Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2007
23.1.2007 | 15:17
PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM
Föstudaginn 19 janúar 2007 þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur einu sinni sem oftar og á heimleiðinni ákvað ég að heimsækja konuna í vinnuna og athuga hvort ég fengi ekki kaffibolla svona í tilefni Bóndadagsins. Það er ekkert kaffi til var það fyrsta sem konan sagði þegar ég kom inn í bankann, hér er alltaf svo mikið að gera að það er ekki tími til að hella uppá. Ekki var nú að sjá að það væri mikið að gera í bankanum því þær sátu þarna aleinar valkyrjurnar tvær sem þar vinna og hef ég þær helst grunaðar um að hafa drukkið allt kaffið sjálfar. Ég varð því að gera mér að góðu að kaupa kók í sjoppunni og meðan ég sat og sötraði það spurði vinnufélagi konunnar hvort ég fengi ekki blóm svona í tilefni bóndadagsins. Það skal ég láta þig vita að ef kerlingin kaupir handa mér vönd af Arfa þá þarf hún ekki að koma heim því það er skilnaðarsök sagði ég því ég hef megnustu andstyggð á öllum þessum bónda, konu, valíntínus, kvennafrídeginum og fl. ofl. dögum sem búnir eru til af blóma og súkkulaðiframleiðendum. En það er allt annað með góðan mat og pönnukökur og svoleiðis og meðal annara orða hvað er í matinn í kvöld elskan sagði ég og snéri mér að konunni. Bara það sem þú nennir að elda og vaska svo upp á eftir sagði konan og leit ekki einu sinni upp úr pappírshrúgunni. Ég hrökklaðist því út kaffilaus og með þau fyrirmæli að elda sjálfur á Bóndadaginn og fyrst uppvasksákvæðið fylgdi með þá skrapp í Bónus og keypti pulsur og pulsubrauð. Þegar að konan kom svo heim undir kvöldmat rétti hún mér lítinn poka og þegar nánar var að gáð reyndist vera í pokanum lítill hjartalöguð karamella sem límdur var á sleikipinni og utanum var bundinn einhver grein sem mynnti helst á mosaskófir eða eitthvað slíkt. Þetta eru ekki blóm sagði konan sigri hrósandi og þú sagðir ekkert um karamellur og sleikipinna bætti hún við og það ískraði í henni af ánægju yfir því að hafa fundið leið framhjá súkkulaði og blómabanninu. Ég byrjaði á ræðu um tilgangsleysi þessara daga en var truflaður af símhringingu og þegar ég svaraði spurði glaðhlakkaleg yngismær á hinum enda línunnar: Er þetta Snorri Snorrason. Jú sá er maðurinn hver spyr. Já ég er að hringja fyrir Guðna Ágústsson sagði yngismærin, það er prófkjör á morgun og hann bað mig að spyrja þig hvort hann gæti ekki treyst á þinn stuðning. Tja ég hef nú alltaf kunnað að meta það hjá honum Guðna hvað hann er bjartsýnn og ég vildi gjarnan sjá hann í efsta sæti listans hér í Suðurkjördæmi frekar en þennan Suðurnesjasnúð sagði ég en þar sem ég er nú flokksbundinn í öðrum flokki þá held ég að hann verði að vinna þetta án minnar hjálpar. Það er ekkert mál þó þú sért í öðrum flokki sagði yngismærin kokhraust þú gengur bara í Framsókn og getur svo sagt þig úr flokknum daginn eftir. Ég held fjandinn hafi það að það gangi ekki að vera í tveimur flokkum sagði ég en ef svo ólíklega fer að ég gerist Framsóknarmaður þá skal ég kjósa Guðna sagði ég og kvaddi. Puff sagði konan er nú kosningasmölun í gangi, það stóð nú til þegar ég var lítil að gera úr mér Framsóknarmann en það tókst ekki og nú hef ég barist gegn þessu í næstum 50 ár og látum þá bara reyna að hringja í mig ég skal sko láta þá heyra það. En síminn hringdi ekki aftur þetta kvöldið og eftir að húsbóndinn hafði eldað og vaskað upp á Bóndadaginn þá tók við sjónvarpsgláp uns gengið var til náða. Ég hafði það einhvernveginn á tilfinningunni þegar ég var að sofna að ég hefði verið plataður þennan Bóndadag og það með karamellu og sleikipinna.
Laugardagurinn 20 janúar 2007 byrjaði svo á því að ég var vakinn kl. 6:30 af ormunum í Ólátagarði sem vildu fá sinn graut og engar refjar svo ég mátti á lappir að smyrja brauð og elda graut. Þegar þeir pjakkar voru orðnir mettir kíkti ég inn til konunnar og bauð henni að koma og fá sér graut líka. Láttu mig vera grautarhausinn þinn sagði konan og breiddi sængina upp fyrir haus, þú og þinn grautur geta farið í rassgat á rostungi og ég ætla að sofa lengur. Ég flýtti mér að loka dyrunum aftur og hugsaði með mér að það yrði þá ófriður í lágmarki þennan morguninn. Þegar konan svo drattaðist á lappir undir hádegið var ég einmitt að lesa grein í Mogganum um prófkjör Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og spurði í sakleysi hvort hún ætlaði ekki að fara að kjósa vin sinn og nágranna á Langanesinu. Mannstu ekki þegar ég bannaði þér að láta hundinn heita Guðna Ágústsson af því að ég gat ekki hugsað mér að láta eitthvað Framsóknartrýni vekja mig á morgnanna sagði konan hvasst, skoðun mín á Framsókn hefur ekkert breyst og ég kýs ekki rassgat hvorki Guðna granna né neinn annan. Það stefndi því í nokkuð friðsælan laugardag og ég var að vonast eftir iðrunarpönnukökum frá konunni af því að ég var látinn elda og vaska upp á Bóndadaginn en það bólaði ekkert á þeim. Það var svo um fimmleytið að síminn hringdi. Á línunni var virðulegur bankastjóri hér á Selfossi sem kynnti sig og spurði um Sólveigu. Andskotinn ekki eru þeir farnir að rukka á laugardögum hugsaði ég meðan ég sótti konuna. Konan svarði og hlustaði nokkra stund á bankastjórann en sagði svo: Já þú segir það, Suðurland þarfnast mín, já ég skal athuga málið. Grafalvarleg lagði konan frá sér símann og snéri sér að mér og sagði með mikilli alvöru. SUÐURLAND ÞARFANST MÍN Já það hefur löngum verið vitað elskan mín að við getum ekki án þín verið hér á Suðurlandi sagði ég en hvað er annars í gangi. Jú bankastjórinn var að biðja okkur um að koma að kjósa hann Guðna, þeir halda að það geti orðið mjótt á mununum í prófkjörinu og við verðum að standa vörð um þingmennina okkar. En hvað með Framsóknartrýnið og allt það spurði ég rólega og horfði á konuna. Já en SUÐURLAND ÞARFNAST MÍN hrópaði konan og fór að klæða sig í kápuna og ég man nú ekki betur en að þú hafir ekki látið þig muna um að fara alla leið inn á Gæsavatnaleið þegar bíllinn bilaði hjá fyrrum bankastjóra í KB með þeim orðum að maður neitaði aldrei bankastjóra um greiða. Þar hitti konan á veikan blett því það hefur jú alltaf verið mottó hjá mér að maður neitar bankastjóra aldrei um greiða en sagði svo meðan ég klæddi mig í úlpuna: Andskotinn gátu þeir ekki látið einhvern annan hringja. Það sem síðan fór fram á örugglega eftir að halda fyrir mér vöku í langan tíma og ég gat ekki varist þeirri hugsun þegar ég um kvöldið kyssti Framsóknartrýnið sem lá við hliðina á mér í rúmminu að ég hefði verið:
PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM.
17.1.2007 | 12:29
KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL
Frú Sólveig sat við eldhúsborðið heima hjá sér í Miðtúninu eitt kvöldið fyrir skömmu síðan og las Morgunblaðið meðan hún beið eftir því að suðan kæmi upp á fiskisúpunni sem ætluð var til kvöldverðar. Allt í einu leit hún svo upp úr blaðinu og sagði glaðhlakkalega: Þetta er eins og ég hef alltaf vitað, aldur er engin fyrirstaða ef fólk ætlar sér bara að gera hlutina. Hér er ég að lesa um konu í útlöndum sem er komin vel á sjötugsaldur og var að eignast barn. Ertu ekki að djóka sagði ég er þetta ekki bara prentvilla ég trúi því nú varla að einhver kerlingarherfa hafi farið að eignast barn á þessum aldri. Ég er nú aldeilis hrædd um það sagði konan sigri hrósandi og bæði móður og barni heilsast vel. Guð minn góður sagði ég þetta ætti að vera bannað með lögum, hvað á að gera þegar barnið stækkar á að setja það á leikskóla eða vista það á ellhiheimilinu hjá mömmunni en reyndar er það kannski eini kosturinn við þetta að hún getur þá trillað því um í barnavagninum og gefið því brjóst í leiðinni. En barnaverndaryfirvöld ættu líka að koma að þessu máli því að þurfa að sjúga svona gamlar túttur verður örugglega efni í margra ára vinnu fyrir sálfræðinga þegar barnið stækkar. Tja kella má nú eiga það að það er kraftur í henni sagði konan og það er reyndar líka kraftur í karlinum sem kemur alltaf öðru hvoru í bankann til mín því hann er kominn á áttræðisaldur en er samt alltaf að gefa mér undir fótinn og reyna við mig. Hann vill fá mig fyrir konu og er alltaf að bjóða mér með sér í íbúðina sína á Spáni. Þetta er forríkur karl sem á fullt af eignum út um allt. Ég velti því fyrir mér smástund hvort þessi skyndilegi áhugi konunnar á öldruðu fólki stafaði nokkuð af því að hún á stórafmæli í apríl og hvort það væri nokkuð farið að fara á sálina á henni að ná þeim áfanga en áræddi þó að spyrja eftir stutta þögn: Á ég að skilja þetta sem svo að þú viljir skilnað eða hvað. Nei ætli það svaraði konan, ætli maður dandalist ekki með þér eitthvað lengur ef þú hagar þér almennilega. Þú ættir kannski að giftast karluglunni svo þú erfir allt góssið og ég get þá bara verið ástmaður þinn þangað til sá gamli hrekkur upp af sagði ég montinn yfir þessari frábæru hugdettu. Ha Ha Ha Ha konan skellihló góða stund en sagði svo með mikilli alvöru. Að eiga þig fyrir ástmann væri nú eins og að vera glorsvangur, eiga LÍTIÐ að éta og þurfa svo bara að gera gott úr öllu saman. En þegar ég sagði þeim gamla að ég væri gift þá bað hann mig að spyrja þig hvort þú værir ekki til í að sleppa mér ef þú fengir Kjarvalsmálverk í staðin. Hmmm sagði ég móðgaður yfir þessum viðbrögðum við þessari frábæru hugdettu minni, hvað er þetta Kjarvalsmálverk annars stórt. Ætlar þú að segja mér það Snorri Snorrason að þér svo mikið sem detti það í hug að skipta á mér og einhverju klessuverki eftir löngu dauðan kall hrópaði konan, ég hélt nú að þú værir löngu búinn að gera þér grein fyrir því hvurslags kostagripur ég er og hvar ætlar þú að finna aðra konu jafn skemmtilega og mig fyrir utan það að ég skipti aldrei skapi. Já það er rétt elskan þú skiptir aldrei skapi ert alltaf kolvitlaus tautaði ég ennþá hálf móðagaður. Hvað sagðirðu spurði konan hvasst. Ég sagði að þetta væri alveg rétt með skapið sagði ég til að halda friðinn því konan leggur nefnilega ríka áherslu á að við förum aldrei að sofa ósátt og því vökum við alltaf og rífumst áfram þegar eitthvað bjátar á. Eftir fiskisúpuna brá konan sér svo í heimsókn út í bæ en ég settist við sjónvarpið. Þegar konan svo kom heim var farið að halla í háttatíma og eftir að hafa sýslað eitthvað í eldhúsinu kom hún fram í stofu og kyssti mig á skallann og spurði hvort ekki væri rétt að fara að hátta. Ég kláraði að horfa á þáttinn sem var í sjónvarpinu en fór svo inn í rúm að hátta en konan var þá komin undir sæng og var að lesa í bók Ég skreið undir sængina og konan lagði frá sér bókina og tók utan um mig og spurði hvort það væri ekki allt í lagi. Ég velti mér á hina hliðina og breiddi sængina upp fyrir haus um leið og ég sagði. Það vona ég að þú sért glorsvöng því þú færð EKKERT að éta og reyndu svo að gera gott úr því. Þegar ég svo sármóðgaður var að festa svefninn gat ég ekki varist því að hugsa:
KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar