Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006
29.12.2006 | 11:12
Ístrubelgurinn í Ólátagarði
Það var við kvöldverðarborðið heima í Miðtúninu núna í haust að það gerðist atburður sem næstum því kostaði mig lífið. Þarna sat ég í sælli ró með spússu minni og hundurinn lá á mottunni sinni og nagaði bein. Ég hafði eldað hrossaket og búið til þessa fínu kartöflumús og á meðan við borðuðum þá var ég að hugsa um hvað það væri nú yndislega kósí og rólegt að vera bara svona tvö ein heima. Ég heyrði útundan mér að konan var að segja eitthvað, en ég var svo mikið að reikna í huganum hvað það gætu verið mörg ár í það að allir grislingarnir væru farnir að heiman og hægt væri að skipta um skrá í kotinu og innsigla alla lykla nema tvo, að ég heyrði ekki hvað það var. Ég hrökk svo við þegar konan barði hnífnum í borðið og sagði hvasst: Hvernig er það karlpungur ertu alveg hættur að hlusta á það sem ég segi. Þú segir nú svo margt elskan mín sagði ég afsakandi en hvað varstu annars að segja bætti ég við eftir stutta þögn. Ég var að spyrja þig að því hvort þér fyndist hann Moli litli ekki hafa dafnað vel hjá okkur, nú er hann búinn að vera hérna í meira en ár og ég fæ ekki betur séð en hann blómstri alveg hjá okkur. Ég leit á hundinn sem lá og kjammsaði á beininu og varð að viðurkenna að það hefði ræst furðanlega úr ræflinum. Það er alveg rétt hjá þér elskan þetta er orðin fyrirmyndar hundur og ennþá er hann að læra sagði ég um leið og stakk upp í mig stærðar flís af hrossaketi. Já sagði konan og fyrst okkur hefur gengið svona vel að ala upp hundinn og við búinn að gifta okkur þá er þetta orðin spurning um að fara á næsta stig með þetta samband okkar og eignast barn. Og það var þá sem það gerðist, mér svelgdist hroðalega á, hrossakjötsbitinn sat fastur í hálsinum á mér og ég náði ekki andanum. Þegar ég svo fór að blána bankaði konan í bakið á mér en allt kom fyrir ekki. Ég sá þó einn ljósan punkt í þessu þegar ég var við það að missa meðvitund og það var það að ég þyrfti líklega ekkert að hafa áhyggjur af neinu barnastússi því ég yrði steindauður, en þá greip konan brauðbrettið og sló hressilega í bakið á mér og danglaði reyndar í hausinn á mér í leiðinni. Við þessar aðfarir hrökk hrossakjötsslumman upp úr hálsinum á mér og skaust út um munninn og alla leið fram á gang og lenti reyndar á mottunni hjá hundinum sem var ekki seinn á sér að gleypa dræsuna. Ég var nokkra stund að ná andanum og jafna mig en gat lokst stunið upp. Ertu orðin band sjóðandi vitlaus kona, viltu að við förum að eignast barn á þessum aldri og svo veit ég ekki betur en það sé hreinlega orðið líffræðilega óhugsandi þar fyrir utan. En bíddu nú við í gær eldaðir þú kjöt í karrý með Grjónum í fyrradag Grjónagraut og daginn þar á undan kjúkling með Grjónum, plís plís ekki segja mér að þú sért búinn að ættleiða kínverja án þess að láta mig vita af því. Láttu ekki eins og hálfviti sagði konan hryssingslega og horfði svo á mig nokkra stund áður en hún sagði: Finnst þér það virkilega svona óhugsandi að við eignumst barn, þú manst kannski ekki lengur hvernig þau eru búin til og þú ætlar þá kannski líka að hætta að lúlla hjá mér á nóttinni. Ég hugsaði mig um smá stund en lét svo bara flakka það eina sem mér datt í hug sem var limra eftir Pál S. Pálsson:
Í því húsi og hjá þér
er ég fús að lúlla.
Hagamúsin á þér er
eins og krúsindúlla
Hættu þessari vitleysu sagði konan, ég hafði ekki í huga að við förum að eignast barn með þessari venjulegu aðferð og við erum orðin of gömul til að fá að ættleiða frá Kína, ég er búinn að tékka á því bætti hún við. Og hvaða aðferð ætlar þú þá að nota spurði ég forviða, ætlar mín kannski að ræna leikskóla eða hvað. Nei nei svaraði konan mér datt bara í hug að við gætum gerst stuðningsforeldrar og hjálpað aðeins til í samfélaginu, mér skilst að það vanti sárlega fólk sem er tilbúið að létta undir með fjölskyldum sem þurfa þess með og ég veit að ég yrði fyrirtaks uppalandi enda alvön með bæði þig og alla grislingana okkar. Það sakar allavega ekki að kanna málið sagði hún svo og eftir að hafa rætt málið nokkra stund varð það úr að konan mundi athuga hjá réttum aðilum hvort það vantaði stuðningsforeldra. Nokkrum dögum seinna kom konan svo heim úr vinnunni og tilkynnti mér það að sárlega vantaði stuðningsforeldra og hún væri búinn að ganga frá því að við tækjum að okkur tvo drengi annan á leikskólaaldri og hinn á forskólaaldri sem yrðu hjá okkur nokkra daga í mánuði þ.e. ef tilsskilinn leyfi fengjust. Konan byrjaði á því að fara í viðtal hjá félagsmálayfirvöldum og þegar hún kom heim fékk ég fyrsta verkefnið sem sagt að sækja sakavottorð fyrir alla familíuna. Þegar ég afhenti konunni vottorðin frá Sýslumanni tilkynnti hún mér að næsta verk væri að mæta í læknisskoðun daginn eftir því læknisvottorð yrði að fylgja líka. Ég mætti hjá lækninum og settist fyrir framan hann hálf vandræðalegur en herti mig svo upp og sagði: Konan sendi mig við vorum að spá í börn. Á ég skil sagði læknirinn og þig vantar væntanlega litlu bláu pillurnar. Nei nei nei nei það er ekki þannig sagði ég við eigum fullt af börnum.
Á ég skil sagði læknirinn og þið viljið þá ekki fleiri, ertu að spá í ófrjósemisaðgerð.
Nei nei nei nei alls ekki sagði ég mig vantar bara svona vottorð til að fá lánaða nokkra grislinga þú veist svona vottorð um að kollurinn sé í lagi sko. Læknirinn horfði hálf furðulega á mig en spurði svo nokkurra spurninga og skrifaði svo vottorðið og rétti mér. Ég sat smástund og horfði á vottorðið en missti svo út úr mér: Jæja fyrst þú endilega villt þá tek ég slatta af bláu pillunum líka. Næsta skref var svo að félagsmálayfirvöld mættu heim til þess að skoða húsið okkar og fáeinum dögum seinna vorum við svo boðuð í viðtal þar sem við vorum spurð um allt mögulegt og ómögulegt sem viðkom barnauppeldi. Að þessu ferli loknu fengum við svo leyfisbréf upp á það að geta gerst stuðningsforeldrar. Þá var næsta skref að fara að hitta piltana sem ætluðu að dvelja hjá okkur öðru hvoru og allt gekk það ljómandi vel og tveimur dögum seinna fórum við svo og sóttum þá í fyrstu heimsóknina sína til okkar í Miðtúnið. Þegar heim var komið og við vorum að klæða okkur úr úlpunum benti sá yngri á magann á mér og sagði: Af hverju ertu með svona stóra bumbu. Þetta er svona Jólasveina-ístra sagði ég, það eru mörg ár síðan ég byrjaði að æfa mig í að verða jólasveinn og þá þarf maður að hafa ístru. Ístrubelgur, ístrubelgur kallaði sá stutti og hljóp inn í eldhús en ég leit á konuna en sagði ekkert því ég sá að henni var stólega skemmt. Henni var hinsvegar ekki jafn skemmt hálftíma seinna þegar húsið leit út eins og eftir loftárás og vænan jarðskjálfta að auki. Þessi fyrsta heimsókn þeirra bræðra kostaði heilmikla vinnu og þolinmæði og það var ekki laust við að karl og kerling í koti væru þreytt eftir þessa daga og hundurinn þurfti jú áfallahjálp. Eftir næstu heimsókn lagði ég svo til að við myndum breyta nafninu á húsinu úr Miðtúni 7 í Ólátagarður 7. Síðan hafa þeir bræður komið í nokkrar heimsóknir til okkar í Ólátagarð og ég verð að segja það að mikil breyting hefur orðið á, sá yngri kallar mig þó ennþá ístrubelg en húsið lýtur ekki lengur út eins og eftir loftárás og hundurinn þarf ekki lengur áfallahjálp. Ég dáist reyndar að konunni minni sem stjórnar öllu saman eins og henni einni er lagið. Hún mynnir reyndar mjög svo á Patton Hershöfðingja þegar hún stjórnar matmálstímum og tannburstun og öðru slíku. Þegar reynslutímanum sem allir aðilar fengu lauk var þess óskað að við framlengdum samninginn sem gerður hafði verið og eftir að við hjónakorn höfðum rætt málið fannst okkur það alveg sjálfsagt og konan sagði reyndar að vel kæmi til greina að gerast stuðningsforeldri fyrir fleiri börn og þegar ég maldaði í móinn og sagði þetta nú ágætt í bili sagði hún bara: Æ góði láttu mig bara um þetta því að þú ert jú þegar allt kemur til alls bara:
ÍSTRUBELGURINN Í ÓLÁTAGARÐI
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar