ELLIGLÖP

 

Þá er friðurinn aftur úti.  Konan hefur sagt sig úr Framsókanarflokknum eftir stutta veru þar til þess að geta kosið vin sinn og nágranna Guðna Ágústsson í prófkjöri flokksins fyrir nokkru síðan.  Hún heldur reyndar að ég sé skráður í Framsóknarflokkinn líka af því að ég kaus líka í prófkjörinu en það er mikill misskilningur hjá henni því ég fór einfaldlega á kjörstað,  fékk afhent blað til þess að skrá mig í flokkinn og skrifaði umsvifalaust Jón Jónsson Flatey á blaðið og skilaði því og fékk samstundis afhentan kjörseðil til úrfyllingar.  Hvort að það er til einhver Jón Jónsson í Flatey hef ég ekki hugmynd um en ef svo er þá er hann orðin skráður í flokkinn.  Ég hef því ekki sofið neitt sérstaklega vel síðustu dagana enda löngum verið mjög á varðbergi gagnvart Framsóknarmönnum og að þurfa að sofa hjá einum slíkum var næstum því óbærileg tilhugsun.  Ef maður náði samt smá kríu undir morgun þá átti konan það til að lauma hundinum upp í rúm til mín þegar hún fór á fætur svo maður var ýmist vakinn af Framsóknartrýninu sem maður svaf hjá eða hinu trýninu sem er reyndar öllu blautara. Ég bar konunni það á brýn að hún væri ekki nægjanlega stefnuföst í þessari pólitík sinni því hún gengi í flokkinn og svo úr honum aftur nokkrum dögum seinna en það eina sem hún sagði var:   Ég veit ég er ekki nægjanlega stefnuföst.  En ég get sætt mig við það.  Það eina sem ég get ekki sætt mig við er skortur minn á stefnufestu.  Ég er ennþá að reyna að skilja hvað hún átti við en það er sama hvað ég hugsa um það ég kemst ekki að neinni annari niðurstöðu en þeirri að svona djúpa speki skilji bara Framsóknarmenn.  En nú er konan gengin úr flokknum og því get ég ekki lengur borið því við að ég tali ekki við Framsóknarmenn þegar  rifrildi er í uppsiglingu og því er blessaður friðurinn sem ríkt hefur á heimilinu úti.   Það var svo einn laugardagsmorguninn fyrir stuttu þegar við vorum með allt stóðið heima bæði börn og fósturbörn að dyrabjallan hringdi og konan fór til dyra.  Á tröppunum stóð yngismær sem spurði eftir unglingnum á heimilinu sem er að verða þrettán ára.  Nei hann er ekki heima sagði konan hann fór eitthvað áðan með vini sínum.  Yngismærin hvarf við svo búið á braut og konan kom blaðskellandi inn í stofu og tilkynnti mér að pilturinn ætti orðið kærustu.  Það er nú ekki víst að þau séu kærustupar sagði ég þau geta nú bara verið leikfélagar.  En konan var viss í sinni sök og þegar pilturinn ungi kom svo heim skömmu seinna ásamt vini sínum var konan ekki sein á sér að kalla á hann inn í stofu og segja honum að það hefði komið stelpa að spyrja eftir honum áðan.  Hí hí hí flissaði konan ertu kannski komin með kærustu og hvað heitir hún bætti hún við.  Pilturinn horfði á okkur smástund en snéri sér svo að vini sínum og sagði:  Hlustaðu ekki á þau,  þetta eru " fornleifar " sagði hann og benti á okkur og hvarf við svo búið inn í herbergið sitt  ásamt vininum.  Fornleifar hrópaði konan,  andskotans ósvífni er þetta,  kalla mann fornleifar.  Síðan stillti hún sér upp fyrir framan spegilinn sem hún var nýbúinn að kaupa í Míru og skoðaði sig smástund og sagði síðan:  Það er eitthvað að þessum spegli,  undanfarið sýnir hann ekkert nema miðaldra manneskju.  Sá gamli var ekki svona ég held bara að ég setji hann upp aftur.  Og það var þá sem það rann upp fyrir mér hvað væri í gangi.  Þarna var komin skýringin á inngöngu og úrsögn konunnar í Framsóknarflokkinn ásamt ýmsu öðru skýtnu í hennar fari  sem fjölskyldumeðlimir höfðu orðið vitni af síðustu vikur.  Já þar sem hún stóð við spegilinn þessi elska rann það upp fyrir mér að konan var farin að sýna fyrstu einkenni sjókdóms sem kallast einfaldlega:

" ELLIGLÖP "


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 SKO SNORRI ÞÓR SNORRASON, NÚ ER NÓG KOMIÐ AF ELLIGLAPARUGLINU FRÁ ÞÉR. Eins og fyrridaginn er ekki orð að marka sem þú skrifar hér og telur fólki trú um.  Til þess að þú færir nú að taka mark á mér sá ég mig knúna til þess að segja mig úr Framsóknarflokknum - því þú tekur ekki hið minnsta mark á framsóknarfólki og til að minna þig á hvers eðlis flokkurinn er þá er hann nú opinn í báða enda og jájá og neinei flokkur sem sveiflast eins og pendúll.  Þú veist líka mæta vel að ég gekk í flokkinn til að bjarga HEILU SUÐURLANDI sem þarfnaðist mín. OG ÞÚ SKALT SKO EKKI HALDA AÐ ÉG HALDI ÞAÐ SEM ÞÚ HELDUR AÐ ÉG HALDI AÐ SÉ.  Varðandi forneifatilefnið þitt.....minni ég þig og ykkur lesendur á bloggtrúnaðarfærslu karlsins í apríl 2006 sem heitir ÁST Á RAÐGREIÐSLUM, og ætli ég þurfi ekki að minna karlinn á að uppfræða ungviðið sitt um hugsanlegar afleiðingar hvolpavitsins.  Sá hlær best sem síðast hlær............og vonandi þarf karlgreyið mitt ekki að bruna eins og eimreið í símann eins og hann vill meina að ég hafi gert í fyrra.  Það skal ég svo sannarlega passa uppá að uppfræða ykkur aðdáendur Snorrabloggs - komi til þess að karltetrið verði eins og eimreið eða gamall skriðdreki að bruna í símann til að minna hvolpinn sinn á að gleyma nú alls engu.  Annars er þetta skrýtinn dagur, venjulega opnar karlinn dyrnar fyrir konunni sinni þegar hún mætir heim...........nema ekki í dag, hann var nefnilega frammi í bílskúr (leikherbergi karlsins) að strjúka bílinn og klappa og gekk um með ljóskastara og strauk aftur ef hann sá einhvern skugga.  Eitthvað er í bígerð hjá karli........nema hann ætli að hafa bílinn tilbúinn fyrir ungann þegar þar að kemur - hvað veit ég.  Hann er nefnilega farinn að lesa stjörnuspána strax á morgnana þegar mogginn kemur og dagurinn fer alveg eftir spánni - spár bogamannsins hafa verið svo einkennilegar að undanförnu, talað um endalok og margt fleira dularfullt - en endalok hvers???, hann Jón Jónsson, Flatey hefur allavega ekki enn sagt sig úr flokknum.

fv. framsóknartrýni..........og þið vitið allt hitt. (IP-tala skráð) 7.2.2007 kl. 18:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband