Ekki við bjargandi

 

Þó að kosningarnar séu  nýafstaðnar og ekki ennþá vitað hverjir fara með stjórn bæjarins næstu fjögur árin þá er það alveg víst að kosningadagurinn á seint eftir að líða mér úr minni fyrir margra hluta sakir.  Ég vaknaði með fyrra fallinu þennan fallega dag og sá eitthvað loðið á koddanum við hliðina á mér og hugsaði með mér að núna hefði konan hleypt hundinum upp í rúmm og þar sem þetta var nú merkisdagur gat ég ekki stillt mig um að klappa ræflinum á kollin og klóra greyinu aðeins bak við eyrun. Svona greyið mitt sagði ég svo með blíðutóni.  Hvurn andskotann ertu að gera heyrðist þá í þessu loðna,  þetta var þá konan sem lá á maganum og stóð ekkert út úr sænginni nema hárið.  Ég reyndi að snúa mig út úr þessu og sagði ósköp rólega,  ég var bara að vekja þig elskan mín og reis á fætur og fór að klæða mig.  Þú ert ekki vanur að vekja mig með því að klóra mér á bakvið eyrun og kalla mig greyið þitt sagði konan og eitt máttu vita að ef þú ert farinn að taka feil á mér og hundinum þá líður ekki á löngu áður þið sofið saman tveir einir.  Nei nei ég hélt bara að þig klæjaði sagði ég og skaust inn á bað.  Konan horfði á mig grunsemdaraugum yfir morgunverðinum en ég reyndi að beina athyglinni að öðru og fór að ræða við hana um kosningarnar.  Það kemur ekki til greina að þú farir að kjósa eitthvað til hægri sagði konan ákveðin, það er komin tími til að einhverjir fari að taka ábyrga afstöðu og hjálpi til við björgun þessa bæjarfélags,  í dag verðum við Vinstri Græn.  Alveg rétt elskan sagði ég það er komin tími til að þú bjargir bæjarfélaginu  frá glötun,  en undirniðri hugsaði ég GLÆTAN SKO.  Konan þurfti að fara í vinnuna þennan dag þar sem rafvirkjar voru að störfum í bankanum svo ég hafði allan daginn til að hugsa um hvað ég ætlaði að kjósa en því meira sem ég hugsaði um það því óákveðnari varð ég.  Þegar konan kom svo heim ákvað ég að skerpa aðeins hugsununina og tók tappan úr hálfullri Whisky flösku sem ég átti í barnum mínum góða og bauð að sjálfsögðu konunni staup líka.  Konan afþakkaði staupið og þá minntist ég þess að allan tíman sem við höfum þekkst hef ég aldrei séð hana almennilega í kippnum.  Hún hélt svo áfram að tuða um vinstri vænt og grænt og á endanum varð ég leiður á þusinu og sagði:  Allt í lagi ég skal þá kjósa Vinstri Græna ef þú klárar úr flöskunni þarna.   Ertu eitthvað bilaður maður sagði konan og horfði á mig með undrunarsvip.  Nú ætlar þú ekki að bjarga bæjarfélaginu frá glötun og til þess þarftu atkvæði sagði ég og ýtti til hennar flöskunni.  “Heldurðu að ég ráði ekki við hana” sagði konan og leit á flöskuna.  Varla sagði ég en komst ekki lengra því hún svippaði tappanum af og það hvarf kvartari úr flöskunni niður í kokið á henni í einni bunu.  Skömmu síðar gerði hún aðra atlögu að flöskunni sem enn lækkaði í og skellti henni svo á borðið,  ropaði og sagði:  “Þetta er fyrirtaks garnahreinsari”   Ég flýtti mér að setja tappan á og sagði að við skyldum drífa okkur að kjósa áður en kosningavakan byrjaði í sjónvarpinu og fór upp á loft að skipta um föt.  Ég var rétt að verða búinn að skipta um föt þegar dyrabjallan hringdi og úti fyrir stóðu maður og stúlka snyrtilega klædd í bláum úlpum og með töskur í hendinni.  Ég þóttist þekkja að þarna væru nágrannar okkar sem eiga sér samanstað á horninu við götuna okkar en við höfum ekkert haft af að segja af fyrr en nú,  en á horninu stendur safnaðarheimili Votta Jehóva.   Ég er ekki frá því að ég hafi séð breytingu á konunni þegar hún kom kjagandi innan úr stofu þar sem hún hafði haldið áfram að glíma við flöskuna meðan ég skipti um föt.  Eruð þið nokkuð frá Sjálstæðisflokknum spurði hún gestina höst,  við viljum enga kosningasmala hingað þó við séum ekki ennþá farin á kjörstað.  Nei nei við koma frá Guði sagði stúlkan og lyfti upp töskunni.  Ég vissi nú ekki að hann væri í framboði sagði konan og klóraði sér í kollinum.  Má við koma inn og tala við ykkur spurði maðurinn í dyragættinni.  Nú eruð þið ekki Íslensk sagði konan, það væri svo sem eftir Sjálfstæðisflokknum að ráða einhverja Pólverja í kosningasmölun enda helmingurinn af flokknum á Vogi bætti hún við.  Jæja komið inn en bara smástund við ætlum að fara að kjósa rétt strax sagði hún og bauð gestunum til sætis í eldhúsinu og skaust svo niður í stofu og sótti það sem eftir var í flöskunni.  Má ekki bjóða ykkur dreitil af   “garnahreinsara”  sagði konan og skellti flöskunni á borðið.  Stúlkan jesússaði sig þrisvar og greip í manninn sem sagði skelfingu lostinn:  “ Nei takk við ætla að deyja heima “   Þið um það sagði konan Je-sjúss bætti hún við og fékk sér gúllara úr flöskunni,  síðan greip hún pakka af sígarettum frá mér og rétti að fólkinu og sagði:  Endilega fáiði ykkur þá eina rettu.  Viðbrögðin við þessu voru nokkur jesúss í viðbót og það mátti sjá skelfingarsvipinn á fólkinu þegar maðurinn spurði:  Má við biðja fyrir þér um leið og hann rétti heilan árgang af Varðturninum að konunni.  Nei það þíðir ekki að biðja mig um neitt núna sagði konan hin versta en þið getið skilið eftir þessa kosningasnepla á borðinu sagði hún og tók við bunkanum af Varðturninum.  Stúlkan og maðurinn sátu eins og lömuð við eldhúsborðið og virtust alveg slegin út af laginu en allt í einu birti yfir svip mannsins og hann seildist í töskuna sína og dró upp eyðublað og snéri sér að konunni og sagði:  Þú kannski vilja koma til okkar, við kannski geta bjargað þér, þú bara skrifa hér og þá þú verða ein af okkur.  Loksins er hér einhver með viti sagði konan,  þau vilja hjálpa mér við að bjarga bæjarfélaginu frá glötun bætti hún við og skrifaði nafnið sitt og kennitölu á eyðublaðið sem henni var rétt.  Stúlkunni og manninum lá nú skyndilega mikið á að komast út og um leið og þau skutust út um dyrnar réttu þau konunni afrit af eyðublaðinu sem hún hafði undirritað.  Konan vildi nú ólm komast á kjörstað og hermdi upp á mig loforðið um að kjósa til vinstri því nú væri sáralítið eftir í flöskunni.  Þegar við komum svo til baka og horfðum á kosningasjónvarpið sótti svefn á konuna og þegar það svo komu tölur úr Árborg hnippti ég í hana en þá varð hún hin versta og var skyndilega slétt sama um hvort tækist að bjarga bæjarfélaginu frá glötun eða ekki.  Eftir að úrslit lágu svo fyrir gekk ég til náða og varð þá litið á eyðublaðið sem konan undirritaði fyrr um kvöldið og gat ekki annað en kímt í barminn en vil hér með óska þeim hjartanlega til hamingju nágrönnum mínum með nýjasta safnaðarmeðlim sinn og trúlega væntanlegan Æðstaprest.   Þegar ég svo vaknaði daginn eftir var konan komin á fætur en eyðublaðið var horfið og þegar ég spurði eftir því kannaðist hún ekki við neitt og þegar ég áræddi að segja að það væri ekki víst að það tækist að bjarga henni ef eyðublaðið finndist ekki snéri hún upp á sig og sagði með þjósti:  Sko þeir sögðu þó að það væri möguleiki á að bjarga mér en þeir minntust ekki einu orði á þig og ég veit sko alveg af hverju. 

  Þér er ekki við bjargandi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Kem alltaf hérna reglulega og hlæ í nokkrum rokum. Þú ert heljarinnar penni.
kv Frá einni í aðdáenda klúbbi Snorra :)

Sædís (IP-tala skráð) 31.5.2006 kl. 15:21

2 identicon

............dísúskræst. Búin að panta tíma fyrir þig í heyrnarmælingu. Þetta gengur nú ekki öllu lengur. Mér hefur ekki verið um það gefið að segja þetta við þig - en nú eru heyrnartækin næst á dagskrá. Gleraugun fara að verða tilbúin til afgreiðslu.
Á Íslandi hefur meðalaldur kvenna verið hærri en meðalaldur karla og þú stuðlar að því að lengja þetta bil allverulega.
Langlífi hefur verið algengt meðal kvenna í báðar ættir mínar og sagt er að hláturinn lengi lífið - og þar hefur þú það, ég verð örugglega allra kerlinga elst.
AMEN
eiginkonan og aðdáandi og verðandi æðstiprestur

eiginkonan, aðdáandi og verðandi æðstiprestur (IP-tala skráð) 31.5.2006 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband