Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2006

Litla stúlkan í lúðrasveitarbúningnum

Jæja þá er sólin og sælan búin að sinni, a.m.k. sólin, en áður en farið verður nánar út í ferðasöguna er kannski rétt að skýra aðeins tilurð ferðarinnar. Eins og komið hefur fram í grein hér að neðan hafði konan stungið uppá því að við hættum að lifa í synd og létum pússa okkur saman eins og sagt er. Ég sá fram á að frelsi mitt til athafna myndi stórlega skerðast við slíka stóraðgerð og varðist því fimlega um skeið. En eftir tveggja mánaða straff var mér öllum lokið og lét því undan þrýstingi, “afar miklum þrýstingi” og samþykkti aðgerðina með eftirtöldum skilyrðum.

1. Ekki kæmi til greina að Prestley myndi framkvæma athöfnina þ.e. þramm inn kirkjugólf væri ekki til umræðu.

2. Athöfnin yrði að vera einföld, öll skjöl afgreidd fyrirfram og fógeti myndi síðan hespa þessu af á 5 mín.

3. Höfð yrði til taks flaska af Hugrekkivatni ef þurfa þætti.

4. Til vonar og vara átti flaskan að vera a.m.k. 1 líter.

5. Að samkomulag yrði um að athöfnin færi fram í kyrrþey þ.e. ættingjum ekki gefin séns á neinu tilstandi.

Konan horfði á mig undarlegu augnaráði um stund þegar ég hafði árætt að setja fram þessa skilmála en samþykkti þá að lokum. Næstu daga á eftir var ég svo sendur í hinar ýmsu stofnanir til að afla alls konar vottorða og gagna sem konan sá síðan um að væru rétt útfyllt og sá einnig um að panta tíma hjá fógeta fyrir aðgerðina. Stóri dagurinn rann svo upp þann 5 apríl 2006 og konan vakti mig um áttaleytið og sagði að það væri komin tími á bað og að klæðast því við ættum að mæta hálf tíu hjá fógeta. Ég snéri mér á hina hliðina og sagðist ekki þurfa neitt fjandans bað ég ætlaði að sofa aðeins lengur. Þú verður allavega að þvo haus, pung og lappir sagði konan ákveðin og ýtti við mér. Verði þinn vilji tautaði ég og staulaðist inn á bað og var reyndar ferðbúinn vel fyrir tilsettan tíma. Þegar við renndum í hlað hjá fógeta snéri ég mér að konunni og sagði glottandi að það væri þó tilbreyting að mæta einu sinni hjá fógeta án þess að það yrði gert hjá manni fjárnám. Konan svaraði engu heldur snaraðist inn hjá fógeta og þar var okkur vísað upp á loft og þar tók á móti okkur lítil stúlka sem var íklædd einhverju sem líktist helst lúðrasveitar búningi. Litla stúlkan kynnti sig sem fulltrúa Sýslumanns og sagði okkur að hún myndi framkvæma aðgerðina. Eitthvað fannst mér stúlkan kunnugleg og þegar nánar var aðgáð reyndist þetta vera dóttir hans Sigurðar fyrrverandi Rúsínubúðasstjóra og fæddist yngismærin víst árið sem ég gifti mig í fyrsta sinn. Virðulegur fulltúinn vísaði okkur inn á skrifstofu og kvaddi til tvo votta og kveikti svo á hálfbrunnum kertisstubbi, dró síðan upp skjal og las einhverja rommsu og snéri sér síðan að konunni og spurði hvort hún ætlaði “virkilega” að ganga að eiga þennan mann. Konan horfði á mig um stund og umlaði svo eitthvað sem virðulegur fulltrúinn tók greinilega sem já, snéri sér síðan að mér og endurtók rulluna nema núna sleppti hún “virkilega” . Hikið á konunni varð til þess að ég hugsaði með mér: Jæja hún er þá ekki viss það er nefnilega það “ jáhá” hugsaði ég síðan upphátt. Þá lýsi ég því hér með yfir að þið eruð gift sagði þá fulltrúinn. Konan kyssti mig á kinnina og dró svo upp úr veskinu sínu umslag og sagði glaðhlakkalega. “Þá getum við þinglýst erfðaskránni elskan” Það var þá sem það rann upp fyrir mér að í þessari ferð til fógeta hafði verið gert hjá mér “ævilangt” fjárnám og það af LÍTILLI STÚLKU Í LÚÐRASVEITARBÚNINGI.

PS. Ferðin til sólarlanda var sem sagt BRÚÐKAUPSFERÐ


Sól Sól

Lítid bloggad tessa dagana erum nefnilega á Kanaríeyjum í sól og 28 stiga hita, ferdasagan kemur tegar vid komum heim en hér hafa ýmsir dularfullir hlutir gerst tad get ég vottad.

Ást á raðgreiðslum

Við konan sátum eins og oft áður í stofunni heima í Miðtúni einn eftirmiðdag og vorum að spjalla saman þegar síminn hringdi og konan stóð á fætur og svaraði. Ég notaði tækifærið og stillti sjónvarpið á Enska og laumaðist til að kíkja á leik á meðan, en sá útundan mér að konan varð hálf skrítin á svipinn þegar hún var að tala í símann. Fyrst kom undrunarsvipur á hana og hún margtuggði, hvað segirðu, hvað segirðu. Síðan kom skelfingarsvipur á hana og hún sagði, ég trúi þessu ekki, ég trúi þessu ekki. Síðan varð hún eins og þrumuský í framan og urraði eitthvað í símann og skellti svo á. Síðan tók hún strauið og stefndi beint á stofuna. Ég mældi í snatri í huganum fjarðlægðina að svalahurðinni en sá strax að ég átt engan séns að komast undan þar svo ég slökkti á sjónvarpinu og kallaði: Ég gerði það ekki, ég gerði það ekki. En konan virti mig ekki viðlits, hún strunsaði framhjá mér og settist í sófann. Hún er komin með kærasta sagði hún síðan óðamála. Það var nú gott sagði ég er hann sætur áræddi ég að bæta við. Nei hann er ljótur svaraði konan, hann heitir Ferlegur og ber út Moggann. Þau eru að fara eitthvað út í lönd að príla uppá einhvern moldarhaug bætti hún við og hljóp svo aftur í símann til að reyna að afla frekari frétta af þessu stórmáli. Ég var satt best að segja ekki alveg viss hvað mér hafði verið sagt þarna en þegar leið á daginn skýrðist málið. Einkadóttir konunnar var sem sagt komin með kærasta og þegar betur var aðgáð hét hann ekki Ferlegur og bar út Moggann, heldur Örlygur og var blaðamaður á Mogganum og myndarmaður að auki. Stúlkan var á leið austur fyrir fjall að hitta móður sína með það fyrir augum að óska eftir ábyrgðarmanni á kreditkort því hún ætlaði með nýja kærastanum til Evrópu að klífa fjöll. Svona ást á raðgreiðslum gengur aldrei sagði konan þunglega, ástin verður að vera “staðgreidd” til að vera sönn bætti hún við, gott ef þau hætta ekki saman á miðjum moldarhaugnum. Manstu þegar við vorum að byrja saman og þú bauðst mér til útlanda, það var sönn ást enda “staðgreidd” sagði konan. Mikið rétt sagði ég, það var sko sönn ást en eigum við nú bara ekki að vera róleg og sjá bara til hvað verður úr þessu bætti ég við. Konan róaðist nokkuð við þetta og greip bók og fór að lesa en ég laumaðist svo lítið bar á upp á loft því ég þurfti að fela nokkra Visa reikninga úr möppunni minni því konan má ekki fyrir nokkurn mun komast að því að okkar fyrsta rómantíska ferð til útlanda var ÁST Á RAÐGREIÐSLUM.


Nýjustu rannsóknir

Það var eitt kvöldið fyrir nokkru síðan að ég skrapp upp á loft og lagði mig eftir kvöldmatinn sem hafði verið í ríflegra lagi hjá konunni og því nauðsynlegt að leggjast aðeins á meltuna. Þarna lá ég og hugsaði um landsins gagn og nauðsynjar þar til á mig sótti syfja og ég tíndi veröldinn um stund. Ég vaknaði hinsvegar með andfælum þegar konan kom á harða hlaupum upp stigann og var greinilega í mikilli geðshræringu, hann Sigmar, hann Sigmar, hann Sigmar, hann sagði það hrópaði hún. Hvað segirðu kona hefur einhver dáið sagði ég og hvað sagði þessi fjandans Sigmar sem ég þekki ekki neitt. Jú þú þekkir hann víst sagði konan óðamála, það er hann Sigmar í Kastljósinu sem sagði það. Jæja var það sá Sigmar sagði ég og hvað sagði hann svona merkilegt, hefur nú verðið á nælonsokkum hækkað aftur spurði ég hinn rólegasti. Nei hei sagði konan það var sko miklu merkilegra en það. Já hann sagði að nýjustu rannsóknir sýna að börn fara ekki að heiman fyrr en eftir þrítugt sagði konan og náði varla andanum af geðshræringu. Og hvað með það spurði ég undrandi yfir þessum látum í konunni, þú veist að þjóðfélagið er alltaf að breytast bætti ég við og geispaði stórum. Já en við eigum fjögur börn en það eru bara þrjú svefnherbergi í húsinu sagði konan grafalvarleg svo það er ekki pláss fyrir alla, við verðum að kaupa stærra hús. Nú vaknaði minn snarlega og settist á rúmstokkinn, hvað áttu við kona sagði ég, kaupa stærra hús en það búa ekki nærri allir grislingarnir hérna hjá okkur og það væri mikið nær að henda restinni út og kaupa minni íbúð og síðan kannski Bongaló á Spáni fyrir peninginn sem við fáum í milli sagði ég. En þetta eru alveg glænýjar rannsóknir sagði konan snúðugt og hvað veist þú um það nema allt heila klabbið flytji heim aftur bætti hún við og settist við tölvuna og fór að skoða einbýlishús á Habil. Tja þá flyt ég að heiman sagði ég og velti fyrir mér hvort ég ætti að hringja í dýralæknirinn og láta sprauta kerlinguna niður. Væri nú ekki allt í lagi að bíða aðeins og sjá til hvort einhver grislingurinn birtist með allt sitt hafurtask stakk ég uppá, varla koma þeir allir í einu. En konunni varð ekki haggað, næstu daga á eftir sat hún og skoðaði einbýlishús á netinu í gríð og erg á milli þess sem hún bölvaði eins og togarasjómaður yfir því að það væri ekkert almennilegt einbýlishús til í plássinu. Heldur hefur þó dregið úr skoðuninni allra síðustu daga en þó er ég með hálfgerðan hnút í maganum því konan kom auga á eitt hús með tveimur íbúðum á netinu og uppfyllti efri íbúðin skilyrði um fjölda herbergja, og svo væri neðri ibúðin fín fyrir mömmu og pabba sagði hún og brosti kankvíslega til mín í leiðinni. Á meðan ég bíð eftir því að öldurnar lægi í þessu máli hef ég bannað öllum í fjölskyldunni að horfa á Kastljósið því hver veit hvað NÝJUSTU RANNSÓKNIR sýna næst.


PÖNNUKÖKUÞUNGLYNDI

Ég hef komist að raun um það að ég þjáist af alvarlegu pönnukökuþunglyndi. Það var fyrir u.þ.b. mánuði síðan að ég sat í stofunni heima hjá mér á laugardagseftirmiðdegi, þungt hugsi þegar konan rauf þöfnina og sagði: Ég skal gefa þér 100 kall ef þú segir mér hvað þú ert að hugsa. Ég sá fram á skjótfengin gróða og dæsti hátt og sagði. Ég held ég sé að verða þunglyndur og það í meira lagi, veðrið er leiðinlegt, lúkurnar á mér lagast ekkert og Liverpool er að tapa leiknum bætti ég við. Hvaða vitleysa er þetta sagði konan þú ert ekkert að verða þunglyndur, þú ert bara svangur bætti hún við vitandi það að ég hafði nýlega hafið svolítið átak til minnkunar á bumbunni á mér. Með það hvarf hún inn í eldhús og þaðan barst brátt skrölt í pönnu og hrærivél. Brátt fylltist loftið að himneskri bökunarlykt og nokkru síðar birtist konan með þrjár glóðvolgar pönnukökur með sykri og rétti mér og hvarf svo aftur inn í eldhús. Eftir að ég hafði gætt mér á pönnukökunum birtist konan og spurði hvernig þunglyndinu liði og ég svaraði þungur á brún að það hefði jú minnkað örlítið en væri alls ekki farið. Konan hvarf aftur inn í eldhús en kom skömmu seinna með aðrar þrjár pönnukökur, núna með sultu og rjóma ásamt fullri krús af Iris Coffe og rétti mér. Ég verð nú að viðurkenna að minna varð úr þunglyndinu þennan dag en efni stóðu til, satt best að segja hvarf það eins og dögg fyrir sólu og ég varð hinn glaðasti það sem eftir liði dags. Núna á miðvikudegi þegar ég sit og pikka þetta finn ég hins vegar að þunglyndið læðist að mér aftur, ég er viss um að það mun ágerast á morgun og hinn og ná hámarki á laugardaginn. Ég er því að velta því fyrir mér hvort ég eigi að láta konuna vita í tíma að ég sé alveg að verða þunglyndur svo hún geti nú keypt inn ef eitthvað skyldi vanta því ég er viss um að þetta er alveg eins og um daginn BARA PÖNNUKÖKUÞUNGLYNDI

ps. konan skudar mér ennþá 100 kallin fyrir hugsanirnar.


Lifað í synd

Frá því að ég og sambýliskona mín, fórum að búa saman höfum við lifað í synd, þ.e. við höfum verið í óvígðri sambúð sem reyndar telst ekkert tiltökumál á Íslandi í dag. Þetta fyrirkomulag hefur virkað ágætlega hjá okkur enda skýr verkaskipting á heimilinu hjá okkur. Konan vaskar upp, þrífur, straujar, slær garðinn, hengir upp ljós og þessháttar, en í staðin upplýsi ég hana ávallt um stöðu leikja í enska, spænska og ítalska boltanum svo ekki sé nú talað um meistaradeildina. Það sjá því allir að þetta fyrirkomulag er mjög hentugt fyrir báða aðila og því hafði ekki staðið til hjá okkur að breyta því á neinn hátt á næstunni. Við skötuhjúin höfum keypt okkur lítið kot til að búa í og vorum að ræða það fyrir nokkru síðan að réttast væri að við myndum útbúa samning okkar í milli um að ef annað okkar tæki nú upp á að hrökkva upp af þá fengi hitt leyfi til setu í óskiptu búi. Nú stendur það svo sem ekkert frekar til að við förum að hrökkva upp af en allur er varinn góður eins og kerlingin sagði og eins og sést á verkaskiptingunni á heimilinu hér að ofan þá kom það að sjálfsögðu í hlut konunnar að kanna þessi mál, en á meðan horfði ég á leik í sjónvarpinu. En nú kom babb í bátinn, konan kom úr könnunarferðinni og tjáði mér að fólk sem lifði í synd og væri þar að auki dautt mætti ekki ráðstafa nema 1/3 af eigum sínum, hitt myndi ganga til eftirlifandi ættingja. Satt best að segja hélt ég að konan hefði nú bara villst á húsum og lent í Pakkhúsinu í stað Sýsluskrifstofunnar og fengið eitthvað misvísandi fréttir af þessum málum og sleppti því heilum hálfleik í sjónvarpinu til að kanna málið sjálfur. Og viti menn þetta reyndist rétt hjá konunni, til þess að geta gert samning til setu í óskiptu búi við sína sambýliskonu má maður ekki búa í synd, ó nei ó nei maður skal sko vera harðgiftur og þar að auki með pappír frá helst tveimur lögfræðingum um skiptin, sem skal svo líka stimplaður af notarium puplikus hjá Sýslumanni eða hvað það nú heitir. Jæja nú voru góð ráð dýr og syndararnir settust á rökstóla til að ræða þessi ólög og hvort fara mætti í kringum þau á einhvern hátt. Konan hringdi í nokkra lögfræðinga en allt bar að sama brunni, þetta var bara ekki hægt. Heyrðu elskan við verðum bara að gifta okkur sagði kona grafalvarleg, það er greinilega eina leiðin til að við getum gengið frá þessu. Þessi uppástunga varð til þess að ég varð að horfa á heilan leik í sjónvarpinu mean ég íhugaði málið, snéri mér síðan að konunni og spurði varfærnislega hvort það myndi hafa einhver áhrif á verkaskiptinguna á heimilinu að fara í svo róttæka aðgerð. Hún fullyrti að svo yrði ekki svo núna stefnir allt í það að Íslenska ríkið neiði mig í hjónaband til þess að geta ráðstafað eigum mínum að minni vild. Þetta hefur svo reyndar annan kost í för með sér, konan er jú bankastjóri og ég get þá sótt um yfirDRÁTT á hverju kvöldi og lagt svo inn skömmu síðar. Það eina sem strandar á er að ég vil setja það inn í samkomulagið hjá Sýslumanni er að konan lofi að setja alltaf klósettsetuna upp aftur eftir notkun, en um það er ágreiningur á heimilinu og meðan hann er óleystur mun ég áfram LIFA Í SYND


Megrum Hundinn

Það verður aldrei til of mikið af mér!!  Þetta er staðhæfing sem ég hef haldið fram í minni fjölskyldu um langa hríð.  Þessi staðhæfing hefur reyndar fallið í misjafnan jarðveg hjá fjölskyldumeðlimum, konan brosir tvíræðu brosi og segir " alveg rétt elskan"  meðan krakkarnir fussa og sveia og benda á að samfélagið væri ekkert fátækara þó  bumban á kallinum minnkaði talsvert.  Vegna þess hversu lengi ég hef haldið því fram í minni fjölskyldu að  "það yrði aldrei til of mikið af mér"  lenti ég því í nokkrum vandræðum þegar ég einn daginn ákvað að bumban þyrfti að víkja að minnsta kosti að hluta.  Þegar ég stóð við pissuskálina um daginn og komst að raun um að ég sá ekki lengur nema fremstu 15 sentimetrana af fermingarbróðurnum var ákveðið að grípa til aðgerða en vandamálið var að finna einhverja góða skýringu á væntanlegri  minnkun því ekki gat ég bakkað með staðhæfinguna góðu um að " það verður aldrei til of mikið af mér " .  Eftir nokkra umhugsun datt ég hinsvegar niður á lausnina.  Ég og konan höfðum fyrir nokkru síðan séð auglýsingu á netinu, þar sem auglýstur var til sölu hundur, hreinræktaður rakki með þvílíka ættbók sem jafnvel hver meðal " ráðherra" gæti verið stoltur af.  Við fórum og skoðuðum dýrið og það er skemmst frá því að segja að hann fór með okkur heim með öllu sínu hafurtaski.  Rakkinn gekk undir nafninu Moli en ég stakk upp á því að  hann yrði látinn heita Guðni Ágústsson eftir nágranna sínum sem býr hér rétt hjá.  Konan harðneitaði hinnsvegar að láta hundinn heita slíku nafni og fékk hann því að halda sínu Mola nafni.  Síðan við keyptum hundinn hefur konan stríðalið hann á allskonar góðgæti sem hún kaupir ýmist í dósum eða matreiðir eftir kúnstarinnar reglum.  Ég tók svo eftir því að hundurinn fór að tútna út eftir allt góðgætið og þá skyndilega fékk ég hugljómun um hvernig ég gæti hugsanlega minnkað eitthvað sjálfur án þess að þurfa að viðurkenna að það væri " til of mikið af mér.. "  Ég tjáði því fjölskyldumeðlimum að þetta gengi ekki lengur, hundurinn væri að verða of feitur og ég ætlaði að fara af stað með átak sem skyldi ganga undir nafninu MEGRUM HUNDINN og gerði enginn fjölskyldu meðlimur neina athugasemd við þessa hugmynd mína.  Síðan ég fékk þessa hugljómun höfum við Moli farið í daglegar gönguferðir, stundum jafnvel tvisvar á dag og má ekki á milli sjá hvor skemmtir sér betur í þeim ferðum hundurinn eða húsbóndinn.  Það eina sem ég hef áhyggjur af er að hundurinn hefur tekið upp á því að stoppa fyrir utan hjá virtum bankastjóra í hverfinu í hverri ferð og þar kúkar hann alltaf og nú er svo komið að ég þori varla að sækja um lán lengur.  En hvað um það, núna eru liðnar 10 vikur frá því að átakið MEGRUM HUNDINN hófst og er skemmst frá því að segja að við vigtun kom í ljós að kallin hafði mist 15 kíló frá því átakið hófst en hundurinn hafði hinsvegar þyngst um 1 kíló.   Vera kann að aukabitinn sem húsbóndinn laumar að honum eftir hverja ferð hafi gert það að verkum að hann hafi þyngst en kannski er hann líka bara að stækka. En eitt er víst að átakið MEGRUM HUNDINN heldur áfram og þó ég hafi skroppið svolítið saman í leiðinni þá er það bara fórnarkostnaður við átakið, því eins og ég hef alltaf haldið fram þá " VERÐUR ALDREI TIL OF MIKIÐ AF MÉR "

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband