EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM

Um daginn vantaði mig lítilræði úr henni Babílon og þar sem konan ekur daglega til vinnu í Kópavoginn þá sá ég mér leik á borði að spara mér ferð til borgarinnar og láta konuna útrétta fyrir mig í staðin. 

Heyrðu elskan sagði ég eins blíðlega og ég gat, þar sem þú ert nú að vinna rétt hjá Smáralindinni þá myndir þú kannski hoppa þar inn fyrir mig eftir vinnu og skjótast rétt sem snöggvast í Hagkaup og kaupa fyrir mig sandala nr. 46 og eins og eitt dúsín af nærbrókum sem mig vantar tilfinnanlega. 

Kemur ekki til mála sagði frúin snúðugt,  ég hef nóg annað að gera heldur en að vera í búðarrápi fyrir þig  og þar að auki sé ég ekki betur en það megi vel nota sandalana sem þú ert á í einhverjar vikur í viðbót og hvað nærbrækur varðar þá bendi ég þér á það að frammi í skúr  er þvottavél og ef þú drullast til að þvo af þér nærfötin er algjör óþarfi að fara að eyða peningum í slíkan óþarfa.  Það eru líka ekki til neinir peningar fyrir óþarfa eins og þessum því við þurfum að greiða heilmikinn lækniskostnað á fimmtudaginn bætti hún svo við grafalvarleg á svip. 

Guð minn góður ertu alvarlega veik sagði ég, hvað er að hrjá þig elskan mín, vitanlega verður læknirinn að ganga fyrir þó það kosti að ég verði að spranga hér um nærbuxnalaus í einhverjar vikur og hver veit nema það eigi hreinlega eftir að flýta fyrir batanum hjá þér.

Í fyrsta lagi þá kemur ekki til greina að þú farir að spranga hér um á sprellanum sagði konan höst, þá hörmungarsjón er ekki hægt að leggja á nokkurn mann og í öðru lagi þá er það ekki ég sem er veik heldur þarf hann Moli litli að fara til læknis og í þriðja lagi þá átt þú að fara með hann því það þarf að svæfa hann og ég verð að vinna svo þú sér bara um þetta. 

Bíddu ég var með hundinn í bólusetningu í fyrradag,  til hvers varstu að láta mig fara með hann í bólusetningu og láta mig greiða fyrir það stórfé ef þú ætlar að fara að láta svæfa hann svefninum langa og hefur ræfillinn gert eitthvað af sér fyrst þú ætlar að láta lóga honum.  Konan missti andann og skipti litum einum fjórum sinnum áður en hún náði andanum aftur og hrópaði:

Þú skalt sko vita það karl minn að fyrr verður þér lógað en honum Mola mínum æpti hún á mig og að þú skulir dirfast að láta þér svo mikið sem detta það í hug eitt einasta augnablik að ég fari að láta lóga þessu krútti.  Gúlli vúlli vúllí elsku krúsindúllurassgatið mitt,  sjáðu ljóta kallinn sagði hún og kjassaði hundinn,  þú mátt bíta hann hvenær sem þú villt þegar hann segir svona ljótt.  Hann Moli á að mæta hjá tannlækinum á fimmtudaginn sagði hún svo illilega og það þarf að svæfa hann smástund á meðan það verður hreinsaður tannsteinn úr litlu tönnunum.

Ertu ekki að grínast sagði ég furðulostinn,  ætlarðu að segja mér að það sé hægt að fara með hund til tannlæknis,  varla er hægt að nota sömu græjur og á mannfólkið. 

Ekki aldeilis sagði konan en á dýraspítalanum á Stuðlum er fullkomin tannlæknastofa með öllum græjum og dýralæknirinn hringdi í mig eftir að þú fórst með hann í bólusetninguna og lét mig vita að það þyrfti að hreinsa í honum tennurnar,  þetta er víst mjög algengt í þessari hundategund þegar þeir eru orðnir meira en tveggja ára. 

Þar sem við Moli vitum af fenginni reynslu að ekki þýðir að deila við dómarann sátum við því félagarnir í jeppanum fimmtudaginn 12. júlí og brunuðum sem leið lá á tannlæknastofuna á Stuðlum og þar tók á móti okkur klínikdama sem tjáði mér að þar sem svæfa þyrfti hundinn þá væri passlegt að koma aftur eftir þrjá tíma og þá ætti allt að vera afstaðið.  Þegar ég mætti svo aftur til að sækja kvikindið með nýhreinsaðan trantinn þá tók sama klínikdama á móti mér og fór og sótti hundinn sem birtist heldur reikull í spori og mynnti reyndar á ónefndan aðila á fimmta glasi ef göggt var að gáð.  Þetta gekk allt ljómandi vel sagði daman skælbrosandi um leið og hún rétti mér reikninginn fyrir herlegheitunum.  Ég get nú ekki annað sagt en mig hafi verkjað ofurlítið í veskið þegar ég reiddi fram heilar 9.000 kr. fyrir verkið.  Þegar heim var komið reyndi ég allt sem ég gat til að fá hundinn til að brosa og sýna mér hvað ég hafði verið að greiða 9.000 kr. fyrir en allt kom fyrir ekki hann snéri bara upp á sig og lagðist út í horn og ákvað að sofa meira.  Ég settist því við eldhúsborðið með blað og penna og fór að reikna út hvað eytt hafði verið í þetta djásn konunnar á einni viku og útkoman varð þessi:  

Tannhreinsun                          9.000 kr.

Bólusetning                             4.500 kr.

Sjampoo og næring                 3.500 kr.

116 lambahjörtu úr Bónus      5.100 kr.

Beef stic (hundanammi)          2.000 kr.

Þurrfóður                                    700 kr.

                                              _____________

Samtals:                                 24.800 kr.

 

Þetta getur nú bara ekki verið rétt hugsaði ég með mér og reiknaði dæmið upp á nýtt.  En það var alveg sama hvað ég reiknaði dæmið oft ég fékk alltaf sömu útkomu.  Ég fór því að reikna út hvað ég hefði getað gert fyrir þessa peninga og það þurfti nú engan stærðfræðisnilling til að reikna það út að ég hefði getað fengið 1 sandala og 42,6 nærbrækur í Hagkaup fyrir þessa upphæð.  Ég hef því ákveðið að ef ég fæ ekki að kaupa það sem mig vanhagar um núna um mánaðarmótin þá hringi ég í dýralæknirinn og bið hann að svæfa kerlinguna meðan ég skrepp í Babílon og kaupi mér eina sandala og

     “ EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM “

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Halló manni, hvað er hitastigið á ÚTIMÆLINUM sem er á sólstofunni? ég veit vel að hinn mælirinn sýnir bullandi sjóðandi hitaóráð.  Og þú áttir ekki að snæða þessa sveppi......dísúskræst, það er greinilegt að það er ekki hægt að skilja þig og hundinn hann  Gúlli vúlli vúllí elsku krúsindúllurassgatið mitt eftir eina - þvílík launráð sem eru í gangi - hjálpi mér nú allir heilagir og líka góðar vættir og.........ja........allar hjálparstofnanir sem hugsast getur.  Ég get svosem skotist í Hagkaup og keypt þetta lítilræði fyrir þig úr því þú kvartar sáran við alþjóð og tannburstann fyrir Mola - hann fær nú rafmagnstannbursta - þessi krúsindúlla...........en mér fellur ekki að þú umreiknar þarfirnar hans Mola yfir í fjölda bróka sem ÞÚ gætir keypt!!!!!.

Kv.

Blogga hin grimma.

Blogga hin grimma (IP-tala skráð) 13.7.2007 kl. 16:53

2 identicon

 Elsku hjartans karluglan mín, ég sá svo eftir að hafa ekki gert þetta lítilræði fyrir þig að ég brá mér á skóútsöluna hjá skómarkaðnum og keypti handa þér sandala.  Þeir kostuðu nú ekki heil ósköp því ég einfaldlega tímdi ekki að splæsa mörghundruðum í þessa skó, slapp með fáein hundruð þar sem báðir skórnir voru á sama fótinn (þann hægri) og af sitt hvoru númerinu, annar nr. 46 og hinn 48.  Einnig fékk ég þrennar nærbrækur á þig.....kostuðu heldur ekki mikið (þrennar fyrir eitt par (ekki einar) ) - þar sem það finnast ekki buxur með klauf sem snýr rétt fyrir örvhenta, og svo var einhver saumagalli á þeim og því miður voru ekki til fleiri  - þær kostuðu líka fáein hundruð, ekki mörg hundruð og þess vegna lét ég þetta eftir þér.  Svo ber líka að hafa það í huga að þessa dagana er þvílíkur þurrkur að það er ekki neitt stórmál að skella þessum gömlu í þvottavélina og hengja út til þerris, þær yrðu nú aldrei meira en klukkustund að verða þurrar á ný svo þetta vandamál þarf alls ekki að vera til staðar og þar sem það er laugardagur í dag og ég á frí frá mínu launaða starfi tók ég mig til og þvoði fleiri fleiri þvottavélar af óhreinum þvotti og þ.á.m gömlu brækurnar þínar.  Ættu að verða tilbúnar fyrir þig þegar þú ferð í sturtu í kvöld.  Þannig að þetta mál er leyst fram að næstu helgi.  Ekkert kvart tekið til greina - enda ekkert að marka það.

Blogga.

Hin aðhaldssama Blogga (IP-tala skráð) 14.7.2007 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband