11.7.2008 | 17:26
LEIKUR Í SJÓNVARPINU
Vinkona mín var hjá spámiðli um daginn sem gat sagt henni bókstaflega allt um bæði fortíð og framtíð, það passaði bókstaflega allt hjá honum sagði konan við morgunverðarboðið fyrir hálfum mánuði síðan.
Aha svaraði ég og faldi mig á bak við Moggann og vonaði að þar með væri málið útrætt en auðvitað var það of gott til að geta verið satt.
Já hélt frúin áfram og ég er búinn að panta tíma fyrir okkur hjá honum í næstu viku, það sakar ekki að vita hvað framtíðin ber í skauti sér og ekki væri verra að fá að vita eitthvað af því sem þú hefur verið að bralla í fortíðinni bætti hún svo við.
Ég þarf ekki að fara til einhvers fjandans spámiðils til þess að vita hvað gerðist í fyrra eða hittifyrra, ég man það alveg ágætlega ennþá og ég skal bara láta þig vita það góða mín að ég fer ekki fet í þessa kalls og ef þú ert búin að panta hjá honum tíma þá ferðu þangað ein.
Þú kemur víst með mér sagði konan ákveðin á svip, það er ekkert að marka þetta nema að við förum bæði og vinkona mín sagði að hann hefði líka getað gefið henni góð ráð til þess að bæta hjónabandið svo að það má segja að það felist líka í þessu ráðgjöf og þú sleppur sko ekki við að fara.
Ég þarf ekki á neinni andskotans hjónabandsráðgjöf að halda og þaðan af síður frá einhverjum spámiðli sem bullar bara eitthvað út í loftið og ég skal bara láta þig vita það kona að ég fer ekki rassgat sagði ég og leið og ég hugsaði, núna gildir að vera harður já harður, gallharður og gallharður á svip bætti ég við, ég er sko húsbóndi á mínu heimili og læt ekki skipa mér á einhverja fundi með einhverjum svikamiðlum.
Viku seinna sat ég svo fýldur á svip í bílnum á leiðinni á fund hjá spámiðli suður í Reykjavík og hugsaði á leiðinni, þú varst ekki nógu harður, alls ekki nógu harður.
Þegar á áfangastað var komið var okkur vísað inn í herbergi og miðillinn heilsaði okkur með mestu virktum og byrjaði á því að rukka okkur um 10 þúsund krónur fyrir fundinn en ég hafði einmitt spáð því á leiðinni að það yrði hans fyrsta verk.
Svona borgaðu manninum sagði konan höst og hafi mig einhvertíma verkjað í veskið þá var það á meðan ég tíndi seðlana í karlpunginn.
Miðillinn fór nú að tala um fortíðina eða öllu heldur okkar fyrri líf og samkvæmt því hafði konan verið prinsessa í Egyptalandi áður en hún varð bara húsmóðir á Selfossi en ég hafði verið þýskur hermaður í fyrra stríði og féll með kúlu í gegnum hausinn.
Hí hí hí prinsessa alveg datt mér þetta í hug skríkti konan og þú elskan með kúlu gegnum hausinn og heilann það skýrir nú eitt og annað eða getur það ekki haft áhrif í þessu lífi sagði hún áhugasöm við miðilinn.
Það er ekkert hægt að útiloka í því efni sagði miðillinn og gjóaði augunum yfir borðið á ístruna á mér og sagði svo, ég sé líka að maðurinn þinn situr alltof mikið og einhver vandamál eru líka með áfengi getur það ekki verið.
Það stemmir sko öldungis alveg sagði konan yfir sig hrifinn yfir þessari visku í miðlinum, hann situr lon og don yfir fótbolta í sjónvarpinu og svo er það alveg rétt hann er orðinn alveg handónýtur í bjórnum, ég verð orðið að pína honum í hann.
Þetta sá ég strax sagði miðillinn og eitthvað segir mér að hann komi ekki mikið nálægt heimilisverkunum heldur.
Ó minnstu ekki á það ógrátandi sagði konan, strauið, þvottarnir, skúringarnar og uppvaskið lendir allt á mér svo ekki sé nú minnst á garðinn og allt sem honum fylgir.
Og fyrir vikið finnst þér þú afskipt og þér finnst maðurinn þinn ekki sýna þér nægilegan áhuga og taki þér eins og hverjum öðrum hlut á heimilinu sagði miðillinn.
Segðu maður segðu sagði konan og ljómaði nú eins og sól í heiði yfir allri þessari visku sem bunaðist úr brunni miðilsins.
Og ætli það sé nú ekki í lagi að kerlingin geri eittvað í þessu lífi fyrst hún var prinsessa í því fyrra og ef að kúlan sem ég fékk í hausinn í stríðinu getur haft áhrif í þessu lífi þá er það bara eðlilegt að ég hvíli mig meðan ég næ bata missti ég út úr mér og gaf miðlinum illt auga.
Það hefur sýnt sig að hjón sem gera hlutina saman á heimilinu eru mun hamingjusamari en önnur og þú ætti að byrja strax í kvöld að hjálpa konunni við strauið, skúringarnar, þvottinn, uppvaskið og standa svo upp frá sjónvarpinu og fara með henni í garðinn.
Ég gerði mig líklegan til að stökkva yfir borðið og kyrkja karlfjandann þegar hann spratt á fætur og gekk að súluriti einu miklu sem hékk á töflu við herbergisvegginn. Það hefur sýnt sig að bara svona lítil atriði bæta mjög samband hjóna í 98% tilvika sagði hann og benti á súluritið. Konan spratt líka á fætur og og gekk að súluritinu og teygði fram álkuna og var áhugasemin uppmáluð.
Svo þarftu að sýna konunni þinni meiri áhuga og ástúð svo að henni finnist hún ekki afskipt og hún sé í ástlausu hjónabandi. Skyndilega greip miðillinn utanum konuna og snéri henni við og kyssti hana rembingskoss beint á munninn. Það er þetta sem konan þín þarfnast að minnsta kosti þrisvar í viku sagði miðillinn og heldur þú að þú sért maður til þess að sjá um það.
Nú var mælirinn fullur og ég sagði um leið og ég gekk á dyr, já ég skal reyna að vera maður til þess að sjá um það, ég kem þá með hana á mánudaginn og miðvikudaginn en ég veit ekki með föstudaginn því þá er LEIKUR Í SJÓNVARPINU.
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þú ert nú alveg óborganlegur haha..Það er auðséð hver er húsbóndi á sínu heimili Haltu áfram gamli
Guðný Einarsdóttir, 12.7.2008 kl. 09:36
Elsku hjartans kúturinn minn með gat á heilanum - eftir þennan spámiðilsfund þá skildi ég mæta vel hvers vegna þú manst ekki eftir öllum þessum smáatriðum, það er vegna þess að þú fékkst gat á heilann. Svo sé ég líka að þú manst ekki eftir einu afar mikilvægu atriði sem snertir mína framtíð - ha? Ertu virkilega búinn að gleyma hvað hann sagði í því efni? Þá skal ég segja þér og alþjóð það úr því þú þarft að uppljóstra þessum einkamálum okkar - hann sagðist nefnilega ætla að eiga mig þegar þú vildir mig ekki lengur!!!! Honum leist greinilega betur á mig en þér - honum fannst ég ekki svona mikil gribba eins og þú lýsir - kanski ertu bara að upplifa það að hafa verið þýskur hermaður - þá má ætla að þú hafir verið giftur þýskri skrukku og mér finnst það mikil synd að ég þurfi að upplifa slíkt.
Konan hér fyrir ofan segir að þú sért alveg óborganlegur - ég hafði nú alveg efni á þér og búin að borga fyrir þig..........hafði því greinilega efni á þér, enda var ég prinsessa í Egyptalandi og það gilda alveg sérstakar umgengnisreglur við slíkt hefðarfólk. Við slíkar hirðir eru alveg sérstakir siðameistarar - en nú hef ég ekki efni á slíkum siðameisturum og alls ekki garðyrkjumönnum og það hefur sko sýnt sig og sannað að prinsessur geta ýmislegt þegar þær ætla sér slíkt.....og hafðu það.
Svo skil ég nú hvers vegna fólk bendir svona mikið á mig og gónir þegar ég er á ferðinni - enda er ég ekki lengur á ferðinni í minni heimabyggð. Það er vegna þess að þínir sveitungar eru farnir að vorkenna þér mikið að eiga þessa herfu og gribbu fyrir eiginkonu - þeir þekkja þig en ekki mig.
Njóttu lífsins eins vel og best verður á kosið - lífið er til þess.
Eiginkonan (IP-tala skráð) 12.7.2008 kl. 10:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.