VEKTU MIG BARA UM JÓLIN

Nú er að verða nokkuð langt síðan konan mín fór í aðgerð á hné þar sem fjarðlægt var brjósk sem var að angra hana og gerði hana reyndar alveg rammskakka og lélega til gönguferða og þó það sé sagt að hugurinn beri mann hálfa leið þá var það einfaldlega ekki nóg í þessu tilfelli.   Því þurfti aðgerð til að kella gæti nú trimmað um gólf og ganga og mátti ekki seinna vera því það stefndi í óefni á heimilinu í ryksugunar og skúringarmálum sem að sjálfsögðu eru ekki húsbóndanum sæmandi nema í einstaka afleysingatilfellum.  Um það sem síðast er hér talið er þó nokkur ágreiningur  á heimilinu og því er rétt að taka það fram að þegar þessi pistill var skrifaður þegar konan var að heiman og er hann er því óritskoðaður.  Sem betur fer fékk konan nú bót meina sinna og þó það hafi svo kostað það  eftir aðgerðina  að tveir sjúkraþjálfar hafi sagt upp störfum þá hafðist nú að koma kellu aftur á lappirnar og nú skúrar hún og ryksugar sem aldrei fyrr.  Mér brá því í brún þegar ég vaknaði við heljarinnar skurk einn morguninn eldsnemma og sá konuna hoppandi og skoppandi í einhverju sem gat með “ góðum vilja “ líkst einhverjum dansi, líkast til “ einnig með góðum vilja “ einhverju úr Svanavatninu,  þeim fræga ballett.  Hvað í ósköpunum gengur á spurði ég alveg forviða á þessum tilburðum sem fóru þarna fram við rúmstokkinn hjá mér.  Það er hnéð stundi konan,  ég fékk svona heiftarlegan krampa í hnéð sagði hún og opnaði svefnherbergisdyrnar og dansinn barst fram á gang.  Ég staulaðist framúr en þegar ég kom fram hafði dansinn borist inn í stofu og Svanavatnið tók svo enda í Lazy Boy sófanum fyrir framan sjónvarpið þar sem  konan hné niður með tilburðum  sem hæft hefðu kvikmyndastjörnu frá 1940ogeitthvað.  Get ég gert eitthvað fyrir þig elskan mín spurði ég umhyggjusamur þar sem ég stumraði yfir konunni í sófanum.  Já þú getur hætt að geispa og stutt mig inn í rúm aftur sagði konan illilega,  ég held að þetta sé að líða hjá en ég er hálf aum í löppinni ennþá.  Ég tók utanum konuna og studdi hana inn á gang og reyndi að hughreysta hana í leiðinni og sagði: 

Þú getur svo bara sagt eins og kerlingin forðum:

 

Nú er ég með á nótunum

Næ því pilta hylli

Frekar slæm í fótunum

En feikna góð á milli

 

Hlífðu mér við þessari aula-fyndni þinni,  ég er ekki í skapi fyrir svona fíflaskap núna sagði konan örg um leið og hún settist á rúmstokkinn.  Ég skreið svo uppí mín megin og velti því fyrir mér hvernig ég gæti nú linað þjáningar konunnar svo ég lyfti sænginni hjá henni og tók utan um hana og sagði:

Heyrðu elskan villtu kannski að íþróttaálfurinn komi og kíkji í Latabæ??

Það næsta sem ég vissi af mér var að ég lá á gólfinu hálfur inn í fataskáp en gat samt glaðst yfir því að hnéð og fóturinn á konunni var greinilega komið í gott  lag. 

 

Við morgunverðarborðið sat konan þögul ( til að byrja með) svo ég gat lesið Moggann í smá stund en svo byrjaði ballið: 

Kíkja í Latabæ, kíkja í Latabæ sagðir þú í nótt,  þú skalt sko ekkert vera að tala um einhvern Latabæ á mér það væri nú nær að tala um Lata-Íþróttaálfinn hrópaði konan og reif af mér kaffikönnuna,  það er eiginlega spurning hvort svona aðfarir við sárþjáða konu flokkast hreinlega ekki undir dónaskap og jafnvel kynferðislega áreitni.  Kallast það nú orðið kynferðisleg áreitni að gantast við konuna sína og ef að svona dónaskapur hjá karmönnum kallast kynferðisleg áreitni hvað kallast það þá þegar konur eru með dónaskap við karla spurði ég.   Það kallast 199 kr. mínutan sagði konan án þess að hika  og ég held nú bara hreinlega að ég fari að spá alvarlega í eitthvað af þessum tilboðum sem ég er alltaf að fá í bankanum frá hinum og þessum mönnum sem vilja fá mig konu og satt best að  segja held ég að það hafi verið regin mistök að giftast þér á sínum tíma.  Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það var algjör óþarfi að taka heilt svín bara fyrir eina pulsu rommsaði konan út úr sér og dró hvergi af sér.  Jæja sagði ég bara og geispaði,  ég held nú bara að ég skreppi inn í rúm og fái mér smá fegrunarblund á meðan versti stormurinn gengur yfir.  Fegrunarblund, fegrunarblund hrópaði konan,  þú verður þá að leggjast í híði góði og hvenær viltu að ég veki þig bætti hún hæðnislega við, kannski um páskana eða kannski bara um sumarmál.  Leyfðu mér bara að sofa meðan óveðrið gengur yfir elskan mín sagði ég og ef þú verður ekki búin að taka einhverju tilboðinu sem þú ert alltaf að fá í bankanum þá:

VEKTU MIG BARA UM JÓLIN.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jassó, það er nú bara það, jú vissulega þurfti að gera við þessi eldgömlu meiðsli sem voru búin að hrella mig og nú er allt í þessu fína með hnéð.  Og af því að þú ert nú farinn að nefna þetta skal það upplýst að þessi meiðsl voru komin áður en ég var tvítug og talin DILLA og því trúði ég eins og nýju neti. En af lestri alls bloggsins þíns mætti halda að það væri eilífur FELLIBYLUR sem þú býrð við.  Nú skil ég líka hvers vegna GSM síminn þinn er farinn að hringja á næturnar til þín.......hehehehehe .......og ég sé til hvenær mér þóknast að vekja þig.........það verður þegar MÉR EINNI hentar.

Dillan hin eina sanna (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 15:42

2 identicon

PS........ég er að velta því fyrir mér hvort lyfin þín séu lyfleysa.  Það er nefnilega orðið dálítið undarlegt að þú manst eftir að taka lyfin áður en áminningin í símanum hringir!!!!!.  Kanski eru þau komin fram yfir síðasta neysludag.  EXP dd.mm.yy.  Minntu mig á að kíka á umbúðirnar utan um lyfin þín þegar ég kem heim í kvöld.  Það hlýtur að vera til haldbær skýring á þessu óráði þínu.

Ég (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 16:18

3 identicon

PS.PS...........þar sem það styttist í að minn vinnutími sé að enda runninn í dag og þ.a.l ætti ég að hlakka til að burra heim...........en nú hreinlega kvíði ég því að fara í þá áttina.......veit svei mér ekki á hverju ég gæti átt von.  En til þess að upplýsa ykkur Snorrabloggsaðdáendur um fleira úr svefnherbergi okkar hjóna, skal það upplýst að fyrir ekki alls löngu var keypt nýtt hjónarúm, fokdýrt (ekki fokkdýrt) og fínt........en það VARÐ að vera í tvennu lagi takk fyrir og alls ekki kaupa ramma utan um það því karlinn vildi sko geta tekið SINN helming ef okkur dytti í hug að vera ósátt. (sýnist það nú þegar hafa orðið).  Þegar mér dettur í hug að seilast undir sængina hjá karlinum.....hvað haldið þið að gerist þá.........NEI ykkur datt ekki rétt í hug, ekki aldeilis.  RÚMIÐ VELDUR SKILNAÐI.......þ.e karlinn burrar bara í burtu og er afskaplega sæll og glaður með það HUH.  Ég er nefnilega búin að sjá núna hvað hann er að byggja upp með þessu bloggi.  ÉG KEM HEIM ÞEGAR MÉR SÝNIST

LATIBÆR (IP-tala skráð) 27.3.2007 kl. 17:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband