Færsluflokkur: Bloggar
29.12.2006 | 11:12
Ístrubelgurinn í Ólátagarði
Það var við kvöldverðarborðið heima í Miðtúninu núna í haust að það gerðist atburður sem næstum því kostaði mig lífið. Þarna sat ég í sælli ró með spússu minni og hundurinn lá á mottunni sinni og nagaði bein. Ég hafði eldað hrossaket og búið til þessa fínu kartöflumús og á meðan við borðuðum þá var ég að hugsa um hvað það væri nú yndislega kósí og rólegt að vera bara svona tvö ein heima. Ég heyrði útundan mér að konan var að segja eitthvað, en ég var svo mikið að reikna í huganum hvað það gætu verið mörg ár í það að allir grislingarnir væru farnir að heiman og hægt væri að skipta um skrá í kotinu og innsigla alla lykla nema tvo, að ég heyrði ekki hvað það var. Ég hrökk svo við þegar konan barði hnífnum í borðið og sagði hvasst: Hvernig er það karlpungur ertu alveg hættur að hlusta á það sem ég segi. Þú segir nú svo margt elskan mín sagði ég afsakandi en hvað varstu annars að segja bætti ég við eftir stutta þögn. Ég var að spyrja þig að því hvort þér fyndist hann Moli litli ekki hafa dafnað vel hjá okkur, nú er hann búinn að vera hérna í meira en ár og ég fæ ekki betur séð en hann blómstri alveg hjá okkur. Ég leit á hundinn sem lá og kjammsaði á beininu og varð að viðurkenna að það hefði ræst furðanlega úr ræflinum. Það er alveg rétt hjá þér elskan þetta er orðin fyrirmyndar hundur og ennþá er hann að læra sagði ég um leið og stakk upp í mig stærðar flís af hrossaketi. Já sagði konan og fyrst okkur hefur gengið svona vel að ala upp hundinn og við búinn að gifta okkur þá er þetta orðin spurning um að fara á næsta stig með þetta samband okkar og eignast barn. Og það var þá sem það gerðist, mér svelgdist hroðalega á, hrossakjötsbitinn sat fastur í hálsinum á mér og ég náði ekki andanum. Þegar ég svo fór að blána bankaði konan í bakið á mér en allt kom fyrir ekki. Ég sá þó einn ljósan punkt í þessu þegar ég var við það að missa meðvitund og það var það að ég þyrfti líklega ekkert að hafa áhyggjur af neinu barnastússi því ég yrði steindauður, en þá greip konan brauðbrettið og sló hressilega í bakið á mér og danglaði reyndar í hausinn á mér í leiðinni. Við þessar aðfarir hrökk hrossakjötsslumman upp úr hálsinum á mér og skaust út um munninn og alla leið fram á gang og lenti reyndar á mottunni hjá hundinum sem var ekki seinn á sér að gleypa dræsuna. Ég var nokkra stund að ná andanum og jafna mig en gat lokst stunið upp. Ertu orðin band sjóðandi vitlaus kona, viltu að við förum að eignast barn á þessum aldri og svo veit ég ekki betur en það sé hreinlega orðið líffræðilega óhugsandi þar fyrir utan. En bíddu nú við í gær eldaðir þú kjöt í karrý með Grjónum í fyrradag Grjónagraut og daginn þar á undan kjúkling með Grjónum, plís plís ekki segja mér að þú sért búinn að ættleiða kínverja án þess að láta mig vita af því. Láttu ekki eins og hálfviti sagði konan hryssingslega og horfði svo á mig nokkra stund áður en hún sagði: Finnst þér það virkilega svona óhugsandi að við eignumst barn, þú manst kannski ekki lengur hvernig þau eru búin til og þú ætlar þá kannski líka að hætta að lúlla hjá mér á nóttinni. Ég hugsaði mig um smá stund en lét svo bara flakka það eina sem mér datt í hug sem var limra eftir Pál S. Pálsson:
Í því húsi og hjá þér
er ég fús að lúlla.
Hagamúsin á þér er
eins og krúsindúlla
Hættu þessari vitleysu sagði konan, ég hafði ekki í huga að við förum að eignast barn með þessari venjulegu aðferð og við erum orðin of gömul til að fá að ættleiða frá Kína, ég er búinn að tékka á því bætti hún við. Og hvaða aðferð ætlar þú þá að nota spurði ég forviða, ætlar mín kannski að ræna leikskóla eða hvað. Nei nei svaraði konan mér datt bara í hug að við gætum gerst stuðningsforeldrar og hjálpað aðeins til í samfélaginu, mér skilst að það vanti sárlega fólk sem er tilbúið að létta undir með fjölskyldum sem þurfa þess með og ég veit að ég yrði fyrirtaks uppalandi enda alvön með bæði þig og alla grislingana okkar. Það sakar allavega ekki að kanna málið sagði hún svo og eftir að hafa rætt málið nokkra stund varð það úr að konan mundi athuga hjá réttum aðilum hvort það vantaði stuðningsforeldra. Nokkrum dögum seinna kom konan svo heim úr vinnunni og tilkynnti mér það að sárlega vantaði stuðningsforeldra og hún væri búinn að ganga frá því að við tækjum að okkur tvo drengi annan á leikskólaaldri og hinn á forskólaaldri sem yrðu hjá okkur nokkra daga í mánuði þ.e. ef tilsskilinn leyfi fengjust. Konan byrjaði á því að fara í viðtal hjá félagsmálayfirvöldum og þegar hún kom heim fékk ég fyrsta verkefnið sem sagt að sækja sakavottorð fyrir alla familíuna. Þegar ég afhenti konunni vottorðin frá Sýslumanni tilkynnti hún mér að næsta verk væri að mæta í læknisskoðun daginn eftir því læknisvottorð yrði að fylgja líka. Ég mætti hjá lækninum og settist fyrir framan hann hálf vandræðalegur en herti mig svo upp og sagði: Konan sendi mig við vorum að spá í börn. Á ég skil sagði læknirinn og þig vantar væntanlega litlu bláu pillurnar. Nei nei nei nei það er ekki þannig sagði ég við eigum fullt af börnum.
Á ég skil sagði læknirinn og þið viljið þá ekki fleiri, ertu að spá í ófrjósemisaðgerð.
Nei nei nei nei alls ekki sagði ég mig vantar bara svona vottorð til að fá lánaða nokkra grislinga þú veist svona vottorð um að kollurinn sé í lagi sko. Læknirinn horfði hálf furðulega á mig en spurði svo nokkurra spurninga og skrifaði svo vottorðið og rétti mér. Ég sat smástund og horfði á vottorðið en missti svo út úr mér: Jæja fyrst þú endilega villt þá tek ég slatta af bláu pillunum líka. Næsta skref var svo að félagsmálayfirvöld mættu heim til þess að skoða húsið okkar og fáeinum dögum seinna vorum við svo boðuð í viðtal þar sem við vorum spurð um allt mögulegt og ómögulegt sem viðkom barnauppeldi. Að þessu ferli loknu fengum við svo leyfisbréf upp á það að geta gerst stuðningsforeldrar. Þá var næsta skref að fara að hitta piltana sem ætluðu að dvelja hjá okkur öðru hvoru og allt gekk það ljómandi vel og tveimur dögum seinna fórum við svo og sóttum þá í fyrstu heimsóknina sína til okkar í Miðtúnið. Þegar heim var komið og við vorum að klæða okkur úr úlpunum benti sá yngri á magann á mér og sagði: Af hverju ertu með svona stóra bumbu. Þetta er svona Jólasveina-ístra sagði ég, það eru mörg ár síðan ég byrjaði að æfa mig í að verða jólasveinn og þá þarf maður að hafa ístru. Ístrubelgur, ístrubelgur kallaði sá stutti og hljóp inn í eldhús en ég leit á konuna en sagði ekkert því ég sá að henni var stólega skemmt. Henni var hinsvegar ekki jafn skemmt hálftíma seinna þegar húsið leit út eins og eftir loftárás og vænan jarðskjálfta að auki. Þessi fyrsta heimsókn þeirra bræðra kostaði heilmikla vinnu og þolinmæði og það var ekki laust við að karl og kerling í koti væru þreytt eftir þessa daga og hundurinn þurfti jú áfallahjálp. Eftir næstu heimsókn lagði ég svo til að við myndum breyta nafninu á húsinu úr Miðtúni 7 í Ólátagarður 7. Síðan hafa þeir bræður komið í nokkrar heimsóknir til okkar í Ólátagarð og ég verð að segja það að mikil breyting hefur orðið á, sá yngri kallar mig þó ennþá ístrubelg en húsið lýtur ekki lengur út eins og eftir loftárás og hundurinn þarf ekki lengur áfallahjálp. Ég dáist reyndar að konunni minni sem stjórnar öllu saman eins og henni einni er lagið. Hún mynnir reyndar mjög svo á Patton Hershöfðingja þegar hún stjórnar matmálstímum og tannburstun og öðru slíku. Þegar reynslutímanum sem allir aðilar fengu lauk var þess óskað að við framlengdum samninginn sem gerður hafði verið og eftir að við hjónakorn höfðum rætt málið fannst okkur það alveg sjálfsagt og konan sagði reyndar að vel kæmi til greina að gerast stuðningsforeldri fyrir fleiri börn og þegar ég maldaði í móinn og sagði þetta nú ágætt í bili sagði hún bara: Æ góði láttu mig bara um þetta því að þú ert jú þegar allt kemur til alls bara:
ÍSTRUBELGURINN Í ÓLÁTAGARÐI
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2006 | 14:29
T-34
Miðvikudaginn 22 nóvember s.l. sat ég í rólegheitum síðari hluta dags í notarlegum baststól í sólstofunni heima í Miðtúni og horfði út um gluggann, meðan ég beið eftir því að konan kæmi heim til þess að gefa mér að borða. Og ekki stóð á því að konan mætti, því skyndilega sá ég litla bláa Yarisin hennar koma á svo mikilli ferð fyrir hornið á götunni að það var með naumyndum að hún næði beigjunni og þegar bíllinn straukst við runnana sem standa við safnaðarheimili Vottanna fipaðist hún og sikk sakkaði heim í hlað og það munaði engu að hún strauaði afturendann á jeppanum þegar hún nauðhemlaði í hlaðinu heima. Hurðin á Yarisinum hentist upp og konan kom á fleigiferð eins og rússneskur T-34 skriðdreki nýjasta módel fyrir hornið á húsinu, spólaði síðan upp tröppurnar og útihurðin fór næstum því af hjörunum þegar frúin stormaði inn. Hún virti mig ekki viðlits heldur hrópaði í sífellu: Hvar er Mogginn, hvar er Mogginn. Síðan sá ég á eftir henni inn í eldhús þar sem blöðin flugu í allar áttir þangað til að hún fann Moggann og hlammaði sér þá í stól og grúði sig yfir blaðið meðan hún muldraði eitthvað sem ég heyrði ekki hvað var. Eftir að hafa lesið svolitla stund snéri hún sér við og sagði garfalvarleg. Það hafa orðið alveg hræðileg mistök, já alveg hræðileg og það versta við þetta allt er að það er of seint að leiðrétta þau. Hvað áttu við kona sagði ég steinhissa á öllum látunum, er nokkurntíma of seint að leiðrétta mistök. Já í þessu tilfelli sagði konan, mistökin urðu nefnilega á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum. Já ég á enga sök á þeim flýtti ég mér að segja og er Mogginn virkilega að skrifa um mistök sem urðu á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum. Nei sagði konan, mistökin eru að skrifa í Moggann. Hvað áttu við kona sagði ég og var nú orðin eitt spurningarmerki í framan. Já það er greinilegt að þegar ég lá á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum og átti þar stúlkubarn þá hefur orðið einhver ruglingur og ég hef verið send heim með vitlaust barn. Og nú er vitlausa barnið farið að skrifa greinar í Moggann bætti konan við og var greinilega brugðið. Og hvað er svona hræðilegt við það spurði ég varfærnislega er hún kannski að skrifa um móðurina og uppeldi sitt. Nei nei og aftur nei hrópaði konan, enda á hún uppeldinu það að þakka að hún skuli þó vera það sem hún er í dag. En hún er að skrifa um það að ekki megi virkja í Skagafirði, þetta sveitarfélag sem er eitt það verst stæða á öllu landinu má ekki virkja árnar sínar af því að hún vill að eitthvað lið sem er að druslast á gúmíbátum og kajökum þarna niður 3 mánuði á ári fái að hafa árnar út af fyrir sig. Samkvæmt þessari grein er þetta að verða eitthvert vinsælasta sport á Íslandi og helst vill hún neiða alla ferðamenn sem koma til landsins til að rattast niður einhverja sprænu í Skagafirði á einhverri gúmídruslu. Og helstu rökin fyrir þessu eru að það verði svo mikil margfeldisáhrif af þessu gúmítutlu dæmi að þeir sem selja gistingu og pulsur geta lifað af rekstrinum sínum þessa 3 mánuði á ári. Svo er Menntamálaráðuneytið búið að veita styrk til uppbyggingar á gúmítutlu skóla svo liðið fari sér nú ekki að voða. Svona er farið með skattpeningana okkar hrópaði konan og svo segir hún að það megi nota gúmítuttlurnar til náttúrutúlkunar, til að sýna liðinu hvernig árnar grafa sig ofan í bergið. Ég held að hún hafi nú grafið hausinn rækilega í sandinn í þetta skipti, hún er komin í lið með Ómari Ragnarssyni og því liði sem ég kalla umhverfisofstækismenn og eru á móti öllum virkjunum hvort sem um er að ræða skynsamlega nýtingu á náttúruauðlindum okkar eða ekki. Ef ég hitti einhverntíma þennan fjandans fæðingarlækni sem ruglaði grislingunum á fæðingardeildinni og sendi mig heim með vitlausan krakka skal ég svo sannarlega gefa honum eitt spítalavink æpti konan og var nú orðið svo heitt í hamsi að ég forðaði mér hið snarasta aftur inn í sólstofu því ég hef lært það að fenginni reynslu að maður deilir ekki við nýjasta módel af rússneskum skriðdreka gerð T-34 ..
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
21.6.2006 | 13:38
Hringdu kona, hringdu
Ég vaknaði einn morguninn í svitabaði eftir hræðilega martröð. Mig dreymdi að ég væri á gangi með stærðar barnavagn og í vagninum lá stúlkubarn klædd í bleikan galla. Í draumnum arkaði ég svo með vagninn heim á leið og þar tóku við bleyjuskipti og allskonar tilfæringar við að hita mjólk á pela. Ekki gat ég betur skilið í draumnum en ég ætti þetta barn og því ekki að furða þó ég hafi vaknað með andfælum og í svitabaði. Þið getið því gert ykkur í hugalund hvað mér létti þegar ég uppgvötvaði að þetta var bara draumur og það var bara hún Sólveig mín sem lá við hliðina á mér og var hvorki klædd í bleikt né með bleyju. Er ekki allt í lagi elskan mín sagði konan og snéri sér að mér, þú varst svo órólegur í nótt, þú reistir þig tvisvar upp og byltir þér á alla kannta. Það er ekki furða sagði ég, mig dreymdi að ég ætti ungabarn og var að trilla því í barnavagni í alla nótt og síðan tóku við bleyjuskipti og pelavesen. Þegar ég sá svipinn á konunni gerði ég mér ljóst að þegar maður er nývaknaður er best að steinþegja og segja hreint ekki neitt nema góðan dag svona fyrsta hálftímann. Hefurðu verið að gera eitthvað af þér sagði konan, hvaða lausaleikskróa vesen er á þér á nóttinni áttu kannski eitthvað sem ég veit ekki um. Auðvitað ekki sagði ég þetta var bara draumur og auðvitað varð ég skelfingu lostinn þegar ég átti skyndilega orðið ungabarn. Það er alltaf sama sagan með ykkur karlmennina sagði konan, ef þið eigið ekki lausaleikskróa þá dreymir ykkur um þá á nóttinni. Og með hvaða herfu áttirðu þennan grisling bætti hún við. Ég bara veit það ekki sagði ég það var ekki komið að því í draumnum og ef þér líður eitthvað betur þá var ég svikinn um getnaðinn líka. Gott á þig sagði konan ég vil geta sofið í mínu rúmmi á nóttinni án þess að það sé verið að halda framhjá mér við hliðina á mér. Kannski hefur þetta ekki verið mitt barn, kannski hefur þú verið orðin amma og ég bara verið að passa tautaði ég og fór að tína á mig spjarirnar. Það setti óstöðvandi hlátur að konunni og það var ekki fyrr en eftir góða stund sem hún sagði, það sjá nú allir sem einhverja glóru hafa í kollinum að það er gjörsamlega útilokað að ég sé orðin amma jafn ungleg og ég er enda er ég varla komin af barnsaldrinum sjálf. Já auðvitað sagði ég þetta var vanhugsað hjá mér, krakkarnir eru ekki nema 25, 22 og 18 ára og svo eitt örverpi komið að fermingu svo það er náttúrulega algjörlega útilokað að þú verðir amma í bráð. Og eitt skal ég láta þig vita að það verður sko ekkert pössustand á þessum bæ þegar ég verð orðin amma eftir mörg, mörg, mörg ár sagði konan, þegar þetta lið fer að eiga börn getur það bara passað sína grislinga sjálft ég má ekkert vera að standa í svoleiðis enda komið að því að við förum að slappa af og leika okkur. Get ég treyst því að þú standir við þessi orð þegar þar að kemur sagði ég hinn ánægðasti því draumurinn var svo raunverulegur að ég var að spá í hvort þetta geti verið fyrirboði um að það verði nú slys hjá einhverjum grislingunum og þú verðir amma á barnsaldri. Konan steinþagnaði og horfði á mig með skelfingarsvip en sagði svo: Það væri náttúrulega eftir þessum grislingum okkar að passa sig ekki og gera mig að ömmu löngu fyrir tímann, nei nú verður að taka í taumana og gera þeim það morgunljóst að það er dauðans alvara að fara að fjölga mannkyninu og svo er ég viss um að þau hafa ekki hugmynd um það hvað leikskólapláss kostar nú til dags. Síðan stormaði hún fram á stigapall og brunaði eins og eimreið niður stigann og greip símann. Ég skal sko kenna þessum grislingum tautaði hún meðan hún var að velja númer. Ég hljóp á eftir henni niður stigann og greip í hendina á henni og sagði: Heyrðu nú kona góð þú ferð nú ekki að hringja í krakkana klukkan átta að morgni til að brýna það fyrir þeim að passa sig og nota verjur er það nú ekki full langt gengið. Hvernig var það sagði konan varst þú ekki að ýta barnavagni í alla nótt í draumi og skipta á bleyjum og hita pela, var svona gaman hjá þér eða ertu strax búinn að gleyma því. Ég hugsaði mig um smástund og rifjaði upp drauminn og sleppti svo hendinni á konunni eins og ég hefði brennt mig og sagði:
Hrindgu kona, hringdu.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2006 | 13:44
Minningargrein
Það var einn laugardagsmorgunn fyrir ekki löngu síðan að ég vaknaði í seinna lagi við glymjandi hlátur sem virtist koma neðan úr eldhúsi. Ég bölvaði í hljóði yfir því að það væru komnir gestir og að þeir hefðu náð mér í bólinu. Ég klæddist því í snatri og kíkti fram á stigapall til að sá nú hver væri komin. En enga sá ég gestina en konan mín sat hins vegar við eldhúsborðið og hló og hló svo tárinn runnu niður kinnarnar á henni. Hvað er svona skemmtilegt í dag spurði ég um leið og ég gekk niður stigann til að fá mér morgunkaffi og kringlu. Eina svarið sem ég fékk var drynjandi hláturroka sem stóð yfir þó nokkra stund, og svo stundi konan upp: Ég er bara að lesa moggann. Það bregður nú eitthvað nýrra við ef mogginn er orðin svona skemmtilegur sagði ég, ekkert nema stríðsfréttir og pólitík og eitthvað þaðan af verra. Það kom önnur væn hláturroka frá konunni en að lokum stundi hún upp: Nei nei ég er bara að lesa minningargreinarnar. Hvað segirðu sagði ég hissa, finnst þér svona gaman þegar einhver deyr. Eftir eina væna hláturroku í viðbót stundi konan upp, nei nei það bara dó gamall kall fyrir vestan sem ég þekkti og það er svo yndislega skemmtilegar minningargreinarnar um hann. Æji bætti hún við, þeir kunna sko að skrifa minningargreinar þarna fyrir vestan það er sko ekkert lognmollu prump sem fer á prent frá þeim. Eftir að hafa skemmt sér góða stund til viðbótar við að lesa minningargreinar um gamla dauða kallinn að vestan varð hún svo skyndilega grafalvarleg og snéri sér að mér og sagði: Hvernig ætli hún verði nú minningargreinin um mig. Hvað áttu við elskan mín ertu nokkuð að fara að deyja sagði ég undrandi yfir þessari spurningu ertu nokkuð veik, villtu kannski að ég hringi í læknirinn fyrir þig. Þú þarft nú ekki að segja þetta með svona miklum vonarróm sagði konan með nokkurri þykkju og ég er sko ekkert veik, ég var bara að velta því fyrir mér hvað fólk muni skrifa um mig þegar ég dey. Það verður örugglega eitthvað fallegt sagði ég en ætli þér verði nú bara ekki nokk sama um hvað fólk skrifar þegar þú verður komin til þeirra þarna hinumegin, þú verður örugglega svo upptekin af að skemmta þér með gamla skemmtilega kallinum sem þú varst að lesa minningargreinarnar um bætti ég við. Jæja þú heldur að það verði eitthvað fallegt sagði konan þú villt þá kannski segja mér hvað þú myndir skrifa um mig ef ég myndi deyja á morgun. Ég hugsaði mig um nokkra stund og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að svara þessu alveg þangað til konan sagði snökkt: Þurrkaðu þetta fíflalega glott framan úr þér og hættu að vona, ég er ekkert að fara að deyja ég vil bara fá að vita hvað þú myndir skrifa sagði hún svo óþolinmóð. Ég sá að ég var að lenda í vandræðum svo ég flýtti mér að segja, ég verð nú svo upptekinn við að panta flottustu kistuna og skreyta kirkjuna með krönsum og blómum að ég veit nú bara ekki hvort ég hefði tíma til að skrifa eitthvað elskan mín. Það er einmitt það sagði konan þú hefðir sem sagt ekkert fallegt að segja um mig til að setja í minningargrein, það er svo sem eftir öðru bætti hún við stóð á fætur og fór græja sig í að steikja kjötbollur í hádegismatinn. Ég myndi sko skrifa fallega grein um þig sagði hún svo eftir nokkra stund. Jæja sagði ég þú ert nú að vestan svo það yrði þá væntanlega engin lognmolla í þeirri grein og gæti ég kannski fengið að heyra hvernig hún á að vera. Alveg sjálfsagt sagði konan og hugsaði sig um svolitla stund en sagði svo: Ég myndi segja að þú værir skapgóður, ljúfur og og og og barngóður kom svo eftir þó nokkra stund. Jahá sagði ég það er ekkert annað en mér finnst nú varla taka því að vera að setja þetta í minningargreinarnar í mogganum það væri nú nóg að kaupa smáauglýsingu fyrir þetta bætti ég við. Þetta er þó meira en þú gast gert sagði konan og benti á mig með kjötfarsskeiðinni. Tja ef ég þarf ekki að skrifa meira en þetta um þig þá gæri ég nú kannski fundið mér tíma til að setja það á blað sagði ég og minningargreinin um þig gæti þá verið einhvervegin svona: Hún fæddist fyrir vestan, flutti á Selfoss, eldaði kjötbollur og dó. Og ég bendi á að þessi minningargrein er að minnsta kosti 25% lengri en þín um mig sagði ég svo og klappaði konunni á bakið. Konan hugsaði sig um góða stund en sagði svo, þú hefðir nú getað sagt, eldaði góðar kjötbollur og dó, en ég held samt að ég verði að biðja þig um eitt bætti hún við. Ef að ég dey á undan þér þá vil ég að þú lofir mér því að láta þér nægja að sitja á fremsta bekk í kirkjunni en látir það alveg vera að skrifa um mig og birta í mogganum MINNINGARGREIN.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2006 | 10:16
Halelúja systir
Eftir að konan gerðist Halelúja systir á kosningadaginn hefur heimilislífið hjá okkur í Miðtúninu verið með svolítið öðrum blæ en ég hef átt að venjast hingað til. Til dæmis er hún alveg hætt að bjóða mér góðan dag en segir í staðin Í Guðs friði og ef ég svara ekki í sömu mynt fæ ég stranga áminningu um að sál mín komist ekki til himna og fái þaðan af síður að rísa upp á efsta degi. Þá er sálmasöngurinn yfir kvöldmatnum farinn að verða hálf þreytandi og tillaga mín um að poppa sálmana svolítið upp hefur ekki fengið hljómgrunn ennþá. Síðan er það bænalesturinn á rúmmstokknum áður en gengið er til náða, reyndar er hvað minnsta breytingin fólgin í þeim bænalestri því við karlmenn erum ekki óvanir svolitlum bænum á rúmmstokknum þó þær bænir séu jú reyndar oftast svolítið annars eðlis. Það hefur því ríkt blessaður friður í kotinu síðan á kosningadaginn, konan hefur að vísu breitt stærðar ullarteppi yfir barinn minn og ég hef ekki svomikið sem fengið að gjóa augunum þangað. Ég reyndi þó að benda konunni á að í öllum almennilegum söfnuðum væri tekið til altaris öðru hvoru og drukkið gerjað berjasaft sem kallað væri blóð krists og haft eitthvað snakk með. Þegar ég svo stakk uppá því að við heiðruðum Maríu mey einn daginn með því að taka teppið af barnum og fá okkur eina Blody Mary lá við að ég yrði endanlega bannfærður og konan snéri sér að mér hin versta og sagði að ég skyldi gera mér það morgunljóst að hér yrði ekki drukkið áfengi á næstunni heldur stundað kristilegt líferni af miklum krafti. Ég var samt ekki alveg viss um hvort hún meinti þetta 100% eða hvort hún var ennþá með móralska timburmenn eftir kosningadaginn. En þegar ég var sendur út í búð um daginn og snéri mér við í dyrunum og sá hvar konan lá á hnjánum úti í garði að reyta arfa og tína sprek þá varð mér skyndilega ljóst þvílíkur munur væri að búa á svona sannkristnu heimili og fannst eitthvað svo mikill friður og ró liggja í loftinu. Ég varð allt að því frómur og fann mig knúinn til þess að þakka Guði fyrir að hafa sent sendiboða sína til að gera konuna að Halelúja systur þó það þíddi ótímabundið bindindi fyrir mig. Svolítið dvaldist mér í ferðinni því ég þurfti að fara á nokkra staði því ég hafði ströng fyrirmæli um að kaupa nú haframjölið þar sem verðið væri hagstæðast. Þegar ég svo renndi í hlað heima með lang ódýrasta haframjölspakkann í bænum og opnaði dyrnar kom konan á harðahlaupum utan úr garði í fullum skrúða og veifaði arfaklórunni í gríð og erg. Mér rétt tókst að beygja höfuðið svo arfaklóran lenti ekki í yfirvaraskegginu en svo sagði konan með öndina í hálsinum. Hún ætlar að fara að byggja hænsnakofa og risastóra girðingu svo hún geti stripplast í heita pottinum. Hvað áttu við kona sagði ég steinhissa og bætti við Í Guðs friði í þeirri von að konan róaðist aðeins. Konan tjáði mér að hún hefði hitt nágrannakonuna úti í garði og hún hefði sagt sér að til stæði að byggja garðhýsi undir áhöld og einnig hefði hún sótt um leyfi til byggingarfulltrúa um að fá að girða af hjá sér lóðina því hún ætlaði að flytja heitapottinn til og setja hann í miðjan garðinn. Og svo vill hún hafa girðinguna yfir tvo metra bara til að geta stripplast í heitapottinum bætti konan við og ég vil ekki sjá þennan hænsnakofa fyrir utan stofugluggan hjá mér. Ég flýtti mér út í garð með málband og mældi í skyndi tilvonandi girðingarhæð og sá strax að maður myndi ekki sjá yfir hana svo ég snéri mér að konunni og sagði: Ég treysti því elskan mín að þú sjáir til þess að girðingin verði ekki svona há, við missum allt útsýni, hún verður að lækka um að minnsta kosti hálfan metra. Konan horfði á mig grunsemdar augum og sagði: Lækka um hálfan meter það er nú bara svo þú getir horft á hana stripplast góði er það ekki. Alls ekki sagði ég þetta er bara málamiðlun sem ég er að leggja til og stendur ekki í biblíunni að girðing sé granna sættir Í Guðs friði flýtti ég mér svo að bæta við eins frómur og ég gat þegar ég sá svipinn á konunni. Þú hefur ekki fokking vit á biblíunni sagði konan æst og þetta er ekki mál milli MÍN og HERRANS heldur milli MÍN og HENNAR bætti hún við og gjóaði augunum yfir í garð nágrannans. Síðan snéri hún sér við og svippaði teppinu af barnum mínum, greip flösku af garnahreinsara og benti mér á að setjast. Síðan tók hún tvö glös og setti á stofuborðið, hellti fullsterkum í og sagði með mikilli aðvöru að nú þyrfti að leggja á ráðin og bætti svo við með djúpu röddinni: Þau geta svo sem sett niður þennan andskotans hænsnakofa en þú mátt þá geta upp á hvar verður flottasta brennan um áramótin því fjandinn hafi það nú verður stríð og ég er hér með hætt að vera HALELJÚJA SYSTIR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
31.5.2006 | 13:06
Ekki við bjargandi
Þó að kosningarnar séu nýafstaðnar og ekki ennþá vitað hverjir fara með stjórn bæjarins næstu fjögur árin þá er það alveg víst að kosningadagurinn á seint eftir að líða mér úr minni fyrir margra hluta sakir. Ég vaknaði með fyrra fallinu þennan fallega dag og sá eitthvað loðið á koddanum við hliðina á mér og hugsaði með mér að núna hefði konan hleypt hundinum upp í rúmm og þar sem þetta var nú merkisdagur gat ég ekki stillt mig um að klappa ræflinum á kollin og klóra greyinu aðeins bak við eyrun. Svona greyið mitt sagði ég svo með blíðutóni. Hvurn andskotann ertu að gera heyrðist þá í þessu loðna, þetta var þá konan sem lá á maganum og stóð ekkert út úr sænginni nema hárið. Ég reyndi að snúa mig út úr þessu og sagði ósköp rólega, ég var bara að vekja þig elskan mín og reis á fætur og fór að klæða mig. Þú ert ekki vanur að vekja mig með því að klóra mér á bakvið eyrun og kalla mig greyið þitt sagði konan og eitt máttu vita að ef þú ert farinn að taka feil á mér og hundinum þá líður ekki á löngu áður þið sofið saman tveir einir. Nei nei ég hélt bara að þig klæjaði sagði ég og skaust inn á bað. Konan horfði á mig grunsemdaraugum yfir morgunverðinum en ég reyndi að beina athyglinni að öðru og fór að ræða við hana um kosningarnar. Það kemur ekki til greina að þú farir að kjósa eitthvað til hægri sagði konan ákveðin, það er komin tími til að einhverjir fari að taka ábyrga afstöðu og hjálpi til við björgun þessa bæjarfélags, í dag verðum við Vinstri Græn. Alveg rétt elskan sagði ég það er komin tími til að þú bjargir bæjarfélaginu frá glötun, en undirniðri hugsaði ég GLÆTAN SKO. Konan þurfti að fara í vinnuna þennan dag þar sem rafvirkjar voru að störfum í bankanum svo ég hafði allan daginn til að hugsa um hvað ég ætlaði að kjósa en því meira sem ég hugsaði um það því óákveðnari varð ég. Þegar konan kom svo heim ákvað ég að skerpa aðeins hugsununina og tók tappan úr hálfullri Whisky flösku sem ég átti í barnum mínum góða og bauð að sjálfsögðu konunni staup líka. Konan afþakkaði staupið og þá minntist ég þess að allan tíman sem við höfum þekkst hef ég aldrei séð hana almennilega í kippnum. Hún hélt svo áfram að tuða um vinstri vænt og grænt og á endanum varð ég leiður á þusinu og sagði: Allt í lagi ég skal þá kjósa Vinstri Græna ef þú klárar úr flöskunni þarna. Ertu eitthvað bilaður maður sagði konan og horfði á mig með undrunarsvip. Nú ætlar þú ekki að bjarga bæjarfélaginu frá glötun og til þess þarftu atkvæði sagði ég og ýtti til hennar flöskunni. Heldurðu að ég ráði ekki við hana sagði konan og leit á flöskuna. Varla sagði ég en komst ekki lengra því hún svippaði tappanum af og það hvarf kvartari úr flöskunni niður í kokið á henni í einni bunu. Skömmu síðar gerði hún aðra atlögu að flöskunni sem enn lækkaði í og skellti henni svo á borðið, ropaði og sagði: Þetta er fyrirtaks garnahreinsari Ég flýtti mér að setja tappan á og sagði að við skyldum drífa okkur að kjósa áður en kosningavakan byrjaði í sjónvarpinu og fór upp á loft að skipta um föt. Ég var rétt að verða búinn að skipta um föt þegar dyrabjallan hringdi og úti fyrir stóðu maður og stúlka snyrtilega klædd í bláum úlpum og með töskur í hendinni. Ég þóttist þekkja að þarna væru nágrannar okkar sem eiga sér samanstað á horninu við götuna okkar en við höfum ekkert haft af að segja af fyrr en nú, en á horninu stendur safnaðarheimili Votta Jehóva. Ég er ekki frá því að ég hafi séð breytingu á konunni þegar hún kom kjagandi innan úr stofu þar sem hún hafði haldið áfram að glíma við flöskuna meðan ég skipti um föt. Eruð þið nokkuð frá Sjálstæðisflokknum spurði hún gestina höst, við viljum enga kosningasmala hingað þó við séum ekki ennþá farin á kjörstað. Nei nei við koma frá Guði sagði stúlkan og lyfti upp töskunni. Ég vissi nú ekki að hann væri í framboði sagði konan og klóraði sér í kollinum. Má við koma inn og tala við ykkur spurði maðurinn í dyragættinni. Nú eruð þið ekki Íslensk sagði konan, það væri svo sem eftir Sjálfstæðisflokknum að ráða einhverja Pólverja í kosningasmölun enda helmingurinn af flokknum á Vogi bætti hún við. Jæja komið inn en bara smástund við ætlum að fara að kjósa rétt strax sagði hún og bauð gestunum til sætis í eldhúsinu og skaust svo niður í stofu og sótti það sem eftir var í flöskunni. Má ekki bjóða ykkur dreitil af garnahreinsara sagði konan og skellti flöskunni á borðið. Stúlkan jesússaði sig þrisvar og greip í manninn sem sagði skelfingu lostinn: Nei takk við ætla að deyja heima Þið um það sagði konan Je-sjúss bætti hún við og fékk sér gúllara úr flöskunni, síðan greip hún pakka af sígarettum frá mér og rétti að fólkinu og sagði: Endilega fáiði ykkur þá eina rettu. Viðbrögðin við þessu voru nokkur jesúss í viðbót og það mátti sjá skelfingarsvipinn á fólkinu þegar maðurinn spurði: Má við biðja fyrir þér um leið og hann rétti heilan árgang af Varðturninum að konunni. Nei það þíðir ekki að biðja mig um neitt núna sagði konan hin versta en þið getið skilið eftir þessa kosningasnepla á borðinu sagði hún og tók við bunkanum af Varðturninum. Stúlkan og maðurinn sátu eins og lömuð við eldhúsborðið og virtust alveg slegin út af laginu en allt í einu birti yfir svip mannsins og hann seildist í töskuna sína og dró upp eyðublað og snéri sér að konunni og sagði: Þú kannski vilja koma til okkar, við kannski geta bjargað þér, þú bara skrifa hér og þá þú verða ein af okkur. Loksins er hér einhver með viti sagði konan, þau vilja hjálpa mér við að bjarga bæjarfélaginu frá glötun bætti hún við og skrifaði nafnið sitt og kennitölu á eyðublaðið sem henni var rétt. Stúlkunni og manninum lá nú skyndilega mikið á að komast út og um leið og þau skutust út um dyrnar réttu þau konunni afrit af eyðublaðinu sem hún hafði undirritað. Konan vildi nú ólm komast á kjörstað og hermdi upp á mig loforðið um að kjósa til vinstri því nú væri sáralítið eftir í flöskunni. Þegar við komum svo til baka og horfðum á kosningasjónvarpið sótti svefn á konuna og þegar það svo komu tölur úr Árborg hnippti ég í hana en þá varð hún hin versta og var skyndilega slétt sama um hvort tækist að bjarga bæjarfélaginu frá glötun eða ekki. Eftir að úrslit lágu svo fyrir gekk ég til náða og varð þá litið á eyðublaðið sem konan undirritaði fyrr um kvöldið og gat ekki annað en kímt í barminn en vil hér með óska þeim hjartanlega til hamingju nágrönnum mínum með nýjasta safnaðarmeðlim sinn og trúlega væntanlegan Æðstaprest. Þegar ég svo vaknaði daginn eftir var konan komin á fætur en eyðublaðið var horfið og þegar ég spurði eftir því kannaðist hún ekki við neitt og þegar ég áræddi að segja að það væri ekki víst að það tækist að bjarga henni ef eyðublaðið finndist ekki snéri hún upp á sig og sagði með þjósti: Sko þeir sögðu þó að það væri möguleiki á að bjarga mér en þeir minntust ekki einu orði á þig og ég veit sko alveg af hverju.
Þér er ekki við bjargandi
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.5.2006 | 02:19
MIÐILLINN
Þar sem við búum á Selfossi skötuhjúin, fyrir utan á eins og það er kallað er heilmikið svæði við húshornið hjá okkur sem ekki stendur til að byggja á, heldur á að nýta það í annað. Konan hafði komist yfir nokkrar tillögur um skipulagningu svæðisins sem flestar gengu út á það að þarna verði útivistar og skógræktarsvæði með göngustígum og fíneríi í framhaldi af skógræktarsvæði Selfoss sem er aðeins lengra upp með ánni. Ein tillagan var þó öðruvísi því þar var gert ráð fyrir því að nýji kirkjugarðurinn á Selfossi verði við húshornið hjá okkur. Djöfull lýst mér vel á þessa tillögu sagði konan og veifaði teikningunni framan í mig, þetta yrðu drauma nágrannar þeir eru svo rólegir og ekki væri verra að geta trillað þér í hjólbörum fyrir húshornið og sturtað þér ofan í holuna þegar þar að kemur bætti hún við. Þú myndir kannski splæsa á mig blómvendi og krossi fyrir jólin sagði ég um leið og ég skoðaði teikninguna að nýja kirkjugarðinum. Það getur vel verið ef ég verð búin að skreyta snemma sagði konan og hélt áfram að skoða teikninguna. Konunni leist svo vel á þessa hugmynd að næstu daga talaði hún ekki um annað en dauðann og skipulagði jarðarfarir fram og til baka, þó aðalega mína. Það var svo tveimur dögum seinna kl. 6:30 að morgni að konan danglaði í mig og sagði ákveðin: Nú panta ég tíma hjá Miðli sagði hún, það er orðið tímabært að fá að vita hvað það er langt þangað til ég fæ líftrygginguna þína og svo er líka langt síðan ég hef spjallað við Krissu vinkonu þekkir þú ekki einhvern Miðil bætti hún við. Ég þekkti tvo en þeir eru báðir dauðir sagði ég og leyfðu mér og hinum dauðu að hvíla í friði tautaði ég og velti mér á hina hliðina. Já það er rétt elskan það er álíka mikið líf í þér og hinum dauðu sagði konan höst og friðurinn var úti þennan morguninn, konan fletti blöðunum og las símaskránna fram og til baka og hringdi símtöl í allar átti og fann loks eftir því sem hún sagði besta Miðil á Íslandi staðsettan í Keflavík. Síðan hringdi hún og pantaði tíma fyrir okkur og gaf skilmerkilega upp nöfn okkar og kennitölur og þegar hún lagði símtólið á aftur snéri hún sér að mér og sagði: Svo látum við eins og við þekkjumst ekkert þegar við förum og sjáum hvað kemur út úr því. Já það er náttúrulega það fyrsta sem Miðlinum datt í hug þegar þú gafst honum upp nöfnin og kennitölurnar okkar að þú værir að panta tíma fyrir þig og einhvern ókunnan karlmann úti í bæ áræddi ég að leggja til málanna en konan snéri uppá sig og sagði: Þú hefur ekkert vit á Miðlum frekar en svo mörgu öðru. Þegar dagurinn rann svo upp ókum við sem leið lá til Keflavíkur og mættum á tilsettum tíma til Miðilsins svo konan fengi að vita hvenær hún gæti vænst þess að fá líftrygginguna mína og hvað væri að frétta hjá Krissu vinkonu. Miðillinn sem var kona ræddi við okkur sitt í hvoru lagi og var afar elskuleg og hress og sagði fréttir að handan og komu þar ýmsir við sögu en merkilegast þótti mér þegar hún lýsti fyrir mér húsinu okkar og sagði að þeir fyrir handan segðu að það þyrfti aðeins að laga svalahurðina og 3 glugga þyrfti lítilsháttar að laga líka. Allt passaði þetta og ég velti fyrir mér hvort þeir vissu líka fyrir handan að ég hafði svikist um að sópa stéttina áður en ég lagði að stað. Konan gat hins vegar ekki leynt vonbrigðum sínum þegar hún kom út í bíl og tilkynnti mér að Miðillinn hefði tjáð henni að ég yrði 87 ára gamall. Það er ekkert hægt að stóla á þig frekar en fyrri daginn sagði hún og skipaði mér að aka austur fyrir fjall aftur. Þegar við svo sátum um kvöldið heima í stofu og biðum eftir því að LOST byrjaði í sjónvarpinu var konan afar hugsi yfir miðilsfundinum enda hafði Krissa vinkona sagt henni ýmislegt fróðlegt. Þetta er einstaklega merkileg gáfa miðilsgáfan sagði konan spekingslega að fá að spjalla svona við hina framliðnu. Já alveg rétt sagði ég og datt í leiðinni í hug að stríða konunni smá því ég hafði horft á þátt með Jay Leno kvöldið áður og þar mætti ein persónan úr LOST sem við vorum að fara að horfa á og þar fékk ég að vita að viðkomandi yrði ekki mikið langlífari í þáttunum og dauðdaginn væri skot í brjóstið. Það var engu líkara en ég fengi einhverja orku frá Miðlinum þegar við fórum sagði ég við konuna og núna finn ég einhvernveginn á mér að Ana Lucia verður skotin í þættinum í kvöld. Konan fussaði eitthvað en þó er ég ekki frá því að hún hafi horft á þáttinn með aðeins meiri athygli en venjulega. En Ana Lucia slapp við að verða skotin í brjóstið í þessum þætti og konan snéri sér að mér og sagði hæðnislega, það er nú meiri miðilsgáfan sem þú hefur maður. Tja ég kann bara ekki á þessa orku ennþá sagði ég dauflega en ég er samt viss um að hún verður þá skotin í næsta þætti eða þarnæsta. Konan flissaði og sagði, þú getur þá kannski sagt mér í leiðinni hvenær ég hitti hinn eina og sanna draumaprins. Það er nú auðvelt sagði ég þú ert nú búin að hitta hann og átt eftir að verða hamingjusöm til æviloka bætti ég við. Konan horfði á mig með augnaráðinu sem ég reyni oftast að forðast og sagði:
Þú ert lélegur MIÐILL
Bloggar | Breytt s.d. kl. 04:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.5.2006 | 11:02
MÚVÍ STAR
Ég þurfti að skreppa til Reykjavíkur um daginn, þeirra erinda að panta mér gleraugu í virtri gleraugnabúð. Ekki það að mér finnist ég sjá eitthvað illa, heldur fór ég að fyrirmælum konu minnar sem heldur því fram að ég sé að verða staurblindur. Við sátum í makindum í sófanum heima um daginn þegar konan sagði upp úr eins manns hljóði. Þú ert alveg hættur að taka eftir mér. Hvað segirðu elskan mín, það er einmitt á hinn veginn ég hef verið sérstaklega eftirtektarsamur uppá síðkastið sagði ég en sá á svipnum á konunni að meira myndi fylgja á eftir. Jæja, þú getur þá kannski sagt mér hvað er breytt við mig frá því í gær sagði hún og hvessti á mig augun. Ég horfði á konuna og velti fyrir mér hvaða breytingar væru sjáanlegar á henni frá gærdeginum og sagði loks, ertu í nýrri blússu elskan. Ég skal bara láta þig vita það Snorri Þór að ég er búinn að eiga þessa druslu í þrjú ár og þú hefur oft séð mig í henni og löngu orðið tímabært að þú kaupir á mig nýja sagði konan og sérðu virkilega enga breytinu bætti hún við. Ég pírði augun og starði góða stund á konuna og missti loks út úr mér, hafa freknurnar minnkað elsku rúsínubollan mín. Og nú skall þrumuveðrið á fyrir alvöru, konan hélt langa tölu um hvað karlmenn gætu verið sljóir og eftirtektarlausir, þeir hugsuðu bara um fótbolta og bíla en tækju ekkert eftir því sem mestu máli skipti þ.e. konunni sinni og svo kallarðu mig bollu í þokkabót karlugla, ég er sko engin bolla skaltu vita, ég er í mesta lagi hnellin sérðu virkilega ekki að ég fór í klippingu og strípur og frá því að ég kom heim hef ég flögrað um stofuna eins og kynþokkafullt fiðrildi sagði konan. Ég reyndi að sjá fyrir mér konuna vængjaða og kafloðna fljúgandi um stofuna en var truflaður er hún bætti við, þú verður að láta athuga í þér augun maður þegar þú tekur ekki eftir svona augljósum hlutum. Að svo mæltu tók hún upp símann hringdi á Heilsugæslustöðina og pantaði tíma fyrir mig hjá augnlækni. Að sjálfsögðu mætti ég í tímann hjá augnlækninum sem heilsaði mér með handabandi og spurði hvað væri að hrjá mig. Ég sé ekki lengur hvað konan mín er kynþokkafull þegar hún flögrar um stofuna heima nýklippt með strípur sagði ég sem satt var. Það er einmitt það sagði augnlæknirinn, þetta er nú alvarlegasta tilfellið sem ég hef heyrt um í dag, komdu og sestu hér og kíktu í þetta tæki bætti hann við. Eftir heilmiklar mælingar og sjónpróf komst augnlæknirinn að sömu niðurstöðu og konan þ.e. að ég þyrfti umsvifalaust að fá gleraugu. Því var ég mættur í gleraugnabúðina og þar var mér tjáð að panta þyrfti glerin frá útlöndum og tæki það hálfan mánuð að fá þau send. Á leiðinni heim ákvað ég svo að koma við í Sparisjóðnum í Hveragerði og færa konunni þær fréttir að núna væri bara hálfur mánuður þangað til ég yrði alsjáandi og þá færi flögrið aldrei framhjá mér aftur. Í Sparisjóðnum var hinsvegar mikið um að vera, þar voru tveir menn með stóra kvikmyndatökuvél og heilmiklar græjur sem þeir beindu að konunni sem sat við borðið sitt skælbrosandi og taldi peninga í gríð og erg. Ég náði engu sambandi við konuna til að segja henni fréttirnar því hún snérist eins og skopparakringla í kringum kvikmyndatökumennina og á endanum ýtti hún mér út fyrir dyrnar og sagði mér að vera ekki fyrir. Ég forðaði mér heim á leið og þegar konan kom svo heim undir kvöldmat tjáði hún mér að hún væri orðin MÚVÍ STAR í heilmikilli heimildarmynd sem verið væri að gera um Hveragerði. Ég óskaði henni að sjálfögðu til hamingju með upphefðina og bætti við að nú væri bara hálfur mánuður þangað til ég fengi gleraugun og þá myndi ég loksins sjá hana í réttu ljósi. Það er nú ekki víst að ég verði hérna þá sagði konan grafalvarleg, þeir verða kannski búnir að koma auga á mig í Hollywood og bjóða mér hlutverk. Ég hugsaði mig um smástund hvort það væri algengt að heimildarmyndir um Hveragerði væru sýndar í Hollywood en sagði það eitt að ef hún yrði farin út þá gæti ég allavega notað gleraugun til að horfa á heimildarmyndina svo ekki hefði ferðin verið til ónýtis. Ef hinnsvegar svo ólíklega fer að heimildarmyndin um Hveragerði verði ekki sýnd í Hollywood og konan verði ennþá á Íslandi þegar ég fæ gleraugun þá get ég varla beðið með að tylla þeim á nefbroddinn og sjá loksins í réttu ljósi þegar það flögrar um stofuna heima: " Hnellið og kynþokkafullt MÚVÍ STAR "
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.5.2006 | 13:51
HROTUBRJÓTURINN
Miðvikudaginn 12 apríl 2006 stóðu herra og frú Snorrason, nýgift og með þinglýsta erfðaskrá, ferðbúin á Keflavíkurflugvelli á leið til Kanaríeyja. Farkosturinn var spegilgljáandi Boing vél frá Icelandair en þar sem þetta var leiguflug hafði verið troðið í hana nokkrum sætum til viðbótar til að koma nú fleirum í sólina. Þar sem þetta var nú brúðkaupsferðin okkar vorum við sett í tvö af þessum viðbótarsætum sem sett höfðu verið fyrir framan hurðina á neyðarútganginum þar sem gengið var inn í vélina. Vélin rann af stað og maður dáðist af kraftinum í græjunni þar sem maður þrýstist aftur í sætinu og þegar vélin var rétt að byrja að lyfta sér skellti flugstjórinn henni niður aftur með tilheyrandi skelli og nauðhemlaði svo söng og vældi í öllu draslinu. Það var dauðaþögn í vélinni og hefði mátt heyra saumnál detta þangað til konan sagði upp úr eins manns hljóði
ÚPPS þar munaði nú litlu að það reyndi á erfðaskránna. Eftir góða stund tilkynnti flugstjórinn að hætta hefði þurft við flugtakið vegna þess að ljós sýndi að það væri opin hurð á vélinni. Þið megið geta upp á hvaða hurð var opin en eftir að hafa þurft að bíða á annan klukkutíma í vélinni meðan bremsurnar kólnuðu tilkynnti flugstjórinn að aftur yrði reynt. Nú ég harðbannaði konunni að fikta meira í hurðinni og gekk þá allt að óskum og við komumst loks í loftið og fimm tímum seinna heilsuðu Kanaríeyjar okkum með rigningu. Þar sem farið var að halla í miðnætti á eyjunni fórum við beint á hótelið okkar og sváfum úr okkur ferðaþreytuna og þegar við vöknuðum daginn eftir var komin sól og 26° hiti svo stefnan var tekin á ströndina. Ströndin var kjaftfull af fólki enda komið páskafrí hjá eyjaskeggjum og þeim virtist öllum hafa dottið það sama í hug þ.e. að fara á ströndina. Við gengum því eftir allri ströndinni í leit að eilítið friðsælli stað til að leggjast á til að fá nú einhvern lit á kroppinn enda var maður ennþá náfölur eftir athöfnina í vikunni á undan. Loks fundum við stað þar sem mun minna virtist um fólk og tókum því strauið þangað. En ástæðan kom fljótlega í ljós, risastórt skilti sem á stóð hingað og ekki lengra nema allsnakin gott fólk. Þetta var sem sagt nektarnýlendu partur strandarinnar og konan snarstoppaði og sagðist ekki fara einu feti lengra. Ég hafði hinns vegar komið auga á áhugavert skoðunarefni ekki langt frá og lagði því ríka áherslu á að við myndum nú reyna allt sem eyjan hefði upp á að bjóða. En konunni varð ekki þokað en hún sagði að ef ég vildi skoða þetta gæti ég labbað einn rúnt, hún myndi bíða og fá sér einn öl á meðan. Nú okkar maður svippaði sér úr og lagði af stað í skoðunarferð hálf hvítur að sjá innan um allt brúna fólkið sem þarna lá og þar sem sífellt fleiri áhugaverð skoðunarefni birtust varð rúnturinn heldur lengri en til stóð. Þegar ég kom svo til baka sagði konan snúðugt að þetta hefði verið eins og að sjá Ísbjörn kjaga um Hottintotta nýlendu enda búin að fá sér þrjá öl meðan hún beið. Konan tók þó gleði sína fljótlega aftur enda var næst farið í búðir og lék hún því á alls oddi þegar heim á hótel var komið. Ég var hins vegar farinn að iðrast göngunar á ströndinni þar sem sólbruni gerði vart við sig og það á versta stað!!
Meðan konan fór í sturtu laumaðist ég því til að hringja í neyðarnúmer sem fararstjórinn hafði látið okkur hafa í rútunni frá flugvellinum og spurði hvað væri áhrifaríkast við SVONA sólbruna. Eftir að hafa þulið upp nokkur smyrsl og fleiri ráð klykkti hann svo út með því að segja að þó væri allra best að kæla svona niður með hreinni jógúrt. Ég stökk því af stað og rétt náði fyrir lokun í nýlenduvöruverslun þarna rétt hjá og keypti eina dós af hreinni jógúrt sem ég fór með á hótelið og lagði frá mér á borðið meðan ég skrapp í kalda sturtu. Þegar ég kom fram aftur sat konan á rúmminu og sleikti út um og sagði. Æðislegt hjá þér elskan að kaupa jógurt og henti galtómri dósinni í ruslið. Nú voru góð ráð dýr, búið að loka búðunum og skoðunarferð um eyjuna kl. 8 morgunin eftir. Ég huggaði mig þó við það að ég hlyti að finna jógúrt í einhverju að litlu þorpunum sem átti að heimsækja í ferðinni. Daginn eftir var ekið af stað til fjalla og gerður stuttur stans hér og þar eins og venja er í svona ferðum en heldur hýrnaði þó yfir mér þegar fararstjórinn tilkynnti að næsta stopp yrði í bæ þar sem skoðuð yrði rommverksmiðja og kornvinnslustöð. Ég dvaldi góða stund í rommverksmiðjunni og þó sérstaklega lengi við tunnu með hunangsrommi sem var afar gott. Þegar ég svo slangraði yfir í kornvinnslustöðina var fararstjórinn að halda einhverja tölu um eitthvað mjölduft sem þar var í skál og þegar ég fór að skoða skálina stakk hún upp í mig fullri matskeið af duftinu og sagði mér að þetta væri VIAGRA duft þeirra þorpsbúa. Ekki veit ég hvort það var duftið eða rommið en ef maður hefði bara getað fundið eina helvítis dós af jógúrti þá hefði verið hægt að koma ýmsu í verk þann daginn. Áfram var ekið og upp að hæsta tindi eyjarinnar og síðasti áfangastaður átti svo að vera hellir einn mikill og sagði farstjórinn að í hellinum væri hægt að kaupa ýmsan varning og sérstaklega væri vinsælt olíusmyrsli sem gengi undir nafninu HROTUBRJÓTURINN. Þetta vakti sérstakan áhuga minn því aðeins átti að opna dósina í því herbergi sem sofið væri í og hroturnar áttu að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar með að kaupa krukku af þessu undrasmyrsli því konan á það nefnilega til að minna ískyggilega mikið á vélsög þegar hún sefur. Einn galli var þó á gjöf njarðar, það voru 300 tröppur niður í hellinn svo ekki var hlaupið að því að nálgast undrasmyrslið. Ég ákvað þó að fórna mér í verkefnið enda með svolítið nesti frá rommverksmiðjunni góðu í vasanum og þóttist því fær í flestan sjó. Ferðin niður var ekki svo slæm og hellirinn mikið undur, mörg herbergi sem breytt hafði verið í safn og eftir að hafa skoðað mig um góða stund kom ég svo af afgreiðsluborði við útgöngudyrnar. Og viti menn þar var HROTUBRJÓTURINN í stæðum og ég flýtti mér að grípa tvær dósir sem ég rétti stútungskerlingu sem var þar við afgreiðslu og fékk mér síðan hressingu frá rommverksmiðjunni meðan ég beið. Ekki hafði ég fyrr sopið á en kerlingarherfan sagði smakka og stakk upp í mig fullri skeið af sama mjölduftinu og ég hafði fengið í þorpinu góða. Ferðin upp tröppurnar 300 var því mun erfiðari en niðurleiðin hvort sem um var að kenna duftinu eða romminu og ég hugsaði með mér að það væri eins gott að undrasmyrslið virkaði. Þetta var lokaáfanginn í þessari skoðunarferð enda langt liðið á dag og eftir góðan kvöldverð á hótelinu og örlítið meiri hressingu frá rommverksmiðjunni gengum við til náða. Þegar konan var komin í rúmmið opnaði ég svo aðra krukkuna góðu með HROTUBRJÓTNUM og í ljós kom olíukennt hlaup með afar sterkri og góðri piparminntulykt. Leyfðu mér að sjá þetta sagði konan þar sem hún lá í rúmminu og fylgdist með mér. Ég ætlaði að rétta konunni krukkuna en rak í leiðinni tánna í ferðatösku sem lá á gólfinu og missti krukkuna og innihaldið gusaðist allt yfir konuna. Konan angaði eins og stór piparminntumoli í tvo daga á eftir og hún talaði heldur ekki við mig þessa tvo daga sem aftur gaf mér færi á að ná mér af sólbrunanum. Ekki hef ég hugmynd um hvaða efni þetta var í krukkunni en hitt get ég sagt ykkur að það hefur ekki múkkað í kerlingunni eftir gusuna svo að hann svínvirkar HROTUBRJÓTURINN
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2006 | 10:52
Litla stúlkan í lúðrasveitarbúningnum
Jæja þá er sólin og sælan búin að sinni, a.m.k. sólin, en áður en farið verður nánar út í ferðasöguna er kannski rétt að skýra aðeins tilurð ferðarinnar. Eins og komið hefur fram í grein hér að neðan hafði konan stungið uppá því að við hættum að lifa í synd og létum pússa okkur saman eins og sagt er. Ég sá fram á að frelsi mitt til athafna myndi stórlega skerðast við slíka stóraðgerð og varðist því fimlega um skeið. En eftir tveggja mánaða straff var mér öllum lokið og lét því undan þrýstingi, afar miklum þrýstingi og samþykkti aðgerðina með eftirtöldum skilyrðum.
1. Ekki kæmi til greina að Prestley myndi framkvæma athöfnina þ.e. þramm inn kirkjugólf væri ekki til umræðu.
2. Athöfnin yrði að vera einföld, öll skjöl afgreidd fyrirfram og fógeti myndi síðan hespa þessu af á 5 mín.
3. Höfð yrði til taks flaska af Hugrekkivatni ef þurfa þætti.
4. Til vonar og vara átti flaskan að vera a.m.k. 1 líter.
5. Að samkomulag yrði um að athöfnin færi fram í kyrrþey þ.e. ættingjum ekki gefin séns á neinu tilstandi.
Konan horfði á mig undarlegu augnaráði um stund þegar ég hafði árætt að setja fram þessa skilmála en samþykkti þá að lokum. Næstu daga á eftir var ég svo sendur í hinar ýmsu stofnanir til að afla alls konar vottorða og gagna sem konan sá síðan um að væru rétt útfyllt og sá einnig um að panta tíma hjá fógeta fyrir aðgerðina. Stóri dagurinn rann svo upp þann 5 apríl 2006 og konan vakti mig um áttaleytið og sagði að það væri komin tími á bað og að klæðast því við ættum að mæta hálf tíu hjá fógeta. Ég snéri mér á hina hliðina og sagðist ekki þurfa neitt fjandans bað ég ætlaði að sofa aðeins lengur. Þú verður allavega að þvo haus, pung og lappir sagði konan ákveðin og ýtti við mér. Verði þinn vilji tautaði ég og staulaðist inn á bað og var reyndar ferðbúinn vel fyrir tilsettan tíma. Þegar við renndum í hlað hjá fógeta snéri ég mér að konunni og sagði glottandi að það væri þó tilbreyting að mæta einu sinni hjá fógeta án þess að það yrði gert hjá manni fjárnám. Konan svaraði engu heldur snaraðist inn hjá fógeta og þar var okkur vísað upp á loft og þar tók á móti okkur lítil stúlka sem var íklædd einhverju sem líktist helst lúðrasveitar búningi. Litla stúlkan kynnti sig sem fulltrúa Sýslumanns og sagði okkur að hún myndi framkvæma aðgerðina. Eitthvað fannst mér stúlkan kunnugleg og þegar nánar var aðgáð reyndist þetta vera dóttir hans Sigurðar fyrrverandi Rúsínubúðasstjóra og fæddist yngismærin víst árið sem ég gifti mig í fyrsta sinn. Virðulegur fulltúinn vísaði okkur inn á skrifstofu og kvaddi til tvo votta og kveikti svo á hálfbrunnum kertisstubbi, dró síðan upp skjal og las einhverja rommsu og snéri sér síðan að konunni og spurði hvort hún ætlaði virkilega að ganga að eiga þennan mann. Konan horfði á mig um stund og umlaði svo eitthvað sem virðulegur fulltrúinn tók greinilega sem já, snéri sér síðan að mér og endurtók rulluna nema núna sleppti hún virkilega . Hikið á konunni varð til þess að ég hugsaði með mér: Jæja hún er þá ekki viss það er nefnilega það jáhá hugsaði ég síðan upphátt. Þá lýsi ég því hér með yfir að þið eruð gift sagði þá fulltrúinn. Konan kyssti mig á kinnina og dró svo upp úr veskinu sínu umslag og sagði glaðhlakkalega. Þá getum við þinglýst erfðaskránni elskan Það var þá sem það rann upp fyrir mér að í þessari ferð til fógeta hafði verið gert hjá mér ævilangt fjárnám og það af LÍTILLI STÚLKU Í LÚÐRASVEITARBÚNINGI.
PS. Ferðin til sólarlanda var sem sagt BRÚÐKAUPSFERÐ
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar