Bloggfærslur mánaðarins, júní 2006
30.6.2006 | 15:45
Sameiginleg áhugamál
Mér finnst komin tími til að við förum að finna okkur eitthvað sameiginlegt áhugamál sagði konan við mig einn daginn þar sem ég sat við eldhúsborðið og las Moggann. Aha svaraði ég og hélt áfram að lesa blaðið. Já það er komin tími til að ég fái að kynnast þínum áhugamálum og þú mínum sagði konan ákveðin og ég sá að það var ekkert undanfæri svo ég lokaði blaðinu og snéri mér að henni. Og hvað er það elskan mín sem þú villt að við gerum saman sagði ég og þér er velkomið að taka þátt í mínum áhugamálum, það er t.d. leikur í sjónvarpinu í kvöld sem þú getur horft á með mér og svo á ég veiðidag fljótlega líka, og hvað af þínum áhugamálum villtu að ég taki þátt í, ég hef mjög takmarkaðan áhuga á útsaumi og þessháttar. Mín áhugamál liggja miklu víðar sagði konan spekingslega og það væri ágætt að byrja bara rólega og taka eitt skerf í einu og ég held að ég prufi að koma með þér í veiði fyrst og þú getur þá prufað eitt af mínum áhugamálum t.d. skúringarnar eða uppvaskið eða þvottavélina. Mér er nú voðalega illa við að taka öll bestu áhugamálin frá þér stamaði ég skelfingu lostinn og horfði á konuna sem stóð glottandi við eldhúsvaskinn. Eins og ég sagði bara taka eitt skref í einu og við getum bara byrjað smátt ég er að fara að setja í þvottavél og það er tilvalið hjá þér að læra á hana í leiðinni sagði konan og stormaði inn í vaskahús. Ég sá að orustan var að tapast svo ég dróst á eftir henni inn í vaskahús meðan ég hugsaði um hvernig ég ætti að snúa mig út úr þessu. Þú veist að þegar maður fer í veiði þá verður maður að láta sig hafa það að skríða í görðum að næturlagi í grenjandi rigningu og tína orma og síðan þarf að þræða þá upp á öngulinn sagði ég vongóður og beið eftir viðbrögðum frá konunni. Ég er ekkert hrædd við einhverja ánamaðkatitti sagði konan ég hef nú glímt við stærri snáka en það og mér verður ekki skotaskuld úr því að þræða þá upp á öngulinn bætti hún við meðan hún hrærði í körfunni með óhreina tauinu. Síðan tók við fyrirlestur um öll helstu þvottakerfi vélarinnar og ströng fyrirmæli hvað mætti þvo með hverju, hvað mætti sjóða og þessháttar. Jæja byrjaðu þá sagði hún svo og benti á körfuna með óhreina tauinu. Hvað er þetta sagði ég, ætlarðu að þvo lampaskerminn og togaði í eitthvað sem stóð út úr körfunni. Viltu gjöra svo vel að láta brjóstahaldið mitt í friði hrópaði konan og sló á puttana á mér, nú á að þvo mislitt tau eins og ég kenndi þér áðan. Eftir að hafa sett í þvottavél undir ströngu eftirliti settist ég svo niður í stofu og horfði út í rigninguna sem lamdi gluggann og velti því fyrir mér hvort þetta væri ekki fínasta ánamaðka veður og kallaði svo í konuna og sagði: Fáðu leyfi hjá systur þinni til að fara í garðinn hjá henni til að tína ánamaðka í nótt, við skulum fara og sækja nokkra fyrir veiðitúrinn. Konan hringdi umsvifalaust til að fá leyfið og fór svo að tína til regnfatnað og stígvél fyrir nóttina. Það var svo um hálf eitt leitið um nóttina sem við ókum í hlað við umræddan garð og ég varð að viðurkenna að konan var ansi vígaleg í pollagallanum með stærðar sjóhatt og vopnuð vasaljósi. Svo er bara best að skríða á hnjánum ofur varlega meðan maður tínir sagði ég og greip stærðar ánamaðk í blómabeðinu og rétti konunni sem kipptist við þegar hann spriklaði í hendinni á henni. Við skulum bara skipta með okkur garðinum, þú ferð bak við húsið og ég verð að framanverðu sagði ég, þá verðum við skotfljót að tína eins og 200 stykki. Konan greip dolluna undir maðkinn og hvarf á bak við hús og ég hófst handa við að tína í beðinu fyrir framan húsið. Ekki hafði ég tínt langa stund þegar ég heyrði skaðræðis óp og sá konuna koma á harðahlaupum út úr innkeyrslunni þar sem hún tók krappa vinstri beygju og hélt svo áfram upp götuna í átt að Engjaveginum. Ég hélt að konan hefði meitt sig og hljóp því á eftir henni en hún var komin langleiðina út á horn þegar ég loksins náði henni og greip í hendina á henni og spurði lafmóður hvað gengi á. Sniglar, sniglar, sniglar það voru milljón sniglar æpti kona þegar hún loksins náði andanum. Já auðvitað er líka sniglar í garðinum sagði ég, þeir fara líka á stjá í rigningunni. En það voru milljón sniglar, nei örugglega tvær milljónir æpti konan og ég þoli ekki snigla. Nú kveiknaði ljós í húsinu sem næst okkur var og eldri maður sem vaknað hafði við lætin kom út á tröppurnar og snéri sér að konunni og sagði: Ert þú í einhverjum vandræðum kona góð, villtu að ég hringi á lögregluna fyrir þig. Ha nei nei sagði konan þetta er allt í lagi en það væri gott ef þú hringdir á meindýraeyði. Maðurinn horfði undarlega á mig en tautaði svo aumingja konan og lokaði dyrunum. Heyrðu elskan sagði ég sniglarnir bíta ekkert og ég skal skipta við þig um stað, þú tínir fyrir framan hús, þar er miklu miklu minna en tvær milljónir af sniglum en ég skal tína á bak við hús. Konan fékkst loks til að fara með mér til baka og stóð góða stund á stéttinni áður en hún áræddi að gera aðra tilraun. Ég fór því á bak við hús og byrjaði að tína en eftir augnablik kom annað skaðræðisóp og ég sá konuna bruna aftur út innkeyrsluna nema núna beygði hún til hægri í áttina að Vallholtinu æpandi sniglar og köngulær, sniglar og köngulær Ég stökk upp í bílinn og ók á eftir konunni en svo mikil var ferðin á henni að hún var komin langleiðina út í Fossnesti þegar ég loksins náði henni. Konan snaraðist upp í bílinn og skipaði mér að keyra heim eins og skot. En hvað með að taka þátt í áhugamálum hvors annars sagði ég þú vildir endilega kynnast mínum og ég er þegar búinn að kynnast einu af þínum bætti ég við. Konan leit á mig undarlegu augnaráði en sagði eftir góða stund: Ég held að það sé best að þú sjáir um ánamaðkana og ég um þvottinn og ég er ekkert svo viss um að það sé svo góð hugmynd að hafa sameiginleg áhugamál
21.6.2006 | 13:38
Hringdu kona, hringdu
Ég vaknaði einn morguninn í svitabaði eftir hræðilega martröð. Mig dreymdi að ég væri á gangi með stærðar barnavagn og í vagninum lá stúlkubarn klædd í bleikan galla. Í draumnum arkaði ég svo með vagninn heim á leið og þar tóku við bleyjuskipti og allskonar tilfæringar við að hita mjólk á pela. Ekki gat ég betur skilið í draumnum en ég ætti þetta barn og því ekki að furða þó ég hafi vaknað með andfælum og í svitabaði. Þið getið því gert ykkur í hugalund hvað mér létti þegar ég uppgvötvaði að þetta var bara draumur og það var bara hún Sólveig mín sem lá við hliðina á mér og var hvorki klædd í bleikt né með bleyju. Er ekki allt í lagi elskan mín sagði konan og snéri sér að mér, þú varst svo órólegur í nótt, þú reistir þig tvisvar upp og byltir þér á alla kannta. Það er ekki furða sagði ég, mig dreymdi að ég ætti ungabarn og var að trilla því í barnavagni í alla nótt og síðan tóku við bleyjuskipti og pelavesen. Þegar ég sá svipinn á konunni gerði ég mér ljóst að þegar maður er nývaknaður er best að steinþegja og segja hreint ekki neitt nema góðan dag svona fyrsta hálftímann. Hefurðu verið að gera eitthvað af þér sagði konan, hvaða lausaleikskróa vesen er á þér á nóttinni áttu kannski eitthvað sem ég veit ekki um. Auðvitað ekki sagði ég þetta var bara draumur og auðvitað varð ég skelfingu lostinn þegar ég átti skyndilega orðið ungabarn. Það er alltaf sama sagan með ykkur karlmennina sagði konan, ef þið eigið ekki lausaleikskróa þá dreymir ykkur um þá á nóttinni. Og með hvaða herfu áttirðu þennan grisling bætti hún við. Ég bara veit það ekki sagði ég það var ekki komið að því í draumnum og ef þér líður eitthvað betur þá var ég svikinn um getnaðinn líka. Gott á þig sagði konan ég vil geta sofið í mínu rúmmi á nóttinni án þess að það sé verið að halda framhjá mér við hliðina á mér. Kannski hefur þetta ekki verið mitt barn, kannski hefur þú verið orðin amma og ég bara verið að passa tautaði ég og fór að tína á mig spjarirnar. Það setti óstöðvandi hlátur að konunni og það var ekki fyrr en eftir góða stund sem hún sagði, það sjá nú allir sem einhverja glóru hafa í kollinum að það er gjörsamlega útilokað að ég sé orðin amma jafn ungleg og ég er enda er ég varla komin af barnsaldrinum sjálf. Já auðvitað sagði ég þetta var vanhugsað hjá mér, krakkarnir eru ekki nema 25, 22 og 18 ára og svo eitt örverpi komið að fermingu svo það er náttúrulega algjörlega útilokað að þú verðir amma í bráð. Og eitt skal ég láta þig vita að það verður sko ekkert pössustand á þessum bæ þegar ég verð orðin amma eftir mörg, mörg, mörg ár sagði konan, þegar þetta lið fer að eiga börn getur það bara passað sína grislinga sjálft ég má ekkert vera að standa í svoleiðis enda komið að því að við förum að slappa af og leika okkur. Get ég treyst því að þú standir við þessi orð þegar þar að kemur sagði ég hinn ánægðasti því draumurinn var svo raunverulegur að ég var að spá í hvort þetta geti verið fyrirboði um að það verði nú slys hjá einhverjum grislingunum og þú verðir amma á barnsaldri. Konan steinþagnaði og horfði á mig með skelfingarsvip en sagði svo: Það væri náttúrulega eftir þessum grislingum okkar að passa sig ekki og gera mig að ömmu löngu fyrir tímann, nei nú verður að taka í taumana og gera þeim það morgunljóst að það er dauðans alvara að fara að fjölga mannkyninu og svo er ég viss um að þau hafa ekki hugmynd um það hvað leikskólapláss kostar nú til dags. Síðan stormaði hún fram á stigapall og brunaði eins og eimreið niður stigann og greip símann. Ég skal sko kenna þessum grislingum tautaði hún meðan hún var að velja númer. Ég hljóp á eftir henni niður stigann og greip í hendina á henni og sagði: Heyrðu nú kona góð þú ferð nú ekki að hringja í krakkana klukkan átta að morgni til að brýna það fyrir þeim að passa sig og nota verjur er það nú ekki full langt gengið. Hvernig var það sagði konan varst þú ekki að ýta barnavagni í alla nótt í draumi og skipta á bleyjum og hita pela, var svona gaman hjá þér eða ertu strax búinn að gleyma því. Ég hugsaði mig um smástund og rifjaði upp drauminn og sleppti svo hendinni á konunni eins og ég hefði brennt mig og sagði:
Hrindgu kona, hringdu.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.6.2006 | 13:44
Minningargrein
Það var einn laugardagsmorgunn fyrir ekki löngu síðan að ég vaknaði í seinna lagi við glymjandi hlátur sem virtist koma neðan úr eldhúsi. Ég bölvaði í hljóði yfir því að það væru komnir gestir og að þeir hefðu náð mér í bólinu. Ég klæddist því í snatri og kíkti fram á stigapall til að sá nú hver væri komin. En enga sá ég gestina en konan mín sat hins vegar við eldhúsborðið og hló og hló svo tárinn runnu niður kinnarnar á henni. Hvað er svona skemmtilegt í dag spurði ég um leið og ég gekk niður stigann til að fá mér morgunkaffi og kringlu. Eina svarið sem ég fékk var drynjandi hláturroka sem stóð yfir þó nokkra stund, og svo stundi konan upp: Ég er bara að lesa moggann. Það bregður nú eitthvað nýrra við ef mogginn er orðin svona skemmtilegur sagði ég, ekkert nema stríðsfréttir og pólitík og eitthvað þaðan af verra. Það kom önnur væn hláturroka frá konunni en að lokum stundi hún upp: Nei nei ég er bara að lesa minningargreinarnar. Hvað segirðu sagði ég hissa, finnst þér svona gaman þegar einhver deyr. Eftir eina væna hláturroku í viðbót stundi konan upp, nei nei það bara dó gamall kall fyrir vestan sem ég þekkti og það er svo yndislega skemmtilegar minningargreinarnar um hann. Æji bætti hún við, þeir kunna sko að skrifa minningargreinar þarna fyrir vestan það er sko ekkert lognmollu prump sem fer á prent frá þeim. Eftir að hafa skemmt sér góða stund til viðbótar við að lesa minningargreinar um gamla dauða kallinn að vestan varð hún svo skyndilega grafalvarleg og snéri sér að mér og sagði: Hvernig ætli hún verði nú minningargreinin um mig. Hvað áttu við elskan mín ertu nokkuð að fara að deyja sagði ég undrandi yfir þessari spurningu ertu nokkuð veik, villtu kannski að ég hringi í læknirinn fyrir þig. Þú þarft nú ekki að segja þetta með svona miklum vonarróm sagði konan með nokkurri þykkju og ég er sko ekkert veik, ég var bara að velta því fyrir mér hvað fólk muni skrifa um mig þegar ég dey. Það verður örugglega eitthvað fallegt sagði ég en ætli þér verði nú bara ekki nokk sama um hvað fólk skrifar þegar þú verður komin til þeirra þarna hinumegin, þú verður örugglega svo upptekin af að skemmta þér með gamla skemmtilega kallinum sem þú varst að lesa minningargreinarnar um bætti ég við. Jæja þú heldur að það verði eitthvað fallegt sagði konan þú villt þá kannski segja mér hvað þú myndir skrifa um mig ef ég myndi deyja á morgun. Ég hugsaði mig um nokkra stund og vissi ekki alveg hvernig ég ætti að svara þessu alveg þangað til konan sagði snökkt: Þurrkaðu þetta fíflalega glott framan úr þér og hættu að vona, ég er ekkert að fara að deyja ég vil bara fá að vita hvað þú myndir skrifa sagði hún svo óþolinmóð. Ég sá að ég var að lenda í vandræðum svo ég flýtti mér að segja, ég verð nú svo upptekinn við að panta flottustu kistuna og skreyta kirkjuna með krönsum og blómum að ég veit nú bara ekki hvort ég hefði tíma til að skrifa eitthvað elskan mín. Það er einmitt það sagði konan þú hefðir sem sagt ekkert fallegt að segja um mig til að setja í minningargrein, það er svo sem eftir öðru bætti hún við stóð á fætur og fór græja sig í að steikja kjötbollur í hádegismatinn. Ég myndi sko skrifa fallega grein um þig sagði hún svo eftir nokkra stund. Jæja sagði ég þú ert nú að vestan svo það yrði þá væntanlega engin lognmolla í þeirri grein og gæti ég kannski fengið að heyra hvernig hún á að vera. Alveg sjálfsagt sagði konan og hugsaði sig um svolitla stund en sagði svo: Ég myndi segja að þú værir skapgóður, ljúfur og og og og barngóður kom svo eftir þó nokkra stund. Jahá sagði ég það er ekkert annað en mér finnst nú varla taka því að vera að setja þetta í minningargreinarnar í mogganum það væri nú nóg að kaupa smáauglýsingu fyrir þetta bætti ég við. Þetta er þó meira en þú gast gert sagði konan og benti á mig með kjötfarsskeiðinni. Tja ef ég þarf ekki að skrifa meira en þetta um þig þá gæri ég nú kannski fundið mér tíma til að setja það á blað sagði ég og minningargreinin um þig gæti þá verið einhvervegin svona: Hún fæddist fyrir vestan, flutti á Selfoss, eldaði kjötbollur og dó. Og ég bendi á að þessi minningargrein er að minnsta kosti 25% lengri en þín um mig sagði ég svo og klappaði konunni á bakið. Konan hugsaði sig um góða stund en sagði svo, þú hefðir nú getað sagt, eldaði góðar kjötbollur og dó, en ég held samt að ég verði að biðja þig um eitt bætti hún við. Ef að ég dey á undan þér þá vil ég að þú lofir mér því að láta þér nægja að sitja á fremsta bekk í kirkjunni en látir það alveg vera að skrifa um mig og birta í mogganum MINNINGARGREIN.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2006 | 10:16
Halelúja systir
Eftir að konan gerðist Halelúja systir á kosningadaginn hefur heimilislífið hjá okkur í Miðtúninu verið með svolítið öðrum blæ en ég hef átt að venjast hingað til. Til dæmis er hún alveg hætt að bjóða mér góðan dag en segir í staðin Í Guðs friði og ef ég svara ekki í sömu mynt fæ ég stranga áminningu um að sál mín komist ekki til himna og fái þaðan af síður að rísa upp á efsta degi. Þá er sálmasöngurinn yfir kvöldmatnum farinn að verða hálf þreytandi og tillaga mín um að poppa sálmana svolítið upp hefur ekki fengið hljómgrunn ennþá. Síðan er það bænalesturinn á rúmmstokknum áður en gengið er til náða, reyndar er hvað minnsta breytingin fólgin í þeim bænalestri því við karlmenn erum ekki óvanir svolitlum bænum á rúmmstokknum þó þær bænir séu jú reyndar oftast svolítið annars eðlis. Það hefur því ríkt blessaður friður í kotinu síðan á kosningadaginn, konan hefur að vísu breitt stærðar ullarteppi yfir barinn minn og ég hef ekki svomikið sem fengið að gjóa augunum þangað. Ég reyndi þó að benda konunni á að í öllum almennilegum söfnuðum væri tekið til altaris öðru hvoru og drukkið gerjað berjasaft sem kallað væri blóð krists og haft eitthvað snakk með. Þegar ég svo stakk uppá því að við heiðruðum Maríu mey einn daginn með því að taka teppið af barnum og fá okkur eina Blody Mary lá við að ég yrði endanlega bannfærður og konan snéri sér að mér hin versta og sagði að ég skyldi gera mér það morgunljóst að hér yrði ekki drukkið áfengi á næstunni heldur stundað kristilegt líferni af miklum krafti. Ég var samt ekki alveg viss um hvort hún meinti þetta 100% eða hvort hún var ennþá með móralska timburmenn eftir kosningadaginn. En þegar ég var sendur út í búð um daginn og snéri mér við í dyrunum og sá hvar konan lá á hnjánum úti í garði að reyta arfa og tína sprek þá varð mér skyndilega ljóst þvílíkur munur væri að búa á svona sannkristnu heimili og fannst eitthvað svo mikill friður og ró liggja í loftinu. Ég varð allt að því frómur og fann mig knúinn til þess að þakka Guði fyrir að hafa sent sendiboða sína til að gera konuna að Halelúja systur þó það þíddi ótímabundið bindindi fyrir mig. Svolítið dvaldist mér í ferðinni því ég þurfti að fara á nokkra staði því ég hafði ströng fyrirmæli um að kaupa nú haframjölið þar sem verðið væri hagstæðast. Þegar ég svo renndi í hlað heima með lang ódýrasta haframjölspakkann í bænum og opnaði dyrnar kom konan á harðahlaupum utan úr garði í fullum skrúða og veifaði arfaklórunni í gríð og erg. Mér rétt tókst að beygja höfuðið svo arfaklóran lenti ekki í yfirvaraskegginu en svo sagði konan með öndina í hálsinum. Hún ætlar að fara að byggja hænsnakofa og risastóra girðingu svo hún geti stripplast í heita pottinum. Hvað áttu við kona sagði ég steinhissa og bætti við Í Guðs friði í þeirri von að konan róaðist aðeins. Konan tjáði mér að hún hefði hitt nágrannakonuna úti í garði og hún hefði sagt sér að til stæði að byggja garðhýsi undir áhöld og einnig hefði hún sótt um leyfi til byggingarfulltrúa um að fá að girða af hjá sér lóðina því hún ætlaði að flytja heitapottinn til og setja hann í miðjan garðinn. Og svo vill hún hafa girðinguna yfir tvo metra bara til að geta stripplast í heitapottinum bætti konan við og ég vil ekki sjá þennan hænsnakofa fyrir utan stofugluggan hjá mér. Ég flýtti mér út í garð með málband og mældi í skyndi tilvonandi girðingarhæð og sá strax að maður myndi ekki sjá yfir hana svo ég snéri mér að konunni og sagði: Ég treysti því elskan mín að þú sjáir til þess að girðingin verði ekki svona há, við missum allt útsýni, hún verður að lækka um að minnsta kosti hálfan metra. Konan horfði á mig grunsemdar augum og sagði: Lækka um hálfan meter það er nú bara svo þú getir horft á hana stripplast góði er það ekki. Alls ekki sagði ég þetta er bara málamiðlun sem ég er að leggja til og stendur ekki í biblíunni að girðing sé granna sættir Í Guðs friði flýtti ég mér svo að bæta við eins frómur og ég gat þegar ég sá svipinn á konunni. Þú hefur ekki fokking vit á biblíunni sagði konan æst og þetta er ekki mál milli MÍN og HERRANS heldur milli MÍN og HENNAR bætti hún við og gjóaði augunum yfir í garð nágrannans. Síðan snéri hún sér við og svippaði teppinu af barnum mínum, greip flösku af garnahreinsara og benti mér á að setjast. Síðan tók hún tvö glös og setti á stofuborðið, hellti fullsterkum í og sagði með mikilli aðvöru að nú þyrfti að leggja á ráðin og bætti svo við með djúpu röddinni: Þau geta svo sem sett niður þennan andskotans hænsnakofa en þú mátt þá geta upp á hvar verður flottasta brennan um áramótin því fjandinn hafi það nú verður stríð og ég er hér með hætt að vera HALELJÚJA SYSTIR
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Smelltu á þetta...
Vefsíðulistinn
Færsluflokkar
Bloggvinir
Eldri færslur
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar