KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL

Frú Sólveig sat við eldhúsborðið heima hjá sér í Miðtúninu eitt kvöldið fyrir skömmu síðan og las Morgunblaðið meðan hún beið eftir því að suðan kæmi upp á fiskisúpunni sem ætluð var til kvöldverðar.  Allt í einu leit hún svo upp úr blaðinu og sagði glaðhlakkalega:  Þetta er eins og ég hef alltaf vitað,  aldur er engin fyrirstaða ef fólk ætlar sér bara að gera hlutina.  Hér er ég að lesa um konu  í útlöndum sem er komin vel á sjötugsaldur og var að eignast barn.  Ertu ekki að djóka sagði ég er þetta ekki bara prentvilla ég trúi því nú varla að einhver kerlingarherfa hafi farið að eignast barn á þessum aldri.  Ég er nú aldeilis hrædd um það sagði konan sigri hrósandi og bæði móður og barni heilsast vel.  Guð minn góður sagði ég þetta ætti að vera bannað með lögum,  hvað á að gera þegar barnið stækkar á að setja það á leikskóla eða vista það á ellhiheimilinu hjá mömmunni en reyndar er það kannski eini kosturinn við þetta að hún getur þá trillað því um í barnavagninum og gefið því brjóst í leiðinni.  En barnaverndaryfirvöld ættu líka að koma að þessu máli því að þurfa að sjúga svona gamlar túttur verður örugglega efni í margra ára vinnu fyrir  sálfræðinga þegar barnið stækkar.  Tja kella má nú eiga það að það er kraftur í henni sagði konan og það er reyndar líka kraftur í karlinum sem kemur alltaf öðru hvoru í bankann til mín því hann er kominn á áttræðisaldur en er samt alltaf að gefa mér undir fótinn og reyna við mig.  Hann vill fá mig fyrir konu og er alltaf að bjóða mér með sér í íbúðina sína á Spáni.   Þetta er forríkur karl sem á fullt af eignum út um allt.  Ég velti því fyrir mér smástund hvort þessi skyndilegi áhugi konunnar á öldruðu fólki stafaði nokkuð af því að hún á stórafmæli í apríl og hvort það væri nokkuð farið að fara á sálina á henni að ná þeim áfanga en áræddi þó að spyrja eftir stutta þögn:  Á ég að skilja þetta sem svo að þú viljir skilnað eða hvað.  Nei ætli það svaraði konan, ætli maður dandalist ekki með þér eitthvað lengur ef þú hagar þér almennilega.  Þú ættir kannski að giftast karluglunni svo þú erfir allt góssið og ég get þá bara verið ástmaður þinn þangað til sá gamli hrekkur upp af sagði ég montinn yfir þessari frábæru hugdettu.  Ha Ha Ha Ha konan skellihló góða stund en sagði svo með mikilli alvöru.  Að eiga þig fyrir ástmann væri nú eins og að vera glorsvangur, eiga LÍTIÐ að éta og þurfa svo bara að gera gott úr öllu saman.  En þegar ég sagði þeim gamla að ég væri gift þá bað hann mig að spyrja þig hvort þú værir ekki til í að sleppa mér ef þú fengir Kjarvalsmálverk í staðin.  Hmmm sagði ég móðgaður yfir þessum viðbrögðum við þessari frábæru hugdettu minni,  hvað er þetta Kjarvalsmálverk annars stórt.   Ætlar þú að segja mér það Snorri Snorrason að þér svo mikið sem detti það í hug að skipta á mér og einhverju klessuverki eftir löngu dauðan kall hrópaði konan,  ég hélt nú að þú værir löngu búinn að gera þér grein fyrir því hvurslags kostagripur ég er og hvar ætlar þú að finna aðra konu jafn skemmtilega og mig fyrir utan það að ég skipti aldrei skapi.  Já það er rétt elskan þú skiptir aldrei skapi ert alltaf kolvitlaus tautaði ég ennþá hálf móðagaður.  Hvað sagðirðu spurði konan hvasst.  Ég sagði að þetta væri alveg rétt með skapið sagði ég til að halda friðinn því konan leggur nefnilega  ríka áherslu á að við förum aldrei að sofa ósátt og því vökum við alltaf og rífumst áfram þegar eitthvað bjátar á.  Eftir fiskisúpuna brá konan sér svo í heimsókn út í bæ en ég settist við sjónvarpið.  Þegar konan svo kom heim var farið að halla í háttatíma og eftir að hafa sýslað eitthvað í eldhúsinu kom hún fram  í stofu og kyssti mig á skallann og spurði hvort ekki væri rétt að fara að hátta.  Ég kláraði að horfa á þáttinn sem var í sjónvarpinu en fór svo inn í rúm að hátta en konan var þá komin undir sæng og var að lesa í bók   Ég skreið undir sængina og konan lagði frá sér bókina og tók utan um mig og spurði hvort það væri ekki allt í lagi.  Ég velti mér á hina hliðina og breiddi sængina upp fyrir haus um leið og ég sagði.  Það vona ég að þú sért glorsvöng því þú færð EKKERT að éta og reyndu svo að gera gott úr því.   Þegar ég svo sármóðgaður var að festa svefninn gat ég ekki varist því að hugsa:

 

“KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

A.A.A.A.A.A HVER FJÁRINN ER AÐ ÞÉR NÚNA.  Þessi fullorðna kona sem eignaðist barn - eignaðist tvíbura og þ.a.l 2 börn.  Hún býr að mig minnir í þinni uppáhaldsborg Barcelona.  Við leystum þetta barnamál þitt farsællega (að ég hélt) með því að taka barnalán!!

Mér þótti afskaplega vænt um þegar þú tókst ekki tilboðinu um klessuverksbíttin - hélt þá að þú mætir mig meira og þætti þ.a.l vænt um mig.  Eitthvað ertu samt að brjóta heilann ennþá um þetta mál. 

NÁNAST BEIN ÚTSENDING ÚR SVEFNHERBERGINU........hvað er að???? Lýsir bara alveg fyrir alþjóð hvað fram fer í rúminu.  HUH, ætli ég burri ekki rúminu þínu aaaalveg yfir að vegg og setji rúmið sem ég rogaðist með sunnan frá Miðjarðarhafi á milli rúmana og venji hundinn á að sýna þér tennurnar!!!  Ekki veit ég hvaða martraðir þú færð.......því við höfum aldrei rifist og vona að við tökum ekki upp á þeirri endalausu vitlausu.

Ég þótti einn vænsti kvenkostur á Vestfjörðum í dentíð, þegar ég var ung að árum.....nú er ég bara ung.  Fengu færri en vildu - því allavega fékk ég a.m.k 5 bónorð fram að tvítugu og þar af 2 sama kvöldið og eitt kom skriflegt.  Öllum þessum bónorðum hafnaði ég - forlögin hafa sennilega vitað að þú yrðir valinu á miðri ævi.

Varðandi það að ég sé glorsvöng.........jísúskræst.  Það sést á mér laaangar leiðir að það er bannsett vitleysa og svengd hrjáir ekki fólkið sem býr í Ólátagarði.  Það ber með sér að það setjist að GNÆGTABORÐI alla daga og hafi aldrei heyrt garnagaul.

Ég held svei mér þá að þú sért að safna þér vorkunnum frá lesendum....allavega gegnir þú lesendum mun betur en mér!!!!!!! og hvað á ég þá að halda þegar aðrir hafa betri stjórn á þér en ég sem er þó húsmóðir á mínu heimili?

sú sem þú gegnir ALDREI!! (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 14:42

2 identicon

Í kvöldfréttum sjónvarpsins var greint frá því að ófrjóar konur, konur sem legið hefði verið fjarlægt úr - gætu jafnvel farið að eiga börn.  Það er einhver læknir í útlöndum sem langar að gera tilraun til slíks með að græða leg í leglausar konur og þar með sá ég sæng mína útbreidda til þess að geta látið barnadraum þinn rætast........ég á allavega möguleika á því - því hvað geri ég ekki fyrir þig. KOMDU UNDAN RÚMINU.

húsmóðirin á heimilinu (IP-tala skráð) 17.1.2007 kl. 23:46

3 identicon

Útlit síðunnar er nú farið að verða svolítið kjarvalst

skiptimyntin (IP-tala skráð) 18.1.2007 kl. 16:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband