FLUTTUR Í KJALLARANN

Jæja þá er komið að því,  ég hef ákveðið að flytja í kjallarann og búa þar einn,  já það verður sko skipt um skrá og settur stór slagbrandur fyrir dyrnar svo enginn komist inn.  Og hver skyldi svo vera ástæða þess að húsbóndinn og ástkær eiginmaður og faðir tekur svo stóra ákvörðun að segja bless við allt pakkið á efri hæðinni.  Jú þær eru sko tvær.  Í fyrsta lagi þá er það sparnaðar og verðkönnunarárátta konunnar og í öðru lagi óstöðvandi hlátur hennar sem er að gera mig vitlausan þessa dagana.  Konan telur sig nefnilega vera sérlegan eftirlitsmann með verðhækkunum á matvöru á öllu Suðurlandi og víðar.  Þetta hefur orðið til þess að ég er stundum sendur í fimm til sex staði til að kaupa eitt stykki af þessu hér og annað af hinu þar þegar hægt væri að kaupa allt á einum stað á smá stund.  Skiptir þá engu þótt ég bendi á að ávinningurinn af sparnaðinum sé enginn því kostnaðurinn við akstur á milli staða éti hann allan upp og meira til.  Svo mikil er þessi árátta að frúin eyðir nú löngum stundum í matvörubúðum og leggur á minnið verð á matvörum og fleiru og svo rammt kveður að þessu að ég get svarið það að um daginn tók ég kornfleks pakka og bar strikamerkið upp að augunum á henni og umsvifalaust hrökk út úr henni:   269 kr. í Bónus, hækkaði um 4 kr. í síðustu viku.  Svona hefur þetta gengið alveg frá því að matarskatturinn var lækkaður og þessi árátta löngu komin úr öllum böndum.  En í einu sparar þó konan ekkert heldur eyðir mánaðarlega heilmiklum fjármunum í hundkvikindið á heimilinu.  Takk fyrir,  einu sinni í mánuði er pantaður tími fyrir dýrið á bjútístofu suður í Reykjavík þar sem hann er baðaður upp úr allskonar ilmsápum og næringum og síðan klipptur og greiddur bæði ofan og neðan.  Það lendir nú venjulega á mér að fara með hann á bjútístofuna því konan pantar venjulega tíma fyrir sig á annari bjútístofu á meðan og þar er hún klippt  (allavega að ofan) og fær strípur og eitthvað dúllerí í leiðinni.  Það var svo um daginn í einu sparnaðarkastinu að konan sat og var að fara yfir Visa reikninginn og gera sinn venjulega verðsamanburð að ég tók eftir því að bjútístofan sem hundurinn fer á tók helmingi lægra gjald en bjútístofan sem konan fer á.  Ég hugsaði málið um stund og gat ekki betur séð en gjörningurinn á báðum þessum bjútístofum væri nánast sá sami svo að næst þegar ég fór með hundinn í snyrtingu spurði ég stúlkuna sem var að vinna þar hvort það væri möguleiki að ef ég kæmi með kerlinguna líka hvort það væri ekki hægt að skrúbba hana rækilega og klippa og greiða bæði ofan og neðan og kannski þrjár eða fjórar strípur í leiðinni fyrir sama verð og hundinn.  Stúlkan á snyrtistofunni horfði á mig smástund en hló svo og sagði:  Tja ég veit nú ekki með það,  hérna eru viðskiptavinirnir geymdir í búrum á meðan þeir bíða og bundnir þegar þeir eru snyrtir og svo þarf að setja múl á munninn á þeim verstu ef þeir reyna að bíta.  Hmmm sagði ég,  það er ekkert mál með búrið og svo er kerlingin þokkalega vanin svo það ætti nú kannski ekki að þurfa að binda hana en þetta með múlinn væri samt ekki galin hugmynd.  Stúlkan hló bara aftur en sagði svo:  Ekkert mál svo framanlega sem hún kemst ofan í þvottabalann sé ég ekkert því til fyrirstöðu að þú komir bara með hana líka næst.  Ég kvaddi því glaður í bragði og flýtti mér heim og sagði konunni frá hugmynd minni og að ég hefði pantað tíma fyrir hana líka í næsta mánuði og þannig myndi sparast stórfé.  Viðtökurnar sem ég fékk voru ekki þær sem ég bjóst við og þó glóðaraugað eigi sjálfsagt eftir að hjaðna með tímanum þá skil ég hvorki upp né niður í þessu lengur,  er konunni einhver alvara með þessu sparnaðarátaki sínu eða á bara að spara sumt en annað ekki og þegar maður kemur með góðar hugmyndir um sparnað sem “ kosta ekki neitt “ þá fær maður bara einn grænann good moren  “ staðgreiddann “ með það sama.  En þetta er nú samt ekki það versta, ó nei ó nei,  um daginn hélt konan af stað í einn verðkönnunarleiðangurinn sinn og þar sem litli Yarisinn hennar sem gengur undir nafninu Blu Bird var ekki heima þá var ég látinn taka jeppann út úr skúrnum.  Ég rétti konunni lyklana og bað hana að setja svo bílinn aftur inn í skúr þegar hún kæmi til baka og síðan ók frúin settileg af stað.  Ég flýtti mér svo inn og settist við sjónvarpið og fór að horfa á einn fótboltaleik eða svo og góða stund ríkti blessaður friður á heimilinu.  En ekkert varir að eilífu og rúmum klukkutíma síðar heyrði ég að frúin ók í hlað.  Konan birtist í gættinni með nokkra poka af einhverjum afsláttarvörum.  Heyrðu elskan kallaði hún ég treysti mér ekki til að keyra bílinn inn í skúr,  hann er svo stór að ég er hrædd um að reka hann utan í dyrnar.  Láttu ekki svona kona kallaði ég á móti,  þetta er risa hurð,  þetta er ekki meira mál en að keyra Austin Mini inn um hlöðudyr.  Ég legg nú samt ekki í það sagði konan ákveðin og bölvandi stóð ég á fætur og fór og opnaði bílskúrinn og hoppaði upp í jeppann.  Kerlingar og bílar fussaði ég um leið og ég setti í gang,  það ætti að banna þeim að keyra neitt stærra en Blu Bird hugsaði ég svo og setti í gír og keyrði beint á hlöðudyrnar.  Það heyrðust heilmiklir skruðningar þegar brettakanturinn skrapaði járnið á hurðinni og konan kom á harða spretti til að gá hvað gengi á.  Hvað gengur eiginlega á hrópaði hún.  Ööööööööö sagði ég þegar ég steig út úr bílnum og fór að skoða aðstæður.  Hvað gerðist eiginlega spurði konan aftur.  Ööööööööööööö stamaði ég en skyndilega setti að konunni óstöðvandi hlátur.  Keyrðirðu  á   “ HLÖÐUDYRNAR “ stundi hún og grenjaði úr hlátri.  Öööööööööö  sagði ég einusinni enn og fór að kanna skemmdir.  Í ljós kom rispa í lakki og brettakanturinn hafði losnað frá að hluta.  Til þess að bíllinn yrði nú ekki úr leik sótti ég túpu af tonnataki og límdi brettakantinn aftur á  þangað til varnalegri viðgerð fer fram.  Konan fékk annað hláturskast þegar hún sá mig með tonnatakið og sagði:  Blu Bird er ekki límdur saman eins og sumar druslurnar á þessu heimili.  Heyrðu elskan sagði ég og tók tonnatakstúpuna,  má ég aðeins sjá á þér varirnar.  Konan forðaði sér inn en ég ákvað að dvelja aðeins lengur í bílskúrnum en heyrði þó hláturrokurnar í konunni af og til.  Síðan þetta gerðist hefur ekki verið fló í friði á heimilinu og hefur meira að segja gengið svo langt að konan tekur hláturrokur upp úr svefni.  Og þarna dreg ég mörkin,  þetta lið getur bara átt sig og sínar hlöðudyr, ég er sko:

 

                        FLUTTUR Í KJALLARANN:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

.........jahá, það verða því gleðilegir páskar með tilbehör, sko..........þú ert og verður best geymur í kjallaranum, en eins og með það að koma bílnum í búlskúrinn og allt það að þá er slagbrandurinn utaná kjallarahurðinni og ég hef lykilinn að honum.......hehehehhehe, tókst jafnvel hjá þér að koma honum fyrir eins og að koma míni bíl gegnum hlöðudyr .  Svo ert það nú þú sem sérð um verslunarferðirnar hvað svo sem ég segi þér til eftir að hafa farið með verðskönnunaraugun mín yfir hillurekkana í hinum og þessum verslunum.  Bjútístofurnar..........ja hérna megin, einhverju sinni kom ég heim, nýklippt og hafði þar að auki skipt um lit á strípum...........ertu búinn að gleyma hvað þú sagðir við mig þá? Ha?  Ég vissi það, enda manstu varla eftir pillunum þínum lengur.  Þú sagðir "Hvað er að sjá þig kona, varstu blóðguð svona illilega"?.......ég meina það að ætla sér að fara með mig á hundabjútístofu - það mætti halda að ég væri einhver "tík" þó ég sé kvenkynsvera.

sú sem býr uppi en ekki í kjallaranum (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 15:26

2 identicon

 bara að láta vita af því að ég fékk ekki svefnfrið síðastliðna nótt, slík var umferðin hér að kjallarahurðinni (karlinn tilkynnti nefnilega hér á veraldarvefnum að hann væri fluttur einn í kjallarann)..........þvílík læti kvenna sem upphófust um kl. 23 í gærkvöld við það eitt að reyna að ná slagbrandinum frá kjallarahurðinni (ég hef lykilinn).  Þegar það dugði ekki til var reynt að skríða gegnum eldhúsgluggann .......dísúskræst.......en þau andsk..... læti (glugginn er þvengmjór).  Ég held sveimér þá að ég opni lásinn svo ég hafi svefnfrið næstu nætur .  Svo á karlinn eftir að koma rúminu sínu niður - þannig að mér er nauðugur einn kostur - það að taka lásinn af slagbrandinum . Það vill til að núna eru frídagar í massavís svo það er ekki stóramálið að koma rúminu og draslinu sem fylgir karlinum niður!!!!!.

sú svefnlausa uppi (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 13:30

3 identicon

þetta er nú það besta sem ég hef heyrt haha  hversu lengi getur þú tollað í kjallaranum KONULAUS???

Gulla (IP-tala skráð) 10.4.2007 kl. 01:28

4 identicon

hahaha.... alger snilllldd. Ólátagarður 1 og 1A. Hlakka til eftir næstu orustu, en hver vinnur stríðið???

Birkir (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 07:37

5 identicon

Halló þú þarna Birkir .  Bara að láta þig vita að hér er ekkert stríð og allsengar orustur (bara lotur).....fólk lítur hlutina og atburðina ekki sömu augum .  Nú er svo komið að ég......eiginkonan elskuleg þarf að skipta um vinnu og ekki nóg með það, ég þarf að fara í annan landshluta svo ég geti gengið óáreitt um götur .  Umferðin í Ólátahverfi hefur magnast svo um munar að í þessum yndislega smáreit sem eru ekki fleiri en ca 40-50 hús er verið að setja upp hraðahindrun í næstu götu (það er nefnilega hringakstur í hverfin!!!) og segja mætti mér að slíkt komi fyrir framan Ólátagarð. .......ef ekki bara umferðarljós.  Allavega var ekki vanþörf á því um bænadagana - ég hef bara aldrei séð aðra eins umferð um litlu götuna okkar eins og þá.  Fljótt flýgur bloggsagan!!!

Húsfrúin í Ólátagarði (IP-tala skráð) 13.4.2007 kl. 13:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband