Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

JÓMFRÚ JÚLÍANA

Í byrjun apríl skruppum við hjónakornin til þeirrar ágætu borgar Barcelona sem er jú í sérlegu uppáhaldi hjá okkur og var þetta okkar þriðja ferð þangað og vonandi ekki sú síðasta.  Það væri nú í sjálfu sér ekki í frásögur færandi ef ekki hefðu gerst fáheyrðir hlutir sem ég hef ekki upplifað áður í fyrri ferðum til þessar annars ágætu borgar.  Eða hvorki meira né minna heldur en að jómfrú Júlíana varð upplýst, ég fékk skrítið tilboð á sjóminjasafni, langþráður draumur frúarinnar varð ekki alveg eins og til stóð og fyrir tilstilli frúarinnar fékk ég næstum því blöðrubólgu. 

En allt hófst þetta um miðja nótt heima í Miðtúni því þegar við fórum af stað til Keflavíkur um þrjúleitið um nóttina var snælduvitlaust verður,  ofankoma og blindbylur.

Hellisheiðin var kolófær og því ekki annað að gera en að lullast Þrengslin og satt best að segja kom sér vel að hafa farið af stað tímanlega því skyggnið var nánast ekki neitt og á köflum mátti jeppinn hafa sig allan við að klóra sig gegnum skaflana á veginum. 

Til Keflavíkur sluppum við þó og það var svolítið skrítið að eftir að hafa rétt sloppið þangað fyrir snjó og byl þá stóðum við fáeinum klukkutímum seinna á flugvellinum í Barcelona í 22° hita og þar var ekkert sem mynnti á snjó. 

Eftir svolitla töf á flugvellinum þar sem einn farþeginn tíndist vegna ölvunar vorum við svo ferjuð á hótelið.  Það skal tekið skýrt fram að það var ekki undirritaður sem tíndist á flugvellinum þar sem frúin var skömmtunarstjóri á bjór og whisky alla leiðina og satt best að segja þá var það eins og á kreppuárunum miklu, maður fékk bara tvo bjóra og einn whisky í fjögra tíma flugferð.

Þar sem við höfðum jú farið frekar snemma af stað þá gerðum við lítið annað en að skoða mannlífið og slappa af þennan fyrsta dag  ferðarinnar og fórum svo á gott veitingahús um kvöldið og svo snemma í háttinn því dagskráin var sko löng fyrir næsta dag,  ég og frúin vorum búin að skipuleggja hvað ætti að skoða mörgum mánuðum fyrir túrinn og hennar listi var sjö blaðsíður en minn var bara ein lína þ.e. HAPPY BAR OG GRILL.

Daginn eftir var sama blíðan og frúin fletti upp á síðu eitt á listanum sínum og fyrsta vers var að skoða gamla hluta borgarinnar þ.e. gotneska hverfið og sagðist hún hafa áræðanlegar heimildir fyrir því að þar væri að finna eitt besta veitingahús í borginni og taldi sig ekki vera í nokkrum vandræðum með að finna það enda fengið leiðsögn í gegnum síma heima á Íslandi nokkrum dögum áður. 
Því var þrammað af stað um gotneska hverfið og beygt hingað og þangað eftir leiðsögn frúarinnar en ekki fannst veitingahúsið.  Þegar svo frúin var farin að þramma í hringi og var loks orðin rammillt og ringluð tók ég stjórnina í mínar hendur og tókst að lóðsa okkur inn á heilmikið torg þar sem dómkirkjan sjálf blasti við okkur í allri sinni dýrð.

Ekki gátum við látið það spyrjast um okkur að við skoðuðum ekki herlegheitin úr því að við vorum komin þarna og því röltum við inn í þetta háheilaga guðshús. Fyrir innan gat að líta marga listasmíðina og þarna voru líka margir dýrlingar og var hver dýrlingur stúkaður af í litlum bás þar sem hægt var að biðja fyrir sér og sínum og kaupa kerti til að kveikja á.  Þarna inni voru líka bekkir sem hægt var að tilla sér á og þar hlammaði ég mér niður og frúin líka enda orðin dauðþreytt á allri leitinni að veitingastaðnum.  Þarna sátum við í sælli ró og dáðumst að þessari miklu byggingu þegar skyndilega birtist fyrir altarinu þessi feikna mikli og sveri kardínáli og hóf að predika yfir lýðnum og það á latínu.  Konan var alveg hissa á því  hvað mikilli athygli ég hlustaði á messuna en þar var reyndar bara út af því að ég gat ekki betur heyrt þegar sá gamli var að þruma yfir lýðnum á latínunni að hann segði el SPIRITUS  eða eitthvað í þá áttina og því lagði ég við hlustir en hann mynntist ekkert meira á spiritus og reyndar  það eina sem ég skildi í þessari predikun var AMENIÐ sem kom í restina.  Þegar þessari upplifun var svo lokið og við vorum á leiðinni út úr kirkjunni kom ég auga á fleiri bása með dýrlingum en þeir voru aðeins öðruvísi því í staðin fyrir að kveikja á kerti þá stakk maður smápeningum í þar til gerða rauf og þá kviknaði á rafljósi í töflu fyrir framan dýrlinginn og á hverri töflu voru ca. 300 ljós.  Þetta varð ég að sýna konunni svo ég dró hana að einum af þessum litlu básum og þar blasti við okkur sjálf jómfrú Júlíana í allri sinni dýrð.  Á þartilgerðu skilti stóð að maður skyldi biðja um fyrirgefningu synda sinna og biðja fyrir sýnum nánustu um leið og maður kveikti á ljósinu.  Sjáðu elskan sagði ég það ætti nú ekki að saka að kveikja á svo sem eins og fjórum eða fimm ljósum sagði ég og fór að tína smápeninga upp úr vasanum sem ég lét detta í raufina framan á jómfrú Júlíönu.  En það var sama hvað ég stakk miklum peningum í raufina það kviknaði ekki ein einasta ljóstýra fyrir framan jómfrú Júlíönu.

Það skríkti í frúnni þar sem hún stóð og fylgdist með mér stinga hverjum peningnum af öðrum í raufina.  Miklar eru syndir þínar sagði hún svo og núna var farið að ískra í henni af ánægju og satt best að segja var þetta farið að verða svolítið vandræðalegt því það var komin röð fyrir aftan mig af fólki sem baðst fyrir og ætlaði líka að kveikja á ljósi hjá jómfrú Júlíönu og ég var að verða blankur og engin ljóstýra kviknaði.  Það var svo að lokum gömul nunna sem kom mér til bjargar og benti mér á að það væri ekki nóg að setja peninginn í raufina heldur ætti maður líka að ýta á þartilgerðan takka til hliðar. Nú hýrnaði yfir mér enda búinn að troða einum 15 evrum í raufina framan á jómfrúnni og ýtti því hróðugur á takkann.  En líklega er ekki ætlast til að maður setji svona mikið að klinki í raufina því þegar ég svo ýtti á takkann kviknaði á öllum fjárans 300 ljósunum og jómfrú Júlíana ljómaði eins og sól í heiði og lýsti upp hálfa kirkjuna.  Ég snéri mér því við og leit á röðina sem var fyrir aftan mig og sagði “úpps uppselt” og flýtti mér svo út úr kirkjunni.  Að þessum hremmingum loknum var ákveðið að hætta að leita að veitingastaðnum og fara á sjóminjasafnið og skoða hvernig galeiður voru smíðaðar á 13 öld og reyndist vandalaust að finna það safn og reyndist það hin besta skemmtun og fróðleikur að skoða það.  Þar sem svo gengið var út úr safninu að lokinni skoðun var minjagripaverslun sem seldi ýmsan varning og þar fjárfesti ég í þessari líka þrælflottu sjóarahúfu eða öllu heldur pottloki með engu deri og ekki var svo verra að í garðinum við safnið var þessi flotti pöbb og þar settumst við niður og ég pantaði tvo stóra bjóra og meðan við biðum eftir þeim þá tók ég upp nýju húfuna og skellti henni á hausinn og spurði frúnna hvernig henni fyndist.  Frúin gaf lítið út á hvað henni fyndist og reyndar umlaði bara eitthvað í henni um að réttast væri að taka niður pottlokið.  Þar sem ég sat svo sæll og glaður með mitt pottlok og væna bjór vatt sér að borðinu yngismær ein varla mikið meira en tvítug, íklædd einhverjum minitopp og minipilsi og stillti sér upp fyrir framan mig og skeytti engu þótt konan sæti við hliðina á mér og sagði:

Allo sailor, com with me and have good time.

Ég brosti bara mínu blíðasta með mitt pottlok en frúnni svelgdist á bjórnum og varð eins og þrumuský í framan.  Viltu losa okkur við þessa skækju og það á stundinni hvæsti hún svo og svipurinn gaf til kynna að núna væri betra að vera snöggur.  Ég vissi ekki alveg hvernig best væri að taka á málinu og í fátinu sem kom á mig hrópaði ég því:

HERFA HERFA  LÁTTU ÞIG HVERFA

Yngismærin brosti blítt og hvarf á braut en frúin var ennþá eins og þrumuský í framan og spurði ískalt:

 Af hverju sagðirðu þetta á íslensku góði, ha, hver var það sem átti að hverfa ha.

Að sjálfsögðu hún stundi ég, þú sást að ég horfði á hana meðan ég sagði þetta og ég sagði þetta á íslensku af því að ég kann bara ekki að segja þetta á útlensku.  Ef þú kannt að segja þetta á útlensku þá skal ég alveg fara og segja það við hana ef þú vilt.

Þú ferð ekki rassgat hrópaði frúin og taktu svo niður þetta ömurlega pottlok áður en þú verður okkur til meiri skammar.  Svo verð ég ekki hér stundinni lengur sagði hún og tók strauið út á götu.  Ég borgaði bjórinn í snatri og elti svo frúnna og sagði:

Ekki var þetta mér að kenna, henni hefur bara litist svona vel á pottlokið og haldi að ég væri að fá mér bjór með aldraðri frænku minni og hvað er svo næst á listanum þínum elskan mín.  Frúin svaraði engu en svipurinn sagði allt sem segja þurfti svo ég sagði glaðlega:

Eigum við kannski að fara aftur og heimsækja jómfrú Júlíönu og kveikja á eins og 300 ljósum til viðbótar. Frúin svaraði engu heldur strunsaði sem leið lá niður að höfn og þar skyndilega fékk ég hugljómun. 

Heyrðu elskan sagði ég, ég er að hugsa um að bjóða þér í siglingu um Miðjarðarhafið því ég vissi að þetta hafði lengi verið draumur hjá henni þ.e. skemmtisigling um Miðjarðarhafið á skemmtisnekkju með svölum og öllu tilheyrandi.  Það var að vísu ekki alveg það sem ég hafði í huga en eitthvað varð að gera til að bjarga málunum. 

Ha, siglingu jú það væri gaman sagði konan og tók nú gleði sína á ný og ég sá að hún var í huganum komin út á sjó á skemmtiferðaskipi í lúxusklefa með svölum og sundlaugum á hverju þilfari. 

Bíddu þá aðeins kallaði ég og snaraðist að miðasöluskúr sem var þarna við höfnina og þar var skilti sem auglýsti klukkutíma siglingu meðfram borginni.  Ég keypti tvo miða í snatri og bauð svo konunni að ganga um borð. Farkosturinn var að vísu ekki skemmtiferðaskip með svölum og öllu tilheyrandi heldur líkari tveggjahæða strætó en það sátu þó allir úti svo það mátti því alveg líkja því við svalir.  Eigum við að fara á þessu spurði frúin með miklum efasemdarsvip og leist greinilega ekkert á blikuna. 

Já já um að gera að byrja smátt sagði ég þetta verður ágætis æfing fyrir skemmtiferðaskipið og um leið var landfestum sleppt og dallurinn lullaði út hafnarkjaftinn í Barcelona.  Þegar svo komið var út fyrir hafnarkjaftinn breyttist sjólagið hinsvegar dálítið, nokkur vindur var og heilmikil undiralda svo dallurinn hoppaði og skoppaði eins og korktappi með tilheyrandi skrækjum í farþegunum.  Ég náði þó að skondrast á neðraþilfarið þar sem litlum bar hafði verið komið fyrir og ná mér í einn bjór en konan vildi alls ekkert og var reyndar farin að skipta litum og var orðin frekar grænleit í framan.  Ég flýtti mér því að klára bjórinn svo konan gæti gubbað í könnuna ef þess gerðist þörf en hún lét sér nægja að verða bara græn í framan þennan klukkutíma sem siglingin tók en var greinilega nokkuð létt þegar hún hafði fast land undir fótum aftur.

Þetta var nú ekki alveg það sem ég hef átt við þegar ég hef talað um siglingu um Miðjarðarhafið og ég hreint ekkert svo viss um að mig langi að sigla neitt meira um það sagði hún svo og gretti sig. 

En nú varð að drífa sig heim á hótel því mikill menningarviðburður stóð til um kvöldið að sögn konunnar því það átti að fara á mikla gosbrunnasýningu þar sem vatn frussaðist upp í loftið í takt við einhverja sinfóníutónlist. Það var farið að kólna aðeins og hitinn komin niður í 10° um kvöldið en mér fannst nú samt ástæðulaust að fara að klæða mig eitthvað mikið og fór því bara léttklæddur til að horfa á herlegheitin.  Það var heilmikið af fólki í garðinum þar sem sýningin skyldi fara fram og sinfóníugaulið var byrjað þegar við komum en ekki gusugangurinn.  Við vorum svo heppin að fá sæti alveg við herlegheitin og fyrir aftan okkur voru svo þrír söluvagnar sem seldu eitthvað snakk.  Nú var mér farið að verða kalt enda gerðist ekkert lengi vel svo ég fór og kíkti á sölubásana og tók strax eftir því að einn þeirra seldi whisky í plastglösum og fannst tilvalið að ylja mér aðeins og ég rétti kallinum 10 evrur og sagðist ætla að fá fyrir það.  Karlinn brosti út að eyrum og hellti plastglasið fleytifullt og satt best að segja var mér ekki nærri eins kalt eftir að hafa klárað það.  Ennþá gerðist ekkert nema það kom meira sinfóníugaul og nú fór whiskyið að hafa áhrif á nýrum og nauðsynlegt að finna stað til að spræna á.  Ég komst að því að það er ekki mjög gott að vera mál að pissa og sitja og horfa á rennandi vatn á meðan. Við nánari athugun kom í ljós lítil og láreist bygging sem hýsti einhverskonar ferðatoilett og hafði myndast löng biðröð við dyrnar. Lítið mjakaðist röðin og mér fannst Spánverjar vera lengi að pissa en skýringin kom í ljós þegar það kom loksins að mér.  Fyrir innan var maður sem spegilfægði toilettið eftir hvert sinn sem einhver fór inn og tók sú athöfn mun lengri tíma en fyrir viðkomandi að pissa.  Ég rétt náði svo að tæma blöðruna áður en herlegheitin byrjuðu og hafði á orði þegar ég settist við hliðina á konunni að það væri henni að kenna ef ég fengi blöðrubólgu á þessu menningarkvöldi hennar.  Svo byrjuðu boðaföllin fyrir alvöru, vatn sprautaðist í allar áttir og í öllum regnbogaslitum og sinfóníugaulið hækkaði til muna. Konan tók andköf við hverja gusu og dásamaði tónlistina sem var víst eftir einhverja löngu dauða snillinga. Svo eftir svo sem hálftíma datt allt í dúnalogn og allt var búið.  Frábært, stórfenglegt stundi konan og átti ekki orð yfir þessari dásemd, hvernig fannst þér þetta spurði hún svo. 

Ég hefði nú bara alveg eins getað staðið út á svölum á hótelinu og migið niður og lýst það upp með vasaljósi sagði ég og lét mér fátt um finnast. 

Þú hefur aldrei verið menningarlega sinnaður sagði konan snúðugt og tók strauið út á næstu leigubílastöð og kvöldið endaði svo á Happy bar og grill á nautasteik, bjór og írsku kaffi.

Þannig leið nú þessi annar dagur okkar í Barcelonaog það væri synd að segja að hann hefði ekki verið nokkuð viðburðarríkur og svo voru jú allir hinir dagarnir eftir, en það er alveg klárt að ég verð að fara a.m.k. eina ferð í viðbót til Barcelona þó ekki væri til annars en að gá hvort þau loga ennþá ljósin þar sem hún stendur hún JÓMFRÚ JÚLÍANA


ÖMURLEGASTA SÆLUVIKA SEM ÉG HEF ÁTT

Í janúarbyrjun kom konan til mín grafalvarleg og bað mig að finna sig inni í stofu. Ég þarf að ræða við þig grafalvarlegt mál sagði hún og svipurinn benti til að það hefði einhver dáið eða eitthvað þaðan af verra.

Ég held að það sé betra að þú setjist niður áður en ég segi þér þetta sagði hún en áður en hún gat sagt mér hvað væri um að vera var hún trufluð af öðrum ólátabelgnum sem hafði fundið upp á nýjum leik í eldhúsinu.  Pilturinn hafði prílað upp á eldhúsborðið og þaðan upp á opin skilrúmsvegg sem liggur þvert yfir eldhúsið og þar hékk hann og dinglaði löppunum eins og api í tré.

Guð minn almáttugur hrópaði konan, hvað ertu að gera ormurinn þinn, þú getur dottið niður og stórslasað þig.  Ég er sko Tarsan í trjánum gólaði pjakkurinn og dinglaði löppunum af enn meiri ákefð en áður.

Jæja sagði konan, þegar Tarsan dettur niður úr trénu og brýtur á sér báðar lappirnar þá þýðir sko ekki að koma HLAUPANDI til mín. Síðan kippti hún pjakknum niður af veggnum og benti mér svo aftur á að fá mér sæti í stofnunni.

Já eins og ég var byrjuð á að segja áðan þarf ég að ræða mjög alvarlegt mál við þig sagði hún og setti aftur upp jarðarfararsvipinn.  Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrirtækið ætlar að senda mig vestur á Bolungarvík til að halda þar heimabankanámskeið núna um miðjan mánuðinn.

Og hvað með það sagði ég  það er nú ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem þeir senda þig út á land, ég veit ekki betur en þú sért nýkomin frá Reyðarfirði og Norðfirði.

Já ég veit en núna eru það svo mörg fyritæki sem ég á að fara í að ég verð í burtu í heila viku sagði konan og ég var að velta fyrir mér hvort það sé í lagi að skilja þig einan eftir svona lengi og meira að segja leigendurnir í kjallarnum eru úti í Póllandi svo þú verður alveg aleinn heima.  Að vísu koma þau heim á meðan ég verð í burtu og það gæti orðið vandamál ef þau vantar eitthvað því þú ert nú ekki svo sleipur í pólskunni. 

Blessuð vertu ekki að hafa áhyggjur af mér, það gekk nú ágætlega að tala við Rússana hérna um árið, maður sagði bara rússkí brúskí og whiskí og svo framanlega sem það endaði á skí þá skildu þeir mig alltaf sagði ég hinn rólagasti og svo á ég að mæta hjá lækninum á mánudaginn og get keyrt þig á flugvöllinn í leiðinni. 

Það varð að leggja af stað tímanlega á mánudeginum til að ná flugvélinni því það hafði kyngt niður heilum ósköpum af snjó og satt best að segja var bara allt á kafi, snjór uppá miðja glugga og maður þurfti að vaða snjó upp í klof til að komast út á götu svo nú var gott að vera á góðum jeppa.  Óvíst var með flug til Ísafjarðar en þar sem ég þurfti líka til læknis í henni Babílon þá var brotist af stað og á flugvöllinn komumst við og fengum þar að vita að flogið yrði til Ísafjarðar og fært væri þaðan á Bolungarvík.  Ég kvaddi því kerlu á flugvellinum og hoppaði aftur uppí jeppann sem hundurinn hafði passað á meðan ég rogaðist með farangurinn inn í flugstöðina.

Jæja Moli minn sagði ég við hundinn, nú förum við til læknisins og svo heim aftur og veistu hvað það fyrsta sem við gerum er þegar við komum heim.  Hundurinn hafði greinilega ekki hugmynd um hvað það var svo ég hélt áfram.

Sjáðu sko til það fyrsta sem maður gerir þegar það er sæluvika er að gera birgðatalningu í barnum sko.  Ekki til að vita hvort það sé nóg til, ó nei ó nei, það er sko ekkert áfengisvandamál hjá okkur, alltaf nóg til en það er samt nauðsynlegt að gera birgðatalningu til þess að geta keypt nákvæmlega jafn mikið í hann daginn áður en kerlinginn kemur heim því þú getur verið alveg handviss um að hún hefur gert birgðatalningu og það örugglega í þríriti áður en hún fór. 

Hundurinn virtist alveg sammála þar sem hann horfði á mig afar gáfulega meðan við brunuðum til læknisins.  Hjá doktornum fékk ég að vita að ég þyrfti að byrja í nýrri lyfjameðferð a.m.k. næstu 4 -5 mánuði og þar sem ég hafði prufað þetta áður þá vissi ég að byrjunin á henni var ekkert sérstaklega skemmtileg eða var það allavega ekki síðast og var því ekkert sérstaklega ánægður en við því var ekkert að gera. 

Við Moli brunuðum svo aftur austur fyrir fjall og heim í kotið og ekki hafði snjórinn minnkað neitt frá því að við fórum svo við reyndum ekki einusinni við gangstíginn heldur stungum okkur inn um bílskúrinn og þaðan var leiðin greið. 

Við byrjuðum á því að gera nákvæma birgðatalningu í barnum og síðan kíktum við á hvort ekki væri góður leikur í sjónvarpinu einhverntíma í vikunni.  Í ljós kom að daginn eftir var stórleikur í sjónvarpinu og eftir nokkra íhugun var ákveðið að leyfa lyfjunum að gerjast í vömbinni þennan fyrsta dag sæluvikunnar en á morgun þá verður sko bjór og whisky og fótbolti sagði ég ákveðinn við hundinn sem mótmælti ekkert svo það var þá ákveðið. 

Daginn eftir vaknaði ég svo klukkan níu við háværa símhringingu og staulaðist fram og galaði halló í símtólið.

Já þetta er hjá Jóni lækni sagði smámælt símadama hann þarf að eiga við þig orð, viltu bíða aðeins.

Já sæll Snorri minn sagði doktorinn þegar hann kom í símann eftir skamma stund.  Ég fór allt í einu að hugsa þegar þú varst farinn frá mér í gær að ég gleymdi að segja þér að lyfin eru svo sterk að lifrin í þér hefur fullt í fangi með að skilja efnin úr þeim og þú verður því að fara vel með þig og passa sérstaklega að drekka ekkert áfengi á meðan á meðferðinni stendur. 

Abbabb a babb, veistu hvaða vika er núna, ertu alveg viss um að það sé ekki í lagi að fá sér eitt smá staup stundi ég upp.

Hvað er staupið stórt spurði doktorinn alvarlegur í bragði.

Bara svona hálfur lítri sagði ég með vonarróm og kannski kippa af bjór með.

Nei nú verðu þú að hugsa um heilsuna og lætur allt áfengi eiga sig á næstunni og kemur svo í blóðprufu eftir viku sagði doktorinn og kvaddi síðan.

Ég vissi að við hefuðum ekki átt að svara sagði ég við hundinn og reyndar mátti ekki á milli sjá hvor var raunamæddari eftir þetta símtal ég eða hundurinn. Að vísu ekki af sömu ástæðu, ég út af símtalinu en hundurinn af því að ég var ekki búinn að hleypa honum út að pissa.  Annar tók þó kæti sína fljótlega en hinn ekki enda hafði bætt ennþá meira á snjóinn um nóttina og eiginlega ekkert að gera nema hanga inni við.

Það var því ekki nema hálf skemmtun að horfa á leikinn í sjónvarpinu um kvöldið og birgðatalningin algörlega unnin fyrir gíg.  Við Moli fórum því ekkert seint að sofa þetta kvöldið enda eins gott því klukkan hálf fjögur um nóttina var dyrabjöllunni hringt eins og heimsendir væri í nánd.  Ég þorði því ekki annað en að stökkva óklæddur til dyra enda hélt ég að eitthvað alvarlegt hefði skeð.

Þegar ég svo opnaði dyrnar stóð þar snjóugur upp fyrir haus pólski leigjandinn í kjallarnum sem var að koma úr jólafríi frá Póllandi.

Mikið mikið snjóskí kallaði manngreyið, stórt snjóskí við ekki komast innskí.

Ég kíkti út og sá að kjallaratröppurnar og inngangurinn voru á kafi í snjó. Ó sagði ég og skaust inn í bílskúrinn og náði í snjóskófluna.

Hérna sagði ég svo úrillur, skófluskí, mokskí og skellti aftur hurðinni og skreið aftur undir sængina.

Næsta klukkutímann var ekki svefnfriður fyrir látum og skarki meðan mokað og mokað var frá dyrunum í kjallaranum.  Loks heyrði ég þó að dyrunum var skellt og því greinilegt að liðið hafði komist inn að lokum.  Mér fannst ég ekki hafa sofið nema augnablik þegar síminn hringdi og jú jú klukkan var ekki nema hálf átta.  Þegar ég svaraði heyrði ég glaðlega röddina í frúnni á hinum enda línunnar. 

Sæll elskan ég ætlaði nú bara að vita hvernig þið hefuð það.

Fínt tautaði ég grútsyfjaður

Já og ég ætlaði líka að láta þig vita að ég kem heim degi fyrir en áætlað var bara svo þú vitir hvenær þú eigir að sækja mig á flugvöllinn.

Fínt tautaði ég aftur

Já sagði frúin er ykkur ekki farið að hlakka til að fá mig heima aftur sæta og fína

Jú tautaði ég og bætti svo við:

 

 Fegurð þín er fádæmi,
enga finn ég slíka,
en þú ert ekkert einsdæmi,
því ég er svona líka...

 

Síðan skellti ég á og breiddi sængina upp fyrir haus og reyndi að sofna aftur.  Eftir svo sem hálftíma var svo dyrabjöllunni hringt aftur og þegar ég staulaðist til dyra þá var þar pólverjinn aftur skælbrosandi og rétti fram snjóskófluna.

Skila skófluskí, takkskí sagði hann og kvaddi.

Við Moli vorum því hálf geispandi og gapandi allan daginn enda ekki búnir að sofa nema hálfa nóttina og vorum ákveðnir í að bæta okkur það upp og sofa út daginn eftir.

Við vorum jú ekkert vaktir nóttina á eftir en það stóð ekki á því að klukkan rúmlega sex um morguninn var dyrabjöllunni hringt ákaflega .

Þegar ég opnaði stóð þar pólverjinn eina ferðina enn.

Meira snjóskí sagði hann og benti upp í loftið, fá aftur lánað skófluskí.

Hjálpi mér nú allar vættir í drottins nafni og sjötíu tautaði ég meðan ég fór í skúrinn að sækja skófluna.

Þér hlítur að verða rosalega kalt á puttskí að hringja svona mikið dyrabjöllskí sagði ég þú mátt bara eiga skófluskí sagði ég og skellti aftur dyrunum. 

Búnir á sál og líkama fórum við svo seinnipartinn á flugvöllinn að sækja frúnna og þegar ég sá þessa elsku koma trítlandi inn í flugstöðina faðmaði ég hana að mér og stundi

Þú mátt aldei vera svona lengi í burtu aftur því þetta var sú “ ÖMURLEGASTA SÆLUVIKA SEM ÉG HEF ÁTT ”


SJÓNVARP Í SVEFNHERBERGIÐ

Þetta gengur ekki lengur sagði konan með alvörusvip um daginn þar sem hún stóð og góndi á vegginn og loftið í svefnherberginu.

Hvað gengur ekki spurði ég ofurvarlega því venjulega þegar konan er með þennan svip og eitthvað gengur ekki hjá henni þá kostar það meiriháttar breytingar eða endurnýjun á innanstokksmunum.

Jú sjáðu til sagði konan það eru bókstaflega allir sem ég þekki komnir með sjónvarp í svefnherbergið hjá sér og ég sé ekki betur en að hér megi vel koma fyrir eins og einu tæki bætti hún við og horfði sem fastast upp í loftið í herberginu.

Og hvað í ósköpunum ætlar þú að gera við sjónvarp í svefnherbergið sagði ég undrandi, þú sofnar nú venjulega yfir sjónvarpinu frammi í stofu og hvað þá þegar þú leggst á koddann þá er nú vélsögin venjulega komin í gang eftir örstutta stund.

Sjáðu til sagði konan, þetta er spurning um að tolla í tískunni og ef við fáum sjónvarp hingað inn þá get ég horft á einhverja fræðandi þætti á meðan þú horfir á þennan endalausa fótbolta og ef það er ekki fótbolti þá eru það einhverjar aðrar íþróttir.

Og hvað kallar þú fræðandi þætti sagði ég þetta er bara afsökun til að geta horft á Bachelorinn eða American Next Top Model eða eitthvað álíka gáfulegt og svo er líka sjónvarp inni í barnaherberginu svo það er alveg ástæðulaust að fara að fá eitt tæki í viðbót hingað inn í svefnherbergi.

Í barnaherberginu hrópaði konan, ætlast þú til að ég fari að sitja þar og horfa á sjónvarpið meðan þú hertekur stofuna öll kvöld með þitt íþróttabull.  Hvað er það eiginlega með þig og íþróttir sagði hún svo, varst þú einhver ógurlegur íþróttakappi sjálfur fyrst þú liggur yfir þessu alla daga.

Neibb sem betur fer bjargaði áfengið mér frá íþróttabölinu sagði ég en það getur nú samt verið gaman að horfa á einn og einn leik fyrir því og ég tala nú ekki um ef maður hefur einn kaldan öl við hendina líka. 

Það var og sagði konan,  þú liggur í lazy boy stólnum í stofunni með bjór en ég á að hírast inni í barnaherbergi með mitt fræðsluefni og kannski vatnsglas eða hvað.

Já það er miklu betri hugmynd sagði ég um leið og ég snaraðist út því að ég var að verða of seinn í geislatíma í Reykjavíkur.  Að lokinni leiser meðferðinni í Reykjavík þurfti ég svo að útrétta svolítið og það var því langt liðið á dag þegar ég renndi í hlað heima í Miðtúni léttur í lund og hlakkaði til að sjá hvað konan hefði nú eldað handa mér.

Um leið og ég snaraðist inn um dyrnar var ég rétt að segja dottinn um þann stærsta pappakassa sem ég hef séð um dagana og ekki fann ég neina matarlykt en hinsvegar heyrðust miklir skruðningar innan úr svefnherbergi.  Ég flýtti mér inn í svefnherbergið og þar blasti við mér glænýr 42 tommu – háskerpu - víðóma - breiðtjaldsskjár  sem hékk í festingu niður úr loftinu í herberginu.

Babba babbba babbb stamaði ég og horfði furðulostinn á þessa græju sem konan var önnum kafin við að tengja.

Já ekkert babb babb galaði konan,  farðu bara fram í stofu og horfðu á þinn 28 tommu ræfil, það verður sko ekki horft á neinn fótbolta í mínu tæki bætti hún svo við. 

Það verður ekki annað sagt en að frúin hafi gengið óvenju snemma til náða þetta kvöld því að klukkan níu var hún skriðin upp í rúm og búin að kveikja á nýju græjunni.

Ég gerði mér ferð inn í herbergi til þess að skoða og varð að viðurkenna að myndgæðin í nýja tækinu voru all miklu betri  en í gamla 28 tommu garminum mínun.  Ég lagðist því við hliðina á konunni og horfði svolitla stund á einhvern þátt sem var í gangi. 

Það skal skýrt tekið fram að sagan sem hér fer á eftir á alls ekkert skylt við það að ég skyldi leggjast þarna smástund hjá konunni:

 

   Það var kvöld eitt að hjónin höfðu
lagst til hvílu fyrir nóttina að konan varð vör við að eiginmaðurinn snerti hana á mjög óvenjulegan hátt.
Fyrst rendi hann hendinni yfir axlirnar á henni og efrihluta baksins.
Síðan renndi hann hendinni mjög létt yfir brjóst hennar .
Þá hélt höndin varlega niður með síðunni og yfir magann og síðan niður
með síðunni hinu megin niður að mitti.
Hann þuklaði síðan mjöðm hennar fyrst öðru megin og síðan hinu megin. 

 Hönd hans fór síðan niðureftir lærunum utanverðum.
Hönd hans strauk síðan vinstra lærið varlega að innanverðu og eins

 við hægra lærið.
Þegar þarna var komið var hjartsláttur konunnar orðinn örari og hún titraði
aðeins og hagræddi sér í rúminu.
Þá hætti maðurinn skyndilega og sneri sér yfir á hina hliðina í rúminu.
Af hverju ertu hættur” hvíslaði konan.
Hann hvíslaði til baka                                  

“ Ég er búinn að finna fjarstýringuna”!!

  

Eins og ég sagði þá er þetta að sjálfsögðu skáldsaga sem á ekkert skylt við það að ég skyldi leggjast þarna hjá konunni og bara svo það sé á hreinu þá tengist glóðaraugað sem ég er með alls ekki með neinum hætti þeirri staðreynd að það er komið:

 

            “SJÓNVARP Í SVEFNHERBERGIД


LANGI ÓÞEKKTARDAGURINN MIKLI Í ÓLÁTAGARÐI

Einn laugardag fyrir nokkru síðan var haldinn svokallaður langur laugardagur hér á Selfossi með tilheyrandi húllumhæi.  Þennan sama dag var líka haldinn Fiskidagurinn mikli á Dalvík.  Ekki veit ég betur en báðir þessir viðburðir hafi farið vel fram og gengið stóráfallalaust fyrir sig.  Þennan sama laugardag gerðist líka annar atburður sem fór ekki alveg eins vel fram en það var Langi óþekktardagurinn mikli í Ólátagarði. Allt hófst þetta þó á hefðbundinn hátt, ég vaknaði við hávær hlátrasköll í pottormunum sem greinilega voru í góðu stuði svona að morgni dags. Ég þóttist því nokkuð viss um að ekki yrði sofið mikið lengur og fékk það staðfest skömmu seinna þegar hurðin á herbergi pjakkana var opnuð og sá eldri galaði eins hátt og hann gat: 

Ég þarf að pissa, þessu fylgdi svo hurðarskellur þegar klósetthurðin skall aftur svo húsið lék á reiðiskjálfi og meira að segja frúin rumskaði við hliðina á mér í rúminu og opnaði a.m.k. annað augað.

Innan skamms opnaðist hurðin aftur og aftur var hrópað af öllum lífs og sálarkröftum.

Ég þarf líka að gera nr. 2.

KRÆST  ekki nr. 2 kl. 7:05 að morgni hugsaði ég með mér og gjóaði augunum á konuna og velti fyrir mér hvort ég gæti narrað hana í að ganga frá nr. 2 en nú brá svo við að augað var harðlokað og ekkert sjáanlegt lífsmark með frúnni.

Ég velti málinu fyrir mér í smástund og en tók svo utanum konuna og kyssti hana og sagði:

Heyrðu elskan mín akkúrat núna ætla ég að gera þig að hamingjusömustu konu í heimi.

Frábært góði,  ég á eftir að sakna þín sagði konan og ýtti mér frá sér og það rifaði ekki svomikið sem í annað augað á henni.

Búinn!!!  heyrðist núna galað innan af klósettinu og því var ekki annað að gera að drífa sig á fætur og byrja daginn á að ganga frá nr. 2.

Eftir morgunmatinn fóru pottormarnir að horfa á barnaefni í sjónvarpinu svo að ég fékk því tækifæri á að klára uppvaskið og setja í eina þvottavél áður en konan fór á fætur.

Um sama leyti og barnaefnið var búið kom svo konan fram og fékk sér kaffi og innan skamms komu pjakkarnir hlaupandi og sögðust vilja fara út að leika.  Konan kíkti út um gluggann og athugaði veðrið sem var heldur dumbungslegt þennan morgun og nokkar líkur á rigningu svo hún dró fram vígalega pollagalla sem hún svo klæddi pjakkana í.

Síðan brá hún sér inn í bílskúr og náði í glænýjar fötur og skóflur sem hún gaf þeim og sendi þá svo yfir götuna á leikvöllinn. Nú getið þið mokað í sandkassanum kallaði hún svo á eftir þeim áður en hún lokaði hurðinni og hélt áfram að drekka kaffið.  Eftir svo sem hálftíma fór ég svo að athuga hvort ekki væri allt í góðu lagi á leikvellinum og kom þá hvergi auga á piltana.  Við nánari leit sá ég að þeir stóðu fyrir framan splunku nýjan Skoda sem stóð úti á götu og voru önnumkafnir við að drullumalla á húddinu á honum með nýju fötunum og skóflunum.  Hjálpi mér nú allir heilagir hrópaði ég sem aftur varð til þess að konan kom hlaupandi. Vantar þig eitthvað væni minn spurði hún en ég benti skelfingu lostinn á piltana sem lömdu með nýju skóflunum ofan á húddið á  nýja Skodanum.  Nei hættu nú alveg hrópaði konan og skellti sér í skó og hljóp út á götu og ég á eftir. Konan greip í axlirnar á piltunum og sagði höst:

Hvað eruð þið eiginlega að gera, eruð þið alveg orðnir brjálaðir, þið fáið sko ekki nýja skóflu ef þið brjótið þessar. 

Síðan dröslaði hún piltunum inn en ég hafði meiri áhyggjur af  húddinu á Skodanum heldur en skóflunum og þeim skemmdum sem þar voru og reyndi eftir bestu getu að róa eigandann sem var kominn og reyndar búinn að hringja á lögregluna og kæra skemmdirnar.  Eftir tilheyrandi skýrslugerð og afsakanir fór ég svo inn og ræddi alvarlega við piltana sem lofuðu hátíðlega að gera aldrei tilraun til þess aftur að brjóta nýju skóflurnar.  Þeir fóru svo að horfa á videó í herberginu sínu og smástund var friður í kotinu.  Það stóð þó ekki lengi því fljótlega var kallað:  Videóið er bilað.  Hvaða vitleysa er þetta sagði ég og fór inn í herbergi að kanna tækið.  En viti menn videóið virkaði ekki og spilaði ekki myndina né var hægt að spóla hvorki áfram né til baka.  Er það nú drasl hugsaði ég meðan ég aftengdi tækið og fór með það fram í eldhús,  það er bara stutt síðan ég keypti þessa græju.  Síðan náði ég mér í skrúfjárn og skrúfaði lokið af tækinu og þá kom fljótlega í ljós hvað hafði valdið bilunninni.  Það var nefnilega ekki bara videóspólan sem var inni í tækinu heldur var þar heill dýragarður úr plasti að auki.  Litlir puttar höfðu troðið einum gíraffa,  belju, tveimur hænum og ljóni inn í videóið og því eðlilegt að það virkaði ekki.  Ég kallaði í piltana og spurði hastur hver hefði troðið heilum dýragarði inn í videótækið.  Fyrst litu ormarnir hvor á annan og síðan bentu þeir hvor á annan og sögðu í kór.

Hann gerði það.

Vegna skorts á sönnunargögnum var málið látið niður falla gegn ströngu loforði um að setja framvegis ekkert  inn í vedeóið annað en spólur.

Það má ekkert hérna sagði sá yngri um leið og hann fór aftur inn í herbergið sitt og skellti hurðinn á eftir sér. 

Eftir svo sem klukkutíma komu þeir svo hlaupandi með sverð úr plasti sem sem þeir sveifluðu yfir höfði sér og sögðust vera að leika Star Wars og hurfu síðan inn í sólstofuna.  Fljótlega heyrðist hávært brothljóð innan úr sólstofunni og konan sem hafði lagt sig kom nú brunandi innan úr svefnherbergi og hrópaði á innsoginu:

Hvað gengur eiginlega á!  Ó guð hjálpi mér uppáhalds blómavasinn minn er í þúsund molum hrópaði hún og nú er sko nóg komið.  Hún tók í axlirnar á piltunum og setti annan inn í herbergið þeirra en hinn inn í herbergið sem einkasonurinn hefur til afnota en hann var að heiman þennan dag. 

Nú er nóg komið af óþekkt sagði hún ströng og nú verðið þið að vera í sitthvoru herberginu það sem eftir er dagsins. 

Fljótlega opnuðust dyrnar á öðru herberginu og svo var kallað:  Anton, Anton.

Já var svarað og dyrnar á hinu herberginu opnuðust líka. 

Anton nú er ég kominn með sér herbergi kallaði sá yngri sigri hrósandi í bróðir sinn sem kíkti út um dyrnar á hinuherberginu.  Já ég líka kallaði hinn, núna er ég líka kominn með sér herbergi.  Brynjar núna eru bara allir komnir með sér herbergi bætti hann svo við.

Já allir nema Sólveig kallaði sá yngri á móti, aumingja Sólveig  hún þarf ennþá að sofa hjá honum Snorra.

Mér varð litið á konuna og sá að hún kinkaði kolli í gríð og erg og sagði svo.

Hann er ekki svo vitlaus sá stutti.

Um kvöldið eftir að hafa tekið á nokkrum minni háttar afbrotum til viðbótar lagðist ég svo á koddann örmagna af þreytu og var ákveðinn í því að ef konan svo mikið sem mynnist á það einu orði að gerast stuðnigsforeldri fyrir fleiri börn á mynni ég hana pottþétt á hvernig hann fór fram:

 

LANGI ÓÞEKKTARDAGURINN MIKLI  Í  ÓLÁTAGARÐI

  

ÞÚ VANNST

Í sælli ró með kaffibolla, Moggann og ristaða heilhveitibrauðsneið með osti og sultu sat ég við morgunverðarborðið og las það sem helst var í fréttum þennan fallega morgun þar sem sólin skein og fuglarnir sungu sem aldrei fyrr.  Ég gerði hlé á lestrinum og horfði á fjöllin í Grímsnesinu sem voru böðuð í sól og hlustaði á fuglasönginn og naut þessarar kyrrðar sem þeir einir njóta sem vakna snemma.  En kyrrðin var rofin þegar konan stormaði inn í eldhús og hlammaði sér ábúðarfull við eldhúsborðið.  Hún horfði á mig góða stund og undir niðri var ég viss um að nú væri eitthvað í gangi.

 Hvað elskarðu mig mikið sagði hún svo loks og augnaráðið sýndi að nú væri eins gott að hafa rétta svarið á hreinu.

  Hvurslags spurning er nú þetta klukkan sjö að morgni hugsaði ég með mér  meðan heilinn með sína takmörkuðu hugsun svona snemma  reyndi að upphugsa eitthvað svar sem gæti þóknast konunni.

 Ætti ég að breiða út faðminn og segja SVONA MIKIÐ með mikilli áherslu eða vitna í ævintýrið góða þar sem sonurinn sagðist elska föður sinn eins mikið og salt jarðarinnar hugsaði ég en að lokum datt ég niður á að mér fannst alveg skothelt svar.

 Já þetta verður ekki hrakið hugsaði ég með mér um leið og ég snéri mér að konunni og brosti mínu blíðasta.

Ég elska þig jafn mikið og þú elskar mig sagði ég um leið og ég smellti kossi á kinnina á henni.

ER ÞAÐ NÚ ALLT OG SUMT hvæsti konan milli samanbitinna tannana, það er alltaf sama sagan á þessum bæ.

En elskan mín sagði ég,  heyrðirðu ekki það sem ég sagði,  ég elska þig jafn mikið og þú elskar mig.

Vertu ekkert að reyna að klóra yfir holuna þína æpti konan og var nú orðin eins og þrumuský í framan þar sem hún sat þarna á náttsloppnum og lubbinn á henni var eins og úfinn hænurass í vindi.

Þetta er alveg eins og ég vissi, ég er alls ekki metin að verðleikum á þessu heimili ég elda fyrir þig og baka eins og óð manneskja og hvað hæ ég í staðin, ha já ég skal sko segja þér það góði minn ég fæ EKKERT alls EKKERT

Þar varstu nún heppin áræddi ég að segja, ég borða það sem þú eldar og bakar og hvað fæ ég í staðin, ha jú ég skal sko segja þér það góða MAGAPÍNU  já svæsna MAGAPÍNU

Ég stillti mér upp við dyrnar um leið og ég sagði þetta tilbúinn að hlaupa en konan hristi bara hausinn og trítlaði aftur einn í rúm og eftir hljóðunum að dæma sem fljótlega heyrðust þá gekk henni ágætlega að sofna. 

Ég fór því aftur að dunda við brauðsneiðina og kaffibollan og góða stund ríkti blessaður friður í kotinu og ég prísaði mig sælan að þessi rimma hafði ekki endað með rifrildi því ég er nefnilega ekki vanur að hafa betur í þeim rimmum og reyndar held ég að í eina skiptið sem ég hafi átt síðasta orðið í rifrildi við konuna var þegar ég sagði:

Þetta er alveg rétt hjá þér elskan, FYRIRGEFÐU.

Að vísu kom hún einu sinni skríðandi til mín eftir rifrildi en þá kom hún skríðandi og sagði: 

Komdu undan sófanum bölvaður ræfillinn þinn.

Ég kláraði svo Moggan og var að byrja á þriðja kaffibollanum þegar svo hennar hátign vaknaði aftur og kom stormandi fram í eldhús með engu minni slætti en í fyrra skiptið og stillti sér upp fyrir aftan mig og sló mig með flötum lófa í skallann.

Og fyrir hvað var svo þetta spurði ég og nuddaði auman skallann.

Þú þarft alltaf að vera að skipta þér af hrópaði konan, mig var að dreyma áðan að ég væri á stefnumóti með GEORGE CLOONEY þegar þú komst og fórst að skipta þér af og á endanum fóruð þið að slást út af mér.

Nú er það ekki sem ykkur dreymir allar um þessar kerlingar að það séu einhverjir karlar sem hreinlega slást um ykkur.

Það getur vel verið hvæsti konan en í þessum draumi var bara einn mjög alvarlegur galli á  gjöf njarðar, þú og GORGE CLOONEY fóruð að slást út af mér og  ÞÚ VANNST!!!

 

Veiðivötn

Við vorum að koma úr Veiðivötnum og eftir tveggja daga veiði var afraksturinn 52 fiskar af öllum stærðum og gerðum.  Ég set hérna inn myndir af þeim stærstu og þá fyrst mynd af þeim stærsta sem konan veiddi.

                                         fisk%20(7) 007_edited

Síðan kemur hérna mynd af þeim stærsta sem ég veiddi en ég fékk veiðiverðina til að halda á honum fyrir mig

                                             2007618350216715                                                


KLUKKIÐ

Best að ljúka klukkinu af láta flakka 8 atriði um mig sem fæstir vita og klukka í leiðinni Siggu Rósu og Sólveigu og líka þá sem kíkja á bloggið en kvitta aldrei fyrir komuna.

1.      Fyrsti bíllinn minn var af gerðinni Singer Voge sem var svona lúxusútgáfa af Hillman Hunter,  þegar ég svo var á rúntinum og lagði kagganum á hallærisplanið á Selfossi þá heyrði maður oft inn um bílgluggann:  Þarna kemur Snorri á Singer saumavél og í Voge sokkabuxum (seldi hann því fljótlega og fékk mér alvöru bíl Chervolet Impala)

 

2.      Ég fékk snemma veiðidelluna og það var líklega um 7 ára aldurinn sem ég fór í mína fyrstu veiðiferð sem var við Steingrímsstöð, fljótlega fór ég að velta því fyrir mér hvort fiskurinn borðaði ánamaðkinn af því að hann væri svo góður á bragðið og ákvað að prufa. Komst að því að fiskurinn og ég höfum ekki sama smekk á mat.                       

 

3.      Árið 1986 skrapp ég sárasaklaus til læknis og var umsvifalaust hent inn á spítala og þar var ég ristur á hol og slitið úr mér annað nýrað.  Það var svo í síðasta tékki fyrir skurðinn að mér tókst að leiðrétta læknirinn og benda á að það væri hægra nýrað sem var ónýtt en ekki það vinstra eins og stóð á skýrslunni.  Það hafði sem sagt orðið ruglingur á spítalanum og ég kallaði læknirinn skottulækni fyrir vikið en hann útskrifaði mig viku seinna sem ólæknandi tilfelli. 

 

4.      Þegar ég var 14 ára gisti ég hjá skólabróður mínum og þar fundum við lykil sem gekk að vínskápnum hjá húsráðanda og þar var þessi líka fína flaska af Tindavodka og okkur fannst tilvalið að blanda innihaldinu saman við appelsínudjúsinn á heimilinu og þetta drukkum við svo með bestu lyst.  Við vorum reyndar klagaði af nágrönnum því kl. 3 um nóttina sátum við úti í garði og sungum hástöfum:

Upp í loftið hóran svífur hátt

hennar brækur rifna upp á gátt.

Síðan þá hef ég ekki lagt það á nokkurn mann að taka lagið

 

5.      Ég hef aldrei átt við áfengisvandamál að stríða, það hefur alltaf verið nóg til.

 

6.      Hundurinn minn er í miklu uppáhaldi, sérstaklega eftir að ég gat vanið hann á að vekja alltaf konuna ef hann þarf  að komast út að pissa.  Hann gerði þó undantekningu þann 1 maí s.l. og vakti mig en ekki konuna.  Mér fannst það allt í lagi því 1 maí er jú frídagur verkalýðsins.

 

7.      Eitt af mínum fyrstu prakkarastrikum (af mörgum) var að hella fullum brúsa af lopasápu í nýja gosbrunninn hans Harðar sundkennara sem átti heima í næsta húsi. Forðaði mér á hlaupum þegar froðan náði orðið upp á bílskúrsþak.

 

8.      Og að lokum vil ég bara láta konuna mína vita eitt:  Ég er húsbóndi á mínu heimili og kem undan rúminu þegar mér sýnist.


GEISLABAUGUR

Ég vaknaði eldsnemma einn morguninn fyrir skömmu síðan við það að konan ýtti hraustlega við mér og sagði:

Guð minn góður hvað mig var að dreyma alveg hrikalega mikið.

Mig hafði sjálfan verið að dreyma að ég stæði við fallega laxveiðiá og sá stóri var einmitt að fara að bíta á öngulinn þegar konan vakti mig með þessum látum.

Já þakka þér kærlega fyrir að vekja mig bara til þess að segja mér að þig hefði verið að dreyma sagði ég önugur enda hálf sár yfir að hafa tapað af glímunni við laxinn stóra.

Já en þú skilur þetta ekki hrópaði konan á innsoginu,  þetta var svo hrikalega skrýtinn draumur,  mig dreymdi nefnilega að þú værir að koma út úr stóru húsi og varst með þennan svakalega geislabaug yfir skallanum,  furðulegt finnst þér ekki.

Nei það finnst mér hreint ekkert furðulegt svaraði ég mér finnst miklu furðulegra að þú skulir ekki hafa komið auga á það fyrir löngu að hann er þarna alla daga en þú þarft að fara í draumalandið til að sjá þennan fallega geislabaug. 

Þetta er eitthvað dularfullt sagði konan byrst og ég held að ég halli mér aftur og sjái hvort draumalandið kemur ekki með skýringu á þessu fyrir mig.  Síðan skellti hún hausnum á koddann og breiddi sængina upp fyrir haus og innan skamms heyrðust háværar hrotur undan sænginni. 

Það er þá best að ég athugi líka hvort laxinn er ekki þarna ennþá hugsaði ég með mér og lagðist á koddann og lokaði augunum.  Eftir svolitla stund var ég svo horfinn aftur á vit draumanna en vaknaði aftur með andfælum þegar ég fékk vænt drag í afturendann frá konunni. 

Hvað í ósköpunum gengur eiginlega á kona urraði ég bálillur yfir þessu ofbeldi,  finnst þér það við hæfi að byrja daginn með spörkum, hvað á þetta eiginlega að þíða.

Láttu ekki eins og þú sért alsaklaus hrópaði konan ég vissi að það kæmi skýring á draumnum þegar að ég sofnaði aftur.

Jæja góða sagði ég hinn versti og þarf að vekja mann með þessum látum fyrir því,  ekki get ég gert að því þó að mér hafi verið úthlutað þessum geislabaug. 

Þetta var ekki geislabaugur svaraði konan ískalt, þetta skýrðist allt þegar ég sofnaði aftur, um leið og mig fór að dreyma aftur sá ég strax hvernig í þessu lá öllu saman.  Þetta var nefnilega ekki geislabaugur sagði konan,  þetta var bara neonljós. 

Neonljós sagði ég undrandi,  hvernig getur staðið á því að ég var með neonljós yfir hausnum.

Eins og það sé ekki augljóst urraði konan þú varst að koma út af  KNÆPUNNI blindfullur og neonljósið fyrir ofan dyrnar speglaðist í skallanum á þér og leit eitt augnablik út fyrir að vera geislabaugur.

Það er ekkert annað bara blindfullur að koma af knæpunni en hvernig er það góða fyrst þetta varð allt í einu svona morgunljóst þýðir það þá ekki að þú varst með mér á knæpunni spurði ég og þá væntanlega búin að fá þér í aðra stórutánna. 

Nei aldeilis ekki svaraði konan byrst það var sko engin óregla á mér þú varst sko einn að veltast á knæpunni og það alveg sauðdrukkinn.

Það er bara svona stundi ég bara einn á ferð það var fínt þá hefur örugglega verið gaman hjá mér. 

Ég sá strax eftir þessum orðum mínum því ég fékk umsvifalaust annað drag í afturendann og sá mér ekki annað fært en að fara á fætur enda var farið að heyrast í pottormum í næsta herbergi svo að ég þurfti að fara að taka til morgunmatinn.  Konan kom svo skömmu seinna og settist þung á brún við morgunverðarborðið.

Ég ætla bara að láta þig vita það Snorri Þór að það kemur ekki til mála að vera með svona óreglu í rúminu á nóttinni sagði hún svo,  þú verður að hætta þessu sumbli og svipurinn á henni gaf til kynna að henni væri alvara með þessum orðum.

Þér er nær að vera að hella svona uppá mig svaraði ég fullum hálsi ekki var þetta minn draumur heldur þinn.

Konan skellti uppúr en sagði svo:  Ekki skil ég að ég þurfti að sofna tvisvar til þess að sjá eins augljósan hlut og það að þetta var bara knæpuljósið sem speglaðist í skallanum á þér en alls enginn GEISLABAUGUR

 

EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM

Um daginn vantaði mig lítilræði úr henni Babílon og þar sem konan ekur daglega til vinnu í Kópavoginn þá sá ég mér leik á borði að spara mér ferð til borgarinnar og láta konuna útrétta fyrir mig í staðin. 

Heyrðu elskan sagði ég eins blíðlega og ég gat, þar sem þú ert nú að vinna rétt hjá Smáralindinni þá myndir þú kannski hoppa þar inn fyrir mig eftir vinnu og skjótast rétt sem snöggvast í Hagkaup og kaupa fyrir mig sandala nr. 46 og eins og eitt dúsín af nærbrókum sem mig vantar tilfinnanlega. 

Kemur ekki til mála sagði frúin snúðugt,  ég hef nóg annað að gera heldur en að vera í búðarrápi fyrir þig  og þar að auki sé ég ekki betur en það megi vel nota sandalana sem þú ert á í einhverjar vikur í viðbót og hvað nærbrækur varðar þá bendi ég þér á það að frammi í skúr  er þvottavél og ef þú drullast til að þvo af þér nærfötin er algjör óþarfi að fara að eyða peningum í slíkan óþarfa.  Það eru líka ekki til neinir peningar fyrir óþarfa eins og þessum því við þurfum að greiða heilmikinn lækniskostnað á fimmtudaginn bætti hún svo við grafalvarleg á svip. 

Guð minn góður ertu alvarlega veik sagði ég, hvað er að hrjá þig elskan mín, vitanlega verður læknirinn að ganga fyrir þó það kosti að ég verði að spranga hér um nærbuxnalaus í einhverjar vikur og hver veit nema það eigi hreinlega eftir að flýta fyrir batanum hjá þér.

Í fyrsta lagi þá kemur ekki til greina að þú farir að spranga hér um á sprellanum sagði konan höst, þá hörmungarsjón er ekki hægt að leggja á nokkurn mann og í öðru lagi þá er það ekki ég sem er veik heldur þarf hann Moli litli að fara til læknis og í þriðja lagi þá átt þú að fara með hann því það þarf að svæfa hann og ég verð að vinna svo þú sér bara um þetta. 

Bíddu ég var með hundinn í bólusetningu í fyrradag,  til hvers varstu að láta mig fara með hann í bólusetningu og láta mig greiða fyrir það stórfé ef þú ætlar að fara að láta svæfa hann svefninum langa og hefur ræfillinn gert eitthvað af sér fyrst þú ætlar að láta lóga honum.  Konan missti andann og skipti litum einum fjórum sinnum áður en hún náði andanum aftur og hrópaði:

Þú skalt sko vita það karl minn að fyrr verður þér lógað en honum Mola mínum æpti hún á mig og að þú skulir dirfast að láta þér svo mikið sem detta það í hug eitt einasta augnablik að ég fari að láta lóga þessu krútti.  Gúlli vúlli vúllí elsku krúsindúllurassgatið mitt,  sjáðu ljóta kallinn sagði hún og kjassaði hundinn,  þú mátt bíta hann hvenær sem þú villt þegar hann segir svona ljótt.  Hann Moli á að mæta hjá tannlækinum á fimmtudaginn sagði hún svo illilega og það þarf að svæfa hann smástund á meðan það verður hreinsaður tannsteinn úr litlu tönnunum.

Ertu ekki að grínast sagði ég furðulostinn,  ætlarðu að segja mér að það sé hægt að fara með hund til tannlæknis,  varla er hægt að nota sömu græjur og á mannfólkið. 

Ekki aldeilis sagði konan en á dýraspítalanum á Stuðlum er fullkomin tannlæknastofa með öllum græjum og dýralæknirinn hringdi í mig eftir að þú fórst með hann í bólusetninguna og lét mig vita að það þyrfti að hreinsa í honum tennurnar,  þetta er víst mjög algengt í þessari hundategund þegar þeir eru orðnir meira en tveggja ára. 

Þar sem við Moli vitum af fenginni reynslu að ekki þýðir að deila við dómarann sátum við því félagarnir í jeppanum fimmtudaginn 12. júlí og brunuðum sem leið lá á tannlæknastofuna á Stuðlum og þar tók á móti okkur klínikdama sem tjáði mér að þar sem svæfa þyrfti hundinn þá væri passlegt að koma aftur eftir þrjá tíma og þá ætti allt að vera afstaðið.  Þegar ég mætti svo aftur til að sækja kvikindið með nýhreinsaðan trantinn þá tók sama klínikdama á móti mér og fór og sótti hundinn sem birtist heldur reikull í spori og mynnti reyndar á ónefndan aðila á fimmta glasi ef göggt var að gáð.  Þetta gekk allt ljómandi vel sagði daman skælbrosandi um leið og hún rétti mér reikninginn fyrir herlegheitunum.  Ég get nú ekki annað sagt en mig hafi verkjað ofurlítið í veskið þegar ég reiddi fram heilar 9.000 kr. fyrir verkið.  Þegar heim var komið reyndi ég allt sem ég gat til að fá hundinn til að brosa og sýna mér hvað ég hafði verið að greiða 9.000 kr. fyrir en allt kom fyrir ekki hann snéri bara upp á sig og lagðist út í horn og ákvað að sofa meira.  Ég settist því við eldhúsborðið með blað og penna og fór að reikna út hvað eytt hafði verið í þetta djásn konunnar á einni viku og útkoman varð þessi:  

Tannhreinsun                          9.000 kr.

Bólusetning                             4.500 kr.

Sjampoo og næring                 3.500 kr.

116 lambahjörtu úr Bónus      5.100 kr.

Beef stic (hundanammi)          2.000 kr.

Þurrfóður                                    700 kr.

                                              _____________

Samtals:                                 24.800 kr.

 

Þetta getur nú bara ekki verið rétt hugsaði ég með mér og reiknaði dæmið upp á nýtt.  En það var alveg sama hvað ég reiknaði dæmið oft ég fékk alltaf sömu útkomu.  Ég fór því að reikna út hvað ég hefði getað gert fyrir þessa peninga og það þurfti nú engan stærðfræðisnilling til að reikna það út að ég hefði getað fengið 1 sandala og 42,6 nærbrækur í Hagkaup fyrir þessa upphæð.  Ég hef því ákveðið að ef ég fæ ekki að kaupa það sem mig vanhagar um núna um mánaðarmótin þá hringi ég í dýralæknirinn og bið hann að svæfa kerlinguna meðan ég skrepp í Babílon og kaupi mér eina sandala og

     “ EITT DÚSÍN AF NÆRBRÓKUM “

  

Það sem aldrei þagnar

DSCF0854Konan var að skoða diska með myndum og fann þessa mynd frá Kanaríeyjum og neyddi mig til að setja hana á bloggið.  Ég varðist þó fimlega og það var ekki fyrr en eftir að hún hafði snúið tvo hringi upp á hendina á mér að ég gafst upp.  Í þokkabót heimtar svo konan að myndin verði látin heita: 

" EINS Í LAGINU "

DSCF0854

Ég sit svo núna og skoða diska með myndum því ég man að ég náði einni af henni við  PÁFAGAUKABÚRIÐ og þegar hún kemur í leitirnar þá birti ég hana og læt hana þá heita:

" ÞAÐ SEM ALDREI ÞAGNAR "


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband