23.5.2013 | 06:30
666 !!!!
Í húsnæðinu sem ég bý núna í hér í Babílon eins og ég kýs að kalla höfuðborgina okkar verður ekki annað sagt en að vel sé hugsað um þá sem að í húsinu búa.
Í kjallaranum er bjútístofa sem er opin þrisvar í viku og þar er hægt að fá klippingu, rakstur, bæði hand og fótsnyrtingu og að sjálfsögðu permanent fyrir þá sem það vilja.
Á fyrstu hæð er svo matvöruverslun og setu og kaffistofa þar sem menn geta sest niður og spjallað um landsins gagn og nauðsynjar eða horft á hið gríðarstóra sjónvarp sem þar er. Einnig er á fyrstu hæð starfandi Djákni sem fólki er frjálst að spjalla við finni það hjá sér löngun til þess.
Ég hafði að vísu mínar efasemdir um að djákninn væri nauðsynlegur hér og stafar það alls ekki af því að ég sé ásatrúar heldur af allt öðrum ástæðum og reyndar tel ég núna að það sé alveg bráðnauðsynlegt að hafa hann og jafnvel fjölga þeim í tvo.
Þannig er mál með vexti að fljótlega eftir að ég flutti hingað tók ég eftir gamalli konu sem trillar hér um gangana og styður sig við einhverskonar göngugrind sem hægt er að tilla sér framan á og framan við handföngin er lítil hilla. Á hillunni liggur alltaf stór svört bók sem annaðhvort er innbundin skrifblokk eða svona stór dagbók og þar ofan á liggur svo alltaf gömul og slitin biblía.
Sú gamla situr oft í setustofunni og gluggar í biblíuna og þess á milli skrifar hún eitthvað í stóru svörtu bókina og passar sig á að enginn sjái hvað þar er ritað.
Það var svo um daginn þegar ég brá mér niður í matvöruverslunina að sú gamla sat þar á grindinni sinni og talaði af miklum móð í farsíma en á tungumáli sem ég hef ekki áður heyrt og virtist mikið niðri fyrir. Þarna kom inn maður sem greinilega þekkti staðhætti betur en ég því hann heilsaði þeirri gömlu kumpánlega.
Uss, Usss ekki tala við mig maður hrópaði sú gamla, sérðu ekki að ég er að tala við Jesú. Ha, nei ég vissi nú ekki að hann væri með síma svaraði maðurinn en sú gamla svaraði honum engu heldur horfði á hann grimmilega og skrifaði svo eitthvað í flýti í svörtu bókina áður en hún hélt áfram samtali sínu við Jesú.
Ég vissi heldur ekki að Jesú væri kominn með síma en þetta vakti óskiptan áhuga minn sérstaklega hvaða mál hún væri að tala þótt ekki dirfðist ég að yrða á þá gömlu meðan hún stóð í þessu langlínusamtali. Ég ákvað hinsvegar ef tækifæri gæfist síðar að reyna að laumast til að sjá í hvaða númer sú gamla hringdi til að fá samband við þá þarna uppi því ég hefði vissulega áhuga á ef ég er þá með rétta APPIÐ í símanum að reyna að ná sambandi og sjá hvort einhver talaði ekki Íslensku þarna uppi.
Tækifærið kom svo kvöld eitt þegar yfir mig helltist mikil kaffilöngun að ég rölti niður í setustofuna til að fá mér einn bolla og í setustofunni sat nokkur hópur fólks og horfði á spurningaþáttinn Útsvar á RÚV en sú gamla sat á grindinni sinni og gruflaði í biblíunni. Skyndilega greip hún svörtu bókina og pennann og tók að skrifa. Hann Bogi á nr. 5 blótaði þrisvar í morgun og tvisvar eftir hádegi tautaði hún og færði greinilega svo eitthvað fleira til bókar. Ég verð að hringja, verða hringja tautaði hún svo og tók upp símann. Ég stóð á fætur og þóttist ætla að bæta í bollann minn og teygði mig eins og ég gat til að reyna að sjá númerið sem sú gamla hringdi í en tókst aðeins að sjá hluta af því.
Nú upphófst samtal á þessari skringilegu mállýsku sem ég hef eins og áður er getið aldrei heyrt áður og eftir nokkra stund gerðist samtalið það hávært að það fór að trufla þá sem sátu við sjónvarpið og einhver kallaði og bað vinsamlegast um hljóð. Sú gamla spratt á fætur, greip biblíuna og stormaði með hana á lofti inn í setustofuna en eitthvað hefur blóðþrýstingurinn hækkað við sprettinn því skyndilega steinleið yfir þá gömlu og hún féll í gólfið og lá þar hreyfingarlaus. Ég hljóp til og lagði frúna á bakið og sá að hún andaði svo ekki hafði Jesú kallað hana til sín í þetta sinn. Eldri manni sem þarna sat brá hinsvegar mjög mikið við það að sjá þá gömlu detta í gólfið og reyndi að staulast á fætur en hvítnaði skyndilega upp og seig saman eins og poki og pompaði líka í gólfið. Það hafði jú liðið yfir karlinn líka og einhverjum þótti greinilega nóg um að fá þarna tvö yfirlið í einu og kallaði að það þyrfti að hringja strax í 112 og fá sjúkrabíla.
Væri ekki nær að taka símann hjá þeirri gömlu og hringja bara í redial og sjá hvort þeir þarna uppi kunna ekki einhver ráð lagði ég til en það fékk ekki hljómgrunn svo hringt var á sjúkralið í snatri.
Á meðan beðið var eftir sjúkraliðinu rankaði sá gamli við sér og við studdum hann í sófann og hann virtist fljótlega allur að braggast. Jæja Valdi minn sagði ég, fékkstu aðsvif, leið bara yfir þig vinur. Það leið sko ekkert yfir mig þrumaði karlinn og var hinn versti, ég fékk mér bara fékk mér smá blund.
Jæja Valdi minn sagði ég, heldurðu að það væri ekki ágætt að næst þegar að þú færð þér blund að þú gerir það í sófanum en ekki á gólfinu fyrir framan sjónvarpið. Þér kemur ekkert við hvar ég fæ mér blund sagði sá gamli og var hinn versti en greinilega hálf vankaður ennþá.
Nú fór sú gamla að rumska og um leið renndu vælubílarnir í hlað og inn stormuðu bráðaliðar með hjartastuðtæki og stórar töskur. Í ljós kom hins vegar að bæði ýsuhjúin voru ómeidd en rétt þótti þó að fara með þá gömlu á spítala til öryggis.
Daginn eftir þegar ég fór í kaffileiðangur seinnipartinn var sú gamla hinsvegar mætt aftur og sat á grindinni sinni með svörtu bókina sína og skrifaði í gríð og erg. Ég tók U beygju þegar ég kom auga á þá gömlu og flýtti með upp aftur því ég hef nefnilega mínar grunsemdir um þá gömlu því að mér tókst jú að sjá hluta af númerinu sem hún hringdi í kvöldið áður og þótt ég sé ásatrúar þá á ég frekar bágt með að trúa því að númerið hjá honum Jesú endi á 666 !!!!
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:52 | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Hmmm ætli það sé ekki endirinn á nr í neðra,gæti trúað því..Skemmtilegt blogg hjá þér kall eins og alltaf,haltu áfram
Guðný Einarsdóttir, 25.5.2013 kl. 14:32
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.