ALLS EKKERT VESEN

Ég ætla bara að láta þig vita það að ég vil alls ekkert vesen á þessum degi sagði konan mín við mig nokkru fyrir þann margfræga  konudag sem var jú þann 18 febrúar 2007. Þetta varð til þess að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds því að einmitt þetta sama sagði hún  fyrir konudaginn í fyrra og þá var ég svo vitlaus að trúa því.  Í fyrra dásamaði ég það að konan væri alveg sammála mér með það að allir þessir bónda, konu , valíntínusar og allir hinir dagarnir væru vitlausir og miklu skemmtilegra væri að koma hvort öðru á óvart án þess að þurfa að hafa sér dag á dagatalinu til þess.  Þess vegna svaf ég út á konudaginn í fyrra,  keypti engin blóm,  horfði á fótbolta og reyndar gerði ég það eitt að kyssa konuna á kinnina og óska henni til hamingju með daginn og að ósk hennar sjálfrar var ég ekki með neitt vesen.  Fyrir þessa fáfræði mína hef ég þurft að gjalda allt s.l. ár,  ég hef sem sagt komist að því að konur meina ekki alltaf það sem þær segja.  Þegar leið á konudaginn í fyrra var konan farin að svara mér með eins athvæðis orðum og alveg hætta að tala við mig þegar við fórum að sofa.  Þegar ég svo í sakleysi mínu spurði:  Er eitthvað að elskan mín,  hef ég gert eitthvað núna?  Þú hefur EKKERT gert og þessvegna er ég í vondu skapi hvæsti konan og snéri sér á hina hliðina.  Þrátt fyrir einlægar tilraunir til að bæta fyrir það að hafa ekki gert heljarinnar vesen þegar konan bað mig um að gera alls ekkert vesen á konudaginn í fyrra hef ég þurft að þola háðsglósur og fengið mörg skot allt s.l. ár og því rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði konuna endurtaka sönginn í ár,  hún vildi jú alls ekkert vesen á konudaginn.  Sem betur fer var þetta nokkru fyrir konudaginn svo mér gafst því svolítill tími til þess að skipuleggja það að vera ekki með neitt vesen.  Þegar konudagurinn rann svo upp lét ég klukkuna hringja kl. 5:30 að morgni og laumaðist fram í eldhús og tókst að komast þangað án þess að vekja konuna.  Ég byrjaði á því að hella uppá könnuna og ákvað svo að skella mér í að hæra vöffludeig og líklega væri rétt að baka nokkra kanelsnúða líka  svona til vonar og vara.  Þegar svo allt var að verða tilbúið um níuleitið brunaði ég út í blómabúð og keypti tuttugu rósir og vönd af nellikkum svona til vonar og vara.  Þegar ég kom svo heim aftur var lokahnykkurinn að þeyta rjóma á vöfflurnar og þessu raðaði ég svo öllu á bakka,  vöfflum með rjóma,  nýbökuðum kanelsnúðum,  kaffi,  rósum og nellikkum og réðst svo til inngöngu í svefnherbergið.  Konan varð mjög undrandi að fá þessa sendingu í rúmið en gerði þó morgunmatnum ágætis skil og lagði sig svo aftur.  Ég fór svo fram og skúraði allt í hólf og gólf og fór svo að huga að hádegismatnum.  Ég var svo rétt að verða búinn að flambera nautasteikina þegar konan kom fram.  Yfir matnum rétti ég henni svo kort yfir dekurdag  í Baðhúsinu og keyrði hana þangað eftir matinn.  Á meðan konan var í dekrinu straujaði ég svo sparifötin hennar því meiningin var að bjóða henni út að borða um kvöldið.  Á veitingastaðnum um kvöldið við kertaljós og  góðan mat  rétti ég henni svo öskju með hálsmeni úr skíra gulli.  Þegar heim var komið endaði ég svo kvöldið á því að færa henni Grand Mariner og sérpantað konfekt frá Sviss.  Konan dæsti og virtist hugsi þar sem hún sat í stólnum og horfði á nýlakkaðar táneglurnar eftir dekurdaginn en ég skaust inn í svefnherbergi og laumaði einni rós á koddann hjá henni.   Þegar við svo gengum til náða lagðist konan á koddann en virtist ennþá í þungum þönkum þar sem hún lá og horfði á mig.  Að lokum sagði hún þó:  Mikið er ég feginn að þú skulir loksins vera farinn að hlusta á það sem ég segi Snorri Þór og ég ætla bara að segja þér það svo það sé nú alveg á hreinu að þegar ég á afmæli í apríl vil ég að það verði eins og í dag:

“ ALLS EKKERT VESEN “


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

KANILSNÚÐAR  hahahahaha hahahhahaha undur og stórmerki - þessir kolamolar hahahahaha hahahahhahah, dísúskræst.  Og dekurdagur í BAÐHÚSINU hahahhahahahahahhahahahha hahhahahahahahahhaha - þetta var nú bara freiðibað í heitapottinum í sólstofunni!!!! (GISP - eins og í Andrésblöðunum í den)...........

Nei, elsku hjartans krúsímúsímúsí minn, þetta var nú ferlega ljótt vanþakklæti hjá mér.  Að sjálfsögðu varstu og ert yndislegur eiginmaður sem hugsar vel um konuna sína.

Bloggefnið síendurtekna (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 14:56

2 identicon

................frh.........ég nefnilega steingleymdi að segja að ég er stolt af mínum manni og finnst ég vera heppnasta kona um víða veröld, heppin að hafa fengið að kynnast þessum frábæra manni sem skírður var Snorri Þór og heppin að við erum hjón  og heppin að við ætlum að eyða lífinu saman.........og hvað ég hlakka til að eyða ELLINNI með kappanum suður á Spáni í sandölum og ermalausum bol.

Bloggefnið síendurtekna (IP-tala skráð) 9.3.2007 kl. 17:18

3 identicon

Guðný Einarsdóttir (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 19:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband