MÚVÍ STAR

Ég þurfti að skreppa til Reykjavíkur um daginn, þeirra erinda að panta mér gleraugu í virtri gleraugnabúð. Ekki það að mér finnist ég sjá eitthvað illa, heldur fór ég að fyrirmælum konu minnar sem heldur því fram að ég sé að verða staurblindur. Við sátum í makindum í sófanum heima um daginn þegar konan sagði upp úr eins manns hljóði. Þú ert alveg hættur að taka eftir mér. Hvað segirðu elskan mín, það er einmitt á hinn veginn ég hef verið sérstaklega eftirtektarsamur uppá síðkastið sagði ég en sá á svipnum á konunni að meira myndi fylgja á eftir. Jæja, þú getur þá kannski sagt mér hvað er breytt við mig frá því í gær sagði hún og hvessti á mig augun. Ég horfði á konuna og velti fyrir mér hvaða breytingar væru sjáanlegar á henni frá gærdeginum og sagði loks, ertu í nýrri blússu elskan. Ég skal bara láta þig vita það Snorri Þór að ég er búinn að eiga þessa druslu í þrjú ár og þú hefur oft séð mig í henni og löngu orðið tímabært að þú kaupir á mig nýja sagði konan og sérðu virkilega enga breytinu bætti hún við. Ég pírði augun og starði góða stund á konuna og missti loks út úr mér, hafa freknurnar minnkað elsku rúsínubollan mín. Og nú skall þrumuveðrið á fyrir alvöru, konan hélt langa tölu um hvað karlmenn gætu verið sljóir og eftirtektarlausir, þeir hugsuðu bara um fótbolta og bíla en tækju ekkert eftir því sem mestu máli skipti þ.e. konunni sinni og svo kallarðu mig bollu í þokkabót karlugla, ég er sko engin bolla skaltu vita, ég er í mesta lagi “ hnellin” sérðu virkilega ekki að ég fór í klippingu og strípur og frá því að ég kom heim hef ég flögrað um stofuna eins og kynþokkafullt fiðrildi sagði konan. Ég reyndi að sjá fyrir mér konuna vængjaða og kafloðna fljúgandi um stofuna en var truflaður er hún bætti við, þú verður að láta athuga í þér augun maður þegar þú tekur ekki eftir svona augljósum hlutum. Að svo mæltu tók hún upp símann hringdi á Heilsugæslustöðina og pantaði tíma fyrir mig hjá augnlækni. Að sjálfsögðu mætti ég í tímann hjá augnlækninum sem heilsaði mér með handabandi og spurði hvað væri að hrjá mig. Ég sé ekki lengur hvað konan mín er kynþokkafull þegar hún flögrar um stofuna heima nýklippt með strípur sagði ég sem satt var. Það er einmitt það sagði augnlæknirinn, þetta er nú alvarlegasta tilfellið sem ég hef heyrt um í dag, komdu og sestu hér og kíktu í þetta tæki bætti hann við. Eftir heilmiklar mælingar og sjónpróf komst augnlæknirinn að sömu niðurstöðu og konan þ.e. að ég þyrfti umsvifalaust að fá gleraugu. Því var ég mættur í gleraugnabúðina og þar var mér tjáð að panta þyrfti glerin frá útlöndum og tæki það hálfan mánuð að fá þau send. Á leiðinni heim ákvað ég svo að koma við í Sparisjóðnum í Hveragerði og færa konunni þær fréttir að núna væri bara hálfur mánuður þangað til ég yrði alsjáandi og þá færi flögrið aldrei framhjá mér aftur. Í Sparisjóðnum var hinsvegar mikið um að vera, þar voru tveir menn með stóra kvikmyndatökuvél og heilmiklar græjur sem þeir beindu að konunni sem sat við borðið sitt skælbrosandi og taldi peninga í gríð og erg. Ég náði engu sambandi við konuna til að segja henni fréttirnar því hún snérist eins og skopparakringla í kringum kvikmyndatökumennina og á endanum ýtti hún mér út fyrir dyrnar og sagði mér að vera ekki fyrir. Ég forðaði mér heim á leið og þegar konan kom svo heim undir kvöldmat tjáði hún mér að hún væri orðin “ MÚVÍ STAR “ í heilmikilli heimildarmynd sem verið væri að gera um Hveragerði. Ég óskaði henni að sjálfögðu til hamingju með upphefðina og bætti við að nú væri bara hálfur mánuður þangað til ég fengi gleraugun og þá myndi ég loksins sjá hana í réttu ljósi. Það er nú ekki víst að ég verði hérna þá sagði konan grafalvarleg, þeir verða kannski búnir að koma auga á mig í Hollywood og bjóða mér hlutverk. Ég hugsaði mig um smástund hvort það væri algengt að heimildarmyndir um Hveragerði væru sýndar í Hollywood en sagði það eitt að ef hún yrði farin út þá gæti ég allavega notað gleraugun til að horfa á heimildarmyndina svo ekki hefði ferðin verið til ónýtis. Ef hinnsvegar svo ólíklega fer að heimildarmyndin um Hveragerði verði ekki sýnd í Hollywood og konan verði ennþá á Íslandi þegar ég fæ gleraugun þá get ég varla beðið með að tylla þeim á nefbroddinn og sjá loksins í réttu ljósi þegar það flögrar um stofuna heima:                             " Hnellið og kynþokkafullt  MÚVÍ STAR "  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

well well......það er aldeilis að minn er flugbeittur í dag.
Kallar konuna sína BOLLU.....já BOLLU og það bara rúmum mánuði eftir brúðkaup.......ekki nema það þó!!!!!! Ég er búin að afpanta gleraugun - þú hefur ekkert mað þau að gera.
And bæ ðe vei. Yes your wife is now MÚVÍ STAR and CONGRATULATIONS ICELAND. Silvia Night is not a star I´M THE ONLY ONE STAR WHICH HAS BEEN BORNED IN ICELAND. When I´ve got my new house in Hollywood or LA I´ll send you postcard and let you know the new address. One of my bodyguards will pick you up at the busstation when you arrive Hollywood or LA. The flight from Iceland is to NY and you can take the bus to Hollywood or LA.
Best regards from your loving wife, The new MOVIE STAR and ex. housewife.

THE MÚVÍ STAR, your wife and ex. housewife. (IP-tala skráð) 12.5.2006 kl. 12:05

2 identicon

Hey hvernig er með ritaran á þessari síðu humm???ekkert að gerast??? Kv G.E

Gulla (IP-tala skráð) 20.5.2006 kl. 20:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband