Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2006
11.7.2006 | 15:43
Smjattpattinn í Gúrkubæ
Konan mín þessi Guðs blessun á það til að fá sérkennilegar flugur í höfuðið, jafnvel svo skýtnar að margir myndu kalla það dillur en það dettur mér náttúrulega aldrei í hug að gera. T.d. í eitt skipti lét hún senda sér stærðar grjóthnullung alla leið frá Patreksfirði, eins og það sé ekki til nóg af grjóti á Selfossi og í annað skipti gerði hún sér ferð í Mosfelsbæ til að sækja nokkur puntstrá af alveg sérstakri gerð að hennar sögn, sem hún síðan gróðursetti í garðinum okkar og núna þekja þessi puntstrá alveg eitt hornið í garðinum okkar eða illgresishornið eins og ég kalla það. Þessar flugur sem konan hefur fengið í höfuðið eða dillur eins og mér dettur ekki í hug að kalla þær hafa jú flestar tengst garðinum okkar og því var ekki laust við að maður fengi ofurlítin hnút í magann þegar konan ákvað að gerast bankastjóri í Hveragerði eða Gúrkubæ eins og maður kallaði það þegar foreldrar mínir fóru með mig í bíltúr þegar ég var lítill að þeirra sögn til að heimsækja frænda minn í gróðurhúsinu hjá Palla Mikk. Ég vissi aldrei hver þessi frændi var en venjulega var mér plantað við apabúrið hjá Palla Mikk og fékk gúrku að naga meðan ég horfði á apana. En sem sagt þegar konan fór að vinna í þessum mikla garðyrkjubæ átti ég alveg eins von á að hún fengi nú eitt kastið enn og ég þyrfti að fara að byggja gróðurhús eða eitthvað þaðan af meira. En ótti minn hefur verið ástæðulaus alveg fram til þessa en það var einmitt í miðjum leik í heimsmeistarakeppninni í fótbolta að konan stóð skyndilega á fætur og sagði: Þetta gengur ekki ég er búinn að vinna í meira en ár í Hveragerði og ekki ennþá komin með græna fingur, nei nú verður breyting á, þú kemur með mér út í Hveragerði að kaupa plöntur og blóm og svo förum við að gróðursetja. En er nokkuð pláss eftir í garðinum elskan mín sagði ég þetta meiga ekki vera nein stórinnkaup ef það á að komast fyrir, kannski fáeinar Morgunfrúr og Meyjarljómi og kannski einn Ilmskúfur. Láttu mig um að ákveða allt um það sagði konan og dró mig út í bíl og lét mig aka út í Hveragerði. Þegar við svo komum í Hveragerði lét konan mig keyra í hverja gróðrastöðina af annari en fann hvergi það sem hún var að leita að. Ég var því orðin vongóður um að þetta yrði bara léttur bíltúr og konan léti sér bara nægja að skoða öll blómin og plönturnar. Konan ákvað svo að gera lokatilraun og lét mig aka heim að lítilli gróðrastöð og snaraðist þar inn og hóf skoðunarferð. Ég tók eftir því að konan virtist hafa meiri áhuga á að skoða gamla kerlingu sem sat við afgreiðsluborðið en plönturnar og blómin sem voru þarna í bunkum. Það er ég viss um að þessi kona er að vestan hvíslaði konan mér finnst ég kannast eitthvað við svipinn á henni bætti hún við. Það er nú sami sauðasvipurinn á öllum þessum kerlingum tautaði ég en gláptu ekki svona á konuna farðu heldur og spurðu hana hvort hún sé að vestan. Konan leit illilega á mig en sigldi svo sem leið lá framhjá burknum og rósavöndum að afgreiðsluborðinu og sagði: Sæl gæskan ekki getur verið að þú sért að vestan mér finnst ég kannast eitthvað svo við svipinn á þér. HA kallaði sú gamla. Ekki getur verið að þú sért að vestan spurði konan aftur og hækkaði róminn. Jú jú það passar alveg skrækti sú gamla ég er frá Tálknafirði en hárið og tennurnar eru þó úr Reykjavík bætti hún við. Þarna sérðu bara hvað ég er mannglögg sagði konan og hér ætla ég að versla sagði hún og hófst handa við að tína til plöntur og blóm sem ég bar jafnóðum út á bílpallinn. Þó tók nú útyfir allt þegar konan keypti poka af hænsnaskít, já trúið mér það er hægt að kaupa hænsnaskít í pokum, og skipaði mér að fara með hann út í bíl. Er nú ekki óþarfi að vera að kaupa þetta sagði ég ég get bara látið hundinn skíta á Morgunfrúrnar tautaði ég en flýtti mér síðan með hænsnaskítinn út í bíl þegar ég sá svipinn á konunni. Það get ég svarið að ég sá ekki betur en pallurinn á bílnum okkar væri um það bil að sligast þegar við ókum heim og má hann þó bera yfir eitt tonn en kannski var það ímyndun í mér. Konan hófst svo handa við að blanda mold og hænsnaskít í potta og blómabeð þegar heim var komið en ég laumaðist inn í stofu til að kanna stöðuna í heimsmeistarakeppninni. Eftir góða stund kom konan á harðaspretti og sagði: Guð minn góður ég steingleymdi einu, auðvitað átti ég að kaupa grænmeti líka því núna þegar ég er komin með græna fingur er best að taka líka upp hollari lífshætti og hætta kjötátinu og fara meira í grænmetið. Síðan tók hún strikið út á hlað og ég sá á eftir henni á bílnum á öðru hundraðinu í áttina að Hveragerði. Eftir góða stund kom hún aftur og hófst handa við að bera inn úr bílnum tómata, gulrætur og gúrkur og eitthvað fleira í kassavís. Er þetta nú ekki fullmikið af því góða sagði ég og starði á grænmetisfjallið sem komið var á eldhúsborðið. Allt fyrir hollustuna sagði konan og skaust út í bíl að sækja meira. Það var þá sem ég gerði mér ljóst að konan var ekki bara komin með garðyrkjubakteríuna heldur er hún á góðri leið með að verða SMJATTPATTI Í GÚRKUBÆ
Vinir og fjölskylda | Breytt 12.7.2006 kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar