Lifað í synd

Frá því að ég og sambýliskona mín, fórum að búa saman höfum við lifað í synd, þ.e. við höfum verið í óvígðri sambúð sem reyndar telst ekkert tiltökumál á Íslandi í dag. Þetta fyrirkomulag hefur virkað ágætlega hjá okkur enda skýr verkaskipting á heimilinu hjá okkur. Konan vaskar upp, þrífur, straujar, slær garðinn, hengir upp ljós og þessháttar, en í staðin upplýsi ég hana ávallt um stöðu leikja í enska, spænska og ítalska boltanum svo ekki sé nú talað um meistaradeildina. Það sjá því allir að þetta fyrirkomulag er mjög hentugt fyrir báða aðila og því hafði ekki staðið til hjá okkur að breyta því á neinn hátt á næstunni. Við skötuhjúin höfum keypt okkur lítið kot til að búa í og vorum að ræða það fyrir nokkru síðan að réttast væri að við myndum útbúa samning okkar í milli um að ef annað okkar tæki nú upp á að hrökkva upp af þá fengi hitt leyfi til setu í óskiptu búi. Nú stendur það svo sem ekkert frekar til að við förum að hrökkva upp af en allur er varinn góður eins og kerlingin sagði og eins og sést á verkaskiptingunni á heimilinu hér að ofan þá kom það að sjálfsögðu í hlut konunnar að kanna þessi mál, en á meðan horfði ég á leik í sjónvarpinu. En nú kom babb í bátinn, konan kom úr könnunarferðinni og tjáði mér að fólk sem lifði í synd og væri þar að auki dautt mætti ekki ráðstafa nema 1/3 af eigum sínum, hitt myndi ganga til eftirlifandi ættingja. Satt best að segja hélt ég að konan hefði nú bara villst á húsum og lent í Pakkhúsinu í stað Sýsluskrifstofunnar og fengið eitthvað misvísandi fréttir af þessum málum og sleppti því heilum hálfleik í sjónvarpinu til að kanna málið sjálfur. Og viti menn þetta reyndist rétt hjá konunni, til þess að geta gert samning til setu í óskiptu búi við sína sambýliskonu má maður ekki búa í synd, ó nei ó nei maður skal sko vera harðgiftur og þar að auki með pappír frá helst tveimur lögfræðingum um skiptin, sem skal svo líka stimplaður af notarium puplikus hjá Sýslumanni eða hvað það nú heitir. Jæja nú voru góð ráð dýr og syndararnir settust á rökstóla til að ræða þessi ólög og hvort fara mætti í kringum þau á einhvern hátt. Konan hringdi í nokkra lögfræðinga en allt bar að sama brunni, þetta var bara ekki hægt. Heyrðu elskan við verðum bara að gifta okkur sagði kona grafalvarleg, það er greinilega eina leiðin til að við getum gengið frá þessu. Þessi uppástunga varð til þess að ég varð að horfa á heilan leik í sjónvarpinu mean ég íhugaði málið, snéri mér síðan að konunni og spurði varfærnislega hvort það myndi hafa einhver áhrif á verkaskiptinguna á heimilinu að fara í svo róttæka aðgerð. Hún fullyrti að svo yrði ekki svo núna stefnir allt í það að Íslenska ríkið neiði mig í hjónaband til þess að geta ráðstafað eigum mínum að minni vild. Þetta hefur svo reyndar annan kost í för með sér, konan er jú bankastjóri og ég get þá sótt um yfirDRÁTT á hverju kvöldi og lagt svo inn skömmu síðar. Það eina sem strandar á er að ég vil setja það inn í samkomulagið hjá Sýslumanni er að konan lofi að setja alltaf klósettsetuna upp aftur eftir notkun, en um það er ágreiningur á heimilinu og meðan hann er óleystur mun ég áfram LIFA Í SYND


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eruð þið ýsuhjúin algjörir syndaselir humm??

Gulla (IP-tala skráð) 4.4.2006 kl. 23:37

2 identicon

Einu mikilvægasta atriðinu gleymdir þú, minn kæri. Þú ert húsbóndi á þínu heimili og kemur undan rúminu þegar þér sýnist og ég vona að það breytist ekki í bráð ;-)

Húsmóðirin á heimilinu (IP-tala skráð) 5.4.2006 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband