Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR

Ólátagarður er að breyta um nafn og mun  mánudaginn 30 apríl 2007 fá nýtt nafn.  Þá á konan nefnilega afmæli og nær þeim merka áfanga að verða hálfrar aldar gömul.  Ólátagarður mun því framvegis bera nafnið Elliheimilið Ólátagarður.  Ég verð að segja það að ég er nokkuð kvíðinn vegna þessa áfanga því frúin hefur verið í mikilli afneitun síðustu vikur sem lýsir fyrst og fremst í því að apótekið á staðnum er að verða eitt hið stöndugusta á landinu vegna aukningar í sölu á meiki, augnskuggum og allskonar yngingarkremum sem frúin smyr síðan á sig áður en hún fer í leikfimi, jóga eða bara út í garð að moldvarpast. Þess á milli er svo stormað í klippingu, strípur og litun á bjútístofunni til að fela öll gráu hárin sem fjölgar óðfluga.   Já það er allt gert til þess að sýnast aðeins yngri og gildir þá einu þó ég reyni að benda á að klukkunni verði ekki bakkað.  Ég hef þó reynt að hughreysta hana aðeins og hef bent á að þó hún sé að komast á ömmualdurinn þá sé það engin heimsendir því eins og ég sagði henni vita allir að amman var hornsteinn heimilisins í gamla daga.  Hún gætti barnanna á meðan foreldrar þeirra unnu úti og sá um elddamenskuna, þrifin og þvottinn, enda var það ekki að ósekju að hún hlaut viðurnefnið “ þarfasti þjónninn “  Þessi ábending mín hlaut vægast sagt dræmar undirtektir enda frúin langt frá því að fara að setjast í helgan stein og stendur reyndar á öðrum tímamótum í lífi sínu því hún hefur sagt upp störfum sem þjónustustjóri Sparisjóðsins í Gúrkubæ og hefur ráðið sig til starfa hjá virtu tölvufyrirtæki í sjálfri höfuðborginni.  Þó vissulega sé nýja vinnan mun betur launuð en sú gamla þá hef ég sterkan grun um að þetta tengist frekar aldursáfanganum og sé örvæntingarfull tilraun til þess að halda í æskuljómann með því að laumast inn í viðskiptageirann og starfa með stuttbuxnaliðinu þar.  Ég bar þetta undir hana og spurði hvort þessi viðskiptageiri væri ekki bara fyrir einhverja verðbréfagutta sem væru ennþá blautir á bak við eyrun.   Ég ætla nú ekkert að vera að hælast um sagði konan en til þess að komast áfram í viðskiptalífinu þá verður maður að vera miklu duglegri en karlmaður svo þú sérð að það er engin vandi.  Þar með hélt ég að málið væri útrætt en konan bætti við eftir smástund:  Svo er ég líka ágætlega menntuð og hef þar að auki tekið hin ýmsu námskeið sem eiga eftir að nýtast mér í þessu nýja starfi.  Menntun er nú ekki það sem við lærum heldur það sem er eftir þegar við höfum gleymt því sem við höfum lært sagði ég spekingslega þar sem ég stóð og virti fyrir mér skjalabunkann sem konan átti að kynna sér áður en hún hefur störf.  Mikið er þá gott að þú ert ekki að fara að vinna þarna  því hjá þér er nefnilega ekkert eftir sagði konan og horfði mæðulega á mig.  Ég ákvað að hætta mér ekki lengra inn á þessa braut því konan var í þannig ham að ég var ekki viss um að hafa betur í þetta sinnið.  En um leið og ég lýsi því hér með formlega yfir að Elliheimilið Ólátagarður opnar mánudaginn 30 apríl þá óska ég þessari elsku til hamingju með áfangann og get í leiðinni upplýst hana um að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af því að mamma kenndi mér það strax í æsku að maður á alltaf að:

                                     VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR


ÞÚ ELSKAR MIG

Um páskana gerðist atburður sem á eftir að auðvelda mér lífið svo um munar það sem eftir er ævinnar.  Þannig var að ég sat í sælli ró og var að spá í hvort konan hefði tímt að splæsa í páskaegg handa mér þegar ég tók eftir því að það var engin ánægjusvipur á henni og síðan dæsti hún hátt og horfði fast á mig.  Ætli ég hafi gleymt að fara út með ruslið hugsaði ég með mér og flýtti mér fram að athuga málið en ruslafatan var galtóm svo ekki var það það sem var að hrjá konuna.  Ætli hún hressist ekki ef að ég þvæ fyrir hana bílinn hugsaði ég með mér og fór í stígvél og keyrði Blu Bird heim að skúrnum og hófst handa við þvottinn.  Skyndilega veitti ég því athygli að konan stóð í skúrdyrunum og var núna sýnu illilegri á svipin en í stofunni áðan.  Ætli hún sé ekki ánægð með að ég skuli vera að þvo bílinn eða ætli hún vilji að ég bóni hann líka hugsaði ég þegar ég horfði á hana og sá að svipurinn þyngdist sífellt.  Ég keypti handa þér páskaegg nr. 7 elskan kallaði ég og vonaðist til að konan myndi eitthvað hressast við þær fréttir.  En frúin snéri sér bara snúðugt við og strunsaði inn aftur en ég stóð eftir með þvottasvampinn og skyldi hvorki upp né niður í því hvað amaði að henni.  Hvað í fjáranum er að núna,  hvern skrambann hef ég núna gert,  ég hef þvegið og tekið til, séð um ruslið og skrúbbað bílinn og svo eru margir mánuðir síðan ég hef dottið í það svo ekki hef ég sagt neitt óvarlegt í ölæði.  En það var alveg sama hvað ég hugsaði,  ég gat bara ekki með nokkru móti fundið út hvað gæti hugsanlega verið að en komst þó að þeirri niðurstöðu að ef allt færi á versta veg þá gæti ég þó alltaf étið páskaeggið hennar.   Að þvottinum loknum fór ég svo aftur inn og settist í stólinn minn.  Konan horfði á mig góða stund en sagði svo:  Ég ætla nú svo sem ekkert að vera að setja út á karmenn,  þeir eru jú það skásta sem við konurnar eigum völ á   “ af því taginu “  en ætlar þú að segja mér það Snorri Þór að þú vitir ekki hvaða dagur er í dag.   Jú jú það er laugardagur sagði ég hissa og það er sunnudagur á morgun bætti ég við ef konan hefði eitthvað ruglast í dögunum,  þú veist páskaeggjadagurinn bætti ég við.  Það var svo sem ekki við öðru að búast sagði konan mæðulega og þú manst kanski ekki heldur hvað gerðist fyrir nákvæmlega einu ári síðan.  Ég hugsaði mig um smástund en gat bara ekki með nokkru móti munað hvað hafði gerst fyrir nákvæmlega ári síðan.  Var það dagurinn sem vonda veðrið kom sagði ég svo  því ég mundi að það hafði snjóað heilmikið í apríl í fyrra.  Ég leit á konuna og sá að þetta var greinilega ekki rétta svarið og eftir svipnum á henni að dæma var stutt í páskahretið þetta árið.  Ég skal reyna að hressa upp á minnið í þér karl minn sagði konan og byrjaði að blístra brúðarmarsinn.  Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég uppgvötvaði hverju ég hafði gleymt.  Ertu að segja mér að það sé komið eitt ár síðan við giftum okkur sagði  ég eigum við virkilega brúðkaupsafmæli í dag.  Já við eigum sko brúðkaupsafmæli í dag hrópaði konan en það var sko 7 apríl fyrir ári síðan sem ég gekk að eiga mesta og minnislausasta þorskhaus á Íslandi. Ertu viss um að það sé bara eitt ár síðan sagði ég mér finnst eins og það sé miklu lengra síðan.  Konan horfði illilega á mig en ég fór að spá í hvernig ég gæti nú bætt henni þetta upp og reddað mér út úr þessu klandri í leiðinni.  Samt hringdi þessi dagsetning 7 apríl engum bjöllum hjá mér og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta þá varð ég vissari í minni sök.  Ég stóð því á fætur og sótti möppuna mína og fletti upp á hjónavígsluvottorðinu.  Ég tók skjalið úr möppunni og reyndi að leyna kæti minni þegar ég fór aftur fram í stofu.  Heyrðu elskan,  hvaða þorskhaus var það sem þú giftist þann 7 apríl í fyrra.  Ég er nefnilega með skjal í höndunum stimplað af virðulegum fulltrúa sýslumanns um að ég hafi gifst einhverri freðýsu þann 5 apríl í fyrra en ekki þann 7 apríl.  Núna gerðist það sem aldrei hefur gerst áður,  konan varð orðlaus góða stund og sat bara steinilostin og gapti.  Láttu mig sjá þetta skjal sagði hún svo loksins og ég rétti henni hjónavígsluvottorðið.  Ég get svo svarið það sagði konan svo eftir góða stund,             

ég var viss um að við hefðum gift okkur 7 apríl í fyrra hvernig stendur eiginlega á því að ég hef ruglast á dögum.  Ég vissi alltaf að það var miklu lengra síðan við giftum okkur sagði ég kokhraustur því innst inni vissi ég það að framvegis skiptir það engu máli hvort ég man eftir brúðkaupsafmælinu okkar því ef svo ólíklega fer að ég gleymi því aftur þá minni ég bara konuna á það að hún hafi jú gifst mér þann 5 apríl en síðan tveimur dögum seinna þann 7 apríl hafi hún gifst þorskhausi.  Konan varð óhuggandi yfir því að hafa gleymt brúðkaupsafmælinu okkar  og varð reyndar svo mikið um þetta að hún þurfti að leggjast fyrir.  Ég settist á gólfið við hliðina á sófanum og klappaði henni á kinnina og sagði:  Hvaða máli ætli það skipti svo sem hvort við höldum uppá það að vera búin að vera gift í eitt ár þann 7 apríl en ekki þann 5 apríl það eina sem skiptir máli er að við elskum hvort annað.  Þú veist að ég elska þig og segðu mér bara að þú elskir mig líka og svo gleymum við þessu bara,  við erum svo ansi góð í því.  Konan horfði á mig en sagði ekkert svo ég ítrekaði óskina og sagði:  Plís elskan segðu að ÞÚ elskir mig.  Þá loksins brosti konan og kyssti mig á kinnina og sagði:

                                                  ÞÚ ELSKAR MIG 


FLUTTUR Í KJALLARANN

Jæja þá er komið að því,  ég hef ákveðið að flytja í kjallarann og búa þar einn,  já það verður sko skipt um skrá og settur stór slagbrandur fyrir dyrnar svo enginn komist inn.  Og hver skyldi svo vera ástæða þess að húsbóndinn og ástkær eiginmaður og faðir tekur svo stóra ákvörðun að segja bless við allt pakkið á efri hæðinni.  Jú þær eru sko tvær.  Í fyrsta lagi þá er það sparnaðar og verðkönnunarárátta konunnar og í öðru lagi óstöðvandi hlátur hennar sem er að gera mig vitlausan þessa dagana.  Konan telur sig nefnilega vera sérlegan eftirlitsmann með verðhækkunum á matvöru á öllu Suðurlandi og víðar.  Þetta hefur orðið til þess að ég er stundum sendur í fimm til sex staði til að kaupa eitt stykki af þessu hér og annað af hinu þar þegar hægt væri að kaupa allt á einum stað á smá stund.  Skiptir þá engu þótt ég bendi á að ávinningurinn af sparnaðinum sé enginn því kostnaðurinn við akstur á milli staða éti hann allan upp og meira til.  Svo mikil er þessi árátta að frúin eyðir nú löngum stundum í matvörubúðum og leggur á minnið verð á matvörum og fleiru og svo rammt kveður að þessu að ég get svarið það að um daginn tók ég kornfleks pakka og bar strikamerkið upp að augunum á henni og umsvifalaust hrökk út úr henni:   269 kr. í Bónus, hækkaði um 4 kr. í síðustu viku.  Svona hefur þetta gengið alveg frá því að matarskatturinn var lækkaður og þessi árátta löngu komin úr öllum böndum.  En í einu sparar þó konan ekkert heldur eyðir mánaðarlega heilmiklum fjármunum í hundkvikindið á heimilinu.  Takk fyrir,  einu sinni í mánuði er pantaður tími fyrir dýrið á bjútístofu suður í Reykjavík þar sem hann er baðaður upp úr allskonar ilmsápum og næringum og síðan klipptur og greiddur bæði ofan og neðan.  Það lendir nú venjulega á mér að fara með hann á bjútístofuna því konan pantar venjulega tíma fyrir sig á annari bjútístofu á meðan og þar er hún klippt  (allavega að ofan) og fær strípur og eitthvað dúllerí í leiðinni.  Það var svo um daginn í einu sparnaðarkastinu að konan sat og var að fara yfir Visa reikninginn og gera sinn venjulega verðsamanburð að ég tók eftir því að bjútístofan sem hundurinn fer á tók helmingi lægra gjald en bjútístofan sem konan fer á.  Ég hugsaði málið um stund og gat ekki betur séð en gjörningurinn á báðum þessum bjútístofum væri nánast sá sami svo að næst þegar ég fór með hundinn í snyrtingu spurði ég stúlkuna sem var að vinna þar hvort það væri möguleiki að ef ég kæmi með kerlinguna líka hvort það væri ekki hægt að skrúbba hana rækilega og klippa og greiða bæði ofan og neðan og kannski þrjár eða fjórar strípur í leiðinni fyrir sama verð og hundinn.  Stúlkan á snyrtistofunni horfði á mig smástund en hló svo og sagði:  Tja ég veit nú ekki með það,  hérna eru viðskiptavinirnir geymdir í búrum á meðan þeir bíða og bundnir þegar þeir eru snyrtir og svo þarf að setja múl á munninn á þeim verstu ef þeir reyna að bíta.  Hmmm sagði ég,  það er ekkert mál með búrið og svo er kerlingin þokkalega vanin svo það ætti nú kannski ekki að þurfa að binda hana en þetta með múlinn væri samt ekki galin hugmynd.  Stúlkan hló bara aftur en sagði svo:  Ekkert mál svo framanlega sem hún kemst ofan í þvottabalann sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þú komir bara með hana líka næst.  Ég kvaddi því glaður í bragði og flýtti mér heim og sagði konunni frá hugmynd minni og að ég hefði pantað tíma fyrir hana líka í næsta mánuði og þannig myndi sparast stórfé.  Viðtökurnar sem ég fékk voru ekki þær sem ég bjóst við og þó glóðaraugað eigi sjálfsagt eftir að hjaðna með tímanum þá skil ég hvorki upp né niður í þessu lengur,  er konunni einhver alvara með þessu sparnaðarátaki sínu eða á bara að spara sumt en annað ekki og þegar maður kemur með góðar hugmyndir um sparnað sem “ kosta ekki neitt “ þá fær maður bara einn grænann good moren  “ staðgreiddann “ með það sama.  En þetta er nú samt ekki það versta, ó nei ó nei,  um daginn hélt konan af stað í einn verðkönnunarleiðangurinn sinn og þar sem litli Yarisinn hennar sem gengur undir nafninu Blu Bird var ekki heima þá var ég látinn taka jeppann út úr skúrnum.  Ég rétti konunni lyklana og bað hana að setja svo bílinn aftur inn í skúr þegar hún kæmi til baka og síðan ók frúin settileg af stað.  Ég flýtti mér svo inn og settist við sjónvarpið og fór að horfa á einn fótboltaleik eða svo og góða stund ríkti blessaður friður á heimilinu.  En ekkert varir að eilífu og rúmum klukkutíma síðar heyrði ég að frúin ók í hlað.  Konan birtist í gættinni með nokkra poka af einhverjum afsláttarvörum.  Heyrðu elskan kallaði hún ég treysti mér ekki til að keyra bílinn inn í skúr,  hann er svo stór að ég er hrædd um að reka hann utan í dyrnar.  Láttu ekki svona kona kallaði ég á móti,  þetta er risa hurð,  þetta er ekki meira mál en að keyra Austin Mini inn um hlöðudyr.  Ég legg nú samt ekki í það sagði konan ákveðin og bölvandi stóð ég á fætur og fór og opnaði bílskúrinn og hoppaði upp í jeppann.  Kerlingar og bílar fussaði ég um leið og ég setti í gang,  það ætti að banna þeim að keyra neitt stærra en Blu Bird hugsaði ég svo og setti í gír og keyrði beint á hlöðudyrnar.  Það heyrðust heilmiklir skruðningar þegar brettakanturinn skrapaði járnið á hurðinni og konan kom á harða spretti til að gá hvað gengi á.  Hvað gengur eiginlega á hrópaði hún.  Ööööööööö sagði ég þegar ég steig út úr bílnum og fór að skoða aðstæður.  Hvað gerðist eiginlega spurði konan aftur.  Ööööööööööööö stamaði ég en skyndilega setti að konunni óstöðvandi hlátur.  Keyrðirðu  á   “ HLÖÐUDYRNAR “ stundi hún og grenjaði úr hlátri.  Öööööööööö  sagði ég einusinni enn og fór að kanna skemmdir.  Í ljós kom rispa í lakki og brettakanturinn hafði losnað frá að hluta.  Til þess að bíllinn yrði nú ekki úr leik sótti ég túpu af tonnataki og límdi brettakantinn aftur á  þangað til varnalegri viðgerð fer fram.  Konan fékk annað hláturskast þegar hún sá mig með tonnatakið og sagði:  Blu Bird er ekki límdur saman eins og sumar druslurnar á þessu heimili.  Heyrðu elskan sagði ég og tók tonnatakstúpuna,  má ég aðeins sjá á þér varirnar.  Konan forðaði sér inn en ég ákvað að dvelja aðeins lengur í bílskúrnum en heyrði þó hláturrokurnar í konunni af og til.  Síðan þetta gerðist hefur ekki verið fló í friði á heimilinu og hefur meira að segja gengið svo langt að konan tekur hláturrokur upp úr svefni.  Og þarna dreg ég mörkin,  þetta lið getur bara átt sig og sínar hlöðudyr, ég er sko:

 

                        FLUTTUR Í KJALLARANN:


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband