Bloggfærslur mánaðarins, mars 2012
24.3.2012 | 23:17
Oft er flagð undir feikna spiki
11.3.2012 | 03:13
LÆKLÆKALÆKALÆK
Góður kunningi minn sem ég hafði hvorki séð né heyrt um nokkurt skeið bankaði óvænt uppá hjá mér um daginn, svona rétt til þess að segja hæ eins og hann orðaði það. Vitanlega bauð ég gestinum til stofu og þar sátum við og ræddum landsins gagn og nauðsynjar, ríkistjórn, forseta, biskup eða heilaga þrenningu. Talið barst síðan að tölvum og internetinu og tjáði vinurinn mér hann ætti orðið 790 vini á Facebook og hefði eiginlega ekki orðið tíma til að fylgjast með öllu sem færi þarna fram. Bíddu nú við sagði ég, var það ekki Ólafur Stefánsson sem sagði það að ef þú ættir 1000 vini á Facebook þá ættir þú í raun og veru enga vini. Jú en sjáðu til sagði vinurinn þetta er líka svo fjandi góður vefur til að kynnast kerlingum og komast á deit eða þannig. Ég nota þennan vef nú eiginlega eingöngu til að spila Poker sagði ég, maður getur spila um gervipeninga þarna þannig að maður tapar í raun og veru aldrei neinu. En annars hef ég þá skoðun á þessum vef að hann bókstaflega geti tekið yfir líf fólks og það beinlínis verður veikt ef það kemst ekki á Facebook a.m.k. tíu sinnum á dag. Svo er líka alveg ótrúlegt hvað sumir láta fara frá sér þarna inni á þessum vef og alltaf eru einhverjir sem læka og læka sem eins og aldrei sé morgundagurinn, sama hver vitleysan er. Ég skal nefna þér dæmi, kona sem ég þekki er með opið fyrir Facebook allan daginn þegar hún er í vinnunni og þegar hún kemur heim þá er strax hlaupið í tölvuna og beint á Facebook aftur. Hún hefur bitið það í sig að jörðin hætti að snúast og heimurinn farist ef hún sé ekki þarna öllum stundum til að læka og læka, skipta sér af öllu og engu þó aðalega öllu og skrifa misgáfulega athugasemdir sem hún trúir statt og stöðugt að allir vinirnir lesi. Ég get nefnt þér dæmi um hversu ótrúlegt þetta er. Ónefndur karlmaður sem hún er að eltast við leynt og ljóst setti inn status um að hann væri kominn með hrikalega ræpu og væri að drepast í rassgatinu og hvað gerist! Jú jú strax komið læk á ræpuna og lækalæk á rassgatið og að sjálfsögðu komment að auki. Skömmu síðar setur maðurinn inn status um að hann hafi kviðslitnað og sé að drepast í pungnum og þurfi í aðgerð. Nær samstundis kom frá konunni læk á kviðslitið, lækalæk á punginn og til að ítreka fyrri stöðu þá kom aftur læklækalæk á rassgatið og læklækalækalæk á ræpuna. Finnst þér þetta ekki smekklegt spurði ég svo vininn. Þetta fólk er veikt sagði vinurinn en eins og ég sagði þá er alveg hægt að komast á deit þarna ef maður er að leita eftir því en hvernig er það er það rétt sem ég var að heyra að þú og kerlingin ætlið að fara sitt í hvora áttina og hætta búskap saman. Rétt vinur sæll sagði ég við Moli erum á förum fljótlega og vera kann að ég biðji þig um lítilsháttar hjálp þegar að því kemur að við flytjum sagði ég. Aha sagði vinurinn, ég var nefnilega að spá í að af því að Valintínusarsdagurinn er á næsta leiti og við vorum að tala um Facebook þá veit ég að frænka mín sendi þér vinabeiðni þar um daginn og var að spá í að því að fyrst þú ætlar þessa leið hvort þú ættir ekki að senda henni Valintínusarkort bara svona í gamni og kannski gefa í skin að þú værir til í kaffibolla einhvertíma seinna meir ef hlutir æxluðust svo. Jedúdda malla mía stundi ég upp ertu orðin kolvitlaus karl, veistu ekki hvaða álit ég hef á öllum þessum bónda, konu og hvað þá einhverjum Amerískum Valintínusardögum. Allt saman eitt stórt samsæri hjá súkkulaði og blómaframleiðendum. Nei takk vinur sæll þetta er ekki fyrir mig. Spáðu nú í þetta sagði vinurinn og stóð á fætur og kvaddi með mestu virktum. Daginn eftir þegar ég svo skrapp í Rúsínubúðina þá var mér gengið framhjá rekkanum með öllum heillaóska, afmælis og Valíntínusarkortunum og staldraði aðeins við. Andskotinn hugsaði ég svo þetta var náttúrulega tómt bull í karlinum í gær en það sakar kannski ekki að kaupa eitt fjandans kort svona til að eiga til síðari tíma. Fyrir valinu varð kort með mynd af berrössuðum engli sem var að skjóta ör með hjartalaga oddi af boga. Áður en heimleiðis var haldið aftur þá þurfti ég að koma við á einum stað og þar áskotnaðist mér þessi forláta Whisky flaska eða algjör eðall eins og maðurinn sagði. Það var svo liðið á kvöld þegar ég opnaði eðalinn og þorði ekki annað en að hella ofurvarlega í glasið. Það heyrðist svona blúbb blúbb blúbb rétt eins og þegar jómfrú pissar í læk á fögru sumarkvöldi við dásamlegan fuglasöng. Ó Guð stundi ég þegar ég hafði bragðað eðalinn, þvílíkur drykkur, dásamlegt já hreint alveg dásamlegt. Nú það er skemmst frá því að segja að því meira sem jómfrúin pissaði því betur leið mér. Þegar ég skrapp svo fram úr stofunni rétt sem snöggvast þá sá ég hvar kortið með berrasaða englinum lá á kommóðunni í ganginum og staldraði við tók það upp og hugsaði með mér, þetta er nú helvíti laglegt kort og kannski það saki ekkert að hripa niður nokkrar línur eins og karlinn hafði lagt til, það ætti nú varla að farast himinn og jörð þó maður bulli eitthvað. Ég náði mér í skriffæri og settist við eldhúsborðið til að rita frænku vinar míns nokkrar línur en þá fór í verra. Ég mundi ekki með nokkru móti hvað frænkan hét og þurfti því að skjótast í tölvuna og logga mig inn á Facebook svo ég myndi nú ekki klúðra bréfinu strax við að skrifa utan á umslagið. Eftir að hafa rækilega gengið úr skugga um nafnið á frænkunni kom ég við í stofunni og lét jómfrúna pissa einu sinni enn til að hafa nú eitthvað hjartastyrkjandi meðan skriftir stæðu yfir. Þar sem ég hafði aldrei skrifað svona kort áður velti ég því fyrir mér hvað menn skrifuðu eiginlega í kortið en datt bara nákvæmlega ekkert í hug. Ég ákvað því að láta bara innsæið ráða, fékk mér gúllara af eðalnum og hóf skriftir og þær byrjuðu einhvernvegin svona.
Hávelborna náðuga ungfrú, fyrirgefið að ég skuli gerast svo djarfur eftir áeggjan frænda yðar að senda yður ofurlítinn pistil frá mínu fábrotna heimili. Eins og frændi yðar hefur réttilega bent á þá erum við þ.e. oss og þér komin vel yfir miðjan aldur, ekki það að ég sé að gefa í skin að þér séuð kominn á grafarbakkann, þvert á móti en þegar kallið loks kemur þá er ég viss um að sjálf jómfrú María guðsmóðir mun bera sál yðar til hásæta Drottins þar sem allar yðar mörgu syndir munu verða fyrirgefnar. Kortið var nú löngu búið og ég hafði neyðst til að sækja A4 blað til að koma því fyrir sem mér lá á hjarta en eftir aðra heimsókn í stofuna til að sækja hjartastyrkjandi þá er það sem á eftir fór í bréfinu frekar þokukennt í minningunni en ég er þó viss um að ég endaði þennan Valintínus á því að stinga uppá stefnumóti uppi í dívan í daufri birtu.
Þá er bara að póstleggja herlegheitin hugsaði ég svo og skellti frímerki á kortið sem nú innihélt líka A4 bréf með og að því að mér fannst ansi lagleg frumraun í Valintínusarkortsendingum. Kortið setti ég síðan í plasthulstur og skrifaði með stórum stöfum Pósturinn á miða sem ég límdi á og batt svo allt saman á hurðarhúninn. Þegar ég svo vaknaði daginn eftir fóru að renna á mig tvær grímur hvort þetta hefði nú virkilega verið góð hugmynd því ég mundi nú ekki alveg allt sem ritað hafði verið og hljóp því fram og kíkti á hurðarhúninn en of seint kortið var á bak og burt. Kannski hefur það fokið burt hugsaði ég vongóður en daginn eftir Valintínusardaginn rann upp stund sannleikans. Síminn hringdi og þegar ég svaraði var hrópað hinu megin á línunni. Ertu orðinn band sjóðandi vitlaus maður. það er allt vitlaust í famelíunni, þú sendir frænku minni kort og gefur í skin að ég hafi sagt að hún væri orðin eldgömul og jafnvel kominn á grafarbakkann og ekki var það svo betra sem á eftir fór. Vinurinn var nú gráti nær á meðan hann útlistaði að hann gæti ekki látið sjá sig í afmælum eða fermingarveislum svo lengi sem frænka lifði. Stilltu þig gæðingur sagði ég man ekki betur en ég hafi sagt þér að ég væri alfarið á móti þessum asnalegu dögum sem kallast hinum ýmsu nöfnum en það var bara fyrir þrábeiðni þína að ég sendi kortið. Já en fyrr má nú vera kjökraði vinurinn það er allt vitlaust út af þessu og mér er kennt um allt saman. Tja ég geri þá ráð fyrir því að stefnumótið uppi í dívan í daufri birtu sé líka fyrir bí sagði ég en það gerir líklega ekkert til, þú sagðir um daginn að ef maður hefði áhuga þá væri víst ekkert mál að komast á deit á Facebook en meðan að við jöfnum okkur á þessu þá getum við bara gert eins og hinir, bullað um allt og ekkert og ef einhver fær ræpu eða kviðslit þá er það bara:
LÆKLÆKALÆKALÆK
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar