Sameiginleg áhugamál

Mér finnst komin tími til að við förum að finna okkur eitthvað sameiginlegt áhugamál sagði konan við mig einn daginn þar sem ég sat við eldhúsborðið og las Moggann.  Aha svaraði ég og hélt áfram að lesa blaðið.  Já það er komin tími til að ég fái að kynnast þínum áhugamálum og þú mínum sagði konan ákveðin og ég sá að það var ekkert undanfæri svo ég lokaði blaðinu og snéri mér að henni.  Og hvað er það elskan mín sem þú villt að við gerum saman sagði ég og þér er velkomið að taka þátt í mínum áhugamálum, það er t.d. leikur í sjónvarpinu í kvöld sem þú getur horft á með mér og svo á ég veiðidag fljótlega líka,  og hvað af þínum áhugamálum villtu að ég taki þátt í,  ég hef mjög takmarkaðan áhuga á útsaumi og þessháttar.  Mín áhugamál liggja miklu víðar sagði konan spekingslega og það væri ágætt að byrja bara rólega og taka eitt skerf í einu og ég held að ég prufi að koma með þér í veiði fyrst og þú getur þá prufað eitt af mínum áhugamálum t.d. skúringarnar eða uppvaskið eða þvottavélina.  Mér er nú voðalega illa við að taka öll bestu áhugamálin frá þér stamaði ég skelfingu lostinn og horfði á konuna sem stóð glottandi við eldhúsvaskinn.  Eins og ég sagði bara taka eitt skref í einu og við getum bara byrjað smátt ég er að fara að setja í þvottavél og það er tilvalið hjá þér að læra á hana í leiðinni sagði konan og stormaði inn í vaskahús.  Ég sá að orustan var að tapast  svo ég dróst á eftir henni inn í vaskahús meðan ég hugsaði um hvernig ég ætti að snúa mig út úr þessu.  Þú veist að þegar maður fer í veiði þá verður maður að láta sig hafa það að skríða í görðum að næturlagi í grenjandi rigningu og tína orma og síðan þarf að þræða þá upp á öngulinn sagði ég vongóður og beið eftir viðbrögðum frá konunni.  Ég er ekkert hrædd við einhverja ánamaðkatitti sagði konan ég hef nú glímt við stærri snáka en það og mér verður ekki skotaskuld úr því að þræða þá upp á öngulinn bætti hún við meðan hún hrærði í körfunni með óhreina tauinu.  Síðan tók við fyrirlestur um öll helstu þvottakerfi vélarinnar og ströng fyrirmæli hvað mætti þvo með hverju, hvað mætti sjóða og þessháttar.  Jæja byrjaðu þá sagði hún svo og benti á körfuna með óhreina tauinu.  Hvað er þetta sagði ég,  ætlarðu að þvo lampaskerminn og togaði í eitthvað sem stóð út úr körfunni.  Viltu gjöra svo vel að láta brjóstahaldið mitt í friði hrópaði konan og sló á puttana á mér,  nú á að þvo mislitt tau eins og ég kenndi þér áðan.  Eftir að hafa sett í þvottavél undir ströngu eftirliti settist ég svo niður í stofu og horfði út í rigninguna sem lamdi gluggann og velti því fyrir mér hvort þetta væri ekki fínasta ánamaðka veður  og kallaði svo í konuna og sagði:  Fáðu leyfi hjá systur þinni til að fara í garðinn hjá henni til að  tína ánamaðka í nótt,  við skulum fara og sækja nokkra fyrir veiðitúrinn.  Konan hringdi umsvifalaust til að fá leyfið og fór svo að tína til regnfatnað og stígvél fyrir nóttina.  Það var svo um hálf eitt leitið um nóttina sem við ókum í hlað við umræddan garð og ég varð að viðurkenna að konan var ansi vígaleg í pollagallanum með stærðar sjóhatt og vopnuð vasaljósi.  Svo er bara best að skríða á hnjánum ofur varlega meðan maður tínir sagði ég og greip  stærðar ánamaðk í blómabeðinu og rétti konunni sem kipptist við þegar hann spriklaði í hendinni á henni.  Við skulum bara skipta með okkur garðinum,  þú ferð bak við húsið og ég verð að framanverðu sagði ég,  þá verðum við skotfljót að tína eins og 200 stykki.  Konan greip dolluna undir maðkinn og hvarf á bak við hús og ég hófst handa við að tína í beðinu fyrir framan húsið.  Ekki hafði ég tínt langa stund þegar ég heyrði skaðræðis óp og sá konuna koma á harðahlaupum út úr innkeyrslunni þar sem hún tók krappa vinstri beygju og hélt svo áfram upp götuna í átt að Engjaveginum.  Ég hélt að konan hefði meitt sig og hljóp því á eftir henni en hún var komin langleiðina út á horn þegar ég loksins náði henni og greip í hendina á henni og spurði lafmóður hvað gengi á.  Sniglar, sniglar, sniglar það voru milljón sniglar æpti kona þegar hún loksins náði andanum.  Já auðvitað er líka sniglar í garðinum sagði ég,  þeir fara líka á stjá í rigningunni.  En það voru milljón sniglar,  nei örugglega tvær milljónir æpti konan og ég þoli ekki snigla.  Nú kveiknaði ljós í húsinu sem næst okkur var og eldri maður sem vaknað hafði við lætin kom út á tröppurnar og snéri sér að konunni og sagði:  Ert þú í einhverjum vandræðum kona góð,  villtu að ég hringi á lögregluna fyrir þig.  Ha nei nei sagði konan þetta er allt í lagi en það væri gott ef þú hringdir á meindýraeyði.   Maðurinn horfði undarlega á mig en tautaði svo “ aumingja konan “  og lokaði dyrunum.   Heyrðu elskan sagði ég sniglarnir bíta ekkert og ég skal skipta við þig um stað,  þú tínir fyrir framan hús,  þar er miklu miklu minna en tvær milljónir af sniglum en ég skal tína á bak við hús.  Konan fékkst loks til að fara með mér til baka og stóð góða stund á stéttinni áður en hún áræddi að gera aðra tilraun.  Ég fór því á bak við hús og byrjaði að tína en eftir augnablik kom annað skaðræðisóp og ég sá konuna bruna aftur út innkeyrsluna nema núna beygði hún til hægri í áttina að Vallholtinu æpandi “ sniglar og köngulær, sniglar og köngulær “  Ég stökk upp í bílinn og ók á eftir konunni en svo mikil var ferðin á henni að hún var komin langleiðina út í Fossnesti þegar ég loksins náði henni.  Konan snaraðist upp í bílinn og skipaði mér að keyra heim eins og skot.  En hvað með að taka þátt í áhugamálum hvors annars sagði ég þú vildir endilega kynnast mínum og ég er þegar búinn að kynnast einu af þínum bætti ég við.  Konan leit á mig undarlegu augnaráði en sagði eftir góða stund:  Ég held að það sé best að þú sjáir um ánamaðkana og ég um þvottinn og ég er ekkert svo viss um að það sé svo góð hugmynd að hafa “ sameiginleg áhugamál “  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jassó............nú er minn maður aldeilis í stuði. Ég veit vel að Selfyssingar hafa eignast trúð.........í viðbót við þann sem fyrir var, og það sem þessir trúðar eru hjón!!!. En afhverju sagðir þú ekki frá því að ég fór með tunnuna til að tína maðkana í.....það hefði verið nær sannleikanum, en ekki að tala um einhverja dollu HUH. Fékk þessa fínu tunnu handa þér.
þar sem ég fór í klippingu og litun í morgun........bíð ég spennt eftir að þú slökkvir ljósið í kvöld - kannski þú farir að klappa kollinum á mér í staðinn fyrir Mola.....ég er nefnilega með sama lit og hann Moli okkar ;-) hehehehhe

eiginkonan..........og allur pakkinn sem búið að skrifa um ;-) (IP-tala skráð) 30.6.2006 kl. 16:59

2 identicon

Smáviðbótarathugasemd. Þið sem þekkið minn mann frá fornu fari vitið að hann hefur einstakan áhuga á öllu hnöttóttu!! Og nú er fótknattaheimsmeistarakeppnin í algleymingi - mér fannst því albest að draga mig í hlé um stund og sótti útsaumsdótið mitt í geymsluna Ég ætla manni mínum ekki að fara að stunda útsaum af kappi.
Hann misskildi líka þetta vein mitt yfir sniglunum......ég varð svo stjórnlaus af gleði, hélt að ég gæti steikt þá upp úr hvítlaukssmjöri - en ormatínarinn hélt nú síður, hann æti ekki slík skriðkvikindi!!!! Sniglar kosta offjár á "fínum" matsölustöðum.
Með bestu kveðjum

eiginkonan með öllu tilbehör (IP-tala skráð) 30.6.2006 kl. 18:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband