PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM

Föstudaginn 19 janúar 2007 þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur einu sinni sem oftar og á heimleiðinni ákvað ég að heimsækja konuna í vinnuna og athuga hvort ég fengi ekki kaffibolla svona í tilefni Bóndadagsins.  Það er ekkert kaffi til var það fyrsta sem konan sagði þegar ég kom inn í bankann,  hér er alltaf svo mikið að gera að það er ekki tími til að hella uppá.  Ekki var nú að sjá að það væri mikið að gera í bankanum því þær sátu þarna aleinar valkyrjurnar tvær sem þar vinna og hef ég þær helst grunaðar um að hafa drukkið allt kaffið sjálfar.  Ég varð því að gera mér að góðu að kaupa kók í sjoppunni og meðan ég sat og sötraði það spurði vinnufélagi konunnar hvort ég fengi ekki blóm svona í tilefni bóndadagsins.  Það skal ég láta þig vita að ef kerlingin kaupir handa mér vönd af Arfa þá þarf hún ekki að koma heim því það er skilnaðarsök sagði ég því ég hef megnustu andstyggð á öllum þessum bónda, konu, valíntínus, kvennafrídeginum og fl.  ofl. dögum sem búnir eru til af blóma og súkkulaðiframleiðendum.  En það er allt annað með góðan mat og pönnukökur og svoleiðis  og meðal annara orða hvað er í matinn í kvöld elskan sagði ég og snéri mér að konunni.   Bara það sem þú nennir að elda og vaska svo upp á eftir sagði konan og leit ekki einu sinni upp úr pappírshrúgunni.  Ég hrökklaðist því út kaffilaus og með þau fyrirmæli að elda sjálfur á Bóndadaginn og fyrst uppvasksákvæðið fylgdi með þá skrapp í Bónus og keypti pulsur og pulsubrauð.  Þegar að konan kom svo heim undir kvöldmat rétti hún mér lítinn poka og þegar nánar var að gáð reyndist vera í pokanum lítill hjartalöguð karamella sem límdur var á sleikipinni og utanum var bundinn einhver grein sem mynnti helst á mosaskófir eða eitthvað slíkt.  Þetta eru ekki blóm sagði konan sigri hrósandi og þú sagðir ekkert um karamellur og sleikipinna bætti hún við og það ískraði í henni af ánægju yfir því að hafa fundið leið framhjá súkkulaði og blómabanninu.  Ég byrjaði á ræðu um tilgangsleysi þessara daga en var truflaður af símhringingu og þegar ég svaraði spurði glaðhlakkaleg yngismær á hinum enda línunnar:  Er þetta Snorri Snorrason.  Jú sá er maðurinn hver spyr.  Já ég er að hringja fyrir Guðna Ágústsson sagði yngismærin,  það er prófkjör á morgun og hann bað mig að spyrja þig hvort hann gæti ekki treyst á þinn stuðning.  Tja ég hef nú alltaf kunnað að meta það hjá honum Guðna hvað hann er bjartsýnn og ég vildi gjarnan sjá hann í efsta sæti listans hér í Suðurkjördæmi frekar en þennan Suðurnesjasnúð sagði ég en þar sem ég er nú flokksbundinn í öðrum flokki þá held ég að hann verði að vinna þetta án minnar hjálpar.  Það er ekkert mál þó þú sért í öðrum flokki sagði yngismærin kokhraust þú gengur bara í Framsókn og getur svo sagt þig úr flokknum daginn eftir.  Ég held fjandinn hafi það að það gangi ekki að vera í tveimur flokkum sagði ég en ef svo ólíklega fer að ég gerist Framsóknarmaður þá skal ég kjósa Guðna sagði ég og kvaddi.  Puff sagði konan er nú kosningasmölun í gangi,  það stóð nú til þegar ég var lítil að gera úr mér Framsóknarmann en það tókst ekki og nú hef ég barist gegn þessu í næstum 50 ár og látum þá bara reyna að hringja í mig ég skal sko láta þá heyra það.  En síminn hringdi ekki aftur þetta kvöldið og eftir að húsbóndinn hafði eldað og vaskað upp á Bóndadaginn þá tók við sjónvarpsgláp uns gengið var til náða.  Ég hafði það einhvernveginn á tilfinningunni þegar ég var að sofna að ég hefði verið plataður þennan Bóndadag og það með karamellu og sleikipinna. 

Laugardagurinn 20 janúar 2007 byrjaði svo á því að ég var vakinn kl. 6:30 af ormunum í Ólátagarði sem vildu fá sinn graut og engar refjar svo ég mátti á lappir að smyrja brauð og elda graut.  Þegar þeir pjakkar voru orðnir mettir kíkti ég inn til konunnar og bauð henni að koma og fá sér graut líka.  Láttu mig vera grautarhausinn þinn sagði konan og breiddi sængina upp fyrir haus,  þú og þinn grautur geta farið í rassgat á rostungi og ég ætla að sofa lengur.  Ég flýtti mér að loka dyrunum aftur og hugsaði með mér að það yrði þá ófriður í lágmarki þennan morguninn.  Þegar konan svo drattaðist á lappir undir hádegið var ég einmitt að lesa grein í Mogganum um prófkjör Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og spurði í sakleysi hvort hún ætlaði ekki að fara að kjósa vin sinn og nágranna á Langanesinu.  Mannstu ekki þegar ég bannaði þér að láta hundinn heita Guðna Ágústsson af því að ég gat ekki hugsað mér að láta eitthvað Framsóknartrýni vekja mig á morgnanna sagði konan hvasst,  skoðun mín á Framsókn hefur ekkert breyst og ég kýs ekki rassgat hvorki Guðna granna né neinn annan.   Það stefndi því í nokkuð friðsælan laugardag og ég var að vonast eftir iðrunarpönnukökum frá konunni af því að ég var látinn elda og vaska upp á Bóndadaginn en það bólaði ekkert á þeim.  Það var svo um fimmleytið að síminn hringdi.  Á línunni var virðulegur bankastjóri hér á Selfossi sem kynnti sig og spurði um Sólveigu.  Andskotinn ekki eru þeir farnir að rukka á laugardögum hugsaði ég meðan ég sótti konuna.  Konan svarði og hlustaði nokkra stund á bankastjórann en sagði svo:  Já þú segir það,  Suðurland þarfnast mín,  já ég skal athuga málið.  Grafalvarleg lagði konan frá sér símann og snéri sér að mér og sagði með mikilli alvöru.   “SUÐURLAND ÞARFANST MÍN”  Já það hefur löngum verið vitað elskan mín að við getum ekki án þín verið hér á Suðurlandi sagði ég en hvað er annars í gangi.  Jú bankastjórinn var að biðja okkur um að koma að kjósa hann Guðna,  þeir halda að það geti orðið mjótt á mununum í prófkjörinu og við verðum að standa vörð um þingmennina okkar.  En hvað með Framsóknartrýnið og allt það spurði ég rólega og horfði á konuna.  Já en “SUÐURLAND ÞARFNAST MÍN”  hrópaði konan og fór að klæða sig í kápuna og ég man nú ekki betur en að þú hafir ekki látið þig muna um að fara alla leið inn á Gæsavatnaleið þegar bíllinn bilaði hjá fyrrum bankastjóra í KB með þeim orðum að maður neitaði aldrei bankastjóra um greiða.   Þar hitti konan á veikan blett því það hefur jú alltaf verið mottó hjá mér að “maður neitar bankastjóra aldrei um greiða”  en sagði svo meðan ég klæddi mig í úlpuna:  Andskotinn gátu þeir ekki látið einhvern annan hringja. Það sem síðan fór fram á örugglega eftir að halda fyrir mér vöku í langan tíma og ég gat ekki varist þeirri hugsun þegar ég um kvöldið kyssti Framsóknartrýnið sem lá við hliðina á mér í rúmminu að ég hefði verið:

 

PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

SNORRI ÞÓR SNORRASON!!! Kallar þú konuna þína FRAMSÓKNARTRÝNI??? eða hver var það annars sem var hjá þér umrætt kvöld? HA??  Þú VEIST VEL HVERS VEGNA HUNDURINN FÉKK EKKI AÐ HEITA GUÐNI ÁGÚSTSSON!!! OG ÞÚ VEIST LÍKA MÆTA VEL AÐ ÉG HEF BARIST GEGN ÞESSUM FLOKKI SÍÐAN ÉG VAR BARN OG ER ÞÓ KOMIN ÚT AF FRAMSÓKNARFÓLKI SVO LANGT AFTUR Í ALDIR AÐ ÞAÐ VAR EKKI BÚIÐ AÐ FINNA UPP ÞETTA ORÐ OG HVAÐ ÞÁ HELDUR STOFNA FLOKKINN!!!!!  En þegar einhver þarfnast mín hef ég hingað til gert það sem ég get til að greiða götu þess og hef ekki talið það eftir mér - heldur gert slíkt glöð í bragði og nú var það heilt Suðurland.

Á Bóndadag varstu ekki plataður......langur vegur þar frá, heldur var ég að reyna að sýna þér hve vænt mér þykir um þig - því þú ert farinn að verða svo asskolli afundinn þegar ég tek utan um þig líka þegar ég smelli kossi á skallann á þér..........(lesendur athugi einnig næstu bloggfærslu á undan þessari PLAT færslu karluglunnar)  Ég er svo gersamlega að verða lens varðandi þetta ÁSTAND á þessu heimili að ég veit varla hvað er í gangi þar - reyndar er ég orðins svo rugluð á þessu að ég veit ekki hverju ég á að trúa Maðurinn minn kvartar svo og kveinar við alþjóð að það 1/4 er alveg yfirdrifið meira en kappnóg.........og svo er nú í gangi auglýsingaherferð varðandi það sem sett er á netið!!! ......og til að toppa allan kvartpakkann þá bauð karlinn mér að láta smíða handa mér lykil að bílskúrnum - ég gæti alveg gengið um þær dyr!!!! Kommon........ Svo er hann vanur að læsa hurðinni á milli bílskúrs og sólstofunnar ........og NB........það er ekki til lykill sem gengur að skránni og að sjálfsögðu þarf lykil úr bílskúr og inn.......hvað er karlinn að fara fram á ?........ég kann að lesa á milli lína!!!

Jassó og amen.

FRAMSÓKNARTRÝNIÐ !!!!! (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 16:37

2 identicon

Bæðevei............ég steingleymdi að upplýsa dygga lesendur um það að þú og allt karlkyns í Ólátagarði fenguð pönnukökur á sunnudeginum......á meðan þú HIÐ NÝJA FRAMSÓKNARSMETTI svafst svefni hinna xxxxlátu á sunnudagsmorgninum.  Ég nefnilega vaknaði fyrir allar aldir, eldaði grautinn í ólátabelgina, setti hundinn út fyrir dyrnar OG STEIKTI STÓÓÓÓÓÓÓÓÓRAN stafla af pönnsum fyrir ykkur.........og aðallega þig.  Það var nefnilega farið að stefna í skelfilegt pönnukökuþunglyndi hjá húsbóndanum undir rúminu. Svo þegar staflinn var farinn að verða allþokkalegur gerði ég hlé á steikingunni, vafði upp nokkrar pönnslur og setti á disk og hellti kaldri mjólk í glas og færði þér inn í rúm .  Að fenginni reynslu veit ég að ér finnst fátt betra en pönnslur og þú ljómar sem sólin þegar þú svolgrar þessu í þig.  Þið mætu lesendur sjáið því að það er EKKI farið illa með karltetrið mitt........hvað svo sem hann reynir að telja ykkur trú um. 

Eiginkona sjálfstæðs framsóknarmanns á Langanesinu (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 22:00

3 identicon

Skýringin á hegðun mannsins er fundin.....og segið svo að það sé ekkert að marka stjörnuspár.......þær eru ALVEG JAFN MARKTÆKAR OG VEÐURSPÁRNAR.  Stjörnuspá nýja framsóknarmannsins er svona fyrir daginn í dag (23.janúar 2007)

Áttaðu þig á því, að þú þarft á athygli að halda. Að afneita því bakar aðeins vandræði. Ef þú nærð ekki að baða þig í athygli, læturðu illa þar til þú færð hana. Í kvöld kemur berlega í ljós hvað það er sem er svo frábært við þig.

LAUSNARORÐIÐ ER ATHYGLI

eiginkona xDB á Langanesi (IP-tala skráð) 23.1.2007 kl. 22:07

4 identicon

hahaha. Alltaf jafn gaman að koma hérna inn og fylgjast með "ófriðnum" í ólátagarði. Endilega að halda þessu áfram. Kveðjur að austan

Bangsi (IP-tala skráð) 26.1.2007 kl. 09:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband