Litla stúlkan í lúðrasveitarbúningnum

Jæja þá er sólin og sælan búin að sinni, a.m.k. sólin, en áður en farið verður nánar út í ferðasöguna er kannski rétt að skýra aðeins tilurð ferðarinnar. Eins og komið hefur fram í grein hér að neðan hafði konan stungið uppá því að við hættum að lifa í synd og létum pússa okkur saman eins og sagt er. Ég sá fram á að frelsi mitt til athafna myndi stórlega skerðast við slíka stóraðgerð og varðist því fimlega um skeið. En eftir tveggja mánaða straff var mér öllum lokið og lét því undan þrýstingi, “afar miklum þrýstingi” og samþykkti aðgerðina með eftirtöldum skilyrðum.

1. Ekki kæmi til greina að Prestley myndi framkvæma athöfnina þ.e. þramm inn kirkjugólf væri ekki til umræðu.

2. Athöfnin yrði að vera einföld, öll skjöl afgreidd fyrirfram og fógeti myndi síðan hespa þessu af á 5 mín.

3. Höfð yrði til taks flaska af Hugrekkivatni ef þurfa þætti.

4. Til vonar og vara átti flaskan að vera a.m.k. 1 líter.

5. Að samkomulag yrði um að athöfnin færi fram í kyrrþey þ.e. ættingjum ekki gefin séns á neinu tilstandi.

Konan horfði á mig undarlegu augnaráði um stund þegar ég hafði árætt að setja fram þessa skilmála en samþykkti þá að lokum. Næstu daga á eftir var ég svo sendur í hinar ýmsu stofnanir til að afla alls konar vottorða og gagna sem konan sá síðan um að væru rétt útfyllt og sá einnig um að panta tíma hjá fógeta fyrir aðgerðina. Stóri dagurinn rann svo upp þann 5 apríl 2006 og konan vakti mig um áttaleytið og sagði að það væri komin tími á bað og að klæðast því við ættum að mæta hálf tíu hjá fógeta. Ég snéri mér á hina hliðina og sagðist ekki þurfa neitt fjandans bað ég ætlaði að sofa aðeins lengur. Þú verður allavega að þvo haus, pung og lappir sagði konan ákveðin og ýtti við mér. Verði þinn vilji tautaði ég og staulaðist inn á bað og var reyndar ferðbúinn vel fyrir tilsettan tíma. Þegar við renndum í hlað hjá fógeta snéri ég mér að konunni og sagði glottandi að það væri þó tilbreyting að mæta einu sinni hjá fógeta án þess að það yrði gert hjá manni fjárnám. Konan svaraði engu heldur snaraðist inn hjá fógeta og þar var okkur vísað upp á loft og þar tók á móti okkur lítil stúlka sem var íklædd einhverju sem líktist helst lúðrasveitar búningi. Litla stúlkan kynnti sig sem fulltrúa Sýslumanns og sagði okkur að hún myndi framkvæma aðgerðina. Eitthvað fannst mér stúlkan kunnugleg og þegar nánar var aðgáð reyndist þetta vera dóttir hans Sigurðar fyrrverandi Rúsínubúðasstjóra og fæddist yngismærin víst árið sem ég gifti mig í fyrsta sinn. Virðulegur fulltúinn vísaði okkur inn á skrifstofu og kvaddi til tvo votta og kveikti svo á hálfbrunnum kertisstubbi, dró síðan upp skjal og las einhverja rommsu og snéri sér síðan að konunni og spurði hvort hún ætlaði “virkilega” að ganga að eiga þennan mann. Konan horfði á mig um stund og umlaði svo eitthvað sem virðulegur fulltrúinn tók greinilega sem já, snéri sér síðan að mér og endurtók rulluna nema núna sleppti hún “virkilega” . Hikið á konunni varð til þess að ég hugsaði með mér: Jæja hún er þá ekki viss það er nefnilega það “ jáhá” hugsaði ég síðan upphátt. Þá lýsi ég því hér með yfir að þið eruð gift sagði þá fulltrúinn. Konan kyssti mig á kinnina og dró svo upp úr veskinu sínu umslag og sagði glaðhlakkalega. “Þá getum við þinglýst erfðaskránni elskan” Það var þá sem það rann upp fyrir mér að í þessari ferð til fógeta hafði verið gert hjá mér “ævilangt” fjárnám og það af LÍTILLI STÚLKU Í LÚÐRASVEITARBÚNINGI.

PS. Ferðin til sólarlanda var sem sagt BRÚÐKAUPSFERÐ


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta var nú bara gott á þig Snorri minn en samt til hamingju með nýju frúnna hún er sko bara mannbætandi og það held ég nú bara,
Kveðja Sædís

Sædís Jónsdóttir (IP-tala skráð) 28.4.2006 kl. 14:44

2 identicon

Til lukku gamli:) það kom að því að einhver hafði að plata þig í hnapphelduna haha:)

Gulla (IP-tala skráð) 29.4.2006 kl. 22:48

3 identicon

Hæ,þarna fórst þú örugglega vel að ráðði þínu gamli.................
Til hamingju:)

Gulla (IP-tala skráð) 30.4.2006 kl. 05:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband