Megrum Hundinn

Það verður aldrei til of mikið af mér!!  Þetta er staðhæfing sem ég hef haldið fram í minni fjölskyldu um langa hríð.  Þessi staðhæfing hefur reyndar fallið í misjafnan jarðveg hjá fjölskyldumeðlimum, konan brosir tvíræðu brosi og segir " alveg rétt elskan"  meðan krakkarnir fussa og sveia og benda á að samfélagið væri ekkert fátækara þó  bumban á kallinum minnkaði talsvert.  Vegna þess hversu lengi ég hef haldið því fram í minni fjölskyldu að  "það yrði aldrei til of mikið af mér"  lenti ég því í nokkrum vandræðum þegar ég einn daginn ákvað að bumban þyrfti að víkja að minnsta kosti að hluta.  Þegar ég stóð við pissuskálina um daginn og komst að raun um að ég sá ekki lengur nema fremstu 15 sentimetrana af fermingarbróðurnum var ákveðið að grípa til aðgerða en vandamálið var að finna einhverja góða skýringu á væntanlegri  minnkun því ekki gat ég bakkað með staðhæfinguna góðu um að " það verður aldrei til of mikið af mér " .  Eftir nokkra umhugsun datt ég hinsvegar niður á lausnina.  Ég og konan höfðum fyrir nokkru síðan séð auglýsingu á netinu, þar sem auglýstur var til sölu hundur, hreinræktaður rakki með þvílíka ættbók sem jafnvel hver meðal " ráðherra" gæti verið stoltur af.  Við fórum og skoðuðum dýrið og það er skemmst frá því að segja að hann fór með okkur heim með öllu sínu hafurtaski.  Rakkinn gekk undir nafninu Moli en ég stakk upp á því að  hann yrði látinn heita Guðni Ágústsson eftir nágranna sínum sem býr hér rétt hjá.  Konan harðneitaði hinnsvegar að láta hundinn heita slíku nafni og fékk hann því að halda sínu Mola nafni.  Síðan við keyptum hundinn hefur konan stríðalið hann á allskonar góðgæti sem hún kaupir ýmist í dósum eða matreiðir eftir kúnstarinnar reglum.  Ég tók svo eftir því að hundurinn fór að tútna út eftir allt góðgætið og þá skyndilega fékk ég hugljómun um hvernig ég gæti hugsanlega minnkað eitthvað sjálfur án þess að þurfa að viðurkenna að það væri " til of mikið af mér.. "  Ég tjáði því fjölskyldumeðlimum að þetta gengi ekki lengur, hundurinn væri að verða of feitur og ég ætlaði að fara af stað með átak sem skyldi ganga undir nafninu MEGRUM HUNDINN og gerði enginn fjölskyldu meðlimur neina athugasemd við þessa hugmynd mína.  Síðan ég fékk þessa hugljómun höfum við Moli farið í daglegar gönguferðir, stundum jafnvel tvisvar á dag og má ekki á milli sjá hvor skemmtir sér betur í þeim ferðum hundurinn eða húsbóndinn.  Það eina sem ég hef áhyggjur af er að hundurinn hefur tekið upp á því að stoppa fyrir utan hjá virtum bankastjóra í hverfinu í hverri ferð og þar kúkar hann alltaf og nú er svo komið að ég þori varla að sækja um lán lengur.  En hvað um það, núna eru liðnar 10 vikur frá því að átakið MEGRUM HUNDINN hófst og er skemmst frá því að segja að við vigtun kom í ljós að kallin hafði mist 15 kíló frá því átakið hófst en hundurinn hafði hinsvegar þyngst um 1 kíló.   Vera kann að aukabitinn sem húsbóndinn laumar að honum eftir hverja ferð hafi gert það að verkum að hann hafi þyngst en kannski er hann líka bara að stækka. En eitt er víst að átakið MEGRUM HUNDINN heldur áfram og þó ég hafi skroppið svolítið saman í leiðinni þá er það bara fórnarkostnaður við átakið, því eins og ég hef alltaf haldið fram þá " VERÐUR ALDREI TIL OF MIKIÐ AF MÉR "

Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Megrum hundinn ;-)
Vissulega hefur eign mín rýrnað til muna, en það er í sjálfu sér í lagi því ég elska manninn ekkert minna.
En nafngiftin á hundinum..........hugsið ykkur þegar ég er að kjá við hundinn og klappa honum.....ég gat ekki og get ekki fyrir nokkurn mun kreist upp úr mér "Guðni Ágústsson minn, gúddsí gúddsí" og alls ekki sætt mig við það að hann Guðni Ágústsson vekti mig á hverjum morgni með því að koma upp að rúmhliðinni minni og lagt loppurnar á kinnar mínar, ÓNEI ekki aldeilis. Þetta gerir hann Moli minn hinsvegar og er velkominn, enda heillar hann alla. Þar að auki þar þó ég sé húsmóðir á mínu heimili er ég ekki best geymd bak við eldavélina. Skiljið þið ekki alveg núna hvers vegna ég lét þetta ekki eftir manni mínum? ég bara spyr.

húsmóðirin á heimilinu (IP-tala skráð) 2.4.2006 kl. 15:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband