Nýjustu rannsóknir

Það var eitt kvöldið fyrir nokkru síðan að ég skrapp upp á loft og lagði mig eftir kvöldmatinn sem hafði verið í ríflegra lagi hjá konunni og því nauðsynlegt að leggjast aðeins á meltuna. Þarna lá ég og hugsaði um landsins gagn og nauðsynjar þar til á mig sótti syfja og ég tíndi veröldinn um stund. Ég vaknaði hinsvegar með andfælum þegar konan kom á harða hlaupum upp stigann og var greinilega í mikilli geðshræringu, hann Sigmar, hann Sigmar, hann Sigmar, hann sagði það hrópaði hún. Hvað segirðu kona hefur einhver dáið sagði ég og hvað sagði þessi fjandans Sigmar sem ég þekki ekki neitt. Jú þú þekkir hann víst sagði konan óðamála, það er hann Sigmar í Kastljósinu sem sagði það. Jæja var það sá Sigmar sagði ég og hvað sagði hann svona merkilegt, hefur nú verðið á nælonsokkum hækkað aftur spurði ég hinn rólegasti. Nei hei sagði konan það var sko miklu merkilegra en það. Já hann sagði að nýjustu rannsóknir sýna að börn fara ekki að heiman fyrr en eftir þrítugt sagði konan og náði varla andanum af geðshræringu. Og hvað með það spurði ég undrandi yfir þessum látum í konunni, þú veist að þjóðfélagið er alltaf að breytast bætti ég við og geispaði stórum. Já en við eigum fjögur börn en það eru bara þrjú svefnherbergi í húsinu sagði konan grafalvarleg svo það er ekki pláss fyrir alla, við verðum að kaupa stærra hús. Nú vaknaði minn snarlega og settist á rúmstokkinn, hvað áttu við kona sagði ég, kaupa stærra hús en það búa ekki nærri allir grislingarnir hérna hjá okkur og það væri mikið nær að henda restinni út og kaupa minni íbúð og síðan kannski Bongaló á Spáni fyrir peninginn sem við fáum í milli sagði ég. En þetta eru alveg glænýjar rannsóknir sagði konan snúðugt og hvað veist þú um það nema allt heila klabbið flytji heim aftur bætti hún við og settist við tölvuna og fór að skoða einbýlishús á Habil. Tja þá flyt ég að heiman sagði ég og velti fyrir mér hvort ég ætti að hringja í dýralæknirinn og láta sprauta kerlinguna niður. Væri nú ekki allt í lagi að bíða aðeins og sjá til hvort einhver grislingurinn birtist með allt sitt hafurtask stakk ég uppá, varla koma þeir allir í einu. En konunni varð ekki haggað, næstu daga á eftir sat hún og skoðaði einbýlishús á netinu í gríð og erg á milli þess sem hún bölvaði eins og togarasjómaður yfir því að það væri ekkert almennilegt einbýlishús til í plássinu. Heldur hefur þó dregið úr skoðuninni allra síðustu daga en þó er ég með hálfgerðan hnút í maganum því konan kom auga á eitt hús með tveimur íbúðum á netinu og uppfyllti efri íbúðin skilyrði um fjölda herbergja, og svo væri neðri ibúðin fín fyrir mömmu og pabba sagði hún og brosti kankvíslega til mín í leiðinni. Á meðan ég bíð eftir því að öldurnar lægi í þessu máli hef ég bannað öllum í fjölskyldunni að horfa á Kastljósið því hver veit hvað NÝJUSTU RANNSÓKNIR sýna næst.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég sé að þetta PÖNNUKÖKUÞUNGLYNDI er að ágerast allverulega........kominn með kvíða í ofanálag. Þú heldur kanski að ég hafi ekki verið að hugsa um þig líka þegar ég fann húsið með öllum herbergjunum í? Ha......jú, sjáðu nefnilega til, þetta átti að vera surprise.....en sko.......eitt herbergið var jú ætlað þér alveg prívat og það er líka alveg hljóðeinangrað.........þú veist, þegar fótboltinn er í sjónvarpinu - þá væri afskaplega heppilegt að hafa þig alveg sérlega vel geymdan (segi ekki meira um það mál). Hvað var annars í Kastljósinu í gær?

húsmóðirin (IP-tala skráð) 6.4.2006 kl. 13:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband