Langbesta lík sem ég hef þekkt

Konan mín á það til að fá sérkennilegar  “dillur”  eins og það kallast víst og lætur þá einskis ófreistað til þess að ná settu marki.  Mér er minnistætt þegar hún í eitt skiptið ákvað að setja alla heimilismeðlimi í megrun og framfylgdi matseðli sem hún hafði útbúið út í ystu æsar og svo áttu heimilismeðlimir að veita hvorir öðrum aðhald og styðja hvern annan þegar svengdin væri nú sem mest.  Þegar þetta átak stóð sem hæst þurfti ég einu sinni sem oftar að fara út á land og gisti þar á góðu hóteli og þrátt fyrir að vera með langan lista með leiðbeiningum um hvað ég mætti nú borða þá gat ég ekki stillt mig um að fá mér sveittann hammara með öllu þegar þangað var komið.  Ég fór svo að sofa pakksaddur og var að dreyma alveg einstaklega skemmtilegan draum sem fjallaði einkum um mig og stóra rjómatertu þegar ég hrökk upp kl. 3 að nóttu við háværa símhringingu.  Bölvandi reyndi ég að finna símann og velti því fyrir mér á meðan hver væri að hringja á þessum tíma.  Halló sagði ég svo hátt og skýrt þegar ég svo loksins fann fjandans símann.  Já sæll elskan þetta er ég heyrði ég konuna mína segja á hinum enda línunnar,  ég vaknaði eitthvað svo einmana og þá varð mér hugsað til ískápsins svo ég hringdi bara í þig.  Nú hringdu þá í andskotans ískápinn urraði ég bálillur og skellti á og skreið aftur upp í rúmið.  Þessi tími verður mér alltaf minnistæður sem tíminn sem ég dó næstum því úr hungri og það er jú einmitt mergurinn málsins því nýjasta “ dilla “ konunnar er einmitt sú að hún telur sig sjá öll merki þess að ég eigi ekki langt eftir og verði ekki gripið til sórtækra aðgerða nú þegar þá verði ég liðið lík áður en langt um líður. 

Ég sat í sælli ró yfir fótboltanum um daginn og hafði breitt yfir mig teppi því ég var  varla búinn að jafna mig eftir flesnuna sem ég fékk um daginn þegar konan settist á móti mér og horfði hálf skringilega á mig.  Þú ert eitthvað svo fölur og bíddu nú við hvað er það nú aftur kallað,  með svona, með svona, svona slökknað augnaráð heitir það víst sagði hún grafalvarleg á svipinn.  Ég held að þetta stafi af því að þú hreyfir þig ekki nógu mikið bætti hún við ég held að ég skrái þig barasta í líkamsrækt ef það er þá ekki orðið of seint.   Hvað í fjandanum áttu við kona sagði ég steinhissa,  slökknað augnaráð hvað í fjandanum er nú það.  Tja ég fer nú ekki ofan af því að þú hefur nú verið hálf ræfilslegur undanfarið sagði konan og reyndar ef maður hugsar um það þá er eins og þú hafir ekki gert neitt annað en að vera dauður alla þína ævi.  Það er bara ekkert annað sagði ég,  það skaltu vita kona góð að þó ég hafi verið dauður alla ævi þá skal ég bara láta þig vita það að hvorki þú né aðrir skulu fá að skipta sér að minni líkamsrækt enda get ég sagt þér það að ég trimma sko á hverjum morgni eldsnemma.  Ekki hef ég nú séð það sagði konan ég hef nú ekki séð annað en þú sofir eins og rotaður selur alveg þangað til ég vek þig á morgnana.  Ég trimma víst sagði ég,  alveg frá rúmminu og fram á klósett og það án þess að blása úr nös.  En hvaða skyndilegi ótti er þetta eiginlega við heilsufar mitt sagði ég svo og ég skal bara láta þig vita það að ég er sko ekkert að fara að hrökkva upp af strax.  Við sjáum nú til með það sagði konan dularfull á svip um leið og hún gekk inn í eldhús og fór að taka til matinn.  Og af hverju að vera með áhyggjur af þessu sagði ég þetta verður hjá okkur eins og karlinn sagði í denn:  Það er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af þ.e. hvort þú ert heilbrigður eða veikur.  Ef þú ert heilbrigður þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ert veikur þá er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af, hvort þú munir lifa eða deyja.  Nú ef þú lifir þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú deyrð þá þarftu bara að hafa áhyggjur af því hvort þú ferð upp eða niður.  Nú ef þú ferð upp þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ferð niður tja þá elskan mín verðurðu svo upptekinn af því að heilsa öllum vinum þínum og frændum og frænkum að þú hefur ekki tíma til að hafa áhyggjur.  Konan horfði undrandi á mig eftir þessa ræðu en varð síðan eins og þrumuský í framan og brunaði inn í stofu og stillti sér upp fyrir framan mig og sagði:  Hvað áttu við karlugla,  að ég fari “NIÐUR”  og verði upptekin við að heilsa öllum þessum ættmennum mínum.  Nei þetta var nú bara svona dæmisaga af því að þú ert með þessar áhyggjur af heilsufari mínu sagði ég sakleysislega og ég meinti ekkert sérstakt með þessu.  En hvað með þig sagði konan ert þú alveg viss um að þú fáir vist í efra þegar þar að kemur,  hvað ef að þér verður nú sparkað niður í neðra.  Það er nú sáraeinfalt sagði ég ef mér verður sparkað niður til andskotans þá bara gríp ég í hófinn á karli og heilsa honum og segi þá bara:  Sæll og blessaður gamli hér er ég kominn,  ég var giftur systur þinni.  Þegar ég sá svipinn á konunni varð mér ljóst að núna væri kjörið tækifæri til þess að hefja líkamsræktina og trimmaði því á harða spretti inn í bílskúr og læsti dyrunum.  Það var svo ekki fyrr en eftir góða stund að ég áræddi að ráðast til inngöngu í stofuna aftur en þá sat konan í stól og var að prjóna eitthvað meðan að það sauð eitthvað í potti inni í eldhúsi.

Ég áræddi því að setjast aftur í stólinn minn og stuttu seinna stóð konan á fætur og stillti sér upp fyrir aftan mig og kyssti mig rembingskoss  á skallann og sagði:  Það er nú svo sem ekki gott að segja hvernig þetta fer allt saman elskan mín en ég vil samt að þú vitir eitt:

 

ÞÚ ERT ÞAÐ LANGBESTA LÍK SEM ÉG HEF NOKKURNTÍMA ÞEKKT:


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

 SLAMM.......PAMM.........PÚFF...........SKAMM, fuss og svei. Ekki nema það þó........ég held svei mér þá að nú sé ég ALLT að því orðlaus (sem ég get ekki með nokkru móti orðið í alvörunni) en að gera aðþjóð leskunnugt að bróðir minn elskulegi sé SKRATTINN SJÁLFUR (ég á bara einn bróður) - þó þú nefnir það ekki berum orðum þá má nú lesa ýmislegt milli lína.............OG AРSKRIFA UM MEGRUN OG ÞETTA ÞYKKA HOLDARFAR............HUH - ekki nema það þó.  Sko.......þú getur nú bara talað um þetta við mig undir 4 augu (6 augu ef Moli fær að vera með - og það er hann nú alltaf)......Ég er nú hrædd um að ég sé hætt að horfa undurblítt til þín............og það verður sko laaaaaangt þangað til ég kyssi þig á skallann og enn leeeeeeeeeeeeeeeeengra þangað til ég segi þér hve vænt mér þyki um þig.  Svei mér þá ef þú ætlar ekki bara að frysta þær tilfinningar mínar til þín. Ég sem hélt að ég væri ekki þessi herjans mikla gribba (allavega ekki í þinn garð).  Ég  hef fyrir því afar öruggar sannanir að fólk hér á öööööllu Suðurlandi telur að þetta séu allt sannar sögur..................HÓLÍ MÓLÍ, ef þetta er sannleikur.........tja þá þekki ég ekki sannleikann.

Konan með dillurnar (IP-tala skráð) 19.3.2007 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband