8.5.2006 | 11:07
MAMMA BORGA
Seinni vika okkar hjónakorna í sólinni var nú hafin og var dagskráin í grófum dráttum þannig að við fórum niður um kl 9:00 á morgnanna og fengum okkur morgunverð og lögðumst síðan í sólbað í sundlaugargarði hótelsins og flatmöguðum þar fram að heitasta tíma dagsins eftir hádegið. Ég hélt alltaf að ég hefði ekki þolinmæði í það að liggja í sólbaði en komst að því að það má ýmsu venjast, sérstaklega þegar Þýsk blómarós gengur um klædd nákvæmlega eins og Heiða úr bókinni góðu með flétturnar og allt það, og tók niður pantanir á Sangriu og bjór og þess á milli bauð hún fólki í Ping Pong, billjard og fleira. Á kvöldin stjórnaði Heiða síðan skemmtidagskrá á hótel barnum sem fólst aðallega í því að halda Bingó og karókí fyrir ferðamennina og eftir að konan vann einhverja forljóta drykkjarkrús í Bingó þá var náttúrulega aldrei sleppt úr Bingókvöldi eftir það, svo við þekktum því Heiðu orðið ágætlega enda bestu viðskiptavinir hennar bæði á sundlaugarbakkanum og á Bingókvöldunum. Eftir hádegið stóð svo valið um það að fara í verslunarferð enda stærsta Moll eyjarinnar við hliðina á hótelinu okkar eða fara að dæmi inndæddra og taka Siestu um heitasta tíma dagsins. Ég var eindreginn stuðningsmaður Siestunar en konan hafði meira dálæti á verslunarferðunum og seinni vikuna okkar var því tekin ein Siesta en farið í sex verslunarferðir. Konan hafði tekið sérstöku ástfóstri við skóbúð eina í Mollinu sem seldi reyndar líka veski og töskur og þar kom hún venjulega við í þessum ferðum okkar. Í einni af ferðunum hafði konan rekist á skópar sem hún bara varð að eignast og þegar ég hafði greitt reikninginn stakk konan upp á því að við myndum setjast á matsölustað og fá okkur eitthvað í gogginn og bætti því við að ég mætti fá einn bjór með enda var hún í besta skapi eftir skókaupin. Þegar við svo gengum um Mollið í leit að hentugum stað til að borða á þreif konan skyndilega í handlegginn á mér og kallaði, sjáðu maður, sjáðu þetta veitingahús, þeir eru með prinsessustóla og svona flottar blómaskreytingar á borðunum, þetta er greinilega klassastaður, hér borðum við sagði hún svo og eins og sú sem valdið hefur og hlammaði sér í einn prinsessustólinn. Meðan konan skoðaði matseðilinn kom svo þjóninn alveg óbeðinn og færði henni glas af Sangriu og komst hún þá á þá skoðun að þetta væri örugglega besta veitingahúsið á Kanaríeyjum. Þegar að bjórinn var svo borin fram í glasi með háum fæti var henni allri lokið og skyldi bara ekkert í því hvernig henni hefði sést yfir þennan klassastað fram að þessu. Eftir góðan forrétt og stærðar piparsteik á eftir var konan hin ánægðasta og pantaði Irish coffe handa okkur til að fullkomna nú máltíðina. Ég verð að viðurkenna að mér leið bara bærilega eftir þessar kræsingar og var að velta fyrir mér öðrum Irish þegar konan kallaði í þjóninn og bað um reikninginn. Þjóninn kom að vörmu spori með reikninginn, bugtaði sig og beigði um leið og hann setti reikninginn fyrir framan konuna og sagði hátt og skýrt á Íslensku. Mamma borga Ég tók eftir því að konan skipti litum og þjóninn var ekki fyrr farinn frá borðinu en hún hvæsti; Heldur þessi karlauli virkilega að ég sé mamma þín, hvurslags andskotans ósvífni er þetta, hér verður ekki étið aftur. Ætli það hafi nú bara ekki einhver Íslendingur kennt honum að segja þetta svona til gamans og hvað með prinsessustólana og blómaskreytingarnar áræddi ég að leggja til málanna. Þessir stólar eyðileggja í manni hrygginn urraði konan og þennan andskotans borðarfa hafa þeir örugglega fundið á ruslahaugunum bætti hún við meðan hún taldi pening úr veskinu sínu og ég sá á svipnum á henni að þjóninn þyrfti ekki að búast við þjórfé þennan daginn. Þetta er skítabúlla sagði konan og skellti peningunum á borðið og strunsaði út. Ég flýtti mér á eftir henni og lóðsaði hana umsvifalaust aftur inn í skó og töskubúðina en það var ekki fyrr en eftir góða stund og eitt skópar og handtösku að auki sem konan tók gleði sína á ný. Næst lá leið okkar niður á neðstu hæðina í Mollinu og þar fann ég búð sem seldi afskaplega fallega leðurjakka og stakk mér þar inn til að skoða. Þar var við afgreiðslu Indverji einn lítill sem greinilega hugsaði sér gott til glóðarinnar því hann sýndi mér hvern jakkann á fætur öðrum og fékk ég dálæti á einum öklasíðum frakka úr besta leðri í heimi eftir því sem Indverjinn sagði. Ég kallaði því í konuna til að fá nú álit sérfræðings á frakkanum. Mig hefur alltaf langað í svona síðan Gestapo frakka sagði ég við konuna, hvernig finnst þér hann. Konan viðurkenndi að frakkinn væri nokkuð fínn en leit svo á verðmiðann sem sýndi 700 evrur og fékk ákaft hóstakast. Þetta er alltof mikið sagði hún síðan ákveðin. Indverjinn litli sá greinilega í hvað stefndi og hver réði ferðinni því hann virti mig skyndilega ekki viðlits heldur snéri sér umsvifalaust að konunni og sagði. No no no special price for you from Iceland 400 euro sagði hann og skrifaði töluna á miða og sýndi konunni. Mamma borga bætti hann svo við skælbrosandi og þóttist viss um að hafa landað þessum viðskiptum. Ég leit á konuna og varð þegar ljóst að Móðurharðindin voru um það bil að helllast yfir Indverjan litla og gott ef ekki Indland allt svo ég svippaði mér úr frakkanum og afsakaði mig með því að hann væri heldur þröngur og við kæmum aftur seinna og lempaði konuna umsvifalaust aftur inn í skó og töskubúðina sem var nú að verða mitt helsta vígi í Mollinu. Konunni var aldeilis ekki runnin reiðin og sagði mér að vera ekki að þvælast einn í leðurjakkabúðir, það væri augljóst að Indverjinn hefði ætlað að svindla á mér, þessi litli tittur bætti hún við ekki nema tvær skítslengdir á hæð. Konan lét sér nægja eina handtösku í þetta sinn sem betur fer því hótelherbergið okkar leit orðið út eins og skó og töskubúðin góða enda konan búin að kaupa helming af því sem til var þar. Þegar konan fór svo daginn fyrir heimferð að pakka niður í töskurnar kom í ljós að farangurinn komst ekki allur fyrir. Ég skil bara ekkert í þessu sagði konan þær voru næstum tómar töskurnar þegar við fórum út. Ég sá að það væri best að segja fátt í þetta sinn svo ég jánkaði bara og sagði alveg rétt elskan það er bara eins og farangurinn hafi tútnað út í hitanum. Þegar konan hafði endurraðað þrisvar í töskurnar sagði hún ákveðin við mig, þú verður bara að skreppa og kaupa eina ferðatösku til viðbótar ég get ómöglega lokað þessari. En ef við setjumst bæði á hana kannski lokast hún þá sagði ég og eftir að hafa reynt þessa snilldarhugmynd mína tölti ég svo út og keypti tvær ferðatöskur því hin þoldi ekki meðferðina. Daginn eftir vorum við svo sótt á tilsettum tíma og ekið með öllu okkar hafurtaski á flugvöllinn og í rútunni skýrði fararstjórinn frá því að hver farþegi mætti hafa með sér 20 kg af farangri eða samtals 40 kg á hjón allt umfram það yrði að greiða yfirvigt fyrir. Konan fékk ákaft kvíðakast yfir því hvað töskurnar væru þungar og sá fram á stór fjárútlát á flugvellinum. Þegar þangað var komið náði ég svo í kerru og við ókum hafurtaskinu inn í flugstöðina og fórum í röðina til innritunar. Ég fann að það var komin tími á að losa mig við morgunbjórinn svo ég sagði konunni að ég ætlaði að spreppa á salernið og pissa en konan skipaði mér að vera í röðinni til að ganga frá yfirvigtinni. Blessuð hafðu ekki áhyggjur af þessari yfirvigt sagði ég og kyssti hana á kinnina, og um leið og ég skaust inn á salernið rétti ég henni veskið mitt og hvíslaði í eyrað á henni:
MAMMA BORGA
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Ótrúlegt hve þú varst iðinn við Bingóin öll kvöld og ping-pong úti við sundlaugarbarm.....Þú vilt kanski ekki muna hve oft hún Heidi þurfti að stinga sér til sunds eftir kúluskömminni sem þú slóst hvað eftir annað út í laug. Ég sá ekki betur en að þér leiddist það ekki!!! En vel á minnst.........hvar eru hælaháu skórnir og fínafína spariveskið? ég hef bara ekki séð þessa gripi síðan við keyptum þá og by the way.......leðurjakkinn.....hehehehe, ég gat bara ekki hugsað mér að leggja þetta á landann, að þurfa að umbera einhvern SVARTSTAKK.....glætan spætan, NEI OG AFTUR NEI. Ég læt nú ekki einhvern Indverjatitt telja mér trú um að þetta færi þér vel. Það sem hægt er að hafa karlmenn að xxxxxx.....MAMMA BORGA ;-) mikið lifandis skelfing er ósköp gaman að því að láta ykkur halda þetta............hehehhehehe við kunnum nú á ykkur greyin mín - sama hverrar þjóðar þið eruð.
eiginkonan og húsmóðirin (IP-tala skráð) 8.5.2006 kl. 12:32
Ég sé að þú nefnir ekki samninginn sem virkar svo afskaplega vel í útlöndum......samninginn um pokana og bjórinn HA? Sko..hann er þess eðlis að fyrir hvern innkaupapoka sem minn maður þar að burðast með fær hann 1 krús af bjór (venjulega hef ég hana stóra fyrir kappann - en hann er alltaf að burðast með einn poka, því ég segi alltaf í búðunum að ég þurfi ekki fleiri poka takk (fyrr en þessir eru orðnir úttroðnir)) þess vegna fær hann ekki marga bjóra í hverjum verslunarleiðangri - eins og hann er nú viljugur að bera pokana fyrir mig þessi elska.
eiginkonan og húsmóðirin (IP-tala skráð) 8.5.2006 kl. 18:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.