ÖMURLEGASTA SÆLUVIKA SEM ÉG HEF ÁTT

Í janúarbyrjun kom konan til mín grafalvarleg og bað mig að finna sig inni í stofu. Ég þarf að ræða við þig grafalvarlegt mál sagði hún og svipurinn benti til að það hefði einhver dáið eða eitthvað þaðan af verra.

Ég held að það sé betra að þú setjist niður áður en ég segi þér þetta sagði hún en áður en hún gat sagt mér hvað væri um að vera var hún trufluð af öðrum ólátabelgnum sem hafði fundið upp á nýjum leik í eldhúsinu.  Pilturinn hafði prílað upp á eldhúsborðið og þaðan upp á opin skilrúmsvegg sem liggur þvert yfir eldhúsið og þar hékk hann og dinglaði löppunum eins og api í tré.

Guð minn almáttugur hrópaði konan, hvað ertu að gera ormurinn þinn, þú getur dottið niður og stórslasað þig.  Ég er sko Tarsan í trjánum gólaði pjakkurinn og dinglaði löppunum af enn meiri ákefð en áður.

Jæja sagði konan, þegar Tarsan dettur niður úr trénu og brýtur á sér báðar lappirnar þá þýðir sko ekki að koma HLAUPANDI til mín. Síðan kippti hún pjakknum niður af veggnum og benti mér svo aftur á að fá mér sæti í stofnunni.

Já eins og ég var byrjuð á að segja áðan þarf ég að ræða mjög alvarlegt mál við þig sagði hún og setti aftur upp jarðarfararsvipinn.  Þannig er nefnilega mál með vexti að fyrirtækið ætlar að senda mig vestur á Bolungarvík til að halda þar heimabankanámskeið núna um miðjan mánuðinn.

Og hvað með það sagði ég  það er nú ekki eins og þetta sé í fyrsta skipti sem þeir senda þig út á land, ég veit ekki betur en þú sért nýkomin frá Reyðarfirði og Norðfirði.

Já ég veit en núna eru það svo mörg fyritæki sem ég á að fara í að ég verð í burtu í heila viku sagði konan og ég var að velta fyrir mér hvort það sé í lagi að skilja þig einan eftir svona lengi og meira að segja leigendurnir í kjallarnum eru úti í Póllandi svo þú verður alveg aleinn heima.  Að vísu koma þau heim á meðan ég verð í burtu og það gæti orðið vandamál ef þau vantar eitthvað því þú ert nú ekki svo sleipur í pólskunni. 

Blessuð vertu ekki að hafa áhyggjur af mér, það gekk nú ágætlega að tala við Rússana hérna um árið, maður sagði bara rússkí brúskí og whiskí og svo framanlega sem það endaði á skí þá skildu þeir mig alltaf sagði ég hinn rólagasti og svo á ég að mæta hjá lækninum á mánudaginn og get keyrt þig á flugvöllinn í leiðinni. 

Það varð að leggja af stað tímanlega á mánudeginum til að ná flugvélinni því það hafði kyngt niður heilum ósköpum af snjó og satt best að segja var bara allt á kafi, snjór uppá miðja glugga og maður þurfti að vaða snjó upp í klof til að komast út á götu svo nú var gott að vera á góðum jeppa.  Óvíst var með flug til Ísafjarðar en þar sem ég þurfti líka til læknis í henni Babílon þá var brotist af stað og á flugvöllinn komumst við og fengum þar að vita að flogið yrði til Ísafjarðar og fært væri þaðan á Bolungarvík.  Ég kvaddi því kerlu á flugvellinum og hoppaði aftur uppí jeppann sem hundurinn hafði passað á meðan ég rogaðist með farangurinn inn í flugstöðina.

Jæja Moli minn sagði ég við hundinn, nú förum við til læknisins og svo heim aftur og veistu hvað það fyrsta sem við gerum er þegar við komum heim.  Hundurinn hafði greinilega ekki hugmynd um hvað það var svo ég hélt áfram.

Sjáðu sko til það fyrsta sem maður gerir þegar það er sæluvika er að gera birgðatalningu í barnum sko.  Ekki til að vita hvort það sé nóg til, ó nei ó nei, það er sko ekkert áfengisvandamál hjá okkur, alltaf nóg til en það er samt nauðsynlegt að gera birgðatalningu til þess að geta keypt nákvæmlega jafn mikið í hann daginn áður en kerlinginn kemur heim því þú getur verið alveg handviss um að hún hefur gert birgðatalningu og það örugglega í þríriti áður en hún fór. 

Hundurinn virtist alveg sammála þar sem hann horfði á mig afar gáfulega meðan við brunuðum til læknisins.  Hjá doktornum fékk ég að vita að ég þyrfti að byrja í nýrri lyfjameðferð a.m.k. næstu 4 -5 mánuði og þar sem ég hafði prufað þetta áður þá vissi ég að byrjunin á henni var ekkert sérstaklega skemmtileg eða var það allavega ekki síðast og var því ekkert sérstaklega ánægður en við því var ekkert að gera. 

Við Moli brunuðum svo aftur austur fyrir fjall og heim í kotið og ekki hafði snjórinn minnkað neitt frá því að við fórum svo við reyndum ekki einusinni við gangstíginn heldur stungum okkur inn um bílskúrinn og þaðan var leiðin greið. 

Við byrjuðum á því að gera nákvæma birgðatalningu í barnum og síðan kíktum við á hvort ekki væri góður leikur í sjónvarpinu einhverntíma í vikunni.  Í ljós kom að daginn eftir var stórleikur í sjónvarpinu og eftir nokkra íhugun var ákveðið að leyfa lyfjunum að gerjast í vömbinni þennan fyrsta dag sæluvikunnar en á morgun þá verður sko bjór og whisky og fótbolti sagði ég ákveðinn við hundinn sem mótmælti ekkert svo það var þá ákveðið. 

Daginn eftir vaknaði ég svo klukkan níu við háværa símhringingu og staulaðist fram og galaði halló í símtólið.

Já þetta er hjá Jóni lækni sagði smámælt símadama hann þarf að eiga við þig orð, viltu bíða aðeins.

Já sæll Snorri minn sagði doktorinn þegar hann kom í símann eftir skamma stund.  Ég fór allt í einu að hugsa þegar þú varst farinn frá mér í gær að ég gleymdi að segja þér að lyfin eru svo sterk að lifrin í þér hefur fullt í fangi með að skilja efnin úr þeim og þú verður því að fara vel með þig og passa sérstaklega að drekka ekkert áfengi á meðan á meðferðinni stendur. 

Abbabb a babb, veistu hvaða vika er núna, ertu alveg viss um að það sé ekki í lagi að fá sér eitt smá staup stundi ég upp.

Hvað er staupið stórt spurði doktorinn alvarlegur í bragði.

Bara svona hálfur lítri sagði ég með vonarróm og kannski kippa af bjór með.

Nei nú verðu þú að hugsa um heilsuna og lætur allt áfengi eiga sig á næstunni og kemur svo í blóðprufu eftir viku sagði doktorinn og kvaddi síðan.

Ég vissi að við hefuðum ekki átt að svara sagði ég við hundinn og reyndar mátti ekki á milli sjá hvor var raunamæddari eftir þetta símtal ég eða hundurinn. Að vísu ekki af sömu ástæðu, ég út af símtalinu en hundurinn af því að ég var ekki búinn að hleypa honum út að pissa.  Annar tók þó kæti sína fljótlega en hinn ekki enda hafði bætt ennþá meira á snjóinn um nóttina og eiginlega ekkert að gera nema hanga inni við.

Það var því ekki nema hálf skemmtun að horfa á leikinn í sjónvarpinu um kvöldið og birgðatalningin algörlega unnin fyrir gíg.  Við Moli fórum því ekkert seint að sofa þetta kvöldið enda eins gott því klukkan hálf fjögur um nóttina var dyrabjöllunni hringt eins og heimsendir væri í nánd.  Ég þorði því ekki annað en að stökkva óklæddur til dyra enda hélt ég að eitthvað alvarlegt hefði skeð.

Þegar ég svo opnaði dyrnar stóð þar snjóugur upp fyrir haus pólski leigjandinn í kjallarnum sem var að koma úr jólafríi frá Póllandi.

Mikið mikið snjóskí kallaði manngreyið, stórt snjóskí við ekki komast innskí.

Ég kíkti út og sá að kjallaratröppurnar og inngangurinn voru á kafi í snjó. Ó sagði ég og skaust inn í bílskúrinn og náði í snjóskófluna.

Hérna sagði ég svo úrillur, skófluskí, mokskí og skellti aftur hurðinni og skreið aftur undir sængina.

Næsta klukkutímann var ekki svefnfriður fyrir látum og skarki meðan mokað og mokað var frá dyrunum í kjallaranum.  Loks heyrði ég þó að dyrunum var skellt og því greinilegt að liðið hafði komist inn að lokum.  Mér fannst ég ekki hafa sofið nema augnablik þegar síminn hringdi og jú jú klukkan var ekki nema hálf átta.  Þegar ég svaraði heyrði ég glaðlega röddina í frúnni á hinum enda línunnar. 

Sæll elskan ég ætlaði nú bara að vita hvernig þið hefuð það.

Fínt tautaði ég grútsyfjaður

Já og ég ætlaði líka að láta þig vita að ég kem heim degi fyrir en áætlað var bara svo þú vitir hvenær þú eigir að sækja mig á flugvöllinn.

Fínt tautaði ég aftur

Já sagði frúin er ykkur ekki farið að hlakka til að fá mig heima aftur sæta og fína

Jú tautaði ég og bætti svo við:

 

 Fegurð þín er fádæmi,
enga finn ég slíka,
en þú ert ekkert einsdæmi,
því ég er svona líka...

 

Síðan skellti ég á og breiddi sængina upp fyrir haus og reyndi að sofna aftur.  Eftir svo sem hálftíma var svo dyrabjöllunni hringt aftur og þegar ég staulaðist til dyra þá var þar pólverjinn aftur skælbrosandi og rétti fram snjóskófluna.

Skila skófluskí, takkskí sagði hann og kvaddi.

Við Moli vorum því hálf geispandi og gapandi allan daginn enda ekki búnir að sofa nema hálfa nóttina og vorum ákveðnir í að bæta okkur það upp og sofa út daginn eftir.

Við vorum jú ekkert vaktir nóttina á eftir en það stóð ekki á því að klukkan rúmlega sex um morguninn var dyrabjöllunni hringt ákaflega .

Þegar ég opnaði stóð þar pólverjinn eina ferðina enn.

Meira snjóskí sagði hann og benti upp í loftið, fá aftur lánað skófluskí.

Hjálpi mér nú allar vættir í drottins nafni og sjötíu tautaði ég meðan ég fór í skúrinn að sækja skófluna.

Þér hlítur að verða rosalega kalt á puttskí að hringja svona mikið dyrabjöllskí sagði ég þú mátt bara eiga skófluskí sagði ég og skellti aftur dyrunum. 

Búnir á sál og líkama fórum við svo seinnipartinn á flugvöllinn að sækja frúnna og þegar ég sá þessa elsku koma trítlandi inn í flugstöðina faðmaði ég hana að mér og stundi

Þú mátt aldei vera svona lengi í burtu aftur því þetta var sú “ ÖMURLEGASTA SÆLUVIKA SEM ÉG HEF ÁTT ”


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sko Snorri Þór - ég hef bara ekki haft brjóst í mér að yfirgefa ykkur aftur.....og þar að auki yrði ég að borga svo skelfilega mikla yfirvigt ef ég ætti að druslast með barbirgðirnar með mér - þú hefur bara ekki gott af þeim ..........ekki aftur í því magni sem á vantaði.

eiginkonan ógurlega (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 15:30

2 identicon

Eitt verður nauðsynlega að koma fram - þú og hundurinn eruð bara copy paste af hvorum öðrum.......að einu atriði frátöldu (eða hér um bil) það er að þegar hundurinn þarf að pissa.........þá er hálsólin sett á hann og opnaðar dyrnar og hálsbandið fest við hurðarhúninn...........hingað til hefur þú nú pissað algerlega fráls og óheftur.  Þetta er líka eina atriðið sem skilur ykkur að.  Báðir elska kjöt og kjötsúpu og beinin eru sameign ykkar.  Ef annar ykkar fer út - þá fylgir hinn fast á hæla hvors annars.  Báðir fara út í kvöldgöngu.  Báðir sofa sömu megin við mig í svefnherberginu.  Báðir sitja á móti mér við eldhúsborðið - annar reyndar á gólfinu (segi ekki hvor), og svona get ég talið endalaust.  Báðir vita nákvæmlega hvað orðið KERLINGIN þýðir.

kerlingin (IP-tala skráð) 5.3.2008 kl. 19:58

3 Smámynd: Guðný Einarsdóttir

Á bara ekki að skella sér á Pólsku-námskeið?? Það er kallað sæluvika þegar frúin fer að heiman,en hvað er það kallað þegar karlin fer að heiman???

Guðný Einarsdóttir, 5.3.2008 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband