Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2007
25.7.2007 | 13:23
KLUKKIÐ
Best að ljúka klukkinu af láta flakka 8 atriði um mig sem fæstir vita og klukka í leiðinni Siggu Rósu og Sólveigu og líka þá sem kíkja á bloggið en kvitta aldrei fyrir komuna.
1. Fyrsti bíllinn minn var af gerðinni Singer Voge sem var svona lúxusútgáfa af Hillman Hunter, þegar ég svo var á rúntinum og lagði kagganum á hallærisplanið á Selfossi þá heyrði maður oft inn um bílgluggann: Þarna kemur Snorri á Singer saumavél og í Voge sokkabuxum (seldi hann því fljótlega og fékk mér alvöru bíl Chervolet Impala)
2. Ég fékk snemma veiðidelluna og það var líklega um 7 ára aldurinn sem ég fór í mína fyrstu veiðiferð sem var við Steingrímsstöð, fljótlega fór ég að velta því fyrir mér hvort fiskurinn borðaði ánamaðkinn af því að hann væri svo góður á bragðið og ákvað að prufa. Komst að því að fiskurinn og ég höfum ekki sama smekk á mat.
3. Árið 1986 skrapp ég sárasaklaus til læknis og var umsvifalaust hent inn á spítala og þar var ég ristur á hol og slitið úr mér annað nýrað. Það var svo í síðasta tékki fyrir skurðinn að mér tókst að leiðrétta læknirinn og benda á að það væri hægra nýrað sem var ónýtt en ekki það vinstra eins og stóð á skýrslunni. Það hafði sem sagt orðið ruglingur á spítalanum og ég kallaði læknirinn skottulækni fyrir vikið en hann útskrifaði mig viku seinna sem ólæknandi tilfelli.
4. Þegar ég var 14 ára gisti ég hjá skólabróður mínum og þar fundum við lykil sem gekk að vínskápnum hjá húsráðanda og þar var þessi líka fína flaska af Tindavodka og okkur fannst tilvalið að blanda innihaldinu saman við appelsínudjúsinn á heimilinu og þetta drukkum við svo með bestu lyst. Við vorum reyndar klagaði af nágrönnum því kl. 3 um nóttina sátum við úti í garði og sungum hástöfum:
Upp í loftið hóran svífur hátt
hennar brækur rifna upp á gátt.
Síðan þá hef ég ekki lagt það á nokkurn mann að taka lagið
5. Ég hef aldrei átt við áfengisvandamál að stríða, það hefur alltaf verið nóg til.
6. Hundurinn minn er í miklu uppáhaldi, sérstaklega eftir að ég gat vanið hann á að vekja alltaf konuna ef hann þarf að komast út að pissa. Hann gerði þó undantekningu þann 1 maí s.l. og vakti mig en ekki konuna. Mér fannst það allt í lagi því 1 maí er jú frídagur verkalýðsins.
7. Eitt af mínum fyrstu prakkarastrikum (af mörgum) var að hella fullum brúsa af lopasápu í nýja gosbrunninn hans Harðar sundkennara sem átti heima í næsta húsi. Forðaði mér á hlaupum þegar froðan náði orðið upp á bílskúrsþak.
8. Og að lokum vil ég bara láta konuna mína vita eitt: Ég er húsbóndi á mínu heimili og kem undan rúminu þegar mér sýnist.
Vinir og fjölskylda | Breytt s.d. kl. 13:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.7.2007 | 17:04
GEISLABAUGUR
Ég vaknaði eldsnemma einn morguninn fyrir skömmu síðan við það að konan ýtti hraustlega við mér og sagði:
Guð minn góður hvað mig var að dreyma alveg hrikalega mikið.
Mig hafði sjálfan verið að dreyma að ég stæði við fallega laxveiðiá og sá stóri var einmitt að fara að bíta á öngulinn þegar konan vakti mig með þessum látum.
Já þakka þér kærlega fyrir að vekja mig bara til þess að segja mér að þig hefði verið að dreyma sagði ég önugur enda hálf sár yfir að hafa tapað af glímunni við laxinn stóra.
Já en þú skilur þetta ekki hrópaði konan á innsoginu, þetta var svo hrikalega skrýtinn draumur, mig dreymdi nefnilega að þú værir að koma út úr stóru húsi og varst með þennan svakalega geislabaug yfir skallanum, furðulegt finnst þér ekki.
Nei það finnst mér hreint ekkert furðulegt svaraði ég mér finnst miklu furðulegra að þú skulir ekki hafa komið auga á það fyrir löngu að hann er þarna alla daga en þú þarft að fara í draumalandið til að sjá þennan fallega geislabaug.
Þetta er eitthvað dularfullt sagði konan byrst og ég held að ég halli mér aftur og sjái hvort draumalandið kemur ekki með skýringu á þessu fyrir mig. Síðan skellti hún hausnum á koddann og breiddi sængina upp fyrir haus og innan skamms heyrðust háværar hrotur undan sænginni.
Það er þá best að ég athugi líka hvort laxinn er ekki þarna ennþá hugsaði ég með mér og lagðist á koddann og lokaði augunum. Eftir svolitla stund var ég svo horfinn aftur á vit draumanna en vaknaði aftur með andfælum þegar ég fékk vænt drag í afturendann frá konunni.
Hvað í ósköpunum gengur eiginlega á kona urraði ég bálillur yfir þessu ofbeldi, finnst þér það við hæfi að byrja daginn með spörkum, hvað á þetta eiginlega að þíða.
Láttu ekki eins og þú sért alsaklaus hrópaði konan ég vissi að það kæmi skýring á draumnum þegar að ég sofnaði aftur.
Jæja góða sagði ég hinn versti og þarf að vekja mann með þessum látum fyrir því, ekki get ég gert að því þó að mér hafi verið úthlutað þessum geislabaug.
Þetta var ekki geislabaugur svaraði konan ískalt, þetta skýrðist allt þegar ég sofnaði aftur, um leið og mig fór að dreyma aftur sá ég strax hvernig í þessu lá öllu saman. Þetta var nefnilega ekki geislabaugur sagði konan, þetta var bara neonljós.
Neonljós sagði ég undrandi, hvernig getur staðið á því að ég var með neonljós yfir hausnum.
Eins og það sé ekki augljóst urraði konan þú varst að koma út af KNÆPUNNI blindfullur og neonljósið fyrir ofan dyrnar speglaðist í skallanum á þér og leit eitt augnablik út fyrir að vera geislabaugur.
Það er ekkert annað bara blindfullur að koma af knæpunni en hvernig er það góða fyrst þetta varð allt í einu svona morgunljóst þýðir það þá ekki að þú varst með mér á knæpunni spurði ég og þá væntanlega búin að fá þér í aðra stórutánna.
Nei aldeilis ekki svaraði konan byrst það var sko engin óregla á mér þú varst sko einn að veltast á knæpunni og það alveg sauðdrukkinn.
Það er bara svona stundi ég bara einn á ferð það var fínt þá hefur örugglega verið gaman hjá mér.
Ég sá strax eftir þessum orðum mínum því ég fékk umsvifalaust annað drag í afturendann og sá mér ekki annað fært en að fara á fætur enda var farið að heyrast í pottormum í næsta herbergi svo að ég þurfti að fara að taka til morgunmatinn. Konan kom svo skömmu seinna og settist þung á brún við morgunverðarborðið.
Ég ætla bara að láta þig vita það Snorri Þór að það kemur ekki til mála að vera með svona óreglu í rúminu á nóttinni sagði hún svo, þú verður að hætta þessu sumbli og svipurinn á henni gaf til kynna að henni væri alvara með þessum orðum.
Þér er nær að vera að hella svona uppá mig svaraði ég fullum hálsi ekki var þetta minn draumur heldur þinn.
Konan skellti uppúr en sagði svo: Ekki skil ég að ég þurfti að sofna tvisvar til þess að sjá eins augljósan hlut og það að þetta var bara knæpuljósið sem speglaðist í skallanum á þér en alls enginn GEISLABAUGUR
13.7.2007 | 16:29
EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM
Um daginn vantaði mig lítilræði úr henni Babílon og þar sem konan ekur daglega til vinnu í Kópavoginn þá sá ég mér leik á borði að spara mér ferð til borgarinnar og láta konuna útrétta fyrir mig í staðin.
Heyrðu elskan sagði ég eins blíðlega og ég gat, þar sem þú ert nú að vinna rétt hjá Smáralindinni þá myndir þú kannski hoppa þar inn fyrir mig eftir vinnu og skjótast rétt sem snöggvast í Hagkaup og kaupa fyrir mig sandala nr. 46 og eins og eitt dúsín af nærbrókum sem mig vantar tilfinnanlega.
Kemur ekki til mála sagði frúin snúðugt, ég hef nóg annað að gera heldur en að vera í búðarrápi fyrir þig og þar að auki sé ég ekki betur en það megi vel nota sandalana sem þú ert á í einhverjar vikur í viðbót og hvað nærbrækur varðar þá bendi ég þér á það að frammi í skúr er þvottavél og ef þú drullast til að þvo af þér nærfötin er algjör óþarfi að fara að eyða peningum í slíkan óþarfa. Það eru líka ekki til neinir peningar fyrir óþarfa eins og þessum því við þurfum að greiða heilmikinn lækniskostnað á fimmtudaginn bætti hún svo við grafalvarleg á svip.
Guð minn góður ertu alvarlega veik sagði ég, hvað er að hrjá þig elskan mín, vitanlega verður læknirinn að ganga fyrir þó það kosti að ég verði að spranga hér um nærbuxnalaus í einhverjar vikur og hver veit nema það eigi hreinlega eftir að flýta fyrir batanum hjá þér.
Í fyrsta lagi þá kemur ekki til greina að þú farir að spranga hér um á sprellanum sagði konan höst, þá hörmungarsjón er ekki hægt að leggja á nokkurn mann og í öðru lagi þá er það ekki ég sem er veik heldur þarf hann Moli litli að fara til læknis og í þriðja lagi þá átt þú að fara með hann því það þarf að svæfa hann og ég verð að vinna svo þú sér bara um þetta.
Bíddu ég var með hundinn í bólusetningu í fyrradag, til hvers varstu að láta mig fara með hann í bólusetningu og láta mig greiða fyrir það stórfé ef þú ætlar að fara að láta svæfa hann svefninum langa og hefur ræfillinn gert eitthvað af sér fyrst þú ætlar að láta lóga honum. Konan missti andann og skipti litum einum fjórum sinnum áður en hún náði andanum aftur og hrópaði:
Þú skalt sko vita það karl minn að fyrr verður þér lógað en honum Mola mínum æpti hún á mig og að þú skulir dirfast að láta þér svo mikið sem detta það í hug eitt einasta augnablik að ég fari að láta lóga þessu krútti. Gúlli vúlli vúllí elsku krúsindúllurassgatið mitt, sjáðu ljóta kallinn sagði hún og kjassaði hundinn, þú mátt bíta hann hvenær sem þú villt þegar hann segir svona ljótt. Hann Moli á að mæta hjá tannlækinum á fimmtudaginn sagði hún svo illilega og það þarf að svæfa hann smástund á meðan það verður hreinsaður tannsteinn úr litlu tönnunum.
Ertu ekki að grínast sagði ég furðulostinn, ætlarðu að segja mér að það sé hægt að fara með hund til tannlæknis, varla er hægt að nota sömu græjur og á mannfólkið.
Ekki aldeilis sagði konan en á dýraspítalanum á Stuðlum er fullkomin tannlæknastofa með öllum græjum og dýralæknirinn hringdi í mig eftir að þú fórst með hann í bólusetninguna og lét mig vita að það þyrfti að hreinsa í honum tennurnar, þetta er víst mjög algengt í þessari hundategund þegar þeir eru orðnir meira en tveggja ára.
Þar sem við Moli vitum af fenginni reynslu að ekki þýðir að deila við dómarann sátum við því félagarnir í jeppanum fimmtudaginn 12. júlí og brunuðum sem leið lá á tannlæknastofuna á Stuðlum og þar tók á móti okkur klínikdama sem tjáði mér að þar sem svæfa þyrfti hundinn þá væri passlegt að koma aftur eftir þrjá tíma og þá ætti allt að vera afstaðið. Þegar ég mætti svo aftur til að sækja kvikindið með nýhreinsaðan trantinn þá tók sama klínikdama á móti mér og fór og sótti hundinn sem birtist heldur reikull í spori og mynnti reyndar á ónefndan aðila á fimmta glasi ef göggt var að gáð. Þetta gekk allt ljómandi vel sagði daman skælbrosandi um leið og hún rétti mér reikninginn fyrir herlegheitunum. Ég get nú ekki annað sagt en mig hafi verkjað ofurlítið í veskið þegar ég reiddi fram heilar 9.000 kr. fyrir verkið. Þegar heim var komið reyndi ég allt sem ég gat til að fá hundinn til að brosa og sýna mér hvað ég hafði verið að greiða 9.000 kr. fyrir en allt kom fyrir ekki hann snéri bara upp á sig og lagðist út í horn og ákvað að sofa meira. Ég settist því við eldhúsborðið með blað og penna og fór að reikna út hvað eytt hafði verið í þetta djásn konunnar á einni viku og útkoman varð þessi:
Tannhreinsun 9.000 kr.
Bólusetning 4.500 kr.
Sjampoo og næring 3.500 kr.
116 lambahjörtu úr Bónus 5.100 kr.
Beef stic (hundanammi) 2.000 kr.
Þurrfóður 700 kr.
_____________
Samtals: 24.800 kr.
Þetta getur nú bara ekki verið rétt hugsaði ég með mér og reiknaði dæmið upp á nýtt. En það var alveg sama hvað ég reiknaði dæmið oft ég fékk alltaf sömu útkomu. Ég fór því að reikna út hvað ég hefði getað gert fyrir þessa peninga og það þurfti nú engan stærðfræðisnilling til að reikna það út að ég hefði getað fengið 1 sandala og 42,6 nærbrækur í Hagkaup fyrir þessa upphæð. Ég hef því ákveðið að ef ég fæ ekki að kaupa það sem mig vanhagar um núna um mánaðarmótin þá hringi ég í dýralæknirinn og bið hann að svæfa kerlinguna meðan ég skrepp í Babílon og kaupi mér eina sandala og
EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM
4.7.2007 | 15:01
Það sem aldrei þagnar
Konan var að skoða diska með myndum og fann þessa mynd frá Kanaríeyjum og neyddi mig til að setja hana á bloggið. Ég varðist þó fimlega og það var ekki fyrr en eftir að hún hafði snúið tvo hringi upp á hendina á mér að ég gafst upp. Í þokkabót heimtar svo konan að myndin verði látin heita:
" EINS Í LAGINU "
Ég sit svo núna og skoða diska með myndum því ég man að ég náði einni af henni við PÁFAGAUKABÚRIÐ og þegar hún kemur í leitirnar þá birti ég hana og læt hana þá heita:
" ÞAÐ SEM ALDREI ÞAGNAR "
Vinir og fjölskylda | Breytt 3.4.2012 kl. 21:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar