28.4.2007 | 18:16
VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR
Ólátagarður er að breyta um nafn og mun mánudaginn 30 apríl 2007 fá nýtt nafn. Þá á konan nefnilega afmæli og nær þeim merka áfanga að verða hálfrar aldar gömul. Ólátagarður mun því framvegis bera nafnið Elliheimilið Ólátagarður. Ég verð að segja það að ég er nokkuð kvíðinn vegna þessa áfanga því frúin hefur verið í mikilli afneitun síðustu vikur sem lýsir fyrst og fremst í því að apótekið á staðnum er að verða eitt hið stöndugusta á landinu vegna aukningar í sölu á meiki, augnskuggum og allskonar yngingarkremum sem frúin smyr síðan á sig áður en hún fer í leikfimi, jóga eða bara út í garð að moldvarpast. Þess á milli er svo stormað í klippingu, strípur og litun á bjútístofunni til að fela öll gráu hárin sem fjölgar óðfluga. Já það er allt gert til þess að sýnast aðeins yngri og gildir þá einu þó ég reyni að benda á að klukkunni verði ekki bakkað. Ég hef þó reynt að hughreysta hana aðeins og hef bent á að þó hún sé að komast á ömmualdurinn þá sé það engin heimsendir því eins og ég sagði henni vita allir að amman var hornsteinn heimilisins í gamla daga. Hún gætti barnanna á meðan foreldrar þeirra unnu úti og sá um elddamenskuna, þrifin og þvottinn, enda var það ekki að ósekju að hún hlaut viðurnefnið þarfasti þjónninn Þessi ábending mín hlaut vægast sagt dræmar undirtektir enda frúin langt frá því að fara að setjast í helgan stein og stendur reyndar á öðrum tímamótum í lífi sínu því hún hefur sagt upp störfum sem þjónustustjóri Sparisjóðsins í Gúrkubæ og hefur ráðið sig til starfa hjá virtu tölvufyrirtæki í sjálfri höfuðborginni. Þó vissulega sé nýja vinnan mun betur launuð en sú gamla þá hef ég sterkan grun um að þetta tengist frekar aldursáfanganum og sé örvæntingarfull tilraun til þess að halda í æskuljómann með því að laumast inn í viðskiptageirann og starfa með stuttbuxnaliðinu þar. Ég bar þetta undir hana og spurði hvort þessi viðskiptageiri væri ekki bara fyrir einhverja verðbréfagutta sem væru ennþá blautir á bak við eyrun. Ég ætla nú ekkert að vera að hælast um sagði konan en til þess að komast áfram í viðskiptalífinu þá verður maður að vera miklu duglegri en karlmaður svo þú sérð að það er engin vandi. Þar með hélt ég að málið væri útrætt en konan bætti við eftir smástund: Svo er ég líka ágætlega menntuð og hef þar að auki tekið hin ýmsu námskeið sem eiga eftir að nýtast mér í þessu nýja starfi. Menntun er nú ekki það sem við lærum heldur það sem er eftir þegar við höfum gleymt því sem við höfum lært sagði ég spekingslega þar sem ég stóð og virti fyrir mér skjalabunkann sem konan átti að kynna sér áður en hún hefur störf. Mikið er þá gott að þú ert ekki að fara að vinna þarna því hjá þér er nefnilega ekkert eftir sagði konan og horfði mæðulega á mig. Ég ákvað að hætta mér ekki lengra inn á þessa braut því konan var í þannig ham að ég var ekki viss um að hafa betur í þetta sinnið. En um leið og ég lýsi því hér með formlega yfir að Elliheimilið Ólátagarður opnar mánudaginn 30 apríl þá óska ég þessari elsku til hamingju með áfangann og get í leiðinni upplýst hana um að þetta er ekkert til að hafa áhyggjur af því að mamma kenndi mér það strax í æsku að maður á alltaf að:
VERA GÓÐUR VIÐ GAMLAR KONUR
Flokkur: Vinir og fjölskylda | Facebook
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
jassó.........sko........öll yngingarkremin og meikið og allt tilbehör á heimilisapótekinu er nokkuð sem er nánast ónotað..........því það hefur verið alger óþarfi síðan við fluttum saman.......þú þarna gamli sköllótti ístrubelgur í Ólátagarði (sbr. eldra blogg) . Sko.....þega ég var að kokka í erlendu túristana (sem ég gerði í mööööörg sumur - áður en við tókum saman) var einn leikurinn með þessa blessaða kappa að láta þá geta upp á aldri áhafnarinnar og viti menn........ég var alltaf mun yngri í þeirra augum en ég var í raun og veru sem segir að ég er svo andans ári ungleg (allavega miðað við suma!!!) ójá góði minn, og sjáðu nú til......þú átt nú þér eldri konu og konan þín á sér yngri mann..........hvað segir þetta til um einhver ár......ha? Ég er sko aldeilis ekki eldri en mér finnst ég vera og það nær sko alls ekki þessari tölu sem þú ert sífellt að tönnlast á og heldur að það sé mér eitthvað til særinda. HUH ekki aldeilis - ég bara einfaldlega veit ekkert hvers vegna tíminn hefur liðið svona skolli hratt - og vita máttu að ég verð sko örugglega ekki yngri en 120 ára. Og hafðu það karlskröggur.
Húsmóðirin á Elliheimilinu Ólátagarði. (IP-tala skráð) 28.4.2007 kl. 18:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.