16.4.2007 | 13:33
ÞÚ ELSKAR MIG
Um páskana gerðist atburður sem á eftir að auðvelda mér lífið svo um munar það sem eftir er ævinnar. Þannig var að ég sat í sælli ró og var að spá í hvort konan hefði tímt að splæsa í páskaegg handa mér þegar ég tók eftir því að það var engin ánægjusvipur á henni og síðan dæsti hún hátt og horfði fast á mig. Ætli ég hafi gleymt að fara út með ruslið hugsaði ég með mér og flýtti mér fram að athuga málið en ruslafatan var galtóm svo ekki var það það sem var að hrjá konuna. Ætli hún hressist ekki ef að ég þvæ fyrir hana bílinn hugsaði ég með mér og fór í stígvél og keyrði Blu Bird heim að skúrnum og hófst handa við þvottinn. Skyndilega veitti ég því athygli að konan stóð í skúrdyrunum og var núna sýnu illilegri á svipin en í stofunni áðan. Ætli hún sé ekki ánægð með að ég skuli vera að þvo bílinn eða ætli hún vilji að ég bóni hann líka hugsaði ég þegar ég horfði á hana og sá að svipurinn þyngdist sífellt. Ég keypti handa þér páskaegg nr. 7 elskan kallaði ég og vonaðist til að konan myndi eitthvað hressast við þær fréttir. En frúin snéri sér bara snúðugt við og strunsaði inn aftur en ég stóð eftir með þvottasvampinn og skyldi hvorki upp né niður í því hvað amaði að henni. Hvað í fjáranum er að núna, hvern skrambann hef ég núna gert, ég hef þvegið og tekið til, séð um ruslið og skrúbbað bílinn og svo eru margir mánuðir síðan ég hef dottið í það svo ekki hef ég sagt neitt óvarlegt í ölæði. En það var alveg sama hvað ég hugsaði, ég gat bara ekki með nokkru móti fundið út hvað gæti hugsanlega verið að en komst þó að þeirri niðurstöðu að ef allt færi á versta veg þá gæti ég þó alltaf étið páskaeggið hennar. Að þvottinum loknum fór ég svo aftur inn og settist í stólinn minn. Konan horfði á mig góða stund en sagði svo: Ég ætla nú svo sem ekkert að vera að setja út á karmenn, þeir eru jú það skásta sem við konurnar eigum völ á af því taginu en ætlar þú að segja mér það Snorri Þór að þú vitir ekki hvaða dagur er í dag. Jú jú það er laugardagur sagði ég hissa og það er sunnudagur á morgun bætti ég við ef konan hefði eitthvað ruglast í dögunum, þú veist páskaeggjadagurinn bætti ég við. Það var svo sem ekki við öðru að búast sagði konan mæðulega og þú manst kanski ekki heldur hvað gerðist fyrir nákvæmlega einu ári síðan. Ég hugsaði mig um smástund en gat bara ekki með nokkru móti munað hvað hafði gerst fyrir nákvæmlega ári síðan. Var það dagurinn sem vonda veðrið kom sagði ég svo því ég mundi að það hafði snjóað heilmikið í apríl í fyrra. Ég leit á konuna og sá að þetta var greinilega ekki rétta svarið og eftir svipnum á henni að dæma var stutt í páskahretið þetta árið. Ég skal reyna að hressa upp á minnið í þér karl minn sagði konan og byrjaði að blístra brúðarmarsinn. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég uppgvötvaði hverju ég hafði gleymt. Ertu að segja mér að það sé komið eitt ár síðan við giftum okkur sagði ég eigum við virkilega brúðkaupsafmæli í dag. Já við eigum sko brúðkaupsafmæli í dag hrópaði konan en það var sko 7 apríl fyrir ári síðan sem ég gekk að eiga mesta og minnislausasta þorskhaus á Íslandi. Ertu viss um að það sé bara eitt ár síðan sagði ég mér finnst eins og það sé miklu lengra síðan. Konan horfði illilega á mig en ég fór að spá í hvernig ég gæti nú bætt henni þetta upp og reddað mér út úr þessu klandri í leiðinni. Samt hringdi þessi dagsetning 7 apríl engum bjöllum hjá mér og eftir því sem ég hugsaði meira um þetta þá varð ég vissari í minni sök. Ég stóð því á fætur og sótti möppuna mína og fletti upp á hjónavígsluvottorðinu. Ég tók skjalið úr möppunni og reyndi að leyna kæti minni þegar ég fór aftur fram í stofu. Heyrðu elskan, hvaða þorskhaus var það sem þú giftist þann 7 apríl í fyrra. Ég er nefnilega með skjal í höndunum stimplað af virðulegum fulltrúa sýslumanns um að ég hafi gifst einhverri freðýsu þann 5 apríl í fyrra en ekki þann 7 apríl. Núna gerðist það sem aldrei hefur gerst áður, konan varð orðlaus góða stund og sat bara steinilostin og gapti. Láttu mig sjá þetta skjal sagði hún svo loksins og ég rétti henni hjónavígsluvottorðið. Ég get svo svarið það sagði konan svo eftir góða stund,
ég var viss um að við hefðum gift okkur 7 apríl í fyrra hvernig stendur eiginlega á því að ég hef ruglast á dögum. Ég vissi alltaf að það var miklu lengra síðan við giftum okkur sagði ég kokhraustur því innst inni vissi ég það að framvegis skiptir það engu máli hvort ég man eftir brúðkaupsafmælinu okkar því ef svo ólíklega fer að ég gleymi því aftur þá minni ég bara konuna á það að hún hafi jú gifst mér þann 5 apríl en síðan tveimur dögum seinna þann 7 apríl hafi hún gifst þorskhausi. Konan varð óhuggandi yfir því að hafa gleymt brúðkaupsafmælinu okkar og varð reyndar svo mikið um þetta að hún þurfti að leggjast fyrir. Ég settist á gólfið við hliðina á sófanum og klappaði henni á kinnina og sagði: Hvaða máli ætli það skipti svo sem hvort við höldum uppá það að vera búin að vera gift í eitt ár þann 7 apríl en ekki þann 5 apríl það eina sem skiptir máli er að við elskum hvort annað. Þú veist að ég elska þig og segðu mér bara að þú elskir mig líka og svo gleymum við þessu bara, við erum svo ansi góð í því. Konan horfði á mig en sagði ekkert svo ég ítrekaði óskina og sagði: Plís elskan segðu að ÞÚ elskir mig. Þá loksins brosti konan og kyssti mig á kinnina og sagði:
ÞÚ ELSKAR MIG
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Til hamingju með daginn(ana) ótrúlega fyndið. Gangi ykkur vel að muna hver elskar hvern!!
Erla Björk Bergsdóttir, 16.4.2007 kl. 13:49
LAX, LAX, LAX OG AFTUR LAX söng hann Guðmundur Jónsson í den og mælti þar fyrir munn konu nokkurrar og víst væri hægt að heimfæra þann söng upp á okkur. En svo sannarlega vorum við búin að vera gift í eitt ár og 2 dögum betur - það verður aldreeeeiiii hægt að afsanna það. Og svo fékkstu nú páskaegg elsku hjartans páskakrúsidúlluunginn minn (en bara nr. 5 eða 6.......man ekki hvort heldur).
Elskan þín núna (IP-tala skráð) 16.4.2007 kl. 14:07
Hvort ástarmálin þín blómstra, stendur og fellur með því hvort þú getir lært af gamalli reynslu. Láttu söguna kenna þér, athugaðu munstur, horfðu fram á við.
Svona er stjörnuspáin þín í dag, þriðjudaginn 17.apríl 2007........ Ja.......hafi stjörnuspá einhvern tíma hitt í mark.......þá er það væntanlega þessi
sú sem ég veit að elskar þig (IP-tala skráð) 17.4.2007 kl. 11:40
enn á ný sannast hve sannspá stjörnuspáin þín getur verið........ og í dag er hún svona: "Þegar orkan heima fyrir er öll í rugli, reynir makinn að koma skikki á hlutina. Skipuleggið í kvöld hver á hvaða svæði. Þetta hefur góð áhrif á framtíðina." Ég veit vel að ég var að rugla skipulaginu þínu í bílskúrnum um daginn.........sóvot......ég setti MITT skipulag þar. En í hvaða sambandi ertu eiginlega við stjörnurnar......því mín er svona: " Ráðríkt fólk hefur þann slæma ósið að taka ekki ósætti til greina. Þannig fá þeir friðarsinna eins og þig til að gera uppreisn. Forðastu frekjudollurnar.". Ég held að það sé alveg nóg fyrir aðdáendaklúbbinn þinn að lesa bara stjörnuspá moggans til að geta fylgst með fréttum af heimilislífi okkar.
eiginkonan (IP-tala skráð) 26.4.2007 kl. 19:49
Heheheh...fyndið. Til hamingju með daginn
Brynja Hjaltadóttir, 26.4.2007 kl. 23:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.