Bloggfærslur mánaðarins, maí 2008
14.5.2008 | 16:42
JÓMFRÚ JÚLÍANA
Í byrjun apríl skruppum við hjónakornin til þeirrar ágætu borgar Barcelona sem er jú í sérlegu uppáhaldi hjá okkur og var þetta okkar þriðja ferð þangað og vonandi ekki sú síðasta. Það væri nú í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki hefðu gerst fáheyrðir hlutir sem ég hef ekki upplifað áður í fyrri ferðum til þessar annars ágætu borgar. Eða hvorki meira né minna heldur en að jómfrú Júlíana varð upplýst, ég fékk skrítið tilboð á sjóminjasafni, langþráður draumur frúarinnar varð ekki alveg eins og til stóð og fyrir tilstilli frúarinnar fékk ég næstum því blöðrubólgu.
En allt hófst þetta um miðja nótt heima í Miðtúni því þegar við fórum af stað til Keflavíkur um þrjúleitið um nóttina var snælduvitlaust verður, ofankoma og blindbylur.
Hellisheiðin var kolófær og því ekki annað að gera en að lullast Þrengslin og satt best að segja kom sér vel að hafa farið af stað tímanlega því skyggnið var nánast ekki neitt og á köflum mátti jeppinn hafa sig allan við að klóra sig gegnum skaflana á veginum.
Til Keflavíkur sluppum við þó og það var svolítið skrítið að eftir að hafa rétt sloppið þangað fyrir snjó og byl þá stóðum við fáeinum klukkutímum seinna á flugvellinum í Barcelona í 22° hita og þar var ekkert sem mynnti á snjó.
Eftir svolitla töf á flugvellinum þar sem einn farþeginn tíndist vegna ölvunar vorum við svo ferjuð á hótelið. Það skal tekið skýrt fram að það var ekki undirritaður sem tíndist á flugvellinum þar sem frúin var skömmtunarstjóri á bjór og whisky alla leiðina og satt best að segja þá var það eins og á kreppuárunum miklu, maður fékk bara tvo bjóra og einn whisky í fjögra tíma flugferð.
Þar sem við höfðum jú farið frekar snemma af stað þá gerðum við lítið annað en að skoða mannlífið og slappa af þennan fyrsta dag ferðarinnar og fórum svo á gott veitingahús um kvöldið og svo snemma í háttinn því dagskráin var sko löng fyrir næsta dag, ég og frúin vorum búin að skipuleggja hvað ætti að skoða mörgum mánuðum fyrir túrinn og hennar listi var sjö blaðsíður en minn var bara ein lína þ.e. HAPPY BAR OG GRILL.
Daginn eftir var sama blíðan og frúin fletti upp á síðu eitt á listanum sínum og fyrsta vers var að skoða gamla hluta borgarinnar þ.e. gotneska hverfið og sagðist hún hafa áræðanlegar heimildir fyrir því að þar væri að finna eitt besta veitingahús í borginni og taldi sig ekki vera í nokkrum vandræðum með að finna það enda fengið leiðsögn í gegnum síma heima á Íslandi nokkrum dögum áður.
Því var þrammað af stað um gotneska hverfið og beygt hingað og þangað eftir leiðsögn frúarinnar en ekki fannst veitingahúsið. Þegar svo frúin var farin að þramma í hringi og var loks orðin rammillt og ringluð tók ég stjórnina í mínar hendur og tókst að lóðsa okkur inn á heilmikið torg þar sem dómkirkjan sjálf blasti við okkur í allri sinni dýrð.
Ekki gátum við látið það spyrjast um okkur að við skoðuðum ekki herlegheitin úr því að við vorum komin þarna og því röltum við inn í þetta háheilaga guðshús. Fyrir innan gat að líta marga listasmíðina og þarna voru líka margir dýrlingar og var hver dýrlingur stúkaður af í litlum bás þar sem hægt var að biðja fyrir sér og sínum og kaupa kerti til að kveikja á. Þarna inni voru líka bekkir sem hægt var að tilla sér á og þar hlammaði ég mér niður og frúin líka enda orðin dauðþreytt á allri leitinni að veitingastaðnum. Þarna sátum við í sælli ró og dáðumst að þessari miklu byggingu þegar skyndilega birtist fyrir altarinu þessi feikna mikli og sveri kardínáli og hóf að predika yfir lýðnum og það á latínu. Konan var alveg hissa á því hvað mikilli athygli ég hlustaði á messuna en þar var reyndar bara út af því að ég gat ekki betur heyrt þegar sá gamli var að þruma yfir lýðnum á latínunni að hann segði el SPIRITUS eða eitthvað í þá áttina og því lagði ég við hlustir en hann mynntist ekkert meira á spiritus og reyndar það eina sem ég skildi í þessari predikun var AMENIÐ sem kom í restina. Þegar þessari upplifun var svo lokið og við vorum á leiðinni út úr kirkjunni kom ég auga á fleiri bása með dýrlingum en þeir voru aðeins öðruvísi því í staðin fyrir að kveikja á kerti þá stakk maður smápeningum í þar til gerða rauf og þá kviknaði á rafljósi í töflu fyrir framan dýrlinginn og á hverri töflu voru ca. 300 ljós. Þetta varð ég að sýna konunni svo ég dró hana að einum af þessum litlu básum og þar blasti við okkur sjálf jómfrú Júlíana í allri sinni dýrð. Á þartilgerðu skilti stóð að maður skyldi biðja um fyrirgefningu synda sinna og biðja fyrir sýnum nánustu um leið og maður kveikti á ljósinu. Sjáðu elskan sagði ég það ætti nú ekki að saka að kveikja á svo sem eins og fjórum eða fimm ljósum sagði ég og fór að tína smápeninga upp úr vasanum sem ég lét detta í raufina framan á jómfrú Júlíönu. En það var sama hvað ég stakk miklum peningum í raufina það kviknaði ekki ein einasta ljóstýra fyrir framan jómfrú Júlíönu.
Það skríkti í frúnni þar sem hún stóð og fylgdist með mér stinga hverjum peningnum af öðrum í raufina. Miklar eru syndir þínar sagði hún svo og núna var farið að ískra í henni af ánægju og satt best að segja var þetta farið að verða svolítið vandræðalegt því það var komin röð fyrir aftan mig af fólki sem baðst fyrir og ætlaði líka að kveikja á ljósi hjá jómfrú Júlíönu og ég var að verða blankur og engin ljóstýra kviknaði. Það var svo að lokum gömul nunna sem kom mér til bjargar og benti mér á að það væri ekki nóg að setja peninginn í raufina heldur ætti maður líka að ýta á þartilgerðan takka til hliðar. Nú hýrnaði yfir mér enda búinn að troða einum 15 evrum í raufina framan á jómfrúnni og ýtti því hróðugur á takkann. En líklega er ekki ætlast til að maður setji svona mikið að klinki í raufina því þegar ég svo ýtti á takkann kviknaði á öllum fjárans 300 ljósunum og jómfrú Júlíana ljómaði eins og sól í heiði og lýsti upp hálfa kirkjuna. Ég snéri mér því við og leit á röðina sem var fyrir aftan mig og sagði úpps uppselt og flýtti mér svo út úr kirkjunni. Að þessum hremmingum loknum var ákveðið að hætta að leita að veitingastaðnum og fara á sjóminjasafnið og skoða hvernig galeiður voru smíðaðar á 13 öld og reyndist vandalaust að finna það safn og reyndist það hin besta skemmtun og fróðleikur að skoða það. Þar sem svo gengið var út úr safninu að lokinni skoðun var minjagripaverslun sem seldi ýmsan varning og þar fjárfesti ég í þessari líka þrælflottu sjóarahúfu eða öllu heldur pottloki með engu deri og ekki var svo verra að í garðinum við safnið var þessi flotti pöbb og þar settumst við niður og ég pantaði tvo stóra bjóra og meðan við biðum eftir þeim þá tók ég upp nýju húfuna og skellti henni á hausinn og spurði frúnna hvernig henni fyndist. Frúin gaf lítið út á hvað henni fyndist og reyndar umlaði bara eitthvað í henni um að réttast væri að taka niður pottlokið. Þar sem ég sat svo sæll og glaður með mitt pottlok og væna bjór vatt sér að borðinu yngismær ein varla mikið meira en tvítug, íklædd einhverjum minitopp og minipilsi og stillti sér upp fyrir framan mig og skeytti engu þótt konan sæti við hliðina á mér og sagði:
Allo sailor, com with me and have good time.
Ég brosti bara mínu blíðasta með mitt pottlok en frúnni svelgdist á bjórnum og varð eins og þrumuský í framan. Viltu losa okkur við þessa skækju og það á stundinni hvæsti hún svo og svipurinn gaf til kynna að núna væri betra að vera snöggur. Ég vissi ekki alveg hvernig best væri að taka á málinu og í fátinu sem kom á mig hrópaði ég því:
HERFA HERFA LÁTTU ÞIG HVERFA
Yngismærin brosti blítt og hvarf á braut en frúin var ennþá eins og þrumuský í framan og spurði ískalt:
Af hverju sagðirðu þetta á íslensku góði, ha, hver var það sem átti að hverfa ha.
Að sjálfsögðu hún stundi ég, þú sást að ég horfði á hana meðan ég sagði þetta og ég sagði þetta á íslensku af því að ég kann bara ekki að segja þetta á útlensku. Ef þú kannt að segja þetta á útlensku þá skal ég alveg fara og segja það við hana ef þú vilt.
Þú ferð ekki rassgat hrópaði frúin og taktu svo niður þetta ömurlega pottlok áður en þú verður okkur til meiri skammar. Svo verð ég ekki hér stundinni lengur sagði hún og tók strauið út á götu. Ég borgaði bjórinn í snatri og elti svo frúnna og sagði:
Ekki var þetta mér að kenna, henni hefur bara litist svona vel á pottlokið og haldi að ég væri að fá mér bjór með aldraðri frænku minni og hvað er svo næst á listanum þínum elskan mín. Frúin svaraði engu en svipurinn sagði allt sem segja þurfti svo ég sagði glaðlega:
Eigum við kannski að fara aftur og heimsækja jómfrú Júlíönu og kveikja á eins og 300 ljósum til viðbótar. Frúin svaraði engu heldur strunsaði sem leið lá niður að höfn og þar skyndilega fékk ég hugljómun.
Heyrðu elskan sagði ég, ég er að hugsa um að bjóða þér í siglingu um Miðjarðarhafið því ég vissi að þetta hafði lengi verið draumur hjá henni þ.e. skemmtisigling um Miðjarðarhafið á skemmtisnekkju með svölum og öllu tilheyrandi. Það var að vísu ekki alveg það sem ég hafði í huga en eitthvað varð að gera til að bjarga málunum.
Ha, siglingu jú það væri gaman sagði konan og tók nú gleði sína á ný og ég sá að hún var í huganum komin út á sjó á skemmtiferðaskipi í lúxusklefa með svölum og sundlaugum á hverju þilfari.
Bíddu þá aðeins kallaði ég og snaraðist að miðasöluskúr sem var þarna við höfnina og þar var skilti sem auglýsti klukkutíma siglingu meðfram borginni. Ég keypti tvo miða í snatri og bauð svo konunni að ganga um borð. Farkosturinn var að vísu ekki skemmtiferðaskip með svölum og öllu tilheyrandi heldur líkari tveggjahæða strætó en það sátu þó allir úti svo það mátti því alveg líkja því við svalir. Eigum við að fara á þessu spurði frúin með miklum efasemdarsvip og leist greinilega ekkert á blikuna.
Já já um að gera að byrja smátt sagði ég þetta verður ágætis æfing fyrir skemmtiferðaskipið og um leið var landfestum sleppt og dallurinn lullaði út hafnarkjaftinn í Barcelona. Þegar svo komið var út fyrir hafnarkjaftinn breyttist sjólagið hinsvegar dálítið, nokkur vindur var og heilmikil undiralda svo dallurinn hoppaði og skoppaði eins og korktappi með tilheyrandi skrækjum í farþegunum. Ég náði þó að skondrast á neðraþilfarið þar sem litlum bar hafði verið komið fyrir og ná mér í einn bjór en konan vildi alls ekkert og var reyndar farin að skipta litum og var orðin frekar grænleit í framan. Ég flýtti mér því að klára bjórinn svo konan gæti gubbað í könnuna ef þess gerðist þörf en hún lét sér nægja að verða bara græn í framan þennan klukkutíma sem siglingin tók en var greinilega nokkuð létt þegar hún hafði fast land undir fótum aftur.
Þetta var nú ekki alveg það sem ég hef átt við þegar ég hef talað um siglingu um Miðjarðarhafið og ég hreint ekkert svo viss um að mig langi að sigla neitt meira um það sagði hún svo og gretti sig.
En nú varð að drífa sig heim á hótel því mikill menningarviðburður stóð til um kvöldið að sögn konunnar því það átti að fara á mikla gosbrunnasýningu þar sem vatn frussaðist upp í loftið í takt við einhverja sinfóníutónlist. Það var farið að kólna aðeins og hitinn komin niður í 10° um kvöldið en mér fannst nú samt ástæðulaust að fara að klæða mig eitthvað mikið og fór því bara léttklæddur til að horfa á herlegheitin. Það var heilmikið af fólki í garðinum þar sem sýningin skyldi fara fram og sinfóníugaulið var byrjað þegar við komum en ekki gusugangurinn. Við vorum svo heppin að fá sæti alveg við herlegheitin og fyrir aftan okkur voru svo þrír söluvagnar sem seldu eitthvað snakk. Nú var mér farið að verða kalt enda gerðist ekkert lengi vel svo ég fór og kíkti á sölubásana og tók strax eftir því að einn þeirra seldi whisky í plastglösum og fannst tilvalið að ylja mér aðeins og ég rétti kallinum 10 evrur og sagðist ætla að fá fyrir það. Karlinn brosti út að eyrum og hellti plastglasið fleytifullt og satt best að segja var mér ekki nærri eins kalt eftir að hafa klárað það. Ennþá gerðist ekkert nema það kom meira sinfóníugaul og nú fór whiskyið að hafa áhrif á nýrum og nauðsynlegt að finna stað til að spræna á. Ég komst að því að það er ekki mjög gott að vera mál að pissa og sitja og horfa á rennandi vatn á meðan. Við nánari athugun kom í ljós lítil og láreist bygging sem hýsti einhverskonar ferðatoilett og hafði myndast löng biðröð við dyrnar. Lítið mjakaðist röðin og mér fannst Spánverjar vera lengi að pissa en skýringin kom í ljós þegar það kom loksins að mér. Fyrir innan var maður sem spegilfægði toilettið eftir hvert sinn sem einhver fór inn og tók sú athöfn mun lengri tíma en fyrir viðkomandi að pissa. Ég rétt náði svo að tæma blöðruna áður en herlegheitin byrjuðu og hafði á orði þegar ég settist við hliðina á konunni að það væri henni að kenna ef ég fengi blöðrubólgu á þessu menningarkvöldi hennar. Svo byrjuðu boðaföllin fyrir alvöru, vatn sprautaðist í allar áttir og í öllum regnbogaslitum og sinfóníugaulið hækkaði til muna. Konan tók andköf við hverja gusu og dásamaði tónlistina sem var víst eftir einhverja löngu dauða snillinga. Svo eftir svo sem hálftíma datt allt í dúnalogn og allt var búið. Frábært, stórfenglegt stundi konan og átti ekki orð yfir þessari dásemd, hvernig fannst þér þetta spurði hún svo.
Ég hefði nú bara alveg eins getað staðið út á svölum á hótelinu og migið niður og lýst það upp með vasaljósi sagði ég og lét mér fátt um finnast.
Þú hefur aldrei verið menningarlega sinnaður sagði konan snúðugt og tók strauið út á næstu leigubílastöð og kvöldið endaði svo á Happy bar og grill á nautasteik, bjór og írsku kaffi.
Þannig leið nú þessi annar dagur okkar í Barcelonaog það væri synd að segja að hann hefði ekki verið nokkuð viðburðarríkur og svo voru jú allir hinir dagarnir eftir, en það er alveg klárt að ég verð að fara a.m.k. eina ferð í viðbót til Barcelona þó ekki væri til annars en að gá hvort þau loga ennþá ljósin þar sem hún stendur hún JÓMFRÚ JÚLÍANA
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar