umhyggju konan bar fyrir mér og hugsaði með mér að það væri leitt að ég hefði látið henni bregða þegar hún bætti við án þess að svo mikið sem hika: Nei hjartaáfall kemur ekki til greina það yrði alltof dýrt að senda þig heim. Ég missti út úr mér að ég væri nú tryggður fyrir 15 milljónir en þá horfði konan á mig smástund en pantaði svo annann Irish Coffy handa mér án þess að segja neitt. Þegar leið að heimferð og konan fór að pakka varð ég glaður mjög þegar að ég sá að allt sem konan hafði keypt komst fyrir í töskunum okkar svo ekki virtist þörf á neinum frekari aðgerðum með farangurinn alveg þangað til að konan ákvað að skreppa eina lokaferð í stóra verslunar magasínið því hún hafði hitt fólk á hótelinu sem sagði henni að það væru líka búðir í kjallaranum í magasíninu og það varð mín auðvitað að skoða. Þegar þangað var komið blasti við okkur mörg hundruð fermetra búð með vörur fyrir gæludýr. Ég hélt því að þessi verslunarferð tæki fljótt af en annað kom sko á daginn. Konan kom auga á stærðarinnar rúmm sem stóð þar á gólfinu með höfðagafli og hlébarðadýnu og fékk hreinlega kast. Guð minn góður hrópaði hún ég bara verð að kaupa þetta rúmm handa honum Mola mínum, sérðu hvað þetta er flott hrópaði hún og ýtti mér að rúmminu. Er þetta nú ekki fullmikið handa hundinum sagði ég, hann virðist nú bara ánægður þar sem hann sefur bætti ég við um leið og ég snéri mér við. En konan var þá horfin og ég kom auga á hana úti í horni þar sem hún hafði króað af verslunarstjórann og þar var mikið pat og læti því í ljós kom að hann talaði ekki stakt orð í ensku og hún ekki í spænsku. Það var nokkur áhyggjusvipur á verslunarstjóranum alveg þangað til konan gat komið honum í skilning um að hún vildi kaupa rúmmið en ekki fá hann með sér upp í rúmmið. En þá kom upp smá vandamál, þetta var nefnilega eina rúmmið sem eftir var í búðinni en konan gaf sig ekki og heimtaði að fá rúmmið keypt og að það yrði tekið í sundur. Upphófst nú mikill atgangur þar sem ekki dugði minna en að verslunarstjórinn og tvær afgreiðslumeyjar færu í verkið því mikið þurfti að skrúfa og pakka. Meðan á þessu stóð horfði hópur af spánverjum illilega á konuna þar sem þeir biðu eftir afgreiðslu með eina eða tvær dósir af kattamat í hendinni. Að lokum tókst þó að taka rúmmið í sundur og konan rogaðist með það á hótelið og skellti því á gólfið á herberginu okkar. Ætlarðu virkilega að segja mér það að þú ætlir að drösla þessu alla leið frá Miðjarðarhafinu og til Íslands sagði ég og horfði á hrúguna á gólfinu, en þegar ég sá augnaráðið sem konan sendi mér rölti ég beina leið út í magasínið og keypti stærstu ferðatöskuna sem ég gat fundið. Þessu dröslaði konan svo með sér á flugvöllinn og heim til Íslands fór rúmmið og þegar þangað var komið sat konan við í heilan dag við að finna út úr því hvernig ætti nú að setja þetta saman aftur. Loks stóð rúmmið tilbúið og konan sótti hundinn til að sýna honum herlegheitin og ekki stóð á því að hann hoppaði upp í rúmmið en eftir smástund kom ámátlegt ýlfur og hann stökk niður og hefur ekki fengist upp í það aftur með nokkru móti. Ekki veit ég hvað hundurinn hefur á móti rúmminu nema ef það skyldi vera það að við nánari skoðun kom í ljós að á höfðagaflinum sem er úr einhverju víravirki er mynd af KETTI. Ég held því allavega fram að það sé þessvegna sem hundurinn vilji ekki sofa í rúmminu nema honum finnist of hátt upp í það en maður verður sko ekki í vandræðum með jólagjöfina handa konunni í ár, hún fær stiga handa hundinum upp í rúmmið. Það var svo eitt kvöldið núna um daginn að ég sat í sælli ró yfir sjónvarpinu að konan settist á móti mér og var með bækling í hendinni og sagði: Þú veist að ég á afmæli í apríl er það ekki elskan og ég er hérna að skoða alveg einstakt tilboð á ferð til útlanda. Já það er fínt elskan sagði ég við þurfum nefnilega að skreppa til Barcelona og skila rúmminu. Konan stóð á fætur og sagði ískalt að við myndum ræða þetta síðar en þegar ég rakst svo nokkru seinna á ferðabæklinginn sá ég að konan hafði merkt við siglingu á lúxus skemmtiferðaskipi milli einhverra eyja í Suður Ameríku svo ætli það verði þá bara ekki eins og venjulega þegar KÓNGUR VILL SIGLA .
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar