Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda
14.9.2017 | 03:13
Júdas Proppé
23.5.2013 | 06:30
666 !!!!
Í húsnæðinu sem ég bý núna í hér í Babílon eins og ég kýs að kalla höfuðborgina okkar verður ekki annað sagt en að vel sé hugsað um þá sem að í húsinu búa.
Í kjallaranum er bjútístofa sem er opin þrisvar í viku og þar er hægt að fá klippingu, rakstur, bæði hand og fótsnyrtingu og að sjálfsögðu permanent fyrir þá sem það vilja.
Á fyrstu hæð er svo matvöruverslun og setu og kaffistofa þar sem menn geta sest niður og spjallað um landsins gagn og nauðsynjar eða horft á hið gríðarstóra sjónvarp sem þar er. Einnig er á fyrstu hæð starfandi Djákni sem fólki er frjálst að spjalla við finni það hjá sér löngun til þess.
Ég hafði að vísu mínar efasemdir um að djákninn væri nauðsynlegur hér og stafar það alls ekki af því að ég sé ásatrúar heldur af allt öðrum ástæðum og reyndar tel ég núna að það sé alveg bráðnauðsynlegt að hafa hann og jafnvel fjölga þeim í tvo.
Þannig er mál með vexti að fljótlega eftir að ég flutti hingað tók ég eftir gamalli konu sem trillar hér um gangana og styður sig við einhverskonar göngugrind sem hægt er að tilla sér framan á og framan við handföngin er lítil hilla. Á hillunni liggur alltaf stór svört bók sem annaðhvort er innbundin skrifblokk eða svona stór dagbók og þar ofan á liggur svo alltaf gömul og slitin biblía.
Sú gamla situr oft í setustofunni og gluggar í biblíuna og þess á milli skrifar hún eitthvað í stóru svörtu bókina og passar sig á að enginn sjái hvað þar er ritað.
Það var svo um daginn þegar ég brá mér niður í matvöruverslunina að sú gamla sat þar á grindinni sinni og talaði af miklum móð í farsíma en á tungumáli sem ég hef ekki áður heyrt og virtist mikið niðri fyrir. Þarna kom inn maður sem greinilega þekkti staðhætti betur en ég því hann heilsaði þeirri gömlu kumpánlega.
Uss, Usss ekki tala við mig maður hrópaði sú gamla, sérðu ekki að ég er að tala við Jesú. Ha, nei ég vissi nú ekki að hann væri með síma svaraði maðurinn en sú gamla svaraði honum engu heldur horfði á hann grimmilega og skrifaði svo eitthvað í flýti í svörtu bókina áður en hún hélt áfram samtali sínu við Jesú.
Ég vissi heldur ekki að Jesú væri kominn með síma en þetta vakti óskiptan áhuga minn sérstaklega hvaða mál hún væri að tala þótt ekki dirfðist ég að yrða á þá gömlu meðan hún stóð í þessu langlínusamtali. Ég ákvað hinsvegar ef tækifæri gæfist síðar að reyna að laumast til að sjá í hvaða númer sú gamla hringdi til að fá samband við þá þarna uppi því ég hefði vissulega áhuga á ef ég er þá með rétta APPIÐ í símanum að reyna að ná sambandi og sjá hvort einhver talaði ekki Íslensku þarna uppi.
Tækifærið kom svo kvöld eitt þegar yfir mig helltist mikil kaffilöngun að ég rölti niður í setustofuna til að fá mér einn bolla og í setustofunni sat nokkur hópur fólks og horfði á spurningaþáttinn Útsvar á RÚV en sú gamla sat á grindinni sinni og gruflaði í biblíunni. Skyndilega greip hún svörtu bókina og pennann og tók að skrifa. Hann Bogi á nr. 5 blótaði þrisvar í morgun og tvisvar eftir hádegi tautaði hún og færði greinilega svo eitthvað fleira til bókar. Ég verð að hringja, verða hringja tautaði hún svo og tók upp símann. Ég stóð á fætur og þóttist ætla að bæta í bollann minn og teygði mig eins og ég gat til að reyna að sjá númerið sem sú gamla hringdi í en tókst aðeins að sjá hluta af því.
Nú upphófst samtal á þessari skringilegu mállýsku sem ég hef eins og áður er getið aldrei heyrt áður og eftir nokkra stund gerðist samtalið það hávært að það fór að trufla þá sem sátu við sjónvarpið og einhver kallaði og bað vinsamlegast um hljóð. Sú gamla spratt á fætur, greip biblíuna og stormaði með hana á lofti inn í setustofuna en eitthvað hefur blóðþrýstingurinn hækkað við sprettinn því skyndilega steinleið yfir þá gömlu og hún féll í gólfið og lá þar hreyfingarlaus. Ég hljóp til og lagði frúna á bakið og sá að hún andaði svo ekki hafði Jesú kallað hana til sín í þetta sinn. Eldri manni sem þarna sat brá hinsvegar mjög mikið við það að sjá þá gömlu detta í gólfið og reyndi að staulast á fætur en hvítnaði skyndilega upp og seig saman eins og poki og pompaði líka í gólfið. Það hafði jú liðið yfir karlinn líka og einhverjum þótti greinilega nóg um að fá þarna tvö yfirlið í einu og kallaði að það þyrfti að hringja strax í 112 og fá sjúkrabíla.
Væri ekki nær að taka símann hjá þeirri gömlu og hringja bara í redial og sjá hvort þeir þarna uppi kunna ekki einhver ráð lagði ég til en það fékk ekki hljómgrunn svo hringt var á sjúkralið í snatri.
Á meðan beðið var eftir sjúkraliðinu rankaði sá gamli við sér og við studdum hann í sófann og hann virtist fljótlega allur að braggast. Jæja Valdi minn sagði ég, fékkstu aðsvif, leið bara yfir þig vinur. Það leið sko ekkert yfir mig þrumaði karlinn og var hinn versti, ég fékk mér bara fékk mér smá blund.
Jæja Valdi minn sagði ég, heldurðu að það væri ekki ágætt að næst þegar að þú færð þér blund að þú gerir það í sófanum en ekki á gólfinu fyrir framan sjónvarpið. Þér kemur ekkert við hvar ég fæ mér blund sagði sá gamli og var hinn versti en greinilega hálf vankaður ennþá.
Nú fór sú gamla að rumska og um leið renndu vælubílarnir í hlað og inn stormuðu bráðaliðar með hjartastuðtæki og stórar töskur. Í ljós kom hins vegar að bæði ýsuhjúin voru ómeidd en rétt þótti þó að fara með þá gömlu á spítala til öryggis.
Daginn eftir þegar ég fór í kaffileiðangur seinnipartinn var sú gamla hinsvegar mætt aftur og sat á grindinni sinni með svörtu bókina sína og skrifaði í gríð og erg. Ég tók U beygju þegar ég kom auga á þá gömlu og flýtti með upp aftur því ég hef nefnilega mínar grunsemdir um þá gömlu því að mér tókst jú að sjá hluta af númerinu sem hún hringdi í kvöldið áður og þótt ég sé ásatrúar þá á ég frekar bágt með að trúa því að númerið hjá honum Jesú endi á 666 !!!!
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 06:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2013 | 15:21
JÓLARJÚPUR
Ég skrapp í Bónus um daginn sem er ekki í frásögur færandi en mig vantaði einhverjar nauðsynjar eins og fuglafóður og fleira svo ég skellti mér eftir hádegið í búðina. Reyndar skal tekið fram að fuglafóðrið var ekki handa mér (enda ekki til fóður í furðufugla) heldur var það handa dúfunum mínum sem koma nokkrum sinnum á dag og setjast á gluggakistuna og ætlast til að fá í gogg. Þetta gekk ágætlega í vetur ég opnaði gluggann og hellti einum bolla af fóðri á gluggakistuna og lokaði aftur. Málið hefur hinsvegar vandast örlítið eftir að það fór að hlýna í veðri. Jú það var nefnilega þannig að eitt kvöldið opnaði ég gluggan til hálfs áður en ég fór að sofa svo ekki yrði nú alltof heitt á mér um nóttina. Klukkan hálf sjö um morguninn rumskaði ég svo og hélt að mig væri að dreyma því að ég heyrði allskonar hljóð sem að ég kannaðist ekki við. Við nánari athugun kom í ljós að ég hafði fengið heimsókn, átta dúfur höfðu skotist inn um gluggann og sátu allar í röð í gluggakistunni og kurruðu af fullum krafti. Já takk elsku litlu vinir mínir voru sko komnir að innheimta skattinn sinn og því var ekki um annað að ræða en að fara á fætur og ná í maís og hveitikorn til að fóðra flotann. Ég sá hinsvegar að það væri ekki mjög hentugt að fá svona margar dúfur í heimsókn í einu þegar ég skoðaði gluggakistuna. Þær þekkja greinilega ekki klósett eða hafa vit á því að fara út þegar það þarf að gera númer tvö. En hvað var nú til ráða, ekki gat ég farið að fæla þessar vinkonur mínar í burtu, sumar hafa meira að segja fengið nafn eins og hún Goggulína sem mætir alltaf fyrst, svo er það hann Stóri Goggur sem er með óvenjulega langan og stóran gogg og ekki má gleyma Fíu frekjulínu sem notar mjög skemmtilega aðferð þegar henni finnst að sér þrengt en þá belgir hún sig út og straujar alla línuna svo hinar detta niður af gluggakistunni. En hvað átti núna að gera, litlu greyin vilja jú skattinn sinn og það var jú ég sem opnaði gluggann. Mér datt því í hug af því að hér eru til fullt af leikfanga dýrum svokölluðum tuskudýrum að setja stærðarinnar hund upp í gluggakistuna og sjá hvort það myndi duga. Og jú í fjóra daga þorðu dúfurnar ekki inn um gluggann heldur sátu spakar fyrir utan. Á fimmta degi dró svo til tíðinda, núna var ég vakinn kl. sex að morgni með tilheyrandi kurri og látum. Við nánari skoðun kom í ljós að fimm hugprúðar dúfur höfðu hætt sér inn um gluggann þrátt fyrir varðhundinn og sátu sem fastast og heimtuðu skattinn. Það var því ekki um annað að ræða en að fóðra flotann en í ljós kom að blessaðar kerlurnar höfðu skilið eftir sig yfirlýsingu á varðhundinum, því þær höfðu kúkað á hausinn á honum. Ég ákvað að gefast ekki upp heldur sótti annan tuskuhund sýnu stærri og setti við hliðina á hinum í gluggakistuna. Eftir eina viku með opinn glugga og enga heimsókn var ég viss um að núna hefði ég fundið lausnina. En viti menn á áttunda degi þurfti ég að vera að heiman alveg frá morgni og fram undir kvöldmat. Þegar ég kom svo heim var hún Goggalína búin að bera trjágreinar og sprek og búa til smá hreiður á milli hundanna og að sjálfsögðu búin að kúka smá líka. Goggalína og sprekin fóru aftur út um gluggann og undirritaður fór að spá í hvað væri nú til ráða. Niðurstaðan var sú að ég fann stærðarinnar tusku broddgölt 60 cm. háan og skellti honum upp í gluggann. Vandamálið er bara að hann fyllir eiginlega alveg út í gluggann og því takmarkað loftflæði sem að kemst inn. Ég veit ekki kannski ætti maður bara að kaupa helling af fóðri og fita fiðurféð almennilega og auglýsa svo í desember.... Til sölu vel spikaðar JÓLARJÚPUR
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 15:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.1.2013 | 17:21
Orð dagsins
og SKYNSEMI til að þekkja það í sundur"
26.10.2012 | 23:48
Að gefnu tilefni !
Einlægt þú talar illa um mig,
aftur ég tala vel um þig.
En það besta af öllu er
að enginn trúir þér né mér.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.5.2012 | 14:28
Skemmtilega orðaðar auglýsingar
1. Sérstakur hádegisverðarmatseðill:
Kjúklingur eða buff kr. 600, kalkúnn kr.
550, börn kr. 300.
2. Til sölu: Antikskrifborð, hentar vel
dömum með þykkar fætur og stórar skúffur.
3. Nú hefur þú tækifæri til að láta gata
á þér eyrun og fá extra par
með þér heim.
4. Við eyðileggjum ekki fötin þín með
óvönduðum vélum, við gerum það
varanlega í höndunum.
5. Til sölu nokkrir gamlir kjólar af ömmu
í góðu ástandi.
6. Þetta hótel býður upp á bowlingsali,
tennisvelli, þægileg rúm og aðra
íþróttaaðstöðu.
7. Brauðrist: Gjöfin sem allir fjölskyldumeðlimir
elska, brennir brauðið sjálfvirkt.
8. Ísafjarðarkaupstaður: Starfsmann vantar,
kvenmann, til starfa.
9. Vantar mann til að vinna í dínamítverksmiðju.
Þarf að vera tilbúinn til að ferðast.
10. Notaðir bílar. Því að fara annað og láta svíkja
sig. Komdu til okkar!
11. Vinna í boði fyrir mann til að hugsa um kú sem
hvorki reykir né drekkur..
12. Ólæs? Skrifaðu okkur strax í dag og við munum veita
þér ókeypis aðstoð.
Persónulega finnst mér auglýsingar nr. 2 og 12 vera bestar, þær eiga svo einstaklega vel við fólk sem ég kannast við.
25.5.2012 | 11:56
Heilræði til frjálsra manna
Jæja núna þegar maður er formlega búinn að undirrita þá pappíra sem gera mann aftur að frjálsum manni þá er ekki úr vegi að deila með ykkur fimm mjög mikilvægum heilræðum sem þeir sem ætla sér einhver samskipti við hitt kynið ættu að kynna sér mjög vel.
1: Mjög mikilvægt er að finna konu sem er bæði mjög húsleg og í fullri vinnu.
2: Mikilvægt er að finna konu sem kemur þér til að hlægja.
3: Mikilvægt er að finna konu sem hægt er að treysta og lýgur ekki að þér.
4. Mikilvægt er að finna konu sem elskar þig og dekrar við þig.
5: Mikilvægast af öllu er samt að þessar konur þekkist ekki.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 12:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.3.2012 | 23:17
Oft er flagð undir feikna spiki
11.3.2012 | 03:13
LÆKLÆKALÆKALÆK
Góður kunningi minn sem ég hafði hvorki séð né heyrt um nokkurt skeið bankaði óvænt uppá hjá mér um daginn, svona rétt til þess að segja hæ eins og hann orðaði það. Vitanlega bauð ég gestinum til stofu og þar sátum við og ræddum landsins gagn og nauðsynjar, ríkistjórn, forseta, biskup eða heilaga þrenningu. Talið barst síðan að tölvum og internetinu og tjáði vinurinn mér hann ætti orðið 790 vini á Facebook og hefði eiginlega ekki orðið tíma til að fylgjast með öllu sem færi þarna fram. Bíddu nú við sagði ég, var það ekki Ólafur Stefánsson sem sagði það að ef þú ættir 1000 vini á Facebook þá ættir þú í raun og veru enga vini. Jú en sjáðu til sagði vinurinn þetta er líka svo fjandi góður vefur til að kynnast kerlingum og komast á deit eða þannig. Ég nota þennan vef nú eiginlega eingöngu til að spila Poker sagði ég, maður getur spila um gervipeninga þarna þannig að maður tapar í raun og veru aldrei neinu. En annars hef ég þá skoðun á þessum vef að hann bókstaflega geti tekið yfir líf fólks og það beinlínis verður veikt ef það kemst ekki á Facebook a.m.k. tíu sinnum á dag. Svo er líka alveg ótrúlegt hvað sumir láta fara frá sér þarna inni á þessum vef og alltaf eru einhverjir sem læka og læka sem eins og aldrei sé morgundagurinn, sama hver vitleysan er. Ég skal nefna þér dæmi, kona sem ég þekki er með opið fyrir Facebook allan daginn þegar hún er í vinnunni og þegar hún kemur heim þá er strax hlaupið í tölvuna og beint á Facebook aftur. Hún hefur bitið það í sig að jörðin hætti að snúast og heimurinn farist ef hún sé ekki þarna öllum stundum til að læka og læka, skipta sér af öllu og engu þó aðalega öllu og skrifa misgáfulega athugasemdir sem hún trúir statt og stöðugt að allir vinirnir lesi. Ég get nefnt þér dæmi um hversu ótrúlegt þetta er. Ónefndur karlmaður sem hún er að eltast við leynt og ljóst setti inn status um að hann væri kominn með hrikalega ræpu og væri að drepast í rassgatinu og hvað gerist! Jú jú strax komið læk á ræpuna og lækalæk á rassgatið og að sjálfsögðu komment að auki. Skömmu síðar setur maðurinn inn status um að hann hafi kviðslitnað og sé að drepast í pungnum og þurfi í aðgerð. Nær samstundis kom frá konunni læk á kviðslitið, lækalæk á punginn og til að ítreka fyrri stöðu þá kom aftur læklækalæk á rassgatið og læklækalækalæk á ræpuna. Finnst þér þetta ekki smekklegt spurði ég svo vininn. Þetta fólk er veikt sagði vinurinn en eins og ég sagði þá er alveg hægt að komast á deit þarna ef maður er að leita eftir því en hvernig er það er það rétt sem ég var að heyra að þú og kerlingin ætlið að fara sitt í hvora áttina og hætta búskap saman. Rétt vinur sæll sagði ég við Moli erum á förum fljótlega og vera kann að ég biðji þig um lítilsháttar hjálp þegar að því kemur að við flytjum sagði ég. Aha sagði vinurinn, ég var nefnilega að spá í að af því að Valintínusarsdagurinn er á næsta leiti og við vorum að tala um Facebook þá veit ég að frænka mín sendi þér vinabeiðni þar um daginn og var að spá í að því að fyrst þú ætlar þessa leið hvort þú ættir ekki að senda henni Valintínusarkort bara svona í gamni og kannski gefa í skin að þú værir til í kaffibolla einhvertíma seinna meir ef hlutir æxluðust svo. Jedúdda malla mía stundi ég upp ertu orðin kolvitlaus karl, veistu ekki hvaða álit ég hef á öllum þessum bónda, konu og hvað þá einhverjum Amerískum Valintínusardögum. Allt saman eitt stórt samsæri hjá súkkulaði og blómaframleiðendum. Nei takk vinur sæll þetta er ekki fyrir mig. Spáðu nú í þetta sagði vinurinn og stóð á fætur og kvaddi með mestu virktum. Daginn eftir þegar ég svo skrapp í Rúsínubúðina þá var mér gengið framhjá rekkanum með öllum heillaóska, afmælis og Valíntínusarkortunum og staldraði aðeins við. Andskotinn hugsaði ég svo þetta var náttúrulega tómt bull í karlinum í gær en það sakar kannski ekki að kaupa eitt fjandans kort svona til að eiga til síðari tíma. Fyrir valinu varð kort með mynd af berrössuðum engli sem var að skjóta ör með hjartalaga oddi af boga. Áður en heimleiðis var haldið aftur þá þurfti ég að koma við á einum stað og þar áskotnaðist mér þessi forláta Whisky flaska eða algjör eðall eins og maðurinn sagði. Það var svo liðið á kvöld þegar ég opnaði eðalinn og þorði ekki annað en að hella ofurvarlega í glasið. Það heyrðist svona blúbb blúbb blúbb rétt eins og þegar jómfrú pissar í læk á fögru sumarkvöldi við dásamlegan fuglasöng. Ó Guð stundi ég þegar ég hafði bragðað eðalinn, þvílíkur drykkur, dásamlegt já hreint alveg dásamlegt. Nú það er skemmst frá því að segja að því meira sem jómfrúin pissaði því betur leið mér. Þegar ég skrapp svo fram úr stofunni rétt sem snöggvast þá sá ég hvar kortið með berrasaða englinum lá á kommóðunni í ganginum og staldraði við tók það upp og hugsaði með mér, þetta er nú helvíti laglegt kort og kannski það saki ekkert að hripa niður nokkrar línur eins og karlinn hafði lagt til, það ætti nú varla að farast himinn og jörð þó maður bulli eitthvað. Ég náði mér í skriffæri og settist við eldhúsborðið til að rita frænku vinar míns nokkrar línur en þá fór í verra. Ég mundi ekki með nokkru móti hvað frænkan hét og þurfti því að skjótast í tölvuna og logga mig inn á Facebook svo ég myndi nú ekki klúðra bréfinu strax við að skrifa utan á umslagið. Eftir að hafa rækilega gengið úr skugga um nafnið á frænkunni kom ég við í stofunni og lét jómfrúna pissa einu sinni enn til að hafa nú eitthvað hjartastyrkjandi meðan skriftir stæðu yfir. Þar sem ég hafði aldrei skrifað svona kort áður velti ég því fyrir mér hvað menn skrifuðu eiginlega í kortið en datt bara nákvæmlega ekkert í hug. Ég ákvað því að láta bara innsæið ráða, fékk mér gúllara af eðalnum og hóf skriftir og þær byrjuðu einhvernvegin svona.
Hávelborna náðuga ungfrú, fyrirgefið að ég skuli gerast svo djarfur eftir áeggjan frænda yðar að senda yður ofurlítinn pistil frá mínu fábrotna heimili. Eins og frændi yðar hefur réttilega bent á þá erum við þ.e. oss og þér komin vel yfir miðjan aldur, ekki það að ég sé að gefa í skin að þér séuð kominn á grafarbakkann, þvert á móti en þegar kallið loks kemur þá er ég viss um að sjálf jómfrú María guðsmóðir mun bera sál yðar til hásæta Drottins þar sem allar yðar mörgu syndir munu verða fyrirgefnar. Kortið var nú löngu búið og ég hafði neyðst til að sækja A4 blað til að koma því fyrir sem mér lá á hjarta en eftir aðra heimsókn í stofuna til að sækja hjartastyrkjandi þá er það sem á eftir fór í bréfinu frekar þokukennt í minningunni en ég er þó viss um að ég endaði þennan Valintínus á því að stinga uppá stefnumóti uppi í dívan í daufri birtu.
Þá er bara að póstleggja herlegheitin hugsaði ég svo og skellti frímerki á kortið sem nú innihélt líka A4 bréf með og að því að mér fannst ansi lagleg frumraun í Valintínusarkortsendingum. Kortið setti ég síðan í plasthulstur og skrifaði með stórum stöfum Pósturinn á miða sem ég límdi á og batt svo allt saman á hurðarhúninn. Þegar ég svo vaknaði daginn eftir fóru að renna á mig tvær grímur hvort þetta hefði nú virkilega verið góð hugmynd því ég mundi nú ekki alveg allt sem ritað hafði verið og hljóp því fram og kíkti á hurðarhúninn en of seint kortið var á bak og burt. Kannski hefur það fokið burt hugsaði ég vongóður en daginn eftir Valintínusardaginn rann upp stund sannleikans. Síminn hringdi og þegar ég svaraði var hrópað hinu megin á línunni. Ertu orðinn band sjóðandi vitlaus maður. það er allt vitlaust í famelíunni, þú sendir frænku minni kort og gefur í skin að ég hafi sagt að hún væri orðin eldgömul og jafnvel kominn á grafarbakkann og ekki var það svo betra sem á eftir fór. Vinurinn var nú gráti nær á meðan hann útlistaði að hann gæti ekki látið sjá sig í afmælum eða fermingarveislum svo lengi sem frænka lifði. Stilltu þig gæðingur sagði ég man ekki betur en ég hafi sagt þér að ég væri alfarið á móti þessum asnalegu dögum sem kallast hinum ýmsu nöfnum en það var bara fyrir þrábeiðni þína að ég sendi kortið. Já en fyrr má nú vera kjökraði vinurinn það er allt vitlaust út af þessu og mér er kennt um allt saman. Tja ég geri þá ráð fyrir því að stefnumótið uppi í dívan í daufri birtu sé líka fyrir bí sagði ég en það gerir líklega ekkert til, þú sagðir um daginn að ef maður hefði áhuga þá væri víst ekkert mál að komast á deit á Facebook en meðan að við jöfnum okkur á þessu þá getum við bara gert eins og hinir, bullað um allt og ekkert og ef einhver fær ræpu eða kviðslit þá er það bara:
LÆKLÆKALÆKALÆK
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.7.2008 | 17:26
LEIKUR Í SJÓNVARPINU
Vinkona mín var hjá spámiðli um daginn sem gat sagt henni bókstaflega allt um bæði fortíð og framtíð, það passaði bókstaflega allt hjá honum sagði konan við morgunverðarboðið fyrir hálfum mánuði síðan.
Aha svaraði ég og faldi mig á bak við Moggann og vonaði að þar með væri málið útrætt en auðvitað var það of gott til að geta verið satt.
Já hélt frúin áfram og ég er búinn að panta tíma fyrir okkur hjá honum í næstu viku, það sakar ekki að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og ekki væri verra að fá að vita eitthvað af því sem þú hefur verið að bralla í fortíðinni bætti hún svo við.
Ég þarf ekki að fara til einhvers fjandans spámiðils til þess að vita hvað gerðist í fyrra eða hittifyrra, ég man það alveg ágætlega ennþá og ég skal bara láta þig vita það góða mín að ég fer ekki fet í þessa kalls og ef þú ert búin að panta hjá honum tíma þá ferðu þangað ein.
Þú kemur víst með mér sagði konan ákveðin á svip, það er ekkert að marka þetta nema að við förum bæði og vinkona mín sagði að hann hefði líka getað gefið henni góð ráð til þess að bæta hjónabandið svo að það má segja að það felist líka í þessu ráðgjöf og þú sleppur sko ekki við að fara.
Ég þarf ekki á neinni andskotans hjónabandsráðgjöf að halda og þaðan af síður frá einhverjum spámiðli sem bullar bara eitthvað út í loftið og ég skal bara láta þig vita það kona að ég fer ekki rassgat sagði ég og leið og ég hugsaði, núna gildir að vera harður já harður, gallharður og gallharður á svip bætti ég við, ég er sko húsbóndi á mínu heimili og læt ekki skipa mér á einhverja fundi með einhverjum svikamiðlum.
Viku seinna sat ég svo fýldur á svip í bílnum á leiðinni á fund hjá spámiðli suður í Reykjavík og hugsaði á leiðinni, þú varst ekki nógu harður, alls ekki nógu harður.
Þegar á áfangastað var komið var okkur vísað inn í herbergi og miðillinn heilsaði okkur með mestu virktum og byrjaði á því að rukka okkur um 10 þúsund krónur fyrir fundinn en ég hafði einmitt spáð því á leiðinni að það yrði hans fyrsta verk.
Svona borgaðu manninum sagði konan höst og hafi mig einhvertíma verkjað í veskið þá var það á meðan ég tíndi seðlana í karlpunginn.
Miðillinn fór nú að tala um fortíðina eða öllu heldur okkar fyrri líf og samkvæmt því hafði konan verið prinsessa í Egyptalandi áður en hún varð bara húsmóðir á Selfossi en ég hafði verið þýskur hermaður í fyrra stríði og féll með kúlu í gegnum hausinn.
Hí hí hí prinsessa alveg datt mér þetta í hug skríkti konan og þú elskan með kúlu gegnum hausinn og heilann það skýrir nú eitt og annað eða getur það ekki haft áhrif í þessu lífi sagði hún áhugasöm við miðilinn.
Það er ekkert hægt að útiloka í því efni sagði miðillinn og gjóaði augunum yfir borðið á ístruna á mér og sagði svo, ég sé líka að maðurinn þinn situr alltof mikið og einhver vandamál eru líka með áfengi getur það ekki verið.
Það stemmir sko öldungis alveg sagði konan yfir sig hrifinn yfir þessari visku í miðlinum, hann situr lon og don yfir fótbolta í sjónvarpinu og svo er það alveg rétt hann er orðinn alveg handónýtur í bjórnum, ég verð orðið að pína honum í hann.
Þetta sá ég strax sagði miðillinn og eitthvað segir mér að hann komi ekki mikið nálægt heimilisverkunum heldur.
Ó minnstu ekki á það ógrátandi sagði konan, strauið, þvottarnir, skúringarnar og uppvaskið lendir allt á mér svo ekki sé nú minnst á garðinn og allt sem honum fylgir.
Og fyrir vikið finnst þér þú afskipt og þér finnst maðurinn þinn ekki sýna þér nægilegan áhuga og taki þér eins og hverjum öðrum hlut á heimilinu sagði miðillinn.
Segðu maður segðu sagði konan og ljómaði nú eins og sól í heiði yfir allri þessari visku sem bunaðist úr brunni miðilsins.
Og ætli það sé nú ekki í lagi að kerlingin geri eittvað í þessu lífi fyrst hún var prinsessa í því fyrra og ef að kúlan sem ég fékk í hausinn í stríðinu getur haft áhrif í þessu lífi þá er það bara eðlilegt að ég hvíli mig meðan ég næ bata missti ég út úr mér og gaf miðlinum illt auga.
Það hefur sýnt sig að hjón sem gera hlutina saman á heimilinu eru mun hamingjusamari en önnur og þú ætti að byrja strax í kvöld að hjálpa konunni við strauið, skúringarnar, þvottinn, uppvaskið og standa svo upp frá sjónvarpinu og fara með henni í garðinn.
Ég gerði mig líklegan til að stökkva yfir borðið og kyrkja karlfjandann þegar hann spratt á fætur og gekk að súluriti einu miklu sem hékk á töflu við herbergisvegginn. Það hefur sýnt sig að bara svona lítil atriði bæta mjög samband hjóna í 98% tilvika sagði hann og benti á súluritið. Konan spratt líka á fætur og og gekk að súluritinu og teygði fram álkuna og var áhugasemin uppmáluð.
Svo þarftu að sýna konunni þinni meiri áhuga og ástúð svo að henni finnist hún ekki afskipt og hún sé í ástlausu hjónabandi. Skyndilega greip miðillinn utanum konuna og snéri henni við og kyssti hana rembingskoss beint á munninn. Það er þetta sem konan þín þarfnast að minnsta kosti þrisvar í viku sagði miðillinn og heldur þú að þú sért maður til þess að sjá um það.
Nú var mælirinn fullur og ég sagði um leið og ég gekk á dyr, já ég skal reyna að vera maður til þess að sjá um það, ég kem þá með hana á mánudaginn og miðvikudaginn en ég veit ekki með föstudaginn því þá er LEIKUR Í SJÓNVARPINU.
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar