Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Er ekki hættur að blogga

Er ekki hættur að blogga,  fékk bara nett áfall þegar ég kom heim eftir síðasta saumaklúbb hjá júffertunum og ætlaði að vera hjálpsamur og taka úr uppþvottavélinni. 

 

c_documents_and_settings_heidar_norvik_my_documents_my_pictures_eftirparty_hja_konum


VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR

Ólátagarður er að breyta um nafn og mun  mánudaginn 30 apríl 2007 fá nýtt nafn.  Þá á konan nefnilega afmæli og nær þeim merka áfanga að verða hálfrar aldar gömul.  Ólátagarður mun því framvegis bera nafnið Elliheimilið Ólátagarður.  Ég verð að segja það að ég er nokkuð kvíðinn vegna þessa áfanga því frúin hefur verið í mikilli afneitun síðustu vikur sem lýsir fyrst og fremst í því að apótekið á staðnum er að verða eitt hið stöndugusta á landinu vegna aukningar í sölu á meiki, augnskuggum og allskonar yngingarkremum sem frúin smyr síðan á sig áður en hún fer í leikfimi, jóga eða bara út í garð að moldvarpast. Þess á milli er svo stormað í klippingu, strípur og litun á bjútístofunni til að fela öll gráu hárin sem fjölgar óðfluga.   Já það er allt gert til þess að sýnast aðeins yngri og gildir þá einu þó ég reyni að benda á að klukkunni verði ekki bakkað.  Ég hef þó reynt að hughreysta hana aðeins og hef bent á að þó hún sé að komast á ömmualdurinn þá sé það engin heimsendir því eins og ég sagði henni vita allir að amman var hornsteinn heimilisins í gamla daga.  Hún gætti barnanna á meðan foreldrar þeirra unnu úti og sá um elddamenskuna, þrifin og þvottinn, enda var það ekki að ósekju að hún hlaut viðurnefnið “ þarfasti þjónninn “  Þessi ábending mín hlaut vægast sagt dræmar undirtektir enda frúin langt frá því að fara að setjast í helgan stein og stendur reyndar á öðrum tímamótum í lífi sínu því hún hefur sagt upp störfum sem þjónustustjóri Sparisjóðsins í Gúrkubæ og hefur ráðið sig til starfa hjá virtu tölvufyrirtæki í sjálfri höfuðborginni.  Þó vissulega sé nýja vinnan mun betur launuð en sú gamla þá hef ég sterkan grun um að þetta tengist frekar aldursáfanganum og sé örvæntingarfull tilraun til þess að halda í æskuljómann með því að laumast inn í viðskiptageirann og starfa með stuttbuxnaliðinu þar.  Ég bar þetta undir hana og spurði hvort þessi viðskiptageiri væri ekki bara fyrir einhverja verðbréfagutta sem væru ennþá blautir á bak við eyrun.   Ég ætla nú ekkert að vera að hælast um sagði konan en til þess að komast áfram í viðskiptalífinu þá verður maður að vera miklu duglegri en karlmaður svo þú sérð að það er engin vandi.  Þar með hélt ég að málið væri útrætt en konan bætti við eftir smástund:  Svo er ég líka ágætlega menntuð og hef þar að auki tekið hin ýmsu námskeið sem eiga eftir að nýtast mér í þessu nýja starfi.  Menntun er nú ekki það sem við lærum heldur það sem er eftir þegar við höfum gleymt því sem við höfum lært sagði ég spekingslega þar sem ég stóð og virti fyrir mér skjalabunkann sem konan átti að kynna sér áður en hún hefur störf.  Mikið er þá gott að þú ert ekki að fara að vinna þarna  því hjá þér er nefnilega ekkert eftir sagði konan og horfði mæðulega á mig.  Ég ákvað að hætta mér ekki lengra inn á þessa braut því konan var í þannig ham að ég var ekki viss um að hafa betur í þetta sinnið.  En um leið og ég lýsi því hér með formlega yfir að Elliheimilið Ólátagarður opnar mánudaginn 30 apríl þá óska ég þessari elsku til hamingju með áfangann og get í leiðinni upplýst hana um að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af því að mamma kenndi mér það strax í æsku að maður á alltaf að:

                                     VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR


ÞÚ ELSKAR MIG

Um páskana gerðist atburður sem á eftir að auðvelda mér lífið svo um munar það sem eftir er ævinnar.  Þannig var að ég sat í sælli ró og var að spá í hvort konan hefði tímt að splæsa í páskaegg handa mér þegar ég tók eftir því að það var engin ánægjusvipur á henni og síðan dæsti hún hátt og horfði fast á mig.  Ætli ég hafi gleymt að fara út með ruslið hugsaði ég með mér og flýtti mér fram að athuga málið en ruslafatan var galtóm svo ekki var það það sem var að hrjá konuna.  Ætli hún hressist ekki ef að ég þvæ fyrir hana bílinn hugsaði ég með mér og fór í stígvél og keyrði Blu Bird heim að skúrnum og hófst handa við þvottinn.  Skyndilega veitti ég því athygli að konan stóð í skúrdyrunum og var núna sýnu illilegri á svipin en í stofunni áðan.  Ætli hún sé ekki ánægð með að ég skuli vera að þvo bílinn eða ætli hún vilji að ég bóni hann líka hugsaði ég þegar ég horfði á hana og sá að svipurinn þyngdist sífellt.  Ég keypti handa þér páskaegg nr. 7 elskan kallaði ég og vonaðist til að konan myndi eitthvað hressast við þær fréttir.  En frúin snéri sér bara snúðugt við og strunsaði inn aftur en ég stóð eftir með þvottasvampinn og skyldi hvorki upp né niður í því hvað amaði að henni.  Hvað í fjáranum er að núna,  hvern skrambann hef ég núna gert,  ég hef þvegið og tekið til, séð um ruslið og skrúbbað bílinn og svo eru margir mánuðir síðan ég hef dottið í það svo ekki hef ég sagt neitt óvarlegt í ölæði.  En það var alveg sama hvað ég hugsaði,  ég gat bara ekki með nokkru móti fundið út hvað gæti hugsanlega verið að en komst þó að þeirri niðurstöðu að ef allt færi á versta veg þá gæti ég þó alltaf étið páskaeggið hennar.   Að þvottinum loknum fór ég svo aftur inn og settist í stólinn minn.  Konan horfði á mig góða stund en sagði svo:  Ég ætla nú svo sem ekkert að vera að setja út á karmenn,  þeir eru jú það skásta sem við konurnar eigum völ á   “ af því taginu “  en ætlar þú að segja mér það Snorri Þór að þú vitir ekki hvaða dagur er í dag.   Jú jú það er laugardagur sagði ég hissa og það er sunnudagur á morgun bætti ég við ef konan hefði eitthvað ruglast í dögunum,  þú veist páskaeggjadagurinn bætti ég við.  Það var svo sem ekki við öðru að búast sagði konan mæðulega og þú manst kanski ekki heldur hvað gerðist fyrir nákvæmlega einu ári síðan.  Ég hugsaði mig um smástund en gat bara ekki með nokkru móti munað hvað hafði gerst fyrir nákvæmlega ári síðan.  Var það dagurinn sem vonda veðrið kom sagði ég svo  því ég mundi að það hafði snjóað heilmikið í apríl í fyrra.  Ég leit á konuna og sá að þetta var greinilega ekki rétta svarið og eftir svipnum á henni að dæma var stutt í páskahretið þetta árið.  Ég skal reyna að hressa upp á minnið í þér karl minn sagði konan og byrjaði að blístra brúðarmarsinn.  Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég uppgvötvaði hverju ég hafði gleymt.  Ertu að segja mér að það sé komið eitt ár síðan við giftum okkur sagði  ég eigum við virkilega brúðkaupsafmæli í dag.  Já við eigum sko brúðkaupsafmæli í dag hrópaði konan en það var sko 7 apríl fyrir ári síðan sem ég gekk að eiga mesta og minnislausasta þorskhaus á Íslandi. Ertu viss um að það sé bara eitt ár síðan sagði ég mér finnst eins og það sé miklu lengra síðan.  Konan horfði illilega á mig en ég fór að spá í hvernig ég gæti nú bætt henni þetta upp og reddað mér út úr þessu klandri í leiðinni.  Samt hringdi þessi dagsetning 7 apríl engum bjöllum hjá mér og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta þá varð ég vissari í minni sök.  Ég stóð því á fætur og sótti möppuna mína og fletti upp á hjónavígsluvottorðinu.  Ég tók skjalið úr möppunni og reyndi að leyna kæti minni þegar ég fór aftur fram í stofu.  Heyrðu elskan,  hvaða þorskhaus var það sem þú giftist þann 7 apríl í fyrra.  Ég er nefnilega með skjal í höndunum stimplað af virðulegum fulltrúa sýslumanns um að ég hafi gifst einhverri freðýsu þann 5 apríl í fyrra en ekki þann 7 apríl.  Núna gerðist það sem aldrei hefur gerst áður,  konan varð orðlaus góða stund og sat bara steinilostin og gapti.  Láttu mig sjá þetta skjal sagði hún svo loksins og ég rétti henni hjónavígsluvottorðið.  Ég get svo svarið það sagði konan svo eftir góða stund,             

ég var viss um að við hefðum gift okkur 7 apríl í fyrra hvernig stendur eiginlega á því að ég hef ruglast á dögum.  Ég vissi alltaf að það var miklu lengra síðan við giftum okkur sagði ég kokhraustur því innst inni vissi ég það að framvegis skiptir það engu máli hvort ég man eftir brúðkaupsafmælinu okkar því ef svo ólíklega fer að ég gleymi því aftur þá minni ég bara konuna á það að hún hafi jú gifst mér þann 5 apríl en síðan tveimur dögum seinna þann 7 apríl hafi hún gifst þorskhausi.  Konan varð óhuggandi yfir því að hafa gleymt brúðkaupsafmælinu okkar  og varð reyndar svo mikið um þetta að hún þurfti að leggjast fyrir.  Ég settist á gólfið við hliðina á sófanum og klappaði henni á kinnina og sagði:  Hvaða máli ætli það skipti svo sem hvort við höldum uppá það að vera búin að vera gift í eitt ár þann 7 apríl en ekki þann 5 apríl það eina sem skiptir máli er að við elskum hvort annað.  Þú veist að ég elska þig og segðu mér bara að þú elskir mig líka og svo gleymum við þessu bara,  við erum svo ansi góð í því.  Konan horfði á mig en sagði ekkert svo ég ítrekaði óskina og sagði:  Plís elskan segðu að ÞÚ elskir mig.  Þá loksins brosti konan og kyssti mig á kinnina og sagði:

                                                  ÞÚ ELSKAR MIG 


FLUTTUR Í KJALLARANN

Jæja þá er komið að því,  ég hef ákveðið að flytja í kjallarann og búa þar einn,  já það verður sko skipt um skrá og settur stór slagbrandur fyrir dyrnar svo enginn komist inn.  Og hver skyldi svo vera ástæða þess að húsbóndinn og ástkær eiginmaður og faðir tekur svo stóra ákvörðun að segja bless við allt pakkið á efri hæðinni.  Jú þær eru sko tvær.  Í fyrsta lagi þá er það sparnaðar og verðkönnunarárátta konunnar og í öðru lagi óstöðvandi hlátur hennar sem er að gera mig vitlausan þessa dagana.  Konan telur sig nefnilega vera sérlegan eftirlitsmann með verðhækkunum á matvöru á öllu Suðurlandi og víðar.  Þetta hefur orðið til þess að ég er stundum sendur í fimm til sex staði til að kaupa eitt stykki af þessu hér og annað af hinu þar þegar hægt væri að kaupa allt á einum stað á smá stund.  Skiptir þá engu þótt ég bendi á að ávinningurinn af sparnaðinum sé enginn því kostnaðurinn við akstur á milli staða éti hann allan upp og meira til.  Svo mikil er þessi árátta að frúin eyðir nú löngum stundum í matvörubúðum og leggur á minnið verð á matvörum og fleiru og svo rammt kveður að þessu að ég get svarið það að um daginn tók ég kornfleks pakka og bar strikamerkið upp að augunum á henni og umsvifalaust hrökk út úr henni:   269 kr. í Bónus, hækkaði um 4 kr. í síðustu viku.  Svona hefur þetta gengið alveg frá því að matarskatturinn var lækkaður og þessi árátta löngu komin úr öllum böndum.  En í einu sparar þó konan ekkert heldur eyðir mánaðarlega heilmiklum fjármunum í hundkvikindið á heimilinu.  Takk fyrir,  einu sinni í mánuði er pantaður tími fyrir dýrið á bjútístofu suður í Reykjavík þar sem hann er baðaður upp úr allskonar ilmsápum og næringum og síðan klipptur og greiddur bæði ofan og neðan.  Það lendir nú venjulega á mér að fara með hann á bjútístofuna því konan pantar venjulega tíma fyrir sig á annari bjútístofu á meðan og þar er hún klippt  (allavega að ofan) og fær strípur og eitthvað dúllerí í leiðinni.  Það var svo um daginn í einu sparnaðarkastinu að konan sat og var að fara yfir Visa reikninginn og gera sinn venjulega verðsamanburð að ég tók eftir því að bjútístofan sem hundurinn fer á tók helmingi lægra gjald en bjútístofan sem konan fer á.  Ég hugsaði málið um stund og gat ekki betur séð en gjörningurinn á báðum þessum bjútístofum væri nánast sá sami svo að næst þegar ég fór með hundinn í snyrtingu spurði ég stúlkuna sem var að vinna þar hvort það væri möguleiki að ef ég kæmi með kerlinguna líka hvort það væri ekki hægt að skrúbba hana rækilega og klippa og greiða bæði ofan og neðan og kannski þrjár eða fjórar strípur í leiðinni fyrir sama verð og hundinn.  Stúlkan á snyrtistofunni horfði á mig smástund en hló svo og sagði:  Tja ég veit nú ekki með það,  hérna eru viðskiptavinirnir geymdir í búrum á meðan þeir bíða og bundnir þegar þeir eru snyrtir og svo þarf að setja múl á munninn á þeim verstu ef þeir reyna að bíta.  Hmmm sagði ég,  það er ekkert mál með búrið og svo er kerlingin þokkalega vanin svo það ætti nú kannski ekki að þurfa að binda hana en þetta með múlinn væri samt ekki galin hugmynd.  Stúlkan hló bara aftur en sagði svo:  Ekkert mál svo framanlega sem hún kemst ofan í þvottabalann sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þú komir bara með hana líka næst.  Ég kvaddi því glaður í bragði og flýtti mér heim og sagði konunni frá hugmynd minni og að ég hefði pantað tíma fyrir hana líka í næsta mánuði og þannig myndi sparast stórfé.  Viðtökurnar sem ég fékk voru ekki þær sem ég bjóst við og þó glóðaraugað eigi sjálfsagt eftir að hjaðna með tímanum þá skil ég hvorki upp né niður í þessu lengur,  er konunni einhver alvara með þessu sparnaðarátaki sínu eða á bara að spara sumt en annað ekki og þegar maður kemur með góðar hugmyndir um sparnað sem “ kosta ekki neitt “ þá fær maður bara einn grænann good moren  “ staðgreiddann “ með það sama.  En þetta er nú samt ekki það versta, ó nei ó nei,  um daginn hélt konan af stað í einn verðkönnunarleiðangurinn sinn og þar sem litli Yarisinn hennar sem gengur undir nafninu Blu Bird var ekki heima þá var ég látinn taka jeppann út úr skúrnum.  Ég rétti konunni lyklana og bað hana að setja svo bílinn aftur inn í skúr þegar hún kæmi til baka og síðan ók frúin settileg af stað.  Ég flýtti mér svo inn og settist við sjónvarpið og fór að horfa á einn fótboltaleik eða svo og góða stund ríkti blessaður friður á heimilinu.  En ekkert varir að eilífu og rúmum klukkutíma síðar heyrði ég að frúin ók í hlað.  Konan birtist í gættinni með nokkra poka af einhverjum afsláttarvörum.  Heyrðu elskan kallaði hún ég treysti mér ekki til að keyra bílinn inn í skúr,  hann er svo stór að ég er hrædd um að reka hann utan í dyrnar.  Láttu ekki svona kona kallaði ég á móti,  þetta er risa hurð,  þetta er ekki meira mál en að keyra Austin Mini inn um hlöðudyr.  Ég legg nú samt ekki í það sagði konan ákveðin og bölvandi stóð ég á fætur og fór og opnaði bílskúrinn og hoppaði upp í jeppann.  Kerlingar og bílar fussaði ég um leið og ég setti í gang,  það ætti að banna þeim að keyra neitt stærra en Blu Bird hugsaði ég svo og setti í gír og keyrði beint á hlöðudyrnar.  Það heyrðust heilmiklir skruðningar þegar brettakanturinn skrapaði járnið á hurðinni og konan kom á harða spretti til að gá hvað gengi á.  Hvað gengur eiginlega á hrópaði hún.  Ööööööööö sagði ég þegar ég steig út úr bílnum og fór að skoða aðstæður.  Hvað gerðist eiginlega spurði konan aftur.  Ööööööööööööö stamaði ég en skyndilega setti að konunni óstöðvandi hlátur.  Keyrðirðu  á   “ HLÖÐUDYRNAR “ stundi hún og grenjaði úr hlátri.  Öööööööööö  sagði ég einusinni enn og fór að kanna skemmdir.  Í ljós kom rispa í lakki og brettakanturinn hafði losnað frá að hluta.  Til þess að bíllinn yrði nú ekki úr leik sótti ég túpu af tonnataki og límdi brettakantinn aftur á  þangað til varnalegri viðgerð fer fram.  Konan fékk annað hláturskast þegar hún sá mig með tonnatakið og sagði:  Blu Bird er ekki límdur saman eins og sumar druslurnar á þessu heimili.  Heyrðu elskan sagði ég og tók tonnatakstúpuna,  má ég aðeins sjá á þér varirnar.  Konan forðaði sér inn en ég ákvað að dvelja aðeins lengur í bílskúrnum en heyrði þó hláturrokurnar í konunni af og til.  Síðan þetta gerðist hefur ekki verið fló í friði á heimilinu og hefur meira að segja gengið svo langt að konan tekur hláturrokur upp úr svefni.  Og þarna dreg ég mörkin,  þetta lið getur bara átt sig og sínar hlöðudyr, ég er sko:

 

                        FLUTTUR Í KJALLARANN:


VEKTU MIG BARA UM JÓLIN

Nú er að verða nokkuð langt síðan konan mín fór í aðgerð á hné þar sem fjarðlægt var brjósk sem var að angra hana og gerði hana reyndar alveg rammskakka og lélega til gönguferða og þó það sé sagt að hugurinn beri mann hálfa leið þá var það einfaldlega ekki nóg í þessu tilfelli.   Því þurfti aðgerð til að kella gæti nú trimmað um gólf og ganga og mátti ekki seinna vera því það stefndi í óefni á heimilinu í ryksugunar og skúringarmálum sem að sjálfsögðu eru ekki húsbóndanum sæmandi nema í einstaka afleysingatilfellum.  Um það sem síðast er hér talið er þó nokkur ágreiningur  á heimilinu og því er rétt að taka það fram að þegar þessi pistill var skrifaður þegar konan var að heiman og er hann er því óritskoðaður.  Sem betur fer fékk konan nú bót meina sinna og þó það hafi svo kostað það  eftir aðgerðina  að tveir sjúkraþjálfar hafi sagt upp störfum þá hafðist nú að koma kellu aftur á lappirnar og nú skúrar hún og ryksugar sem aldrei fyrr.  Mér brá því í brún þegar ég vaknaði við heljarinnar skurk einn morguninn eldsnemma og sá konuna hoppandi og skoppandi í einhverju sem gat með “ góðum vilja “ líkst einhverjum dansi, líkast til “ einnig með góðum vilja “ einhverju úr Svanavatninu,  þeim fræga ballett.  Hvað í ósköpunum gengur á spurði ég alveg forviða á þessum tilburðum sem fóru þarna fram við rúmstokkinn hjá mér.  Það er hnéð stundi konan,  ég fékk svona heiftarlegan krampa í hnéð sagði hún og opnaði svefnherbergisdyrnar og dansinn barst fram á gang.  Ég staulaðist framúr en þegar ég kom fram hafði dansinn borist inn í stofu og Svanavatnið tók svo enda í Lazy Boy sófanum fyrir framan sjónvarpið þar sem  konan hné niður með tilburðum  sem hæft hefðu kvikmyndastjörnu frá 1940ogeitthvað.  Get ég gert eitthvað fyrir þig elskan mín spurði ég umhyggjusamur þar sem ég stumraði yfir konunni í sófanum.  Já þú getur hætt að geispa og stutt mig inn í rúm aftur sagði konan illilega,  ég held að þetta sé að líða hjá en ég er hálf aum í löppinni ennþá.  Ég tók utanum konuna og studdi hana inn á gang og reyndi að hughreysta hana í leiðinni og sagði: 

Þú getur svo bara sagt eins og kerlingin forðum:

 

Nú er ég með á nótunum

Næ því pilta hylli

Frekar slæm í fótunum

En feikna góð á milli

 

Hlífðu mér við þessari aula-fyndni þinni,  ég er ekki í skapi fyrir svona fíflaskap núna sagði konan örg um leið og hún settist á rúmstokkinn.  Ég skreið svo uppí mín megin og velti því fyrir mér hvernig ég gæti nú linað þjáningar konunnar svo ég lyfti sænginni hjá henni og tók utan um hana og sagði:

Heyrðu elskan villtu kannski að íþróttaálfurinn komi og kíkji í Latabæ??

Það næsta sem ég vissi af mér var að ég lá á gólfinu hálfur inn í fataskáp en gat samt glaðst yfir því að hnéð og fóturinn á konunni var greinilega komið í gott  lag. 

 

Við morgunverðarborðið sat konan þögul ( til að byrja með) svo ég gat lesið Moggann í smá stund en svo byrjaði ballið: 

Kíkja í Latabæ, kíkja í Latabæ sagðir þú í nótt,  þú skalt sko ekkert vera að tala um einhvern Latabæ á mér það væri nú nær að tala um Lata-Íþróttaálfinn hrópaði konan og reif af mér kaffikönnuna,  það er eiginlega spurning hvort svona aðfarir við sárþjáða konu flokkast hreinlega ekki undir dónaskap og jafnvel kynferðislega áreitni.  Kallast það nú orðið kynferðisleg áreitni að gantast við konuna sína og ef að svona dónaskapur hjá karmönnum kallast kynferðisleg áreitni hvað kallast það þá þegar konur eru með dónaskap við karla spurði ég.   Það kallast 199 kr. mínutan sagði konan án þess að hika  og ég held nú bara hreinlega að ég fari að spá alvarlega í eitthvað af þessum tilboðum sem ég er alltaf að fá í bankanum frá hinum og þessum mönnum sem vilja fá mig konu og satt best að  segja held ég að það hafi verið regin mistök að giftast þér á sínum tíma.  Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það var algjör óþarfi að taka heilt svín bara fyrir eina pulsu rommsaði konan út úr sér og dró hvergi af sér.  Jæja sagði ég bara og geispaði,  ég held nú bara að ég skreppi inn í rúm og fái mér smá fegrunarblund á meðan versti stormurinn gengur yfir.  Fegrunarblund, fegrunarblund hrópaði konan,  þú verður þá að leggjast í híði góði og hvenær viltu að ég veki þig bætti hún hæðnislega við, kannski um páskana eða kannski bara um sumarmál.  Leyfðu mér bara að sofa meðan óveðrið gengur yfir elskan mín sagði ég og ef þú verður ekki búin að taka einhverju tilboðinu sem þú ert alltaf að fá í bankanum þá:

VEKTU MIG BARA UM JÓLIN.


Langbesta lík sem ég hef þekkt

Konan mín á það til að fá sérkennilegar  “dillur”  eins og það kallast víst og lætur þá einskis ófreistað til þess að ná settu marki.  Mér er minnistætt þegar hún í eitt skiptið ákvað að setja alla heimilismeðlimi í megrun og framfylgdi matseðli sem hún hafði útbúið út í ystu æsar og svo áttu heimilismeðlimir að veita hvorir öðrum aðhald og styðja hvern annan þegar svengdin væri nú sem mest.  Þegar þetta átak stóð sem hæst þurfti ég einu sinni sem oftar að fara út á land og gisti þar á góðu hóteli og þrátt fyrir að vera með langan lista með leiðbeiningum um hvað ég mætti nú borða þá gat ég ekki stillt mig um að fá mér sveittann hammara með öllu þegar þangað var komið.  Ég fór svo að sofa pakksaddur og var að dreyma alveg einstaklega skemmtilegan draum sem fjallaði einkum um mig og stóra rjómatertu þegar ég hrökk upp kl. 3 að nóttu við háværa símhringingu.  Bölvandi reyndi ég að finna símann og velti því fyrir mér á meðan hver væri að hringja á þessum tíma.  Halló sagði ég svo hátt og skýrt þegar ég svo loksins fann fjandans símann.  Já sæll elskan þetta er ég heyrði ég konuna mína segja á hinum enda línunnar,  ég vaknaði eitthvað svo einmana og þá varð mér hugsað til ískápsins svo ég hringdi bara í þig.  Nú hringdu þá í andskotans ískápinn urraði ég bálillur og skellti á og skreið aftur upp í rúmið.  Þessi tími verður mér alltaf minnistæður sem tíminn sem ég dó næstum því úr hungri og það er jú einmitt mergurinn málsins því nýjasta “ dilla “ konunnar er einmitt sú að hún telur sig sjá öll merki þess að ég eigi ekki langt eftir og verði ekki gripið til sórtækra aðgerða nú þegar þá verði ég liðið lík áður en langt um líður. 

Ég sat í sælli ró yfir fótboltanum um daginn og hafði breitt yfir mig teppi því ég var  varla búinn að jafna mig eftir flesnuna sem ég fékk um daginn þegar konan settist á móti mér og horfði hálf skringilega á mig.  Þú ert eitthvað svo fölur og bíddu nú við hvað er það nú aftur kallað,  með svona, með svona, svona slökknað augnaráð heitir það víst sagði hún grafalvarleg á svipinn.  Ég held að þetta stafi af því að þú hreyfir þig ekki nógu mikið bætti hún við ég held að ég skrái þig barasta í líkamsrækt ef það er þá ekki orðið of seint.   Hvað í fjandanum áttu við kona sagði ég steinhissa,  slökknað augnaráð hvað í fjandanum er nú það.  Tja ég fer nú ekki ofan af því að þú hefur nú verið hálf ræfilslegur undanfarið sagði konan og reyndar ef maður hugsar um það þá er eins og þú hafir ekki gert neitt annað en að vera dauður alla þína ævi.  Það er bara ekkert annað sagði ég,  það skaltu vita kona góð að þó ég hafi verið dauður alla ævi þá skal ég bara láta þig vita það að hvorki þú né aðrir skulu fá að skipta sér að minni líkamsrækt enda get ég sagt þér það að ég trimma sko á hverjum morgni eldsnemma.  Ekki hef ég nú séð það sagði konan ég hef nú ekki séð annað en þú sofir eins og rotaður selur alveg þangað til ég vek þig á morgnana.  Ég trimma víst sagði ég,  alveg frá rúmminu og fram á klósett og það án þess að blása úr nös.  En hvaða skyndilegi ótti er þetta eiginlega við heilsufar mitt sagði ég svo og ég skal bara láta þig vita það að ég er sko ekkert að fara að hrökkva upp af strax.  Við sjáum nú til með það sagði konan dularfull á svip um leið og hún gekk inn í eldhús og fór að taka til matinn.  Og af hverju að vera með áhyggjur af þessu sagði ég þetta verður hjá okkur eins og karlinn sagði í denn:  Það er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af þ.e. hvort þú ert heilbrigður eða veikur.  Ef þú ert heilbrigður þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ert veikur þá er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af, hvort þú munir lifa eða deyja.  Nú ef þú lifir þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú deyrð þá þarftu bara að hafa áhyggjur af því hvort þú ferð upp eða niður.  Nú ef þú ferð upp þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ferð niður tja þá elskan mín verðurðu svo upptekinn af því að heilsa öllum vinum þínum og frændum og frænkum að þú hefur ekki tíma til að hafa áhyggjur.  Konan horfði undrandi á mig eftir þessa ræðu en varð síðan eins og þrumuský í framan og brunaði inn í stofu og stillti sér upp fyrir framan mig og sagði:  Hvað áttu við karlugla,  að ég fari “NIÐUR”  og verði upptekin við að heilsa öllum þessum ættmennum mínum.  Nei þetta var nú bara svona dæmisaga af því að þú ert með þessar áhyggjur af heilsufari mínu sagði ég sakleysislega og ég meinti ekkert sérstakt með þessu.  En hvað með þig sagði konan ert þú alveg viss um að þú fáir vist í efra þegar þar að kemur,  hvað ef að þér verður nú sparkað niður í neðra.  Það er nú sáraeinfalt sagði ég ef mér verður sparkað niður til andskotans þá bara gríp ég í hófinn á karli og heilsa honum og segi þá bara:  Sæll og blessaður gamli hér er ég kominn,  ég var giftur systur þinni.  Þegar ég sá svipinn á konunni varð mér ljóst að núna væri kjörið tækifæri til þess að hefja líkamsræktina og trimmaði því á harða spretti inn í bílskúr og læsti dyrunum.  Það var svo ekki fyrr en eftir góða stund að ég áræddi að ráðast til inngöngu í stofuna aftur en þá sat konan í stól og var að prjóna eitthvað meðan að það sauð eitthvað í potti inni í eldhúsi.

Ég áræddi því að setjast aftur í stólinn minn og stuttu seinna stóð konan á fætur og stillti sér upp fyrir aftan mig og kyssti mig rembingskoss  á skallann og sagði:  Það er nú svo sem ekki gott að segja hvernig þetta fer allt saman elskan mín en ég vil samt að þú vitir eitt:

 

ÞÚ ERT ÞAÐ LANGBESTA LÍK SEM ÉG HEF NOKKURNTÍMA ÞEKKT:


ALLS EKKERT VESEN

Ég ætla bara að láta þig vita það að ég vil alls ekkert vesen á þessum degi sagði konan mín við mig nokkru fyrir þann margfræga  konudag sem var jú þann 18 febrúar 2007. Þetta varð til þess að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds því að einmitt þetta sama sagði hún  fyrir konudaginn í fyrra og þá var ég svo vitlaus að trúa því.  Í fyrra dásamaði ég það að konan væri alveg sammála mér með það að allir þessir bónda, konu , valíntínusar og allir hinir dagarnir væru vitlausir og miklu skemmtilegra væri að koma hvort öðru á óvart án þess að þurfa að hafa sér dag á dagatalinu til þess.  Þess vegna svaf ég út á konudaginn í fyrra,  keypti engin blóm,  horfði á fótbolta og reyndar gerði ég það eitt að kyssa konuna á kinnina og óska henni til hamingju með daginn og að ósk hennar sjálfrar var ég ekki með neitt vesen.  Fyrir þessa fáfræði mína hef ég þurft að gjalda allt s.l. ár,  ég hef sem sagt komist að því að konur meina ekki alltaf það sem þær segja.  Þegar leið á konudaginn í fyrra var konan farin að svara mér með eins athvæðis orðum og alveg hætta að tala við mig þegar við fórum að sofa.  Þegar ég svo í sakleysi mínu spurði:  Er eitthvað að elskan mín,  hef ég gert eitthvað núna?  Þú hefur EKKERT gert og þessvegna er ég í vondu skapi hvæsti konan og snéri sér á hina hliðina.  Þrátt fyrir einlægar tilraunir til að bæta fyrir það að hafa ekki gert heljarinnar vesen þegar konan bað mig um að gera alls ekkert vesen á konudaginn í fyrra hef ég þurft að þola háðsglósur og fengið mörg skot allt s.l. ár og því rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði konuna endurtaka sönginn í ár,  hún vildi jú alls ekkert vesen á konudaginn.  Sem betur fer var þetta nokkru fyrir konudaginn svo mér gafst því svolítill tími til þess að skipuleggja það að vera ekki með neitt vesen.  Þegar konudagurinn rann svo upp lét ég klukkuna hringja kl. 5:30 að morgni og laumaðist fram í eldhús og tókst að komast þangað án þess að vekja konuna.  Ég byrjaði á því að hella uppá könnuna og ákvað svo að skella mér í að hæra vöffludeig og líklega væri rétt að baka nokkra kanelsnúða líka  svona til vonar og vara.  Þegar svo allt var að verða tilbúið um níuleitið brunaði ég út í blómabúð og keypti tuttugu rósir og vönd af nellikkum svona til vonar og vara.  Þegar ég kom svo heim aftur var lokahnykkurinn að þeyta rjóma á vöfflurnar og þessu raðaði ég svo öllu á bakka,  vöfflum með rjóma,  nýbökuðum kanelsnúðum,  kaffi,  rósum og nellikkum og réðst svo til inngöngu í svefnherbergið.  Konan varð mjög undrandi að fá þessa sendingu í rúmið en gerði þó morgunmatnum ágætis skil og lagði sig svo aftur.  Ég fór svo fram og skúraði allt í hólf og gólf og fór svo að huga að hádegismatnum.  Ég var svo rétt að verða búinn að flambera nautasteikina þegar konan kom fram.  Yfir matnum rétti ég henni svo kort yfir dekurdag  í Baðhúsinu og keyrði hana þangað eftir matinn.  Á meðan konan var í dekrinu straujaði ég svo sparifötin hennar því meiningin var að bjóða henni út að borða um kvöldið.  Á veitingastaðnum um kvöldið við kertaljós og  góðan mat  rétti ég henni svo öskju með hálsmeni úr skíra gulli.  Þegar heim var komið endaði ég svo kvöldið á því að færa henni Grand Mariner og sérpantað konfekt frá Sviss.  Konan dæsti og virtist hugsi þar sem hún sat í stólnum og horfði á nýlakkaðar táneglurnar eftir dekurdaginn en ég skaust inn í svefnherbergi og laumaði einni rós á koddann hjá henni.   Þegar við svo gengum til náða lagðist konan á koddann en virtist ennþá í þungum þönkum þar sem hún lá og horfði á mig.  Að lokum sagði hún þó:  Mikið er ég feginn að þú skulir loksins vera farinn að hlusta á það sem ég segi Snorri Þór og ég ætla bara að segja þér það svo það sé nú alveg á hreinu að þegar ég á afmæli í apríl vil ég að það verði eins og í dag:

“ ALLS EKKERT VESEN “


JÚFFERTUKVÖLD

Alveg frá því að ég byrjaði að búa með konunni hef ég passað mig á því að vera ekki heima eitt kvöld í mánuði.  Konan hefur ekkert við þá tilhöguna að athuga og reyndar rekur hún mig hreinlega að heiman þetta eina kvöld í mánuði,  því þá er helgistund hjá henni,  þ.e. þá mæta fáeinar feiknamiklar skonrotur í heimsókn til hennar með einhverja spotta og hnykla í poka og þetta kallast víst saumaklúbbur en ég hef nú bara kallað þetta “júffertukvöld”  Konan bakar alltaf fyrir helgistundina heilmikið af skinkuhornum, hnallþórum og pönnukökum og stundum hef ég fengið bita af gúmmilaðinu þegar ég kem heim þegar öllu húllumhæinu er lokið.  Stundum er líka boðið upp á Sherry eða Grand mariner og einn og einn bjór skolast víst niður líka.  En ég hef semsagt passað mig á því að vera alls ekki heima meðan þessi athöfn stendur yfir og hef aldrei verið í neinum vandræðum með að finna mér eitthvað að gera á meðan.  Það var svo einn morguninn að ég vaknaði við eitthvað skark í eldhúsinu og þegar ég kíkti fram stóð konan við eldavélina og söng hástöfum meðan hún hrærði í einhverju gummsi sem fór svo inn í bakarofn.  Góðan daginn elskan mín söng konan þú mannst að það er saumaklúbbur í kvöld er það ekki.  Og fari það og veri hugsaði ég með mér ég var búinn að steingleyma að að það væri   “ júffertukvöld “ í kvöld hugsaði ég með mér en við konuna sagði ég einfaldlega:  Auðvitað elskan mín hvernig ætti ég að geta gleymt því og ég skal lofa að vera hinumegin við Ölfusá í allt kvöld ég er nefnilega að fara til Reykjavíkur og kem ekki aftur fyrr en seint í kvöld hvort sem er.  Þú verður samt að skreppa fyrir mig í ríkið áður en þú ferð sagði konan það er farið að vanta Sherry og bjór í barinn.  Ég fór því og keypti Sherry og bjór áður en ég hélt sem leið lá til Reykjavíkur.  Eftir að hafa útréttað það sem ég þurfti í Reykjavík og einn stuttan fund að auki var klukkan farin að ganga átta um kvöldið svo ég renndi austur á Selfoss aftur og brunaði beina leið heim í Miðtún.  Ég stakk bílnum inn í bílskúr og um leið og ég opnaði hurðina inn í sólstofu heyrði ég skríkjurnar í samkomunni og uppgvötvaði þá    ég hafði steingleymt helgistundinni og saumaklúbburinn greinilega í stuði.  Ég ákvað að reyna að laumast í gengum borðstofuna og inn í eldhús og þaðan ætlaði ég svo að reyna að laumast inn í svefnherbergi og láta fara lítið fyrir mér meðan þessi virðulega samkoma kláraði góbelínsauminn eða krosssauminn eða kontórstinginn eða hvað þetta heitir nú allt saman. Þó er ég ekki frá því að það hafi verið meiri áhugi fyrir skinkuhornunum og Sherryinu en saumaskapnum. Ég átti bara tvö skref eftir inn í eldhúsið þegar einn samkomumeðlimurinn hrópaði upp:  Nei sjáiði hver er kominn,  er ekki maðurinn sem skúrar hjá henni Sólveigu mættur,  þú er alltaf jafn hárprúður Snorri minn.  Þetta fannst samkomunni afskaplega fyndið og þegar skríkjurnar hættu loksins bætti önnur við:  Og það sést líka að þú ert ekki á neinu megrunarfæði hjá henni Sollu,  saumar Seglagerðin utan á þig núna.  Aftur varð mikil gleði í samkomunni en ég  kunni nú ekki við annað en að heilsa kurteislega og eftir að hafa tuldrað eitthvað um að verðrið væri nú bara gott og færðin fín frá Reykjavík þar sem ég stóð þarna með Mola litla undir hendinni.  Og er ekki krúttið hennar mömmu komið heim sagði þá konan og stóð á fætur og setti stút á munninn og kyssti hundinn rembingskoss en leit ekki á mig.  Síðan snéri hún sér við og sagði:  Vitiði það að ég hef heyrt að sumir hundar séu jafngáfaðir og eigendur sínir og ég er viss um að það er alveg rétt,   Moli er alveg jafngáfaður og hann Snorri.  Bíddu nú við hugsaði ég með mér er þetta hrós handa hundinum eða er hún að gera grín að mér.  Eftir skríkjunum í samkomunni að dæma sem núna heyrðust áræðanlega yfir Ölfusá og langleiðina niður á Eyrarbakka var verið að gera grín að mér.   Ég kunni nú ekki við að fara að rífast við konuna þarna fyrir framan virðulegar “júfferturnar “ svo sagði bara ósköp rólega:  Já ég sé að hér er mikið saumað en segið mér eitt sem mig hefur lengi langað til að vita.  Hvað talið þið eiginlega um yfir saumaskapnum alveg heilt kvöld.

Ein “ júffertan “ setti upp mikinn spekingssvip en sagði svo:  Þegar vel liggur á okkur þá leysum við lífsgátuna en þess á milli tölum við um hvað karlmenn eru miklir bjánar og það er sko aldrei neinn skortur á umræðuefni.  Núna hreinlega hoppaði samkoman upp úr sófum og stólum af kæti yfir þessu orðum síðasta ræðumanns svo að ég ákvað að draga mig virðulega í hlé en sagði um leið og ég snéri mér við.  Nú svo það er bara þannig ég hélt að þið væruð að ræða um nýjustu tísku í varalit, kinnalit, augnskuggum og meiki og því öllu sem þig kínið framan í ykkur til að verða sætar.  Hvað áttu við þrumaði ein “júffertan”,  til að  verða sætar,  ég skal bara láta þig vita það að flestar konur eru sætar og fallegar alveg frá fyrstu morgunstund.  Það er mér ósköp vel kunnugt um sagði ég en og mér finnst það bara alveg hrikalega ósanngjarnt gagnvart ykkur hinum.  Það varð dauðaþögn í stofunni og ósjálfrátt fór ég að mjaka mér aftur í áttina að bílskúrnum og var sem betur fer komin langleiðina þangað því skyndilega varð allt vitlaust.  Yfir mig ringdi stoppunálum, heklunálum, prjónum og gott ef ekki fylgdi með einn klukkustrengur og um leið og mér tókst að komast inn í skúrinn skall skinkuhorn á dyrakarminum.  Til vonar og vara batt ég aftur hurðina því ég heyrði óljóst hvað samkoman ætlaði að gera við mig fyrir ósvífnina og því full ástæða til neyðarúrræða.  Ég flýtti mér svo að opna bílskúrsdyrnar og um leið og ég ók í loftköstum á brott lofaði ég sjálfum mér því að ég skyldi aldrei nei “ALDREI “ gleyma því framar að vera í burtu þegar konan heldur

“ JÚFFERTUKVÖLD “


ELLIGLÖP

 

Þá er friðurinn aftur úti.  Konan hefur sagt sig úr Framsókanarflokknum eftir stutta veru þar til þess að geta kosið vin sinn og nágranna Guðna Ágústsson í prófkjöri flokksins fyrir nokkru síðan.  Hún heldur reyndar að ég sé skráður í Framsóknarflokkinn líka af því að ég kaus líka í prófkjörinu en það er mikill misskilningur hjá henni því ég fór einfaldlega á kjörstað,  fékk afhent blað til þess að skrá mig í flokkinn og skrifaði umsvifalaust Jón Jónsson Flatey á blaðið og skilaði því og fékk samstundis afhentan kjörseðil til úrfyllingar.  Hvort að það er til einhver Jón Jónsson í Flatey hef ég ekki hugmynd um en ef svo er þá er hann orðin skráður í flokkinn.  Ég hef því ekki sofið neitt sérstaklega vel síðustu dagana enda löngum verið mjög á varðbergi gagnvart Framsóknarmönnum og að þurfa að sofa hjá einum slíkum var næstum því óbærileg tilhugsun.  Ef maður náði samt smá kríu undir morgun þá átti konan það til að lauma hundinum upp í rúm til mín þegar hún fór á fætur svo maður var ýmist vakinn af Framsóknartrýninu sem maður svaf hjá eða hinu trýninu sem er reyndar öllu blautara. Ég bar konunni það á brýn að hún væri ekki nægjanlega stefnuföst í þessari pólitík sinni því hún gengi í flokkinn og svo úr honum aftur nokkrum dögum seinna en það eina sem hún sagði var:   Ég veit ég er ekki nægjanlega stefnuföst.  En ég get sætt mig við það.  Það eina sem ég get ekki sætt mig við er skortur minn á stefnufestu.  Ég er ennþá að reyna að skilja hvað hún átti við en það er sama hvað ég hugsa um það ég kemst ekki að neinni annari niðurstöðu en þeirri að svona djúpa speki skilji bara Framsóknarmenn.  En nú er konan gengin úr flokknum og því get ég ekki lengur borið því við að ég tali ekki við Framsóknarmenn þegar  rifrildi er í uppsiglingu og því er blessaður friðurinn sem ríkt hefur á heimilinu úti.   Það var svo einn laugardagsmorguninn fyrir stuttu þegar við vorum með allt stóðið heima bæði börn og fósturbörn að dyrabjallan hringdi og konan fór til dyra.  Á tröppunum stóð yngismær sem spurði eftir unglingnum á heimilinu sem er að verða þrettán ára.  Nei hann er ekki heima sagði konan hann fór eitthvað áðan með vini sínum.  Yngismærin hvarf við svo búið á braut og konan kom blaðskellandi inn í stofu og tilkynnti mér að pilturinn ætti orðið kærustu.  Það er nú ekki víst að þau séu kærustupar sagði ég þau geta nú bara verið leikfélagar.  En konan var viss í sinni sök og þegar pilturinn ungi kom svo heim skömmu seinna ásamt vini sínum var konan ekki sein á sér að kalla á hann inn í stofu og segja honum að það hefði komið stelpa að spyrja eftir honum áðan.  Hí hí hí flissaði konan ertu kannski komin með kærustu og hvað heitir hún bætti hún við.  Pilturinn horfði á okkur smástund en snéri sér svo að vini sínum og sagði:  Hlustaðu ekki á þau,  þetta eru " fornleifar " sagði hann og benti á okkur og hvarf við svo búið inn í herbergið sitt  ásamt vininum.  Fornleifar hrópaði konan,  andskotans ósvífni er þetta,  kalla mann fornleifar.  Síðan stillti hún sér upp fyrir framan spegilinn sem hún var nýbúinn að kaupa í Míru og skoðaði sig smástund og sagði síðan:  Það er eitthvað að þessum spegli,  undanfarið sýnir hann ekkert nema miðaldra manneskju.  Sá gamli var ekki svona ég held bara að ég setji hann upp aftur.  Og það var þá sem það rann upp fyrir mér hvað væri í gangi.  Þarna var komin skýringin á inngöngu og úrsögn konunnar í Framsóknarflokkinn ásamt ýmsu öðru skýtnu í hennar fari  sem fjölskyldumeðlimir höfðu orðið vitni af síðustu vikur.  Já þar sem hún stóð við spegilinn þessi elska rann það upp fyrir mér að konan var farin að sýna fyrstu einkenni sjókdóms sem kallast einfaldlega:

" ELLIGLÖP "


PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM

Föstudaginn 19 janúar 2007 þurfti ég að skreppa til Reykjavíkur einu sinni sem oftar og á heimleiðinni ákvað ég að heimsækja konuna í vinnuna og athuga hvort ég fengi ekki kaffibolla svona í tilefni Bóndadagsins.  Það er ekkert kaffi til var það fyrsta sem konan sagði þegar ég kom inn í bankann,  hér er alltaf svo mikið að gera að það er ekki tími til að hella uppá.  Ekki var nú að sjá að það væri mikið að gera í bankanum því þær sátu þarna aleinar valkyrjurnar tvær sem þar vinna og hef ég þær helst grunaðar um að hafa drukkið allt kaffið sjálfar.  Ég varð því að gera mér að góðu að kaupa kók í sjoppunni og meðan ég sat og sötraði það spurði vinnufélagi konunnar hvort ég fengi ekki blóm svona í tilefni bóndadagsins.  Það skal ég láta þig vita að ef kerlingin kaupir handa mér vönd af Arfa þá þarf hún ekki að koma heim því það er skilnaðarsök sagði ég því ég hef megnustu andstyggð á öllum þessum bónda, konu, valíntínus, kvennafrídeginum og fl.  ofl. dögum sem búnir eru til af blóma og súkkulaðiframleiðendum.  En það er allt annað með góðan mat og pönnukökur og svoleiðis  og meðal annara orða hvað er í matinn í kvöld elskan sagði ég og snéri mér að konunni.   Bara það sem þú nennir að elda og vaska svo upp á eftir sagði konan og leit ekki einu sinni upp úr pappírshrúgunni.  Ég hrökklaðist því út kaffilaus og með þau fyrirmæli að elda sjálfur á Bóndadaginn og fyrst uppvasksákvæðið fylgdi með þá skrapp í Bónus og keypti pulsur og pulsubrauð.  Þegar að konan kom svo heim undir kvöldmat rétti hún mér lítinn poka og þegar nánar var að gáð reyndist vera í pokanum lítill hjartalöguð karamella sem límdur var á sleikipinni og utanum var bundinn einhver grein sem mynnti helst á mosaskófir eða eitthvað slíkt.  Þetta eru ekki blóm sagði konan sigri hrósandi og þú sagðir ekkert um karamellur og sleikipinna bætti hún við og það ískraði í henni af ánægju yfir því að hafa fundið leið framhjá súkkulaði og blómabanninu.  Ég byrjaði á ræðu um tilgangsleysi þessara daga en var truflaður af símhringingu og þegar ég svaraði spurði glaðhlakkaleg yngismær á hinum enda línunnar:  Er þetta Snorri Snorrason.  Jú sá er maðurinn hver spyr.  Já ég er að hringja fyrir Guðna Ágústsson sagði yngismærin,  það er prófkjör á morgun og hann bað mig að spyrja þig hvort hann gæti ekki treyst á þinn stuðning.  Tja ég hef nú alltaf kunnað að meta það hjá honum Guðna hvað hann er bjartsýnn og ég vildi gjarnan sjá hann í efsta sæti listans hér í Suðurkjördæmi frekar en þennan Suðurnesjasnúð sagði ég en þar sem ég er nú flokksbundinn í öðrum flokki þá held ég að hann verði að vinna þetta án minnar hjálpar.  Það er ekkert mál þó þú sért í öðrum flokki sagði yngismærin kokhraust þú gengur bara í Framsókn og getur svo sagt þig úr flokknum daginn eftir.  Ég held fjandinn hafi það að það gangi ekki að vera í tveimur flokkum sagði ég en ef svo ólíklega fer að ég gerist Framsóknarmaður þá skal ég kjósa Guðna sagði ég og kvaddi.  Puff sagði konan er nú kosningasmölun í gangi,  það stóð nú til þegar ég var lítil að gera úr mér Framsóknarmann en það tókst ekki og nú hef ég barist gegn þessu í næstum 50 ár og látum þá bara reyna að hringja í mig ég skal sko láta þá heyra það.  En síminn hringdi ekki aftur þetta kvöldið og eftir að húsbóndinn hafði eldað og vaskað upp á Bóndadaginn þá tók við sjónvarpsgláp uns gengið var til náða.  Ég hafði það einhvernveginn á tilfinningunni þegar ég var að sofna að ég hefði verið plataður þennan Bóndadag og það með karamellu og sleikipinna. 

Laugardagurinn 20 janúar 2007 byrjaði svo á því að ég var vakinn kl. 6:30 af ormunum í Ólátagarði sem vildu fá sinn graut og engar refjar svo ég mátti á lappir að smyrja brauð og elda graut.  Þegar þeir pjakkar voru orðnir mettir kíkti ég inn til konunnar og bauð henni að koma og fá sér graut líka.  Láttu mig vera grautarhausinn þinn sagði konan og breiddi sængina upp fyrir haus,  þú og þinn grautur geta farið í rassgat á rostungi og ég ætla að sofa lengur.  Ég flýtti mér að loka dyrunum aftur og hugsaði með mér að það yrði þá ófriður í lágmarki þennan morguninn.  Þegar konan svo drattaðist á lappir undir hádegið var ég einmitt að lesa grein í Mogganum um prófkjör Framsóknarmanna í Suðurkjördæmi og spurði í sakleysi hvort hún ætlaði ekki að fara að kjósa vin sinn og nágranna á Langanesinu.  Mannstu ekki þegar ég bannaði þér að láta hundinn heita Guðna Ágústsson af því að ég gat ekki hugsað mér að láta eitthvað Framsóknartrýni vekja mig á morgnanna sagði konan hvasst,  skoðun mín á Framsókn hefur ekkert breyst og ég kýs ekki rassgat hvorki Guðna granna né neinn annan.   Það stefndi því í nokkuð friðsælan laugardag og ég var að vonast eftir iðrunarpönnukökum frá konunni af því að ég var látinn elda og vaska upp á Bóndadaginn en það bólaði ekkert á þeim.  Það var svo um fimmleytið að síminn hringdi.  Á línunni var virðulegur bankastjóri hér á Selfossi sem kynnti sig og spurði um Sólveigu.  Andskotinn ekki eru þeir farnir að rukka á laugardögum hugsaði ég meðan ég sótti konuna.  Konan svarði og hlustaði nokkra stund á bankastjórann en sagði svo:  Já þú segir það,  Suðurland þarfnast mín,  já ég skal athuga málið.  Grafalvarleg lagði konan frá sér símann og snéri sér að mér og sagði með mikilli alvöru.   “SUÐURLAND ÞARFANST MÍN”  Já það hefur löngum verið vitað elskan mín að við getum ekki án þín verið hér á Suðurlandi sagði ég en hvað er annars í gangi.  Jú bankastjórinn var að biðja okkur um að koma að kjósa hann Guðna,  þeir halda að það geti orðið mjótt á mununum í prófkjörinu og við verðum að standa vörð um þingmennina okkar.  En hvað með Framsóknartrýnið og allt það spurði ég rólega og horfði á konuna.  Já en “SUÐURLAND ÞARFNAST MÍN”  hrópaði konan og fór að klæða sig í kápuna og ég man nú ekki betur en að þú hafir ekki látið þig muna um að fara alla leið inn á Gæsavatnaleið þegar bíllinn bilaði hjá fyrrum bankastjóra í KB með þeim orðum að maður neitaði aldrei bankastjóra um greiða.   Þar hitti konan á veikan blett því það hefur jú alltaf verið mottó hjá mér að “maður neitar bankastjóra aldrei um greiða”  en sagði svo meðan ég klæddi mig í úlpuna:  Andskotinn gátu þeir ekki látið einhvern annan hringja. Það sem síðan fór fram á örugglega eftir að halda fyrir mér vöku í langan tíma og ég gat ekki varist þeirri hugsun þegar ég um kvöldið kyssti Framsóknartrýnið sem lá við hliðina á mér í rúmminu að ég hefði verið:

 

PLATAÐUR TVISVAR Á TVEIMUR DÖGUM.

 

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband