RÚSSNESKAN

Jæja, ekkert verið bloggað nokkuð lengi en fyrir því er góð og gild ástæða.  Ástæðan er sú að ég hef sitið á skólabekk og verið að læra tungumál af miklum móð síðustu vikur og þar sem ég taldi það mjög mikilvægt að ná að læra hrafl í RÚSSNESKU á sem skemmstum tíma þá hef ég ekki gefið mér tíma til þess að blogga neitt þessar síðustu vikur.  Og hver skyldi svo vera ástæða þess að maður sest á skólabekk og það á gamalsaldri til að læra rússnesku,  tja það skal ég segja ykkur og svo getið þið sjálf dæmt um það hvort ekki var bráðnauðsynlegt að hefja lærdóminn.  Þannig var að ég sat fyrir nokkrum vikum í stofunni í raðhúsinu okkar í Miðtúninu á Selfossi og var að virða fyrir mér garðinn sem var að verða heldur loðinn og hugsaði með mér hvað það væri nú gott að vera með svona lítinn garð,  lítið að slá og ekki lengi gert að reyta arfann.  Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri eins bjórs garður þ.e. garðurinn væri svo lítill að ekki þyrfti nema einn bjór þegar farið væri í slátt og fleira.  Þar sem að ég sat og virti þessa dýrð fyrir mér sá ég hvar konan kom kjagandi og dró á eftir sér sláttuvélina með annari hendi en í hinni hélt hún á arfaklórunni.  Ég sá að nú var rétti tíminn til að láta sig hverfa og stökk því upp á loft og lagði mig smá stund.  Úti heyrði ég svæfandi suðið í sláttuvélinni og var rétt að festa blund þegar konan hætti skyndilega að slá og ég heyrði hana vera að skrafa við einhvern úti í garði.  Ég kíkti út um gluggann og sá konuna á spjalli við einhverja konu og virtist báðum mikið niðri fyrir.  Ekki heyrði ég orða skil en þegar spjalli þeirra lauk tók konan ekki til við sláttinn aftur heldur tók strikið inn um garðdyrnar og kallaði í mig og skipaði mér að koma strax niður í stofu.  Ég þarf að ræða við þig alvarlegt mál sagði hún og benti mér að setjast.  Já þetta er grafalvarlegt mál sagði ég,  garðurinn er ekki nema hálfsleginn bætti ég við um leið og ég settist í stofusófann.  Skítt með þessa garðholu sagði konan við eigum hann hvort sem er ekki lengur.  Ha hvað áttu við sagði ég,  eigum við garðinn ekki lengur,  hvernig getur það verið garðurinn  tilheyrir húsinu ekki satt.  Jú mikið rétt sagði konan en við eigum húsið heldur ekki lengur.  Bíddu, hægan hægan þegar ég fór upp á loft áðan vissi ég ekki betur en við ættum þetta hús en hálftíma seinna eigum við skyndilega ekkert hús,  hvernig má það vera sagði ég og var eitt spurningamerki í framan.  Jú sjáðu til konan sem ég var að tala við er konan sem á stóra húsið sem ég var að skoða á netinu um daginn þú veist húsið með herbergjunum fyrir alla krakkana og  passlega íbúð fyrir mömmu og pabba í kjallaranum,  hún var að bjóða okkur húsaskipti,  við borgum bara eitthvað smá í milli og ég ákvað að taka því og það verður skrifað undir eftir helgi sagði konan og brosti út að eyrum.  Kjallarinn er að vísu í útleigu núna það eru þrír RÚSSAR sem búa þar núna en ég verð fljót að henda þeim út sagði konan,  það eina sem við þurfum að gera er að mæta hjá fasteignasalanum og skrifa undir og húsið er okkar bætti hún við.   Og það var þá sem það gerðist.   Tengdó!! Kjallarinn!!  stundi ég upp en síðan fékk ég skyndilegan svima og síðan tak fyrir brjóstið og loks snert af taugalömun,  eða ég held að það hljóti að hafa verið taugalömun.  Það næsta sem ég vissi var að konan var búinn að hringja í dýralæknirinn og láta sprauta mig niður og áður en ég vissi almennilega af mér aftur var ég búinn að skrifa undir kaupsamninga og kaupa stóra húsið og í ljós kom þegar bráði af mér og ég fór að skoða aðstæður að húsinu fylgdi að minnsta kosti sex bjóra garður.  Ekki var fyrr búið að skrifa undir en konan fór að reka RÚSSANA úr kjallaranum en kom blaðskellandi til baka og sagði að bara einn rússi hefði verið heima og hann skildi ekkert hvað ég var að segja,  þú verður að fara og tala við þá sagði hún ákveðin.  Tengdó, kjallarinn,  rússarnir.   Tengdó,  kjallarinn,  rússarnir  var það eina sem ég gat hugsað en fékk svo skyndilega hugljómun.  Ef ég yrði nógu snöggur að læra Rússnesku gæti ég kannski alveg óvart gert eins og þriggja ára leigusamning við rússana en svo aftur myndi þíða að næstu þrjú árin NO TENGDÓ.  Ég hef svo setið á skólabekk síðustu vikurnar og lært rússnesku af miklum móð og nú er ykkar að dæma hvort ekki var nauðsynlegt að setjast aftur á skólabekk þótt á gamalsaldri sé.  Nú ætla ég að biðja alla sem lesa þetta að segja sitt álit á málinu því mér mun ekki veita af stuðningi þegar konan sér samninginn við rússana.  Set svo nokkarar myndir af nýja slotinu hennar Sólveigar í albúm hér til hliðar.

 

PS:  Þegar ég fór svo að gera samninginn við rússana kom í ljós að þarna bjuggu jú þrír rússar, par sem talar ágæta ensku og hann hrafl í íslensku og svo annar til sem talar bara rússnesku en til vonar og vara höfðum við samninginn á rússnesku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku hjartans skólastrákurinn minn,
Kallar þú þessar bækur námsbækur? Ég fann nefnilega bóka- og blaðastaflann undir rúminu þegar við vorum að pakka í nr. 11...........þetta verður seint flokkað sem námsefni fyrir fullorðna karlmenn!!!
Þú skalt ekki heldur halda að þú fáir einhverja meðaumkun með þessu skrifi þínu - yfirlýsingin um að þú sért húsbóndi á þínu heimili og komir undan rúminu þegar þér sýnist hefur aldeilis haldið ennþá, ég skil allavega núna hvers vegna staflinn var þar og hvers vegna þú viljir koma undan því þegar þér sýnist!!!!
En rússarnir í kjallaranum...........eru ekki rússar, þeir eru sko LETTAR (málið þeirra hljómar að vísu svipað - ég þekki muninn og get sko alveg talað við þá)´

Eiginkonan og umræðuefnið í Snorrabloggi (IP-tala skráð) 29.8.2006 kl. 16:23

2 identicon

Humm,til hvers varst þú að læra þessa rússnesku??ég bara spyr,,,húsbóndi á þínu heimili hahaha jámm jæja ok:)

Gulla (IP-tala skráð) 29.8.2006 kl. 19:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband