Bloggfærslur mánaðarins, maí 2006
31.5.2006 | 13:06
Ekki við bjargandi
Þó að kosningarnar séu nýafstaðnar og ekki ennþá vitað hverjir fara með stjórn bæjarins næstu fjögur árin þá er það alveg víst að kosningadagurinn á seint eftir að líða mér úr minni fyrir margra hluta sakir. Ég vaknaði með fyrra fallinu þennan fallega dag og sá eitthvað loðið á koddanum við hliðina á mér og hugsaði með mér að núna hefði konan hleypt hundinum upp í rúmm og þar sem þetta var nú merkisdagur gat ég ekki stillt mig um að klappa ræflinum á kollin og klóra greyinu aðeins bak við eyrun. Svona greyið mitt sagði ég svo með blíðutóni. Hvurn andskotann ertu að gera heyrðist þá í þessu loðna, þetta var þá konan sem lá á maganum og stóð ekkert út úr sænginni nema hárið. Ég reyndi að snúa mig út úr þessu og sagði ósköp rólega, ég var bara að vekja þig elskan mín og reis á fætur og fór að klæða mig. Þú ert ekki vanur að vekja mig með því að klóra mér á bakvið eyrun og kalla mig greyið þitt sagði konan og eitt máttu vita að ef þú ert farinn að taka feil á mér og hundinum þá líður ekki á löngu áður þið sofið saman tveir einir. Nei nei ég hélt bara að þig klæjaði sagði ég og skaust inn á bað. Konan horfði á mig grunsemdaraugum yfir morgunverðinum en ég reyndi að beina athyglinni að öðru og fór að ræða við hana um kosningarnar. Það kemur ekki til greina að þú farir að kjósa eitthvað til hægri sagði konan ákveðin, það er komin tími til að einhverjir fari að taka ábyrga afstöðu og hjálpi til við björgun þessa bæjarfélags, í dag verðum við Vinstri Græn. Alveg rétt elskan sagði ég það er komin tími til að þú bjargir bæjarfélaginu frá glötun, en undirniðri hugsaði ég GLÆTAN SKO. Konan þurfti að fara í vinnuna þennan dag þar sem rafvirkjar voru að störfum í bankanum svo ég hafði allan daginn til að hugsa um hvað ég ætlaði að kjósa en því meira sem ég hugsaði um það því óákveðnari varð ég. Þegar konan kom svo heim ákvað ég að skerpa aðeins hugsununina og tók tappan úr hálfullri Whisky flösku sem ég átti í barnum mínum góða og bauð að sjálfsögðu konunni staup líka. Konan afþakkaði staupið og þá minntist ég þess að allan tíman sem við höfum þekkst hef ég aldrei séð hana almennilega í kippnum. Hún hélt svo áfram að tuða um vinstri vænt og grænt og á endanum varð ég leiður á þusinu og sagði: Allt í lagi ég skal þá kjósa Vinstri Græna ef þú klárar úr flöskunni þarna. Ertu eitthvað bilaður maður sagði konan og horfði á mig með undrunarsvip. Nú ætlar þú ekki að bjarga bæjarfélaginu frá glötun og til þess þarftu atkvæði sagði ég og ýtti til hennar flöskunni. Heldurðu að ég ráði ekki við hana sagði konan og leit á flöskuna. Varla sagði ég en komst ekki lengra því hún svippaði tappanum af og það hvarf kvartari úr flöskunni niður í kokið á henni í einni bunu. Skömmu síðar gerði hún aðra atlögu að flöskunni sem enn lækkaði í og skellti henni svo á borðið, ropaði og sagði: Þetta er fyrirtaks garnahreinsari Ég flýtti mér að setja tappan á og sagði að við skyldum drífa okkur að kjósa áður en kosningavakan byrjaði í sjónvarpinu og fór upp á loft að skipta um föt. Ég var rétt að verða búinn að skipta um föt þegar dyrabjallan hringdi og úti fyrir stóðu maður og stúlka snyrtilega klædd í bláum úlpum og með töskur í hendinni. Ég þóttist þekkja að þarna væru nágrannar okkar sem eiga sér samanstað á horninu við götuna okkar en við höfum ekkert haft af að segja af fyrr en nú, en á horninu stendur safnaðarheimili Votta Jehóva. Ég er ekki frá því að ég hafi séð breytingu á konunni þegar hún kom kjagandi innan úr stofu þar sem hún hafði haldið áfram að glíma við flöskuna meðan ég skipti um föt. Eruð þið nokkuð frá Sjálstæðisflokknum spurði hún gestina höst, við viljum enga kosningasmala hingað þó við séum ekki ennþá farin á kjörstað. Nei nei við koma frá Guði sagði stúlkan og lyfti upp töskunni. Ég vissi nú ekki að hann væri í framboði sagði konan og klóraði sér í kollinum. Má við koma inn og tala við ykkur spurði maðurinn í dyragættinni. Nú eruð þið ekki Íslensk sagði konan, það væri svo sem eftir Sjálfstæðisflokknum að ráða einhverja Pólverja í kosningasmölun enda helmingurinn af flokknum á Vogi bætti hún við. Jæja komið inn en bara smástund við ætlum að fara að kjósa rétt strax sagði hún og bauð gestunum til sætis í eldhúsinu og skaust svo niður í stofu og sótti það sem eftir var í flöskunni. Má ekki bjóða ykkur dreitil af garnahreinsara sagði konan og skellti flöskunni á borðið. Stúlkan jesússaði sig þrisvar og greip í manninn sem sagði skelfingu lostinn: Nei takk við ætla að deyja heima Þið um það sagði konan Je-sjúss bætti hún við og fékk sér gúllara úr flöskunni, síðan greip hún pakka af sígarettum frá mér og rétti að fólkinu og sagði: Endilega fáiði ykkur þá eina rettu. Viðbrögðin við þessu voru nokkur jesúss í viðbót og það mátti sjá skelfingarsvipinn á fólkinu þegar maðurinn spurði: Má við biðja fyrir þér um leið og hann rétti heilan árgang af Varðturninum að konunni. Nei það þíðir ekki að biðja mig um neitt núna sagði konan hin versta en þið getið skilið eftir þessa kosningasnepla á borðinu sagði hún og tók við bunkanum af Varðturninum. Stúlkan og maðurinn sátu eins og lömuð við eldhúsborðið og virtust alveg slegin út af laginu en allt í einu birti yfir svip mannsins og hann seildist í töskuna sína og dró upp eyðublað og snéri sér að konunni og sagði: Þú kannski vilja koma til okkar, við kannski geta bjargað þér, þú bara skrifa hér og þá þú verða ein af okkur. Loksins er hér einhver með viti sagði konan, þau vilja hjálpa mér við að bjarga bæjarfélaginu frá glötun bætti hún við og skrifaði nafnið sitt og kennitölu á eyðublaðið sem henni var rétt. Stúlkunni og manninum lá nú skyndilega mikið á að komast út og um leið og þau skutust út um dyrnar réttu þau konunni afrit af eyðublaðinu sem hún hafði undirritað. Konan vildi nú ólm komast á kjörstað og hermdi upp á mig loforðið um að kjósa til vinstri því nú væri sáralítið eftir í flöskunni. Þegar við komum svo til baka og horfðum á kosningasjónvarpið sótti svefn á konuna og þegar það svo komu tölur úr Árborg hnippti ég í hana en þá varð hún hin versta og var skyndilega slétt sama um hvort tækist að bjarga bæjarfélaginu frá glötun eða ekki. Eftir að úrslit lágu svo fyrir gekk ég til náða og varð þá litið á eyðublaðið sem konan undirritaði fyrr um kvöldið og gat ekki annað en kímt í barminn en vil hér með óska þeim hjartanlega til hamingju nágrönnum mínum með nýjasta safnaðarmeðlim sinn og trúlega væntanlegan Æðstaprest. Þegar ég svo vaknaði daginn eftir var konan komin á fætur en eyðublaðið var horfið og þegar ég spurði eftir því kannaðist hún ekki við neitt og þegar ég áræddi að segja að það væri ekki víst að það tækist að bjarga henni ef eyðublaðið finndist ekki snéri hún upp á sig og sagði með þjósti: Sko þeir sögðu þó að það væri möguleiki á að bjarga mér en þeir minntust ekki einu orði á þig og ég veit sko alveg af hverju.
Þér er ekki við bjargandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2006 | 02:19
MIÐILLINN
Þar sem við búum á Selfossi skötuhjúin, fyrir utan á eins og það er kallað er heilmikið svæði við húshornið hjá okkur sem ekki stendur til að byggja á, heldur á að nýta það í annað. Konan hafði komist yfir nokkrar tillögur um skipulagningu svæðisins sem flestar gengu út á það að þarna verði útivistar og skógræktarsvæði með göngustígum og fíneríi í framhaldi af skógræktarsvæði Selfoss sem er aðeins lengra upp með ánni. Ein tillagan var þó öðruvísi því þar var gert ráð fyrir því að nýji kirkjugarðurinn á Selfossi verði við húshornið hjá okkur. Djöfull lýst mér vel á þessa tillögu sagði konan og veifaði teikningunni framan í mig, þetta yrðu drauma nágrannar þeir eru svo rólegir og ekki væri verra að geta trillað þér í hjólbörum fyrir húshornið og sturtað þér ofan í holuna þegar þar að kemur bætti hún við. Þú myndir kannski splæsa á mig blómvendi og krossi fyrir jólin sagði ég um leið og ég skoðaði teikninguna að nýja kirkjugarðinum. Það getur vel verið ef ég verð búin að skreyta snemma sagði konan og hélt áfram að skoða teikninguna. Konunni leist svo vel á þessa hugmynd að næstu daga talaði hún ekki um annað en dauðann og skipulagði jarðarfarir fram og til baka, þó aðalega mína. Það var svo tveimur dögum seinna kl. 6:30 að morgni að konan danglaði í mig og sagði ákveðin: Nú panta ég tíma hjá Miðli sagði hún, það er orðið tímabært að fá að vita hvað það er langt þangað til ég fæ líftrygginguna þína og svo er líka langt síðan ég hef spjallað við Krissu vinkonu þekkir þú ekki einhvern Miðil bætti hún við. Ég þekkti tvo en þeir eru báðir dauðir sagði ég og leyfðu mér og hinum dauðu að hvíla í friði tautaði ég og velti mér á hina hliðina. Já það er rétt elskan það er álíka mikið líf í þér og hinum dauðu sagði konan höst og friðurinn var úti þennan morguninn, konan fletti blöðunum og las símaskránna fram og til baka og hringdi símtöl í allar átti og fann loks eftir því sem hún sagði besta Miðil á Íslandi staðsettan í Keflavík. Síðan hringdi hún og pantaði tíma fyrir okkur og gaf skilmerkilega upp nöfn okkar og kennitölur og þegar hún lagði símtólið á aftur snéri hún sér að mér og sagði: Svo látum við eins og við þekkjumst ekkert þegar við förum og sjáum hvað kemur út úr því. Já það er náttúrulega það fyrsta sem Miðlinum datt í hug þegar þú gafst honum upp nöfnin og kennitölurnar okkar að þú værir að panta tíma fyrir þig og einhvern ókunnan karlmann úti í bæ áræddi ég að leggja til málanna en konan snéri uppá sig og sagði: Þú hefur ekkert vit á Miðlum frekar en svo mörgu öðru. Þegar dagurinn rann svo upp ókum við sem leið lá til Keflavíkur og mættum á tilsettum tíma til Miðilsins svo konan fengi að vita hvenær hún gæti vænst þess að fá líftrygginguna mína og hvað væri að frétta hjá Krissu vinkonu. Miðillinn sem var kona ræddi við okkur sitt í hvoru lagi og var afar elskuleg og hress og sagði fréttir að handan og komu þar ýmsir við sögu en merkilegast þótti mér þegar hún lýsti fyrir mér húsinu okkar og sagði að þeir fyrir handan segðu að það þyrfti aðeins að laga svalahurðina og 3 glugga þyrfti lítilsháttar að laga líka. Allt passaði þetta og ég velti fyrir mér hvort þeir vissu líka fyrir handan að ég hafði svikist um að sópa stéttina áður en ég lagði að stað. Konan gat hins vegar ekki leynt vonbrigðum sínum þegar hún kom út í bíl og tilkynnti mér að Miðillinn hefði tjáð henni að ég yrði 87 ára gamall. Það er ekkert hægt að stóla á þig frekar en fyrri daginn sagði hún og skipaði mér að aka austur fyrir fjall aftur. Þegar við svo sátum um kvöldið heima í stofu og biðum eftir því að LOST byrjaði í sjónvarpinu var konan afar hugsi yfir miðilsfundinum enda hafði Krissa vinkona sagt henni ýmislegt fróðlegt. Þetta er einstaklega merkileg gáfa miðilsgáfan sagði konan spekingslega að fá að spjalla svona við hina framliðnu. Já alveg rétt sagði ég og datt í leiðinni í hug að stríða konunni smá því ég hafði horft á þátt með Jay Leno kvöldið áður og þar mætti ein persónan úr LOST sem við vorum að fara að horfa á og þar fékk ég að vita að viðkomandi yrði ekki mikið langlífari í þáttunum og dauðdaginn væri skot í brjóstið. Það var engu líkara en ég fengi einhverja orku frá Miðlinum þegar við fórum sagði ég við konuna og núna finn ég einhvernveginn á mér að Ana Lucia verður skotin í þættinum í kvöld. Konan fussaði eitthvað en þó er ég ekki frá því að hún hafi horft á þáttinn með aðeins meiri athygli en venjulega. En Ana Lucia slapp við að verða skotin í brjóstið í þessum þætti og konan snéri sér að mér og sagði hæðnislega, það er nú meiri miðilsgáfan sem þú hefur maður. Tja ég kann bara ekki á þessa orku ennþá sagði ég dauflega en ég er samt viss um að hún verður þá skotin í næsta þætti eða þarnæsta. Konan flissaði og sagði, þú getur þá kannski sagt mér í leiðinni hvenær ég hitti hinn eina og sanna draumaprins. Það er nú auðvelt sagði ég þú ert nú búin að hitta hann og átt eftir að verða hamingjusöm til æviloka bætti ég við. Konan horfði á mig með augnaráðinu sem ég reyni oftast að forðast og sagði:
Þú ert lélegur MIÐILL
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2006 | 11:02
MÚVÍ STAR
Ég þurfti að skreppa til Reykjavíkur um daginn, þeirra erinda að panta mér gleraugu í virtri gleraugnabúð. Ekki það að mér finnist ég sjá eitthvað illa, heldur fór ég að fyrirmælum konu minnar sem heldur því fram að ég sé að verða staurblindur. Við sátum í makindum í sófanum heima um daginn þegar konan sagði upp úr eins manns hljóði. Þú ert alveg hættur að taka eftir mér. Hvað segirðu elskan mín, það er einmitt á hinn veginn ég hef verið sérstaklega eftirtektarsamur uppá síðkastið sagði ég en sá á svipnum á konunni að meira myndi fylgja á eftir. Jæja, þú getur þá kannski sagt mér hvað er breytt við mig frá því í gær sagði hún og hvessti á mig augun. Ég horfði á konuna og velti fyrir mér hvaða breytingar væru sjáanlegar á henni frá gærdeginum og sagði loks, ertu í nýrri blússu elskan. Ég skal bara láta þig vita það Snorri Þór að ég er búinn að eiga þessa druslu í þrjú ár og þú hefur oft séð mig í henni og löngu orðið tímabært að þú kaupir á mig nýja sagði konan og sérðu virkilega enga breytinu bætti hún við. Ég pírði augun og starði góða stund á konuna og missti loks út úr mér, hafa freknurnar minnkað elsku rúsínubollan mín. Og nú skall þrumuveðrið á fyrir alvöru, konan hélt langa tölu um hvað karlmenn gætu verið sljóir og eftirtektarlausir, þeir hugsuðu bara um fótbolta og bíla en tækju ekkert eftir því sem mestu máli skipti þ.e. konunni sinni og svo kallarðu mig bollu í þokkabót karlugla, ég er sko engin bolla skaltu vita, ég er í mesta lagi hnellin sérðu virkilega ekki að ég fór í klippingu og strípur og frá því að ég kom heim hef ég flögrað um stofuna eins og kynþokkafullt fiðrildi sagði konan. Ég reyndi að sjá fyrir mér konuna vængjaða og kafloðna fljúgandi um stofuna en var truflaður er hún bætti við, þú verður að láta athuga í þér augun maður þegar þú tekur ekki eftir svona augljósum hlutum. Að svo mæltu tók hún upp símann hringdi á Heilsugæslustöðina og pantaði tíma fyrir mig hjá augnlækni. Að sjálfsögðu mætti ég í tímann hjá augnlækninum sem heilsaði mér með handabandi og spurði hvað væri að hrjá mig. Ég sé ekki lengur hvað konan mín er kynþokkafull þegar hún flögrar um stofuna heima nýklippt með strípur sagði ég sem satt var. Það er einmitt það sagði augnlæknirinn, þetta er nú alvarlegasta tilfellið sem ég hef heyrt um í dag, komdu og sestu hér og kíktu í þetta tæki bætti hann við. Eftir heilmiklar mælingar og sjónpróf komst augnlæknirinn að sömu niðurstöðu og konan þ.e. að ég þyrfti umsvifalaust að fá gleraugu. Því var ég mættur í gleraugnabúðina og þar var mér tjáð að panta þyrfti glerin frá útlöndum og tæki það hálfan mánuð að fá þau send. Á leiðinni heim ákvað ég svo að koma við í Sparisjóðnum í Hveragerði og færa konunni þær fréttir að núna væri bara hálfur mánuður þangað til ég yrði alsjáandi og þá færi flögrið aldrei framhjá mér aftur. Í Sparisjóðnum var hinsvegar mikið um að vera, þar voru tveir menn með stóra kvikmyndatökuvél og heilmiklar græjur sem þeir beindu að konunni sem sat við borðið sitt skælbrosandi og taldi peninga í gríð og erg. Ég náði engu sambandi við konuna til að segja henni fréttirnar því hún snérist eins og skopparakringla í kringum kvikmyndatökumennina og á endanum ýtti hún mér út fyrir dyrnar og sagði mér að vera ekki fyrir. Ég forðaði mér heim á leið og þegar konan kom svo heim undir kvöldmat tjáði hún mér að hún væri orðin MÚVÍ STAR í heilmikilli heimildarmynd sem verið væri að gera um Hveragerði. Ég óskaði henni að sjálfögðu til hamingju með upphefðina og bætti við að nú væri bara hálfur mánuður þangað til ég fengi gleraugun og þá myndi ég loksins sjá hana í réttu ljósi. Það er nú ekki víst að ég verði hérna þá sagði konan grafalvarleg, þeir verða kannski búnir að koma auga á mig í Hollywood og bjóða mér hlutverk. Ég hugsaði mig um smástund hvort það væri algengt að heimildarmyndir um Hveragerði væru sýndar í Hollywood en sagði það eitt að ef hún yrði farin út þá gæti ég allavega notað gleraugun til að horfa á heimildarmyndina svo ekki hefði ferðin verið til ónýtis. Ef hinnsvegar svo ólíklega fer að heimildarmyndin um Hveragerði verði ekki sýnd í Hollywood og konan verði ennþá á Íslandi þegar ég fæ gleraugun þá get ég varla beðið með að tylla þeim á nefbroddinn og sjá loksins í réttu ljósi þegar það flögrar um stofuna heima: " Hnellið og kynþokkafullt MÚVÍ STAR "
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.5.2006 | 11:07
MAMMA BORGA
Seinni vika okkar hjónakorna í sólinni var nú hafin og var dagskráin í grófum dráttum þannig að við fórum niður um kl 9:00 á morgnanna og fengum okkur morgunverð og lögðumst síðan í sólbað í sundlaugargarði hótelsins og flatmöguðum þar fram að heitasta tíma dagsins eftir hádegið. Ég hélt alltaf að ég hefði ekki þolinmæði í það að liggja í sólbaði en komst að því að það má ýmsu venjast, sérstaklega þegar Þýsk blómarós gengur um klædd nákvæmlega eins og Heiða úr bókinni góðu með flétturnar og allt það, og tók niður pantanir á Sangriu og bjór og þess á milli bauð hún fólki í Ping Pong, billjard og fleira. Á kvöldin stjórnaði Heiða síðan skemmtidagskrá á hótel barnum sem fólst aðallega í því að halda Bingó og karókí fyrir ferðamennina og eftir að konan vann einhverja forljóta drykkjarkrús í Bingó þá var náttúrulega aldrei sleppt úr Bingókvöldi eftir það, svo við þekktum því Heiðu orðið ágætlega enda bestu viðskiptavinir hennar bæði á sundlaugarbakkanum og á Bingókvöldunum. Eftir hádegið stóð svo valið um það að fara í verslunarferð enda stærsta Moll eyjarinnar við hliðina á hótelinu okkar eða fara að dæmi inndæddra og taka Siestu um heitasta tíma dagsins. Ég var eindreginn stuðningsmaður Siestunar en konan hafði meira dálæti á verslunarferðunum og seinni vikuna okkar var því tekin ein Siesta en farið í sex verslunarferðir. Konan hafði tekið sérstöku ástfóstri við skóbúð eina í Mollinu sem seldi reyndar líka veski og töskur og þar kom hún venjulega við í þessum ferðum okkar. Í einni af ferðunum hafði konan rekist á skópar sem hún bara varð að eignast og þegar ég hafði greitt reikninginn stakk konan upp á því að við myndum setjast á matsölustað og fá okkur eitthvað í gogginn og bætti því við að ég mætti fá einn bjór með enda var hún í besta skapi eftir skókaupin. Þegar við svo gengum um Mollið í leit að hentugum stað til að borða á þreif konan skyndilega í handlegginn á mér og kallaði, sjáðu maður, sjáðu þetta veitingahús, þeir eru með prinsessustóla og svona flottar blómaskreytingar á borðunum, þetta er greinilega klassastaður, hér borðum við sagði hún svo og eins og sú sem valdið hefur og hlammaði sér í einn prinsessustólinn. Meðan konan skoðaði matseðilinn kom svo þjóninn alveg óbeðinn og færði henni glas af Sangriu og komst hún þá á þá skoðun að þetta væri örugglega besta veitingahúsið á Kanaríeyjum. Þegar að bjórinn var svo borin fram í glasi með háum fæti var henni allri lokið og skyldi bara ekkert í því hvernig henni hefði sést yfir þennan klassastað fram að þessu. Eftir góðan forrétt og stærðar piparsteik á eftir var konan hin ánægðasta og pantaði Irish coffe handa okkur til að fullkomna nú máltíðina. Ég verð að viðurkenna að mér leið bara bærilega eftir þessar kræsingar og var að velta fyrir mér öðrum Irish þegar konan kallaði í þjóninn og bað um reikninginn. Þjóninn kom að vörmu spori með reikninginn, bugtaði sig og beigði um leið og hann setti reikninginn fyrir framan konuna og sagði hátt og skýrt á Íslensku. Mamma borga Ég tók eftir því að konan skipti litum og þjóninn var ekki fyrr farinn frá borðinu en hún hvæsti; Heldur þessi karlauli virkilega að ég sé mamma þín, hvurslags andskotans ósvífni er þetta, hér verður ekki étið aftur. Ætli það hafi nú bara ekki einhver Íslendingur kennt honum að segja þetta svona til gamans og hvað með prinsessustólana og blómaskreytingarnar áræddi ég að leggja til málanna. Þessir stólar eyðileggja í manni hrygginn urraði konan og þennan andskotans borðarfa hafa þeir örugglega fundið á ruslahaugunum bætti hún við meðan hún taldi pening úr veskinu sínu og ég sá á svipnum á henni að þjóninn þyrfti ekki að búast við þjórfé þennan daginn. Þetta er skítabúlla sagði konan og skellti peningunum á borðið og strunsaði út. Ég flýtti mér á eftir henni og lóðsaði hana umsvifalaust aftur inn í skó og töskubúðina en það var ekki fyrr en eftir góða stund og eitt skópar og handtösku að auki sem konan tók gleði sína á ný. Næst lá leið okkar niður á neðstu hæðina í Mollinu og þar fann ég búð sem seldi afskaplega fallega leðurjakka og stakk mér þar inn til að skoða. Þar var við afgreiðslu Indverji einn lítill sem greinilega hugsaði sér gott til glóðarinnar því hann sýndi mér hvern jakkann á fætur öðrum og fékk ég dálæti á einum öklasíðum frakka úr besta leðri í heimi eftir því sem Indverjinn sagði. Ég kallaði því í konuna til að fá nú álit sérfræðings á frakkanum. Mig hefur alltaf langað í svona síðan Gestapo frakka sagði ég við konuna, hvernig finnst þér hann. Konan viðurkenndi að frakkinn væri nokkuð fínn en leit svo á verðmiðann sem sýndi 700 evrur og fékk ákaft hóstakast. Þetta er alltof mikið sagði hún síðan ákveðin. Indverjinn litli sá greinilega í hvað stefndi og hver réði ferðinni því hann virti mig skyndilega ekki viðlits heldur snéri sér umsvifalaust að konunni og sagði. No no no special price for you from Iceland 400 euro sagði hann og skrifaði töluna á miða og sýndi konunni. Mamma borga bætti hann svo við skælbrosandi og þóttist viss um að hafa landað þessum viðskiptum. Ég leit á konuna og varð þegar ljóst að Móðurharðindin voru um það bil að helllast yfir Indverjan litla og gott ef ekki Indland allt svo ég svippaði mér úr frakkanum og afsakaði mig með því að hann væri heldur þröngur og við kæmum aftur seinna og lempaði konuna umsvifalaust aftur inn í skó og töskubúðina sem var nú að verða mitt helsta vígi í Mollinu. Konunni var aldeilis ekki runnin reiðin og sagði mér að vera ekki að þvælast einn í leðurjakkabúðir, það væri augljóst að Indverjinn hefði ætlað að svindla á mér, þessi litli tittur bætti hún við ekki nema tvær skítslengdir á hæð. Konan lét sér nægja eina handtösku í þetta sinn sem betur fer því hótelherbergið okkar leit orðið út eins og skó og töskubúðin góða enda konan búin að kaupa helming af því sem til var þar. Þegar konan fór svo daginn fyrir heimferð að pakka niður í töskurnar kom í ljós að farangurinn komst ekki allur fyrir. Ég skil bara ekkert í þessu sagði konan þær voru næstum tómar töskurnar þegar við fórum út. Ég sá að það væri best að segja fátt í þetta sinn svo ég jánkaði bara og sagði alveg rétt elskan það er bara eins og farangurinn hafi tútnað út í hitanum. Þegar konan hafði endurraðað þrisvar í töskurnar sagði hún ákveðin við mig, þú verður bara að skreppa og kaupa eina ferðatösku til viðbótar ég get ómöglega lokað þessari. En ef við setjumst bæði á hana kannski lokast hún þá sagði ég og eftir að hafa reynt þessa snilldarhugmynd mína tölti ég svo út og keypti tvær ferðatöskur því hin þoldi ekki meðferðina. Daginn eftir vorum við svo sótt á tilsettum tíma og ekið með öllu okkar hafurtaski á flugvöllinn og í rútunni skýrði fararstjórinn frá því að hver farþegi mætti hafa með sér 20 kg af farangri eða samtals 40 kg á hjón allt umfram það yrði að greiða yfirvigt fyrir. Konan fékk ákaft kvíðakast yfir því hvað töskurnar væru þungar og sá fram á stór fjárútlát á flugvellinum. Þegar þangað var komið náði ég svo í kerru og við ókum hafurtaskinu inn í flugstöðina og fórum í röðina til innritunar. Ég fann að það var komin tími á að losa mig við morgunbjórinn svo ég sagði konunni að ég ætlaði að spreppa á salernið og pissa en konan skipaði mér að vera í röðinni til að ganga frá yfirvigtinni. Blessuð hafðu ekki áhyggjur af þessari yfirvigt sagði ég og kyssti hana á kinnina, og um leið og ég skaust inn á salernið rétti ég henni veskið mitt og hvíslaði í eyrað á henni:
MAMMA BORGA
3.5.2006 | 13:51
HROTUBRJÓTURINN
Miðvikudaginn 12 apríl 2006 stóðu herra og frú Snorrason, nýgift og með þinglýsta erfðaskrá, ferðbúin á Keflavíkurflugvelli á leið til Kanaríeyja. Farkosturinn var spegilgljáandi Boing vél frá Icelandair en þar sem þetta var leiguflug hafði verið troðið í hana nokkrum sætum til viðbótar til að koma nú fleirum í sólina. Þar sem þetta var nú brúðkaupsferðin okkar vorum við sett í tvö af þessum viðbótarsætum sem sett höfðu verið fyrir framan hurðina á neyðarútganginum þar sem gengið var inn í vélina. Vélin rann af stað og maður dáðist af kraftinum í græjunni þar sem maður þrýstist aftur í sætinu og þegar vélin var rétt að byrja að lyfta sér skellti flugstjórinn henni niður aftur með tilheyrandi skelli og nauðhemlaði svo söng og vældi í öllu draslinu. Það var dauðaþögn í vélinni og hefði mátt heyra saumnál detta þangað til konan sagði upp úr eins manns hljóði
ÚPPS þar munaði nú litlu að það reyndi á erfðaskránna. Eftir góða stund tilkynnti flugstjórinn að hætta hefði þurft við flugtakið vegna þess að ljós sýndi að það væri opin hurð á vélinni. Þið megið geta upp á hvaða hurð var opin en eftir að hafa þurft að bíða á annan klukkutíma í vélinni meðan bremsurnar kólnuðu tilkynnti flugstjórinn að aftur yrði reynt. Nú ég harðbannaði konunni að fikta meira í hurðinni og gekk þá allt að óskum og við komumst loks í loftið og fimm tímum seinna heilsuðu Kanaríeyjar okkum með rigningu. Þar sem farið var að halla í miðnætti á eyjunni fórum við beint á hótelið okkar og sváfum úr okkur ferðaþreytuna og þegar við vöknuðum daginn eftir var komin sól og 26° hiti svo stefnan var tekin á ströndina. Ströndin var kjaftfull af fólki enda komið páskafrí hjá eyjaskeggjum og þeim virtist öllum hafa dottið það sama í hug þ.e. að fara á ströndina. Við gengum því eftir allri ströndinni í leit að eilítið friðsælli stað til að leggjast á til að fá nú einhvern lit á kroppinn enda var maður ennþá náfölur eftir athöfnina í vikunni á undan. Loks fundum við stað þar sem mun minna virtist um fólk og tókum því strauið þangað. En ástæðan kom fljótlega í ljós, risastórt skilti sem á stóð hingað og ekki lengra nema allsnakin gott fólk. Þetta var sem sagt nektarnýlendu partur strandarinnar og konan snarstoppaði og sagðist ekki fara einu feti lengra. Ég hafði hinns vegar komið auga á áhugavert skoðunarefni ekki langt frá og lagði því ríka áherslu á að við myndum nú reyna allt sem eyjan hefði upp á að bjóða. En konunni varð ekki þokað en hún sagði að ef ég vildi skoða þetta gæti ég labbað einn rúnt, hún myndi bíða og fá sér einn öl á meðan. Nú okkar maður svippaði sér úr og lagði af stað í skoðunarferð hálf hvítur að sjá innan um allt brúna fólkið sem þarna lá og þar sem sífellt fleiri áhugaverð skoðunarefni birtust varð rúnturinn heldur lengri en til stóð. Þegar ég kom svo til baka sagði konan snúðugt að þetta hefði verið eins og að sjá Ísbjörn kjaga um Hottintotta nýlendu enda búin að fá sér þrjá öl meðan hún beið. Konan tók þó gleði sína fljótlega aftur enda var næst farið í búðir og lék hún því á alls oddi þegar heim á hótel var komið. Ég var hins vegar farinn að iðrast göngunar á ströndinni þar sem sólbruni gerði vart við sig og það á versta stað!!
Meðan konan fór í sturtu laumaðist ég því til að hringja í neyðarnúmer sem fararstjórinn hafði látið okkur hafa í rútunni frá flugvellinum og spurði hvað væri áhrifaríkast við SVONA sólbruna. Eftir að hafa þulið upp nokkur smyrsl og fleiri ráð klykkti hann svo út með því að segja að þó væri allra best að kæla svona niður með hreinni jógúrt. Ég stökk því af stað og rétt náði fyrir lokun í nýlenduvöruverslun þarna rétt hjá og keypti eina dós af hreinni jógúrt sem ég fór með á hótelið og lagði frá mér á borðið meðan ég skrapp í kalda sturtu. Þegar ég kom fram aftur sat konan á rúmminu og sleikti út um og sagði. Æðislegt hjá þér elskan að kaupa jógurt og henti galtómri dósinni í ruslið. Nú voru góð ráð dýr, búið að loka búðunum og skoðunarferð um eyjuna kl. 8 morgunin eftir. Ég huggaði mig þó við það að ég hlyti að finna jógúrt í einhverju að litlu þorpunum sem átti að heimsækja í ferðinni. Daginn eftir var ekið af stað til fjalla og gerður stuttur stans hér og þar eins og venja er í svona ferðum en heldur hýrnaði þó yfir mér þegar fararstjórinn tilkynnti að næsta stopp yrði í bæ þar sem skoðuð yrði rommverksmiðja og kornvinnslustöð. Ég dvaldi góða stund í rommverksmiðjunni og þó sérstaklega lengi við tunnu með hunangsrommi sem var afar gott. Þegar ég svo slangraði yfir í kornvinnslustöðina var fararstjórinn að halda einhverja tölu um eitthvað mjölduft sem þar var í skál og þegar ég fór að skoða skálina stakk hún upp í mig fullri matskeið af duftinu og sagði mér að þetta væri VIAGRA duft þeirra þorpsbúa. Ekki veit ég hvort það var duftið eða rommið en ef maður hefði bara getað fundið eina helvítis dós af jógúrti þá hefði verið hægt að koma ýmsu í verk þann daginn. Áfram var ekið og upp að hæsta tindi eyjarinnar og síðasti áfangastaður átti svo að vera hellir einn mikill og sagði farstjórinn að í hellinum væri hægt að kaupa ýmsan varning og sérstaklega væri vinsælt olíusmyrsli sem gengi undir nafninu HROTUBRJÓTURINN. Þetta vakti sérstakan áhuga minn því aðeins átti að opna dósina í því herbergi sem sofið væri í og hroturnar áttu að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar með að kaupa krukku af þessu undrasmyrsli því konan á það nefnilega til að minna ískyggilega mikið á vélsög þegar hún sefur. Einn galli var þó á gjöf njarðar, það voru 300 tröppur niður í hellinn svo ekki var hlaupið að því að nálgast undrasmyrslið. Ég ákvað þó að fórna mér í verkefnið enda með svolítið nesti frá rommverksmiðjunni góðu í vasanum og þóttist því fær í flestan sjó. Ferðin niður var ekki svo slæm og hellirinn mikið undur, mörg herbergi sem breytt hafði verið í safn og eftir að hafa skoðað mig um góða stund kom ég svo af afgreiðsluborði við útgöngudyrnar. Og viti menn þar var HROTUBRJÓTURINN í stæðum og ég flýtti mér að grípa tvær dósir sem ég rétti stútungskerlingu sem var þar við afgreiðslu og fékk mér síðan hressingu frá rommverksmiðjunni meðan ég beið. Ekki hafði ég fyrr sopið á en kerlingarherfan sagði smakka og stakk upp í mig fullri skeið af sama mjölduftinu og ég hafði fengið í þorpinu góða. Ferðin upp tröppurnar 300 var því mun erfiðari en niðurleiðin hvort sem um var að kenna duftinu eða romminu og ég hugsaði með mér að það væri eins gott að undrasmyrslið virkaði. Þetta var lokaáfanginn í þessari skoðunarferð enda langt liðið á dag og eftir góðan kvöldverð á hótelinu og örlítið meiri hressingu frá rommverksmiðjunni gengum við til náða. Þegar konan var komin í rúmmið opnaði ég svo aðra krukkuna góðu með HROTUBRJÓTNUM og í ljós kom olíukennt hlaup með afar sterkri og góðri piparminntulykt. Leyfðu mér að sjá þetta sagði konan þar sem hún lá í rúmminu og fylgdist með mér. Ég ætlaði að rétta konunni krukkuna en rak í leiðinni tánna í ferðatösku sem lá á gólfinu og missti krukkuna og innihaldið gusaðist allt yfir konuna. Konan angaði eins og stór piparminntumoli í tvo daga á eftir og hún talaði heldur ekki við mig þessa tvo daga sem aftur gaf mér færi á að ná mér af sólbrunanum. Ekki hef ég hugmynd um hvaða efni þetta var í krukkunni en hitt get ég sagt ykkur að það hefur ekki múkkað í kerlingunni eftir gusuna svo að hann svínvirkar HROTUBRJÓTURINN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar