24.5.2006 | 02:19
MIÐILLINN
Þar sem við búum á Selfossi skötuhjúin, fyrir utan á eins og það er kallað er heilmikið svæði við húshornið hjá okkur sem ekki stendur til að byggja á, heldur á að nýta það í annað. Konan hafði komist yfir nokkrar tillögur um skipulagningu svæðisins sem flestar gengu út á það að þarna verði útivistar og skógræktarsvæði með göngustígum og fíneríi í framhaldi af skógræktarsvæði Selfoss sem er aðeins lengra upp með ánni. Ein tillagan var þó öðruvísi því þar var gert ráð fyrir því að nýji kirkjugarðurinn á Selfossi verði við húshornið hjá okkur. Djöfull lýst mér vel á þessa tillögu sagði konan og veifaði teikningunni framan í mig, þetta yrðu drauma nágrannar þeir eru svo rólegir og ekki væri verra að geta trillað þér í hjólbörum fyrir húshornið og sturtað þér ofan í holuna þegar þar að kemur bætti hún við. Þú myndir kannski splæsa á mig blómvendi og krossi fyrir jólin sagði ég um leið og ég skoðaði teikninguna að nýja kirkjugarðinum. Það getur vel verið ef ég verð búin að skreyta snemma sagði konan og hélt áfram að skoða teikninguna. Konunni leist svo vel á þessa hugmynd að næstu daga talaði hún ekki um annað en dauðann og skipulagði jarðarfarir fram og til baka, þó aðalega mína. Það var svo tveimur dögum seinna kl. 6:30 að morgni að konan danglaði í mig og sagði ákveðin: Nú panta ég tíma hjá Miðli sagði hún, það er orðið tímabært að fá að vita hvað það er langt þangað til ég fæ líftrygginguna þína og svo er líka langt síðan ég hef spjallað við Krissu vinkonu þekkir þú ekki einhvern Miðil bætti hún við. Ég þekkti tvo en þeir eru báðir dauðir sagði ég og leyfðu mér og hinum dauðu að hvíla í friði tautaði ég og velti mér á hina hliðina. Já það er rétt elskan það er álíka mikið líf í þér og hinum dauðu sagði konan höst og friðurinn var úti þennan morguninn, konan fletti blöðunum og las símaskránna fram og til baka og hringdi símtöl í allar átti og fann loks eftir því sem hún sagði besta Miðil á Íslandi staðsettan í Keflavík. Síðan hringdi hún og pantaði tíma fyrir okkur og gaf skilmerkilega upp nöfn okkar og kennitölur og þegar hún lagði símtólið á aftur snéri hún sér að mér og sagði: Svo látum við eins og við þekkjumst ekkert þegar við förum og sjáum hvað kemur út úr því. Já það er náttúrulega það fyrsta sem Miðlinum datt í hug þegar þú gafst honum upp nöfnin og kennitölurnar okkar að þú værir að panta tíma fyrir þig og einhvern ókunnan karlmann úti í bæ áræddi ég að leggja til málanna en konan snéri uppá sig og sagði: Þú hefur ekkert vit á Miðlum frekar en svo mörgu öðru. Þegar dagurinn rann svo upp ókum við sem leið lá til Keflavíkur og mættum á tilsettum tíma til Miðilsins svo konan fengi að vita hvenær hún gæti vænst þess að fá líftrygginguna mína og hvað væri að frétta hjá Krissu vinkonu. Miðillinn sem var kona ræddi við okkur sitt í hvoru lagi og var afar elskuleg og hress og sagði fréttir að handan og komu þar ýmsir við sögu en merkilegast þótti mér þegar hún lýsti fyrir mér húsinu okkar og sagði að þeir fyrir handan segðu að það þyrfti aðeins að laga svalahurðina og 3 glugga þyrfti lítilsháttar að laga líka. Allt passaði þetta og ég velti fyrir mér hvort þeir vissu líka fyrir handan að ég hafði svikist um að sópa stéttina áður en ég lagði að stað. Konan gat hins vegar ekki leynt vonbrigðum sínum þegar hún kom út í bíl og tilkynnti mér að Miðillinn hefði tjáð henni að ég yrði 87 ára gamall. Það er ekkert hægt að stóla á þig frekar en fyrri daginn sagði hún og skipaði mér að aka austur fyrir fjall aftur. Þegar við svo sátum um kvöldið heima í stofu og biðum eftir því að LOST byrjaði í sjónvarpinu var konan afar hugsi yfir miðilsfundinum enda hafði Krissa vinkona sagt henni ýmislegt fróðlegt. Þetta er einstaklega merkileg gáfa miðilsgáfan sagði konan spekingslega að fá að spjalla svona við hina framliðnu. Já alveg rétt sagði ég og datt í leiðinni í hug að stríða konunni smá því ég hafði horft á þátt með Jay Leno kvöldið áður og þar mætti ein persónan úr LOST sem við vorum að fara að horfa á og þar fékk ég að vita að viðkomandi yrði ekki mikið langlífari í þáttunum og dauðdaginn væri skot í brjóstið. Það var engu líkara en ég fengi einhverja orku frá Miðlinum þegar við fórum sagði ég við konuna og núna finn ég einhvernveginn á mér að Ana Lucia verður skotin í þættinum í kvöld. Konan fussaði eitthvað en þó er ég ekki frá því að hún hafi horft á þáttinn með aðeins meiri athygli en venjulega. En Ana Lucia slapp við að verða skotin í brjóstið í þessum þætti og konan snéri sér að mér og sagði hæðnislega, það er nú meiri miðilsgáfan sem þú hefur maður. Tja ég kann bara ekki á þessa orku ennþá sagði ég dauflega en ég er samt viss um að hún verður þá skotin í næsta þætti eða þarnæsta. Konan flissaði og sagði, þú getur þá kannski sagt mér í leiðinni hvenær ég hitti hinn eina og sanna draumaprins. Það er nú auðvelt sagði ég þú ert nú búin að hitta hann og átt eftir að verða hamingjusöm til æviloka bætti ég við. Konan horfði á mig með augnaráðinu sem ég reyni oftast að forðast og sagði:
Þú ert lélegur MIÐILL
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábær skrif hjá þér Snorri.....
Mikill húmor og hvet þig áfram, langt síðan e´g hef lesið svo skemmtilegr "sannar" smásögur:-)
Með bestu kveðju,Inga Jóna, Sparisjóðabankanum
Inga Jóna (IP-tala skráð) 24.5.2006 kl. 13:54
Ef einhver miðill gæti verið fjölmiðill.......tja...þá ert það þú. En þú lætur þess ekki getið hvenær mín líftrygging yrði greidd út, sennilega af því að þú veist það líklega - ha - Þú varst nefnilega svo sigri hrósandi þegar þú vissir að þú yrðir 87 ára að ég hef ekki séð annað eins glott alla mína ævi og er ég nú árinu eldri en þú góði minn. Þú ert semsagt búinn að gera fjárhagsáætlunina fram til ársins 2045, munt sennilega lifa góðu lífi í bungalóinu við Spánarströnd með bjórinn í annarri hendi og vindilinn í hinni. Ég skal sko hafa eftirlit með þér ;-)
eiginkonan og hnellna MÚVÍSTARIÐ (IP-tala skráð) 24.5.2006 kl. 15:55
Eiginkonan og hnellna MÚVÍSTARIÐ verður að koma smáviðbótarupplýsingum á framfæri. Í dag, föstudaginn 26.maí fór minn elskulegi eiginmaður að athuga með gleraugun sem hann nefndi í grein um daginn (því hann er farinn að óttast hversu vel hjónabandið endist) og viti menn.........ég afpantaði gleraugun um daginn en það gekk greinilega ekki........og það kom annað í ljós.......vitlaust afgreidd glerin og minn maður etur nú blóðþrystingslækkandi lyf í gríð og erg og liggur á bæn og biður um EXPRESS afgreiðslu (ég held að afgreiðslan eigi við gleraugun). (veit ekki hvernig hann fer að í kjörklefanum á morgun þessi elska - hann þjáist líka af sjónskekkju (sko maðurinn))Þar sem það eru bara lögblindir sem fá aðstoð í kjörklefanum verðum við að treysta því að hann krossi við réttan lista.
Og líka til að fyrirbyggja mikinn misskilning sem ég hef orðið vör við (og þá samúð sem minn maður fær (á röngum forsendum)) ég er ekki alveg svona mikið heks eins og.......lítur út fyrir að vera. Þetta lagast vonandi hjá manninum þegar gleraugun koma, hann sér ýmislegt pínupons öðruvísi en ég, - enda á ég mörg gleraugu.
Kv.
Eiginkonan.
eiginkonan og hnellna MÚVÍ STARIÐ (IP-tala skráð) 26.5.2006 kl. 13:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.