PÍS OF KEIK

Konan mín hefur þá bjargföstu trú að karlmenn geti alls ekki bjargað sér sjálfir svo mikið sem einn dag hvað þá fleiri.  Alveg frá því að við byrjuðum að búa hefur hún bannað mér að koma nálægt allri matargerð og heimilisstörfum yfirleitt því að hún er svo viss um að ég ráði ekki við það.  Hún hefur satt best að segja ekki getað hugsað sér að vera í burtu svo mikið sem eina einustu nótt frá okkur karlpungunum eins og hún kallar það því að hún er svo viss um að myndum verslast upp og deyja ef hennar nyti ekki við.  Ég hef í sjálfu sér ekki haft neitt við þessa tilhögun á heimilinu að athuga en hef þó stöku sinnum andmælt og sagt henni að ég gæti auðveldlega séð um mig og hundinn sjálfur í einn eða fleiri daga.  Þegar konan er svo ekki að sinna skyldum sínum sem húsmóðir þ.e. matbúa, taka til, sjóða sultur og fleira í þeim dúr,  situr hún og saumar heljar mikið veggteppi sem svo aftur á að prýða einn heilan vegg í húsinu okkar.  Það er bara einn galli þar á,  sem sagt inn í miðjunni á veggteppinu er eitthvað feikna mikið dúllerí sem krefst þess víst að maður kunni bæði kross og krúttsaum en eftir fjöldamargar tilraunir við dúlleríið varð konan að játa sig sigraða og viðurkenna að hún kynni ekki kross og krúttsaum.  Ekki gafst þó saumakonan upp heldur fór á netið og leitaði að öllu sem hún fann um kross og krúttsaum og viti menn,  næsta laugardag og sunnudag skyldi verða námskeið í kross og krúttsaumi í Reykjavík og átti það að standa langt frameftir laugardalskvöldinu og byrja svo eldsnemma á sunnudeginum og standa fram á miðjan dag.  Konan ætlaði í fyrstu ekki að fást til að fara á námskeiðið þar sem hún sá fram á að þurfa að gista í Reykjavík  og var alveg viss um að bæði karl og hundur myndu verslast upp og deyja við að þurfa að sjá um sig sjálfir í einn sólarhring.  Það var ekki fyrr en eftir miklar fortölur sem hún fékkst til að fara en fyrst þurfti hún þó að halda námskeið fyrir mig og Mola í eldhúsinu og var þar sérstaklega farið yfir hvernig á að nota örbylgjuofn sem er tæki sem ég hef alltaf talið mig kunna á,  bara stilla tímann og ýta á einn takka.  En við Moli komumst að því að það er meira en að segja það að stýra örbylgjuofni því á námskeiði konunnar kom fram að það er sko aldeilis ekki sama hvort maður er að hita lambaket, kjúkling eða fisk,  ó nei það er sko sér stilling fyrir hvern rétt fyrir sig og síðan að minnsta kosti fjórar undirstillingar fyrir hvern.  Ekki náði ég þessu nú öllu en treysti á að Moli myndi muna þetta ef á þyrfti að halda.  Á föstudagskvöldinu sagðist konan svo vera hætt við að fara hún hefði svo mikið samviskubit yfir því að skilja okkur eina eftir mig og hundinn.  En við Moli gáfum ekkert eftir og sögðumst sjálfir fara á kross og krúttsaums námskeið ef konan færi ekki því það yrði enginn andskotans friður á heimilinu fyrr en veggteppið væri búið og komið upp á vegg.  Þegar svo kom að því daginn eftir að konan þurfti að leggja af stað á námskeiðið fór hún einu sinni enn yfir það með mér hvernig best væri að lifa aðskilnaðinn af en tók síðan hundinn í fangið og síðan fór af stað eitthvað ferli sem ég skildi varla en hljómaði einhverveginn svona:

Ó kondu kondu elsku monsi sponsinn minn,  gúllí vúllí vúllí kondu til mömmu elsku monsi sponsu spíturassgatið mitt,  hver er langsætastur  af öllum dúllsi dúllsi krúsindúllu sponsinn minn. 

Skárri er það nú andskotinn hvernig látið er með hundinn hugsaði ég með mér,  ekki lætur hún svona við mig og síðan reyndi ég að rifja upp hvenær hún hefði síðast verið svona góð við mig en það eina sem ég mundi eftir var þegar hún sagði við mig fyrir tveimur dögum sínan:  Drattastu í bað það er táfýla af þér.  

Loks tókst okkur þó að koma kerlingunni út um dyrnar og þegar við höfðum lokað á eftir henni horfðum við hvor á annan við Moli og vissum báðir að nú var stund sannleikans upprunnin og kæmi nú í ljós hversu mikið starf það væri að vera húsmóðir. Við byrjuðum á að setjast inn í stofu og kveikja á sjónvarpinu og fljótlega fundum við leik til að horfa á og ég spurði Mola hvort ekki væri tilvalið að fá sér bjór yfir leiknum.  Hundurinn horfði á mig en sagði svo woff sem ég túlkaði undireins sem JÁ  svo ég skarpp fram í skúr og náði í einn kaldann.  Í hálfleik ákváðum við síðan að við værum orðnir svangir og kíktum því í eldhúsið.  Á eldhúsborðinu fundum við stafla af pönnukökum og svo fleiri í ísskápnum en þær voru með rjóma.  Einnig var diskur með flatbrauði í ísskápnum og eitthvað fleira með.  Við skófluðum í okkur þangað til við vorum vel mettir og hentum svo diskunum í vaskinn og litum hvor á annan.  Ekki var þetta nú erfitt sagði ég það er greinilega ekkert svo mikið mál að vera húsmóðir bætti ég við þegar við settumst aftur inn í stofu.  Á meðan við vorum að borða hringdi konan fjórum sinnum til að vita hvort allt væri ekki í lagi og við fullvissuðum hana um að ekkert amaði að okkur.  Þegar svo leið að kvöldmatnum vandaðist málið verulega því að á eldavélinni stóð fullur pottur af kjúkling í sósu með kartöflum og grjónum.  Það hafði nefnilega láðst að kenna okkur hvernig ætti að hita upp í örbylgjunni svona flókna máltíð með svona mörgu í en við ákváðum að gera bara eins og venjulega þ.e. stilla bara á 2 mín. og ýta á takkann.  Og viti menn allt gekk eins og í sögu og þetta varð hin ljúfengasta máltíð.  Ekki var þetta nú erfiðara sagði ég við Mola um leið og ég setti diskana í vaskinn.  Eftir matinn tók svo við annar kaldur og friðsæl leti yfir sjónvarpinu þangað til við gengum til náða laust eftir miðnætti.  Morguninn eftir gekk allt eins og í sögu ekkert mál að hella kornfleksi í skál og hella mjólk yfir.  Þegar konan kom svo heim um miðjan daginn varð hún hálf hissa að sjá okkur á lífi en þó fegin held ég,  alla vega fékk hundurinn slatta af “gúllí vúllí “ og hún minntist ekkert á að það væri táfýla af mér.  Við Moli höfum því komist að því að það er ekkert því til fyrirstöðu að konan taki framhaldsnámskeið í kross og krúttsaumi því það er nefnilega alveg eins og við vissum alltaf ekkert mál að vera húsmóðir það var eiginlega bara "PÍS OF KEIK."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hver fjárinn er í gangi hjá þér maður?????
Ég segi oft "gúllívúllí...........æ, ég man ekki hvað" við þig.....Þú ert bara alveg steinhættur að meðtaka það. Ég verð líka að viðurkenna að mér finnst æðiskrítið hve æstur þú ert í að koma mér að heima.......hvað er í gangi?
Ertu búinn að gleyma því sem ég setti í ísskápinn og var merkt "HÁDEGI LAUGARDAGUR, KVÖLD LAUGARDAGUR. MORGUNN SUNNUDAGUR (eins og það sé þörf á morgunmat á sunnudegi) HÁDEGI SUNNUDAGUR og KVÖLD SUNNUDAGUR.
Svo nefnir þú ekki þínar skrítnu hugmyndir varðandi nýja húsið...nefnilega að byggja yfir pallinn svo við getum komið öllum myndunum og KJARVALSMÁLVERKINU fyrir. Þú fékkst tilboð í mig sem þú tókst og munt fá klessuverk eftir meistara KJARVAL......neinei þú villt ekki ræða þessi viðskipti þín en reynir á alla lund að koma mér út fyrir dyrnar á heimilinu. Eftir að viðskiptin hafa farið fram þá getið þið Moli átt ykkur sjálfir og eldað þegar ykkur sýnist og gangi ykkur vel.

bloggefnið hans Snorra!!!!! (IP-tala skráð) 19.9.2006 kl. 18:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband