HROTUBRJÓTURINN

Miðvikudaginn 12 apríl 2006 stóðu herra og frú Snorrason, nýgift og með þinglýsta erfðaskrá, ferðbúin á Keflavíkurflugvelli á leið til Kanaríeyja. Farkosturinn var spegilgljáandi Boing vél frá Icelandair en þar sem þetta var leiguflug hafði verið troðið í hana nokkrum sætum til viðbótar til að koma nú fleirum í sólina. Þar sem þetta var nú brúðkaupsferðin okkar vorum við sett í tvö af þessum viðbótarsætum sem sett höfðu verið fyrir framan hurðina á neyðarútganginum þar sem gengið var inn í vélina. Vélin rann af stað og maður dáðist af kraftinum í græjunni þar sem maður þrýstist aftur í sætinu og þegar vélin var rétt að byrja að lyfta sér skellti flugstjórinn henni niður aftur með tilheyrandi skelli og nauðhemlaði svo söng og vældi í öllu draslinu. Það var dauðaþögn í vélinni og hefði mátt heyra saumnál detta þangað til konan sagði upp úr eins manns hljóði

ÚPPS þar munaði nú litlu að það reyndi á erfðaskránna. Eftir góða stund tilkynnti flugstjórinn að hætta hefði þurft við flugtakið vegna þess að ljós sýndi að það væri opin hurð á vélinni. Þið megið geta upp á hvaða hurð var opin en eftir að hafa þurft að bíða á annan klukkutíma í vélinni meðan bremsurnar kólnuðu tilkynnti flugstjórinn að aftur yrði reynt. Nú ég harðbannaði konunni að fikta meira í hurðinni og gekk þá allt að óskum og við komumst loks í loftið og fimm tímum seinna heilsuðu Kanaríeyjar okkum með rigningu. Þar sem farið var að halla í miðnætti á eyjunni fórum við beint á hótelið okkar og sváfum úr okkur ferðaþreytuna og þegar við vöknuðum daginn eftir var komin sól og 26° hiti svo stefnan var tekin á ströndina. Ströndin var kjaftfull af fólki enda komið páskafrí hjá eyjaskeggjum og þeim virtist öllum hafa dottið það sama í hug þ.e. að fara á ströndina. Við gengum því eftir allri ströndinni í leit að eilítið friðsælli stað til að leggjast á til að fá nú einhvern lit á kroppinn enda var maður ennþá náfölur eftir athöfnina í vikunni á undan. Loks fundum við stað þar sem mun minna virtist um fólk og tókum því strauið þangað. En ástæðan kom fljótlega í ljós, risastórt skilti sem á stóð hingað og ekki lengra nema allsnakin gott fólk. Þetta var sem sagt nektarnýlendu partur strandarinnar og konan snarstoppaði og sagðist ekki fara einu feti lengra. Ég hafði hinns vegar komið auga á áhugavert skoðunarefni ekki langt frá og lagði því ríka áherslu á að við myndum nú reyna allt sem eyjan hefði upp á að bjóða. En konunni varð ekki þokað en hún sagði að ef ég vildi skoða þetta gæti ég labbað einn rúnt, hún myndi bíða og fá sér einn öl á meðan. Nú okkar maður svippaði sér úr og lagði af stað í skoðunarferð hálf hvítur að sjá innan um allt brúna fólkið sem þarna lá og þar sem sífellt fleiri áhugaverð skoðunarefni birtust varð rúnturinn heldur lengri en til stóð. Þegar ég kom svo til baka sagði konan snúðugt að þetta hefði verið eins og að sjá Ísbjörn kjaga um Hottintotta nýlendu enda búin að fá sér þrjá öl meðan hún beið. Konan tók þó gleði sína fljótlega aftur enda var næst farið í búðir og lék hún því á alls oddi þegar heim á hótel var komið. Ég var hins vegar farinn að iðrast göngunar á ströndinni þar sem sólbruni gerði vart við sig og það á versta stað!!

Meðan konan fór í sturtu laumaðist ég því til að hringja í neyðarnúmer sem fararstjórinn hafði látið okkur hafa í rútunni frá flugvellinum og spurði hvað væri áhrifaríkast við SVONA sólbruna. Eftir að hafa þulið upp nokkur smyrsl og fleiri ráð klykkti hann svo út með því að segja að þó væri allra best að kæla svona niður með hreinni jógúrt. Ég stökk því af stað og rétt náði fyrir lokun í nýlenduvöruverslun þarna rétt hjá og keypti eina dós af hreinni jógúrt sem ég fór með á hótelið og lagði frá mér á borðið meðan ég skrapp í kalda sturtu. Þegar ég kom fram aftur sat konan á rúmminu og sleikti út um og sagði. Æðislegt hjá þér elskan að kaupa jógurt og henti galtómri dósinni í ruslið. Nú voru góð ráð dýr, búið að loka búðunum og skoðunarferð um eyjuna kl. 8 morgunin eftir. Ég huggaði mig þó við það að ég hlyti að finna jógúrt í einhverju að litlu þorpunum sem átti að heimsækja í ferðinni. Daginn eftir var ekið af stað til fjalla og gerður stuttur stans hér og þar eins og venja er í svona ferðum en heldur hýrnaði þó yfir mér þegar fararstjórinn tilkynnti að næsta stopp yrði í bæ þar sem skoðuð yrði rommverksmiðja og kornvinnslustöð. Ég dvaldi góða stund í rommverksmiðjunni og þó sérstaklega lengi við tunnu með hunangsrommi sem var afar gott. Þegar ég svo slangraði yfir í kornvinnslustöðina var fararstjórinn að halda einhverja tölu um eitthvað mjölduft sem þar var í skál og þegar ég fór að skoða skálina stakk hún upp í mig fullri matskeið af duftinu og sagði mér að þetta væri VIAGRA duft þeirra þorpsbúa. Ekki veit ég hvort það var duftið eða rommið en ef maður hefði bara getað fundið eina helvítis dós af jógúrti þá hefði verið hægt að koma ýmsu í verk þann daginn. Áfram var ekið og upp að hæsta tindi eyjarinnar og síðasti áfangastaður átti svo að vera hellir einn mikill og sagði farstjórinn að í hellinum væri hægt að kaupa ýmsan varning og sérstaklega væri vinsælt olíusmyrsli sem gengi undir nafninu HROTUBRJÓTURINN. Þetta vakti sérstakan áhuga minn því aðeins átti að opna dósina í því herbergi sem sofið væri í og hroturnar áttu að hverfa eins og dögg fyrir sólu. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar með að kaupa krukku af þessu undrasmyrsli því konan á það nefnilega til að minna ískyggilega mikið á vélsög þegar hún sefur. Einn galli var þó á gjöf njarðar, það voru 300 tröppur niður í hellinn svo ekki var hlaupið að því að nálgast undrasmyrslið. Ég ákvað þó að fórna mér í verkefnið enda með svolítið nesti frá rommverksmiðjunni góðu í vasanum og þóttist því fær í flestan sjó. Ferðin niður var ekki svo slæm og hellirinn mikið undur, mörg herbergi sem breytt hafði verið í safn og eftir að hafa skoðað mig um góða stund kom ég svo af afgreiðsluborði við útgöngudyrnar. Og viti menn þar var HROTUBRJÓTURINN í stæðum og ég flýtti mér að grípa tvær dósir sem ég rétti stútungskerlingu sem var þar við afgreiðslu og fékk mér síðan hressingu frá rommverksmiðjunni meðan ég beið. Ekki hafði ég fyrr sopið á en kerlingarherfan sagði “smakka” og stakk upp í mig fullri skeið af sama mjölduftinu og ég hafði fengið í þorpinu góða. Ferðin upp tröppurnar 300 var því mun erfiðari en niðurleiðin hvort sem um var að kenna duftinu eða romminu og ég hugsaði með mér að það væri eins gott að undrasmyrslið virkaði. Þetta var lokaáfanginn í þessari skoðunarferð enda langt liðið á dag og eftir góðan kvöldverð á hótelinu og örlítið meiri hressingu frá rommverksmiðjunni gengum við til náða. Þegar konan var komin í rúmmið opnaði ég svo  aðra krukkuna góðu með HROTUBRJÓTNUM og í ljós kom olíukennt hlaup með afar sterkri og góðri piparminntulykt. Leyfðu mér að sjá þetta sagði konan þar sem hún lá í rúmminu og fylgdist með mér. Ég ætlaði að rétta konunni krukkuna en rak í leiðinni tánna í ferðatösku sem lá á gólfinu og missti krukkuna og innihaldið gusaðist allt yfir konuna. Konan angaði eins og stór piparminntumoli í tvo daga á eftir og hún talaði heldur ekki við mig þessa tvo daga sem aftur gaf mér færi á að ná mér af sólbrunanum. Ekki hef ég hugmynd um hvaða efni þetta var í krukkunni en hitt get ég sagt ykkur að það hefur ekki múkkað í kerlingunni eftir gusuna svo að hann svínvirkar HROTUBRJÓTURINN


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Jæja góði minn..............hvers vegna sagðir þú ekki frá stóra pokanum sem þú keyptir í mjölverksmiðjunni HA!!! Ég skil ekki hvers vegna tollurinn stoppaði þig ekki með allar töskurnar (ein þeirra innihélt pokann með hvíta mjölinu í). Tja, þá hefði ég ekki þurft að hafa þennan piparmyntuþef allar nætur.

eiginkonan og húsmóðirin (IP-tala skráð) 3.5.2006 kl. 14:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband