JÚFFERTUKVÖLD

Alveg frá því að ég byrjaði að búa með konunni hef ég passað mig á því að vera ekki heima eitt kvöld í mánuði.  Konan hefur ekkert við þá tilhöguna að athuga og reyndar rekur hún mig hreinlega að heiman þetta eina kvöld í mánuði,  því þá er helgistund hjá henni,  þ.e. þá mæta fáeinar feiknamiklar skonrotur í heimsókn til hennar með einhverja spotta og hnykla í poka og þetta kallast víst saumaklúbbur en ég hef nú bara kallað þetta “júffertukvöld”  Konan bakar alltaf fyrir helgistundina heilmikið af skinkuhornum, hnallþórum og pönnukökum og stundum hef ég fengið bita af gúmmilaðinu þegar ég kem heim þegar öllu húllumhæinu er lokið.  Stundum er líka boðið upp á Sherry eða Grand mariner og einn og einn bjór skolast víst niður líka.  En ég hef semsagt passað mig á því að vera alls ekki heima meðan þessi athöfn stendur yfir og hef aldrei verið í neinum vandræðum með að finna mér eitthvað að gera á meðan.  Það var svo einn morguninn að ég vaknaði við eitthvað skark í eldhúsinu og þegar ég kíkti fram stóð konan við eldavélina og söng hástöfum meðan hún hrærði í einhverju gummsi sem fór svo inn í bakarofn.  Góðan daginn elskan mín söng konan þú mannst að það er saumaklúbbur í kvöld er það ekki.  Og fari það og veri hugsaði ég með mér ég var búinn að steingleyma að að það væri   “ júffertukvöld “ í kvöld hugsaði ég með mér en við konuna sagði ég einfaldlega:  Auðvitað elskan mín hvernig ætti ég að geta gleymt því og ég skal lofa að vera hinumegin við Ölfusá í allt kvöld ég er nefnilega að fara til Reykjavíkur og kem ekki aftur fyrr en seint í kvöld hvort sem er.  Þú verður samt að skreppa fyrir mig í ríkið áður en þú ferð sagði konan það er farið að vanta Sherry og bjór í barinn.  Ég fór því og keypti Sherry og bjór áður en ég hélt sem leið lá til Reykjavíkur.  Eftir að hafa útréttað það sem ég þurfti í Reykjavík og einn stuttan fund að auki var klukkan farin að ganga átta um kvöldið svo ég renndi austur á Selfoss aftur og brunaði beina leið heim í Miðtún.  Ég stakk bílnum inn í bílskúr og um leið og ég opnaði hurðina inn í sólstofu heyrði ég skríkjurnar í samkomunni og uppgvötvaði þá    ég hafði steingleymt helgistundinni og saumaklúbburinn greinilega í stuði.  Ég ákvað að reyna að laumast í gengum borðstofuna og inn í eldhús og þaðan ætlaði ég svo að reyna að laumast inn í svefnherbergi og láta fara lítið fyrir mér meðan þessi virðulega samkoma kláraði góbelínsauminn eða krosssauminn eða kontórstinginn eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þó er ég ekki frá því að það hafi verið meiri áhugi fyrir skinkuhornunum og Sherryinu en saumaskapnum. Ég átti bara tvö skref eftir inn í eldhúsið þegar einn samkomumeðlimurinn hrópaði upp:  Nei sjáiði hver er kominn,  er ekki maðurinn sem skúrar hjá henni Sólveigu mættur,  þú er alltaf jafn hárprúður Snorri minn.  Þetta fannst samkomunni afskaplega fyndið og þegar skríkjurnar hættu loksins bætti önnur við:  Og það sést líka að þú ert ekki á neinu megrunarfæði hjá henni Sollu,  saumar Seglagerðin utan á þig núna.  Aftur varð mikil gleði í samkomunni en ég  kunni nú ekki við annað en að heilsa kurteislega og eftir að hafa tuldrað eitthvað um að verðrið væri nú bara gott og færðin fín frá Reykjavík þar sem ég stóð þarna með Mola litla undir hendinni.  Og er ekki krúttið hennar mömmu komið heim sagði þá konan og stóð á fætur og setti stút á munninn og kyssti hundinn rembingskoss en leit ekki á mig.  Síðan snéri hún sér við og sagði:  Vitiði það að ég hef heyrt að sumir hundar séu jafngáfaðir og eigendur sínir og ég er viss um að það er alveg rétt,   Moli er alveg jafngáfaður og hann Snorri.  Bíddu nú við hugsaði ég með mér er þetta hrós handa hundinum eða er hún að gera grín að mér.  Eftir skríkjunum í samkomunni að dæma sem núna heyrðust áræðanlega yfir Ölfusá og langleiðina niður á Eyrarbakka var verið að gera grín að mér.   Ég kunni nú ekki við að fara að rífast við konuna þarna fyrir framan virðulegar “júfferturnar “ svo sagði bara ósköp rólega:  Já ég sé að hér er mikið saumað en segið mér eitt sem mig hefur lengi langað til að vita.  Hvað talið þið eiginlega um yfir saumaskapnum alveg heilt kvöld.

Ein “ júffertan “ setti upp mikinn spekingssvip en sagði svo:  Þegar vel liggur á okkur þá leysum við lífsgátuna en þess á milli tölum við um hvað karlmenn eru miklir bjánar og það er sko aldrei neinn skortur á umræðuefni.  Núna hreinlega hoppaði samkoman upp úr sófum og stólum af kæti yfir þessu orðum síðasta ræðumanns svo að ég ákvað að draga mig virðulega í hlé en sagði um leið og ég snéri mér við.  Nú svo það er bara þannig ég hélt að þið væruð að ræða um nýjustu tísku í varalit, kinnalit, augnskuggum og meiki og því öllu sem þig kínið framan í ykkur til að verða sætar.  Hvað áttu við þrumaði ein “júffertan”,  til að  verða sætar,  ég skal bara láta þig vita það að flestar konur eru sætar og fallegar alveg frá fyrstu morgunstund.  Það er mér ósköp vel kunnugt um sagði ég en og mér finnst það bara alveg hrikalega ósanngjarnt gagnvart ykkur hinum.  Það varð dauðaþögn í stofunni og ósjálfrátt fór ég að mjaka mér aftur í áttina að bílskúrnum og var sem betur fer komin langleiðina þangað því skyndilega varð allt vitlaust.  Yfir mig ringdi stoppunálum, heklunálum, prjónum og gott ef ekki fylgdi með einn klukkustrengur og um leið og mér tókst að komast inn í skúrinn skall skinkuhorn á dyrakarminum.  Til vonar og vara batt ég aftur hurðina því ég heyrði óljóst hvað samkoman ætlaði að gera við mig fyrir ósvífnina og því full ástæða til neyðarúrræða.  Ég flýtti mér svo að opna bílskúrsdyrnar og um leið og ég ók í loftköstum á brott lofaði ég sjálfum mér því að ég skyldi aldrei nei “ALDREI “ gleyma því framar að vera í burtu þegar konan heldur

“ JÚFFERTUKVÖLD “


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Um að gera undir svona hagstæðum kringumstæðum að skreppa á nærliggjandi krá og skella í sig nokkrum ííísköldum öllurum - keine Frage..

Guðmundur G. Hreiðarsson (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 15:40

2 identicon

 JÚFFERTUKVÖLD...........þú ert ekki þjakaður af andleysi, þó þú þjáist af svefnleysi elsku karlinn minn.  Ég held að þú ættir bara að drífaþig yfir lækinn á nærliggjandi krá með honum Guðmundi G. Hreiðarssyni - hann hefur greinilega samúð með þér!!!! HUH ekki nema það þó.  Það upplýsist hér með að þú ert búinn að vera svo ansi mikið þungt hugsi að undanförnu að það hálfa er yfirdrifið meira en kappnóg - en að það væri allt þetta sem þú varst að upplýsa alþjóð um, datt mér ekki til lifandis hugar. Ég er nú ekki farin að trúa alþjóð fyrir  því hvernig þú elur hundinn upp, þessi elska sem kemur hlaupandi á móti mömmu sinni og ætlar að fagna henni þegar hún kemur heim........þá kallar þú MOLI og hundkvikindir snýr sér á loppunni við og fussar og hristir sig allan...........en þær móttökur, dísús.  Ég veit ekki hvar í ósköpunum þetta endar. Ég er farin að verða illilega mikið vör við að fólk finnur sárlega til með þér eftir öll þessi tilskrif og leitar leiða til að losa þig út úr vandræðunum..........hef haft njósnir af því að búið sé að stofna félagið FRELSUM SNORRA..........sbr. FREE WILLY, RJF hópurinn og fleiri og fleiri frelsunarflokkar sem ég man bara ekki í bili hverjir eru - en allir hafa þeir haft eitt markmið............FRELSA ÞANN HEFTA - þú ert semsagt næstur í frelsuninni.  Have a nice day. (færð ekki betra atlæti annars staðar )

kona hins þjakaða manns (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 17:41

3 identicon

 Ég hef ekki upplýst þig um eitt fjölskylduleyndarmál.............það er nefnilega þannig að ég frænkur sem vita nokk hvað þær vilja = allákveðnar konur = eiginlega bara KVENSKÖRUNGAR.  Og þær kallast stórskúturnar.........en JÚFFERTUR..........ég er nú bara ekki að jafna mig á þessu orðavali þínu.

ein júffertan (IP-tala skráð) 14.2.2007 kl. 17:54

4 identicon

Mikið rosalega er nú skemmtilegt að lesa skrifin þín Snorri, gott hjá þér að hrista aðeins upp í þeirri "gömlu" og vinkonum hennar haha. Smelltu einum kossi á hana frá Ívu frænku

Íva frænka hennar Fóu feikiróu (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 15:03

5 identicon

Svona er stjörnuspáin þín f. daginn í dag - hafi einhverjum einhvern tímann ratast satt orð í munn............þá var það stjörnuspekingi Morgunblaðisins sem er fyrir daginn í dag.

Þér er að takast að finna leiðina í gegnum flókið völundarhús. Þú gætir sparað þér tíma og orku með því að tala við lærimeistara þinn. Eða finna einhvern sem hefur farið leiðina á undan þér

og svona er hún fyrir þína eiginkonu

Ástin er ekki eintal. Hún er samtal við aðra sál. Ef einhver blaðrar og blaðrar án þess að hlusta á hverju þú svarar, þá er mál til komið að grípa inn í. Þú hefur rétt á því að á þig sé hlustað.

Og þar með hafið þið það aðdáendur og frelsendur Snorra.

Fóa feikirófa (IP-tala skráð) 15.2.2007 kl. 18:01

6 identicon

Smá leiðrétting,þó svo ég hafi verið í Reykjavík er ekki þar með sagt að ég hafi verið á eyrnasneplunum,,,það eru ekki allir eins skal é segja þér,já þetta með punginn það finnst mér findið hahahaha  en hvað með þig karltuska??

Guðný (IP-tala skráð) 20.2.2007 kl. 13:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband