19.5.2013 | 15:21
JÓLARJÚPUR
Ég skrapp í Bónus um daginn sem er ekki í frásögur færandi en mig vantaði einhverjar nauðsynjar eins og fuglafóður og fleira svo ég skellti mér eftir hádegið í búðina. Reyndar skal tekið fram að fuglafóðrið var ekki handa mér (enda ekki til fóður í furðufugla) heldur var það handa dúfunum mínum sem koma nokkrum sinnum á dag og setjast á gluggakistuna og ætlast til að fá í gogg. Þetta gekk ágætlega í vetur ég opnaði gluggann og hellti einum bolla af fóðri á gluggakistuna og lokaði aftur. Málið hefur hinsvegar vandast örlítið eftir að það fór að hlýna í veðri. Jú það var nefnilega þannig að eitt kvöldið opnaði ég gluggan til hálfs áður en ég fór að sofa svo ekki yrði nú alltof heitt á mér um nóttina. Klukkan hálf sjö um morguninn rumskaði ég svo og hélt að mig væri að dreyma því að ég heyrði allskonar hljóð sem að ég kannaðist ekki við. Við nánari athugun kom í ljós að ég hafði fengið heimsókn, átta dúfur höfðu skotist inn um gluggann og sátu allar í röð í gluggakistunni og kurruðu af fullum krafti. Já takk elsku litlu vinir mínir voru sko komnir að innheimta skattinn sinn og því var ekki um annað að ræða en að fara á fætur og ná í maís og hveitikorn til að fóðra flotann. Ég sá hinsvegar að það væri ekki mjög hentugt að fá svona margar dúfur í heimsókn í einu þegar ég skoðaði gluggakistuna. Þær þekkja greinilega ekki klósett eða hafa vit á því að fara út þegar það þarf að gera númer tvö. En hvað var nú til ráða, ekki gat ég farið að fæla þessar vinkonur mínar í burtu, sumar hafa meira að segja fengið nafn eins og hún Goggulína sem mætir alltaf fyrst, svo er það hann Stóri Goggur sem er með óvenjulega langan og stóran gogg og ekki má gleyma Fíu frekjulínu sem notar mjög skemmtilega aðferð þegar henni finnst að sér þrengt en þá belgir hún sig út og straujar alla línuna svo hinar detta niður af gluggakistunni. En hvað átti núna að gera, litlu greyin vilja jú skattinn sinn og það var jú ég sem opnaði gluggann. Mér datt því í hug af því að hér eru til fullt af leikfanga dýrum svokölluðum tuskudýrum að setja stærðarinnar hund upp í gluggakistuna og sjá hvort það myndi duga. Og jú í fjóra daga þorðu dúfurnar ekki inn um gluggann heldur sátu spakar fyrir utan. Á fimmta degi dró svo til tíðinda, núna var ég vakinn kl. sex að morgni með tilheyrandi kurri og látum. Við nánari skoðun kom í ljós að fimm hugprúðar dúfur höfðu hætt sér inn um gluggann þrátt fyrir varðhundinn og sátu sem fastast og heimtuðu skattinn. Það var því ekki um annað að ræða en að fóðra flotann en í ljós kom að blessaðar kerlurnar höfðu skilið eftir sig yfirlýsingu á varðhundinum, því þær höfðu kúkað á hausinn á honum. Ég ákvað að gefast ekki upp heldur sótti annan tuskuhund sýnu stærri og setti við hliðina á hinum í gluggakistuna. Eftir eina viku með opinn glugga og enga heimsókn var ég viss um að núna hefði ég fundið lausnina. En viti menn á áttunda degi þurfti ég að vera að heiman alveg frá morgni og fram undir kvöldmat. Þegar ég kom svo heim var hún Goggalína búin að bera trjágreinar og sprek og búa til smá hreiður á milli hundanna og að sjálfsögðu búin að kúka smá líka. Goggalína og sprekin fóru aftur út um gluggann og undirritaður fór að spá í hvað væri nú til ráða. Niðurstaðan var sú að ég fann stærðarinnar tusku broddgölt 60 cm. háan og skellti honum upp í gluggann. Vandamálið er bara að hann fyllir eiginlega alveg út í gluggann og því takmarkað loftflæði sem að kemst inn. Ég veit ekki kannski ætti maður bara að kaupa helling af fóðri og fita fiðurféð almennilega og auglýsa svo í desember.... Til sölu vel spikaðar JÓLARJÚPUR
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:28 | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hahahaha þér var nær(buxur) þú verður bara að fara í fóðurblönduna og kaupa hænsnafóður,,,þetta er frábært
Guðný Einarsdóttir, 25.5.2013 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.