Bloggfærslur mánaðarins, september 2006
19.9.2006 | 16:15
PÍS OF KEIK
Konan mín hefur þá bjargföstu trú að karlmenn geti alls ekki bjargað sér sjálfir svo mikið sem einn dag hvað þá fleiri. Alveg frá því að við byrjuðum að búa hefur hún bannað mér að koma nálægt allri matargerð og heimilisstörfum yfirleitt því að hún er svo viss um að ég ráði ekki við það. Hún hefur satt best að segja ekki getað hugsað sér að vera í burtu svo mikið sem eina einustu nótt frá okkur karlpungunum eins og hún kallar það því að hún er svo viss um að myndum verslast upp og deyja ef hennar nyti ekki við. Ég hef í sjálfu sér ekki haft neitt við þessa tilhögun á heimilinu að athuga en hef þó stöku sinnum andmælt og sagt henni að ég gæti auðveldlega séð um mig og hundinn sjálfur í einn eða fleiri daga. Þegar konan er svo ekki að sinna skyldum sínum sem húsmóðir þ.e. matbúa, taka til, sjóða sultur og fleira í þeim dúr, situr hún og saumar heljar mikið veggteppi sem svo aftur á að prýða einn heilan vegg í húsinu okkar. Það er bara einn galli þar á, sem sagt inn í miðjunni á veggteppinu er eitthvað feikna mikið dúllerí sem krefst þess víst að maður kunni bæði kross og krúttsaum en eftir fjöldamargar tilraunir við dúlleríið varð konan að játa sig sigraða og viðurkenna að hún kynni ekki kross og krúttsaum. Ekki gafst þó saumakonan upp heldur fór á netið og leitaði að öllu sem hún fann um kross og krúttsaum og viti menn, næsta laugardag og sunnudag skyldi verða námskeið í kross og krúttsaumi í Reykjavík og átti það að standa langt frameftir laugardalskvöldinu og byrja svo eldsnemma á sunnudeginum og standa fram á miðjan dag. Konan ætlaði í fyrstu ekki að fást til að fara á námskeiðið þar sem hún sá fram á að þurfa að gista í Reykjavík og var alveg viss um að bæði karl og hundur myndu verslast upp og deyja við að þurfa að sjá um sig sjálfir í einn sólarhring. Það var ekki fyrr en eftir miklar fortölur sem hún fékkst til að fara en fyrst þurfti hún þó að halda námskeið fyrir mig og Mola í eldhúsinu og var þar sérstaklega farið yfir hvernig á að nota örbylgjuofn sem er tæki sem ég hef alltaf talið mig kunna á, bara stilla tímann og ýta á einn takka. En við Moli komumst að því að það er meira en að segja það að stýra örbylgjuofni því á námskeiði konunnar kom fram að það er sko aldeilis ekki sama hvort maður er að hita lambaket, kjúkling eða fisk, ó nei það er sko sér stilling fyrir hvern rétt fyrir sig og síðan að minnsta kosti fjórar undirstillingar fyrir hvern. Ekki náði ég þessu nú öllu en treysti á að Moli myndi muna þetta ef á þyrfti að halda. Á föstudagskvöldinu sagðist konan svo vera hætt við að fara hún hefði svo mikið samviskubit yfir því að skilja okkur eina eftir mig og hundinn. En við Moli gáfum ekkert eftir og sögðumst sjálfir fara á kross og krúttsaums námskeið ef konan færi ekki því það yrði enginn andskotans friður á heimilinu fyrr en veggteppið væri búið og komið upp á vegg. Þegar svo kom að því daginn eftir að konan þurfti að leggja af stað á námskeiðið fór hún einu sinni enn yfir það með mér hvernig best væri að lifa aðskilnaðinn af en tók síðan hundinn í fangið og síðan fór af stað eitthvað ferli sem ég skildi varla en hljómaði einhverveginn svona:
Ó kondu kondu elsku monsi sponsinn minn, gúllí vúllí vúllí kondu til mömmu elsku monsi sponsu spíturassgatið mitt, hver er langsætastur af öllum dúllsi dúllsi krúsindúllu sponsinn minn.
Skárri er það nú andskotinn hvernig látið er með hundinn hugsaði ég með mér, ekki lætur hún svona við mig og síðan reyndi ég að rifja upp hvenær hún hefði síðast verið svona góð við mig en það eina sem ég mundi eftir var þegar hún sagði við mig fyrir tveimur dögum sínan: Drattastu í bað það er táfýla af þér.
Loks tókst okkur þó að koma kerlingunni út um dyrnar og þegar við höfðum lokað á eftir henni horfðum við hvor á annan við Moli og vissum báðir að nú var stund sannleikans upprunnin og kæmi nú í ljós hversu mikið starf það væri að vera húsmóðir. Við byrjuðum á að setjast inn í stofu og kveikja á sjónvarpinu og fljótlega fundum við leik til að horfa á og ég spurði Mola hvort ekki væri tilvalið að fá sér bjór yfir leiknum. Hundurinn horfði á mig en sagði svo woff sem ég túlkaði undireins sem JÁ svo ég skarpp fram í skúr og náði í einn kaldann. Í hálfleik ákváðum við síðan að við værum orðnir svangir og kíktum því í eldhúsið. Á eldhúsborðinu fundum við stafla af pönnukökum og svo fleiri í ísskápnum en þær voru með rjóma. Einnig var diskur með flatbrauði í ísskápnum og eitthvað fleira með. Við skófluðum í okkur þangað til við vorum vel mettir og hentum svo diskunum í vaskinn og litum hvor á annan. Ekki var þetta nú erfitt sagði ég það er greinilega ekkert svo mikið mál að vera húsmóðir bætti ég við þegar við settumst aftur inn í stofu. Á meðan við vorum að borða hringdi konan fjórum sinnum til að vita hvort allt væri ekki í lagi og við fullvissuðum hana um að ekkert amaði að okkur. Þegar svo leið að kvöldmatnum vandaðist málið verulega því að á eldavélinni stóð fullur pottur af kjúkling í sósu með kartöflum og grjónum. Það hafði nefnilega láðst að kenna okkur hvernig ætti að hita upp í örbylgjunni svona flókna máltíð með svona mörgu í en við ákváðum að gera bara eins og venjulega þ.e. stilla bara á 2 mín. og ýta á takkann. Og viti menn allt gekk eins og í sögu og þetta varð hin ljúfengasta máltíð. Ekki var þetta nú erfiðara sagði ég við Mola um leið og ég setti diskana í vaskinn. Eftir matinn tók svo við annar kaldur og friðsæl leti yfir sjónvarpinu þangað til við gengum til náða laust eftir miðnætti. Morguninn eftir gekk allt eins og í sögu ekkert mál að hella kornfleksi í skál og hella mjólk yfir. Þegar konan kom svo heim um miðjan daginn varð hún hálf hissa að sjá okkur á lífi en þó fegin held ég, alla vega fékk hundurinn slatta af gúllí vúllí og hún minntist ekkert á að það væri táfýla af mér. Við Moli höfum því komist að því að það er ekkert því til fyrirstöðu að konan taki framhaldsnámskeið í kross og krúttsaumi því það er nefnilega alveg eins og við vissum alltaf ekkert mál að vera húsmóðir það var eiginlega bara "PÍS OF KEIK."
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.9.2006 | 07:28
Skipulagningin
Ég áttaði mig á því í dag að það eru að verða þrjár vikur frá því að okkar maður flutti búslóð, kerlingu, grislinga og gæludýr í nýja húsið og satt best að segja hefur verið svo mikið að gera að það hefur ekki gefist neinn tími fyrir blogg þessar vikur. Ég er ennþá að læra á nýju híbýlin sem eru svolítið öðruvísi en var í gamla kotinu okkar, sérstaklega bílskúrinn eða dótakofann eins og konan kallar það víst. Þó að dótakofinn sé jú ennþá hálffullur af kössum og stólum og skápum þá á ég það til að laumast þangað sérstaklega á kvöldin og þá til að skipuleggja hvar ég ætla að geyma verkfærin og hengja upp veiðistöngina og þess háttar og konan gerir sér líka alltaf eina ferð þangað út áður en hún gengur til náða en það er til að telja bjórflöskurnar í ískápnum sem áður stóð í geymslunni í gamla kotinu okkar. Ennþá hefur þó enga dós vantað enda hefur hún ekki ennþá tekið eftir kassanum í efstu hillunni í dótakofanum. Það var svo eitt kvöldið að ég hafði brugðið mér þangað út og var að mæla hvort bílskúrsdyrnar væru alveg örugglega ekki það breiðar að konan gæti líka keyrt bílinn inn í skúrinn án stóráfalla að ég var truflaður þegar konan kallaði á mig í símann og svo gleymdi ég mér að símtalinu loknu yfir þætti á Skjá einum og var orðin hálfsyfjaður þegar honum lauk. Ég gekk því til náða og lagðist upp í rúmm við hliðina á konunni og kúrði mig undir hlýja sængina þegar konan sagði: Þetta var nú meiri dagurinn og síðan geispaði hún alveg ógurlega sem aftur varð til þess að ég mundi hverju ég hafði gleymt. Ég spratt því undan sænginni og smeygði mér í buxur og bol og á meðan horfði konan á mig en sagði síðan: Það tók því að hátta bara til að klæða sig aftur nokkrum sekúndum seinna. Já það var bara smávegis sem ég gleymdi sagði ég og ætlaði að smeygja mér út um svefnherbergisdyrnar. Ertu að fara að laumast í bjórinn sagði konan höst, þú hefur ekkert að gera með að vera að fá þér bjór núna bætti hún við. Nei nei elskan það var bara þegar þú geispaðir áðan þá mundi ég eftir því að ég gleymdi að loka bílskúrsdyrunum sagði ég og snaraðist fram í bílskúr og lokaði dyrunum. Þegar ég kom til baka snéri konan baki í mig og þegar ég var kominn undir sængina aftur gat ég ekki að því gert en mér fannst eins og það andaði köldu frá konunni og ég heyrði ekki betur en hún væri að tuldra eitthvað og þó ég heyrði nú varla orðaskil þá fannst mér það hljóma einhverveginn svona þ.e. það sem ég heyrði: Andskotans ósvífni engin hjálp við heimilsstörfin .. alltaf að gera allt sjálf ..
Ég velti því fyrir mér hvort hún ætti við mig en fannst það frekar ótrúlegt enda var ég nýbúinn að mála tvö svefnherbergi og báðar stofurnar FYRIR HANA, ég var búinn að hengja upp sex ljós FYRIR HANA og þegar við fórum á bensínstöð síðast þá dældi ég olíunni á bílinn FYRIR HANA og síðast í gærkvöldi fór ég út í búð og keypti kók handa mér FYRIR HANA. Mér þótti því nánast útilokað að hún ætti við mig, hún hlýtur að eiga við einkasoninn hugsaði ég með mér og huggaði mig við það að kuldaskeiðin hjá konunni í rúmminu eru venjulega ekki löng og þóttist vita að allt yrði fallið í ljúfa löð morguninn eftir. Ég vaknaði svo morguninn eftir kátur og hress um leið og konan og stormaði sem leið lá á salernið en við höfum þurft að venja okkur á eilítið nýja siði þar eftir að við fluttum því að í gamla kotinu voru nefnilega tvö salerni en í nýja húsinu bara eitt. Reyndar eru þau tvö en hitt er niðri í kjallara hjá Rússunum og konan fæst ekki með nokkru móti til að fara niður og nota það á morgnana og ber því við að geta ekki sprænt á Rússnesku. Ég hef því stundum laumast til að pissa þegar ég er alveg í spreng á meðan konan burstar tennurnar. Ég var hinnsvegar bara hálfnaður að pissa þennan morguninn þegar ég tók eftir því að konan stóð og horfði á mig og sagði síðan höstuglega: Lærðirðu það þegar þú varst lítill að míga helminginn framhjá klósettskálinni og á gólfið eða tókstu það upp hjá sjálfum þér eftir að þú byrjaðir að búa. Fyrirgefðu elskan ég hef víst verið með úðarann á sagði ég og snarhætti að pissa sem aftur varð til þess að ég misti frá mér smá prump í leiðinni. Andskotans ósvífni er þetta sagði konan og var hin versta svona lagað gerir maður ekki í viðurvist annara, þú getur bara drullast fram í bílskúr ef þú þarft að vera að freta þetta. Engin er synd þótt búkurinn leysi vind sagði ég en fann að meira var að koma svo ég tók á sprett í áttina að bílskúrnum en komst reyndar ekki lengra en inn í garðskálann áður en ég þurfti að hleypa af. Á meðan velti ég því fyrir mér hvort ástandið væri orðið þannig þegar konan sæti á tolettinu að hún þyrði ekki að prumpa að ótta við að það kæmi loftbóla upp um vaskinn hjá Rússunum í kjallaranum. Þó þóttist ég vita að þetta væri bara lokahnykkurinn á kuldakastinu frá kvöldinu áður. Þegar konan hafði svo lokið við að athafna sig á tolettinu laumaðist ég þangað inn til að klára að pissa en konan hafði þá hengt upp skilti fyrir ofan klósettið sem á stóð: Stattu nær hann er styttri en þú heldur Þegar ég hafði svo keyrt konuna í vinnuna fór ég heim aftur og gerði smá mælingar í bílskúrnum og velti fyrir mér hvort ekki mætti skipuleggja svolítið tolett við hliðina vaskahúsinu í skúrnum. Ég ákvað þó að bíða eftir því að konan kæmi heim og kanna hvort kuldakastinu væri ekki örugglega lokið áður en ég bæri skipulagninguna undir hana því hún sagði nefnilega við mig þegar við fluttum: Hér verður ekkert skipulagt nema ég skipuleggi skipulagninguna.
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar