Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007
14.2.2007 | 15:05
JÚFFERTUKVÖLD
Alveg frá því að ég byrjaði að búa með konunni hef ég passað mig á því að vera ekki heima eitt kvöld í mánuði. Konan hefur ekkert við þá tilhöguna að athuga og reyndar rekur hún mig hreinlega að heiman þetta eina kvöld í mánuði, því þá er helgistund hjá henni, þ.e. þá mæta fáeinar feiknamiklar skonrotur í heimsókn til hennar með einhverja spotta og hnykla í poka og þetta kallast víst saumaklúbbur en ég hef nú bara kallað þetta júffertukvöld Konan bakar alltaf fyrir helgistundina heilmikið af skinkuhornum, hnallþórum og pönnukökum og stundum hef ég fengið bita af gúmmilaðinu þegar ég kem heim þegar öllu húllumhæinu er lokið. Stundum er líka boðið upp á Sherry eða Grand mariner og einn og einn bjór skolast víst niður líka. En ég hef semsagt passað mig á því að vera alls ekki heima meðan þessi athöfn stendur yfir og hef aldrei verið í neinum vandræðum með að finna mér eitthvað að gera á meðan. Það var svo einn morguninn að ég vaknaði við eitthvað skark í eldhúsinu og þegar ég kíkti fram stóð konan við eldavélina og söng hástöfum meðan hún hrærði í einhverju gummsi sem fór svo inn í bakarofn. Góðan daginn elskan mín söng konan þú mannst að það er saumaklúbbur í kvöld er það ekki. Og fari það og veri hugsaði ég með mér ég var búinn að steingleyma að að það væri júffertukvöld í kvöld hugsaði ég með mér en við konuna sagði ég einfaldlega: Auðvitað elskan mín hvernig ætti ég að geta gleymt því og ég skal lofa að vera hinumegin við Ölfusá í allt kvöld ég er nefnilega að fara til Reykjavíkur og kem ekki aftur fyrr en seint í kvöld hvort sem er. Þú verður samt að skreppa fyrir mig í ríkið áður en þú ferð sagði konan það er farið að vanta Sherry og bjór í barinn. Ég fór því og keypti Sherry og bjór áður en ég hélt sem leið lá til Reykjavíkur. Eftir að hafa útréttað það sem ég þurfti í Reykjavík og einn stuttan fund að auki var klukkan farin að ganga átta um kvöldið svo ég renndi austur á Selfoss aftur og brunaði beina leið heim í Miðtún. Ég stakk bílnum inn í bílskúr og um leið og ég opnaði hurðina inn í sólstofu heyrði ég skríkjurnar í samkomunni og uppgvötvaði þá að ég hafði steingleymt helgistundinni og saumaklúbburinn greinilega í stuði. Ég ákvað að reyna að laumast í gengum borðstofuna og inn í eldhús og þaðan ætlaði ég svo að reyna að laumast inn í svefnherbergi og láta fara lítið fyrir mér meðan þessi virðulega samkoma kláraði góbelínsauminn eða krosssauminn eða kontórstinginn eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þó er ég ekki frá því að það hafi verið meiri áhugi fyrir skinkuhornunum og Sherryinu en saumaskapnum. Ég átti bara tvö skref eftir inn í eldhúsið þegar einn samkomumeðlimurinn hrópaði upp: Nei sjáiði hver er kominn, er ekki maðurinn sem skúrar hjá henni Sólveigu mættur, þú er alltaf jafn hárprúður Snorri minn. Þetta fannst samkomunni afskaplega fyndið og þegar skríkjurnar hættu loksins bætti önnur við: Og það sést líka að þú ert ekki á neinu megrunarfæði hjá henni Sollu, saumar Seglagerðin utan á þig núna. Aftur varð mikil gleði í samkomunni en ég kunni nú ekki við annað en að heilsa kurteislega og eftir að hafa tuldrað eitthvað um að verðrið væri nú bara gott og færðin fín frá Reykjavík þar sem ég stóð þarna með Mola litla undir hendinni. Og er ekki krúttið hennar mömmu komið heim sagði þá konan og stóð á fætur og setti stút á munninn og kyssti hundinn rembingskoss en leit ekki á mig. Síðan snéri hún sér við og sagði: Vitiði það að ég hef heyrt að sumir hundar séu jafngáfaðir og eigendur sínir og ég er viss um að það er alveg rétt, Moli er alveg jafngáfaður og hann Snorri. Bíddu nú við hugsaði ég með mér er þetta hrós handa hundinum eða er hún að gera grín að mér. Eftir skríkjunum í samkomunni að dæma sem núna heyrðust áræðanlega yfir Ölfusá og langleiðina niður á Eyrarbakka var verið að gera grín að mér. Ég kunni nú ekki við að fara að rífast við konuna þarna fyrir framan virðulegar júfferturnar svo sagði bara ósköp rólega: Já ég sé að hér er mikið saumað en segið mér eitt sem mig hefur lengi langað til að vita. Hvað talið þið eiginlega um yfir saumaskapnum alveg heilt kvöld.
Ein júffertan setti upp mikinn spekingssvip en sagði svo: Þegar vel liggur á okkur þá leysum við lífsgátuna en þess á milli tölum við um hvað karlmenn eru miklir bjánar og það er sko aldrei neinn skortur á umræðuefni. Núna hreinlega hoppaði samkoman upp úr sófum og stólum af kæti yfir þessu orðum síðasta ræðumanns svo að ég ákvað að draga mig virðulega í hlé en sagði um leið og ég snéri mér við. Nú svo það er bara þannig ég hélt að þið væruð að ræða um nýjustu tísku í varalit, kinnalit, augnskuggum og meiki og því öllu sem þig kínið framan í ykkur til að verða sætar. Hvað áttu við þrumaði ein júffertan, til að verða sætar, ég skal bara láta þig vita það að flestar konur eru sætar og fallegar alveg frá fyrstu morgunstund. Það er mér ósköp vel kunnugt um sagði ég en og mér finnst það bara alveg hrikalega ósanngjarnt gagnvart ykkur hinum. Það varð dauðaþögn í stofunni og ósjálfrátt fór ég að mjaka mér aftur í áttina að bílskúrnum og var sem betur fer komin langleiðina þangað því skyndilega varð allt vitlaust. Yfir mig ringdi stoppunálum, heklunálum, prjónum og gott ef ekki fylgdi með einn klukkustrengur og um leið og mér tókst að komast inn í skúrinn skall skinkuhorn á dyrakarminum. Til vonar og vara batt ég aftur hurðina því ég heyrði óljóst hvað samkoman ætlaði að gera við mig fyrir ósvífnina og því full ástæða til neyðarúrræða. Ég flýtti mér svo að opna bílskúrsdyrnar og um leið og ég ók í loftköstum á brott lofaði ég sjálfum mér því að ég skyldi aldrei nei ALDREI gleyma því framar að vera í burtu þegar konan heldur
JÚFFERTUKVÖLD
7.2.2007 | 17:27
ELLIGLÖP
Þá er friðurinn aftur úti. Konan hefur sagt sig úr Framsókanarflokknum eftir stutta veru þar til þess að geta kosið vin sinn og nágranna Guðna Ágústsson í prófkjöri flokksins fyrir nokkru síðan. Hún heldur reyndar að ég sé skráður í Framsóknarflokkinn líka af því að ég kaus líka í prófkjörinu en það er mikill misskilningur hjá henni því ég fór einfaldlega á kjörstað, fékk afhent blað til þess að skrá mig í flokkinn og skrifaði umsvifalaust Jón Jónsson Flatey á blaðið og skilaði því og fékk samstundis afhentan kjörseðil til úrfyllingar. Hvort að það er til einhver Jón Jónsson í Flatey hef ég ekki hugmynd um en ef svo er þá er hann orðin skráður í flokkinn. Ég hef því ekki sofið neitt sérstaklega vel síðustu dagana enda löngum verið mjög á varðbergi gagnvart Framsóknarmönnum og að þurfa að sofa hjá einum slíkum var næstum því óbærileg tilhugsun. Ef maður náði samt smá kríu undir morgun þá átti konan það til að lauma hundinum upp í rúm til mín þegar hún fór á fætur svo maður var ýmist vakinn af Framsóknartrýninu sem maður svaf hjá eða hinu trýninu sem er reyndar öllu blautara. Ég bar konunni það á brýn að hún væri ekki nægjanlega stefnuföst í þessari pólitík sinni því hún gengi í flokkinn og svo úr honum aftur nokkrum dögum seinna en það eina sem hún sagði var: Ég veit ég er ekki nægjanlega stefnuföst. En ég get sætt mig við það. Það eina sem ég get ekki sætt mig við er skortur minn á stefnufestu. Ég er ennþá að reyna að skilja hvað hún átti við en það er sama hvað ég hugsa um það ég kemst ekki að neinni annari niðurstöðu en þeirri að svona djúpa speki skilji bara Framsóknarmenn. En nú er konan gengin úr flokknum og því get ég ekki lengur borið því við að ég tali ekki við Framsóknarmenn þegar rifrildi er í uppsiglingu og því er blessaður friðurinn sem ríkt hefur á heimilinu úti. Það var svo einn laugardagsmorguninn fyrir stuttu þegar við vorum með allt stóðið heima bæði börn og fósturbörn að dyrabjallan hringdi og konan fór til dyra. Á tröppunum stóð yngismær sem spurði eftir unglingnum á heimilinu sem er að verða þrettán ára. Nei hann er ekki heima sagði konan hann fór eitthvað áðan með vini sínum. Yngismærin hvarf við svo búið á braut og konan kom blaðskellandi inn í stofu og tilkynnti mér að pilturinn ætti orðið kærustu. Það er nú ekki víst að þau séu kærustupar sagði ég þau geta nú bara verið leikfélagar. En konan var viss í sinni sök og þegar pilturinn ungi kom svo heim skömmu seinna ásamt vini sínum var konan ekki sein á sér að kalla á hann inn í stofu og segja honum að það hefði komið stelpa að spyrja eftir honum áðan. Hí hí hí flissaði konan ertu kannski komin með kærustu og hvað heitir hún bætti hún við. Pilturinn horfði á okkur smástund en snéri sér svo að vini sínum og sagði: Hlustaðu ekki á þau, þetta eru " fornleifar " sagði hann og benti á okkur og hvarf við svo búið inn í herbergið sitt ásamt vininum. Fornleifar hrópaði konan, andskotans ósvífni er þetta, kalla mann fornleifar. Síðan stillti hún sér upp fyrir framan spegilinn sem hún var nýbúinn að kaupa í Míru og skoðaði sig smástund og sagði síðan: Það er eitthvað að þessum spegli, undanfarið sýnir hann ekkert nema miðaldra manneskju. Sá gamli var ekki svona ég held bara að ég setji hann upp aftur. Og það var þá sem það rann upp fyrir mér hvað væri í gangi. Þarna var komin skýringin á inngöngu og úrsögn konunnar í Framsóknarflokkinn ásamt ýmsu öðru skýtnu í hennar fari sem fjölskyldumeðlimir höfðu orðið vitni af síðustu vikur. Já þar sem hún stóð við spegilinn þessi elska rann það upp fyrir mér að konan var farin að sýna fyrstu einkenni sjókdóms sem kallast einfaldlega:
" ELLIGLÖP "
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar