8.6.2006 | 10:16
Halelúja systir
Eftir að konan gerðist Halelúja systir á kosningadaginn hefur heimilislífið hjá okkur í Miðtúninu verið með svolítið öðrum blæ en ég hef átt að venjast hingað til. Til dæmis er hún alveg hætt að bjóða mér góðan dag en segir í staðin Í Guðs friði og ef ég svara ekki í sömu mynt fæ ég stranga áminningu um að sál mín komist ekki til himna og fái þaðan af síður að rísa upp á efsta degi. Þá er sálmasöngurinn yfir kvöldmatnum farinn að verða hálf þreytandi og tillaga mín um að poppa sálmana svolítið upp hefur ekki fengið hljómgrunn ennþá. Síðan er það bænalesturinn á rúmmstokknum áður en gengið er til náða, reyndar er hvað minnsta breytingin fólgin í þeim bænalestri því við karlmenn erum ekki óvanir svolitlum bænum á rúmmstokknum þó þær bænir séu jú reyndar oftast svolítið annars eðlis. Það hefur því ríkt blessaður friður í kotinu síðan á kosningadaginn, konan hefur að vísu breitt stærðar ullarteppi yfir barinn minn og ég hef ekki svomikið sem fengið að gjóa augunum þangað. Ég reyndi þó að benda konunni á að í öllum almennilegum söfnuðum væri tekið til altaris öðru hvoru og drukkið gerjað berjasaft sem kallað væri blóð krists og haft eitthvað snakk með. Þegar ég svo stakk uppá því að við heiðruðum Maríu mey einn daginn með því að taka teppið af barnum og fá okkur eina Blody Mary lá við að ég yrði endanlega bannfærður og konan snéri sér að mér hin versta og sagði að ég skyldi gera mér það morgunljóst að hér yrði ekki drukkið áfengi á næstunni heldur stundað kristilegt líferni af miklum krafti. Ég var samt ekki alveg viss um hvort hún meinti þetta 100% eða hvort hún var ennþá með móralska timburmenn eftir kosningadaginn. En þegar ég var sendur út í búð um daginn og snéri mér við í dyrunum og sá hvar konan lá á hnjánum úti í garði að reyta arfa og tína sprek þá varð mér skyndilega ljóst þvílíkur munur væri að búa á svona sannkristnu heimili og fannst eitthvað svo mikill friður og ró liggja í loftinu. Ég varð allt að því frómur og fann mig knúinn til þess að þakka Guði fyrir að hafa sent sendiboða sína til að gera konuna að Halelúja systur þó það þíddi ótímabundið bindindi fyrir mig. Svolítið dvaldist mér í ferðinni því ég þurfti að fara á nokkra staði því ég hafði ströng fyrirmæli um að kaupa nú haframjölið þar sem verðið væri hagstæðast. Þegar ég svo renndi í hlað heima með lang ódýrasta haframjölspakkann í bænum og opnaði dyrnar kom konan á harðahlaupum utan úr garði í fullum skrúða og veifaði arfaklórunni í gríð og erg. Mér rétt tókst að beygja höfuðið svo arfaklóran lenti ekki í yfirvaraskegginu en svo sagði konan með öndina í hálsinum. Hún ætlar að fara að byggja hænsnakofa og risastóra girðingu svo hún geti stripplast í heita pottinum. Hvað áttu við kona sagði ég steinhissa og bætti við Í Guðs friði í þeirri von að konan róaðist aðeins. Konan tjáði mér að hún hefði hitt nágrannakonuna úti í garði og hún hefði sagt sér að til stæði að byggja garðhýsi undir áhöld og einnig hefði hún sótt um leyfi til byggingarfulltrúa um að fá að girða af hjá sér lóðina því hún ætlaði að flytja heitapottinn til og setja hann í miðjan garðinn. Og svo vill hún hafa girðinguna yfir tvo metra bara til að geta stripplast í heitapottinum bætti konan við og ég vil ekki sjá þennan hænsnakofa fyrir utan stofugluggan hjá mér. Ég flýtti mér út í garð með málband og mældi í skyndi tilvonandi girðingarhæð og sá strax að maður myndi ekki sjá yfir hana svo ég snéri mér að konunni og sagði: Ég treysti því elskan mín að þú sjáir til þess að girðingin verði ekki svona há, við missum allt útsýni, hún verður að lækka um að minnsta kosti hálfan metra. Konan horfði á mig grunsemdar augum og sagði: Lækka um hálfan meter það er nú bara svo þú getir horft á hana stripplast góði er það ekki. Alls ekki sagði ég þetta er bara málamiðlun sem ég er að leggja til og stendur ekki í biblíunni að girðing sé granna sættir Í Guðs friði flýtti ég mér svo að bæta við eins frómur og ég gat þegar ég sá svipinn á konunni. Þú hefur ekki fokking vit á biblíunni sagði konan æst og þetta er ekki mál milli MÍN og HERRANS heldur milli MÍN og HENNAR bætti hún við og gjóaði augunum yfir í garð nágrannans. Síðan snéri hún sér við og svippaði teppinu af barnum mínum, greip flösku af garnahreinsara og benti mér á að setjast. Síðan tók hún tvö glös og setti á stofuborðið, hellti fullsterkum í og sagði með mikilli aðvöru að nú þyrfti að leggja á ráðin og bætti svo við með djúpu röddinni: Þau geta svo sem sett niður þennan andskotans hænsnakofa en þú mátt þá geta upp á hvar verður flottasta brennan um áramótin því fjandinn hafi það nú verður stríð og ég er hér með hætt að vera HALELJÚJA SYSTIR
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Megi sá sem vanur er gefa þér góðan dag.
Þetta með hænsnakofann.........það kemur lítill kofi á okkar lóð og í honum verða brún hænsni (sennilega ekki færri en 20 hænur) og ferlega skrautlegur hani með afskaplega flott stél - það er á litinn eins og GAY PRIDE fáninn (í öllum regnbogans litum). Þessi fíni hani er með innbyggða vekjaraklukku og byrjar að gala klukkan 5 á morgnana, með honum fylgja eyrnatappar fyrir okkur (allavega mig). Þú munt fá hrikalega ódýra ommilettu á hverjum morgni í staðinn fyrir að kaupa e-ð haframjöl. Nú verður það sko bara heimaræktun sem gildir varðandi matartilbúninginn góði...........og vel á minnst, við búum nú á bökkum einnar helstu veiðiár landsins og þú getur bara farið með prikið út á bakkann og reynt að veiða fisk í soðið. Það eru nefnilega ekki bara Reykvíkingar sem geta státað sig af því að það renni laxveiðiá gegn um byggðina, það geta Selfyssingar líka gert.......og það sko á með miklu meira vatni í en hjá Reykjavíkurborgarbúum - við erum sko ÁRborgarbúar.
Og vel á minnst - það eru komnar 13 blaðsíður í mest seldu jólabók fyrir næstu jól - haltu áfram því samningurinn við forlagið er að skella á og þú átt eftir að skrifa nokkrar í viðbót. Mundu bara að höfundarrétturinn er mjög sterkur. JIBBY - jólunum bjargað, Snorrablogg verður metsölubókin í ár (og öll næstu ár)
eiginkonan, hnellna MÚVÍSTARIÐ, félagi í aðdáendaklúbbnum og fyrrum HALELÚJA SYSTIR. (IP-tala skráð) 8.6.2006 kl. 11:27
Snilld :))))))
Félagi í aðdáendaklúbbi Snorrablogg (IP-tala skráð) 8.6.2006 kl. 12:24
Frábært blogg, hlakka til að lesa bókina.
kveðja úr Reykjavíkinni
María frænka
María Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 11.6.2006 kl. 13:33
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.