Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

VEKTU MIG BARA UM JÓLIN

Nú er að verða nokkuð langt síðan konan mín fór í aðgerð á hné þar sem fjarðlægt var brjósk sem var að angra hana og gerði hana reyndar alveg rammskakka og lélega til gönguferða og þó það sé sagt að hugurinn beri mann hálfa leið þá var það einfaldlega ekki nóg í þessu tilfelli.   Því þurfti aðgerð til að kella gæti nú trimmað um gólf og ganga og mátti ekki seinna vera því það stefndi í óefni á heimilinu í ryksugunar og skúringarmálum sem að sjálfsögðu eru ekki húsbóndanum sæmandi nema í einstaka afleysingatilfellum.  Um það sem síðast er hér talið er þó nokkur ágreiningur  á heimilinu og því er rétt að taka það fram að þegar þessi pistill var skrifaður þegar konan var að heiman og er hann er því óritskoðaður.  Sem betur fer fékk konan nú bót meina sinna og þó það hafi svo kostað það  eftir aðgerðina  að tveir sjúkraþjálfar hafi sagt upp störfum þá hafðist nú að koma kellu aftur á lappirnar og nú skúrar hún og ryksugar sem aldrei fyrr.  Mér brá því í brún þegar ég vaknaði við heljarinnar skurk einn morguninn eldsnemma og sá konuna hoppandi og skoppandi í einhverju sem gat með “ góðum vilja “ líkst einhverjum dansi, líkast til “ einnig með góðum vilja “ einhverju úr Svanavatninu,  þeim fræga ballett.  Hvað í ósköpunum gengur á spurði ég alveg forviða á þessum tilburðum sem fóru þarna fram við rúmstokkinn hjá mér.  Það er hnéð stundi konan,  ég fékk svona heiftarlegan krampa í hnéð sagði hún og opnaði svefnherbergisdyrnar og dansinn barst fram á gang.  Ég staulaðist framúr en þegar ég kom fram hafði dansinn borist inn í stofu og Svanavatnið tók svo enda í Lazy Boy sófanum fyrir framan sjónvarpið þar sem  konan hné niður með tilburðum  sem hæft hefðu kvikmyndastjörnu frá 1940ogeitthvað.  Get ég gert eitthvað fyrir þig elskan mín spurði ég umhyggjusamur þar sem ég stumraði yfir konunni í sófanum.  Já þú getur hætt að geispa og stutt mig inn í rúm aftur sagði konan illilega,  ég held að þetta sé að líða hjá en ég er hálf aum í löppinni ennþá.  Ég tók utanum konuna og studdi hana inn á gang og reyndi að hughreysta hana í leiðinni og sagði: 

Þú getur svo bara sagt eins og kerlingin forðum:

 

Nú er ég með á nótunum

Næ því pilta hylli

Frekar slæm í fótunum

En feikna góð á milli

 

Hlífðu mér við þessari aula-fyndni þinni,  ég er ekki í skapi fyrir svona fíflaskap núna sagði konan örg um leið og hún settist á rúmstokkinn.  Ég skreið svo uppí mín megin og velti því fyrir mér hvernig ég gæti nú linað þjáningar konunnar svo ég lyfti sænginni hjá henni og tók utan um hana og sagði:

Heyrðu elskan villtu kannski að íþróttaálfurinn komi og kíkji í Latabæ??

Það næsta sem ég vissi af mér var að ég lá á gólfinu hálfur inn í fataskáp en gat samt glaðst yfir því að hnéð og fóturinn á konunni var greinilega komið í gott  lag. 

 

Við morgunverðarborðið sat konan þögul ( til að byrja með) svo ég gat lesið Moggann í smá stund en svo byrjaði ballið: 

Kíkja í Latabæ, kíkja í Latabæ sagðir þú í nótt,  þú skalt sko ekkert vera að tala um einhvern Latabæ á mér það væri nú nær að tala um Lata-Íþróttaálfinn hrópaði konan og reif af mér kaffikönnuna,  það er eiginlega spurning hvort svona aðfarir við sárþjáða konu flokkast hreinlega ekki undir dónaskap og jafnvel kynferðislega áreitni.  Kallast það nú orðið kynferðisleg áreitni að gantast við konuna sína og ef að svona dónaskapur hjá karmönnum kallast kynferðisleg áreitni hvað kallast það þá þegar konur eru með dónaskap við karla spurði ég.   Það kallast 199 kr. mínutan sagði konan án þess að hika  og ég held nú bara hreinlega að ég fari að spá alvarlega í eitthvað af þessum tilboðum sem ég er alltaf að fá í bankanum frá hinum og þessum mönnum sem vilja fá mig konu og satt best að  segja held ég að það hafi verið regin mistök að giftast þér á sínum tíma.  Ég er alltaf að sjá það betur og betur að það var algjör óþarfi að taka heilt svín bara fyrir eina pulsu rommsaði konan út úr sér og dró hvergi af sér.  Jæja sagði ég bara og geispaði,  ég held nú bara að ég skreppi inn í rúm og fái mér smá fegrunarblund á meðan versti stormurinn gengur yfir.  Fegrunarblund, fegrunarblund hrópaði konan,  þú verður þá að leggjast í híði góði og hvenær viltu að ég veki þig bætti hún hæðnislega við, kannski um páskana eða kannski bara um sumarmál.  Leyfðu mér bara að sofa meðan óveðrið gengur yfir elskan mín sagði ég og ef þú verður ekki búin að taka einhverju tilboðinu sem þú ert alltaf að fá í bankanum þá:

VEKTU MIG BARA UM JÓLIN.


Langbesta lík sem ég hef þekkt

Konan mín á það til að fá sérkennilegar  “dillur”  eins og það kallast víst og lætur þá einskis ófreistað til þess að ná settu marki.  Mér er minnistætt þegar hún í eitt skiptið ákvað að setja alla heimilismeðlimi í megrun og framfylgdi matseðli sem hún hafði útbúið út í ystu æsar og svo áttu heimilismeðlimir að veita hvorir öðrum aðhald og styðja hvern annan þegar svengdin væri nú sem mest.  Þegar þetta átak stóð sem hæst þurfti ég einu sinni sem oftar að fara út á land og gisti þar á góðu hóteli og þrátt fyrir að vera með langan lista með leiðbeiningum um hvað ég mætti nú borða þá gat ég ekki stillt mig um að fá mér sveittann hammara með öllu þegar þangað var komið.  Ég fór svo að sofa pakksaddur og var að dreyma alveg einstaklega skemmtilegan draum sem fjallaði einkum um mig og stóra rjómatertu þegar ég hrökk upp kl. 3 að nóttu við háværa símhringingu.  Bölvandi reyndi ég að finna símann og velti því fyrir mér á meðan hver væri að hringja á þessum tíma.  Halló sagði ég svo hátt og skýrt þegar ég svo loksins fann fjandans símann.  Já sæll elskan þetta er ég heyrði ég konuna mína segja á hinum enda línunnar,  ég vaknaði eitthvað svo einmana og þá varð mér hugsað til ískápsins svo ég hringdi bara í þig.  Nú hringdu þá í andskotans ískápinn urraði ég bálillur og skellti á og skreið aftur upp í rúmið.  Þessi tími verður mér alltaf minnistæður sem tíminn sem ég dó næstum því úr hungri og það er jú einmitt mergurinn málsins því nýjasta “ dilla “ konunnar er einmitt sú að hún telur sig sjá öll merki þess að ég eigi ekki langt eftir og verði ekki gripið til sórtækra aðgerða nú þegar þá verði ég liðið lík áður en langt um líður. 

Ég sat í sælli ró yfir fótboltanum um daginn og hafði breitt yfir mig teppi því ég var  varla búinn að jafna mig eftir flesnuna sem ég fékk um daginn þegar konan settist á móti mér og horfði hálf skringilega á mig.  Þú ert eitthvað svo fölur og bíddu nú við hvað er það nú aftur kallað,  með svona, með svona, svona slökknað augnaráð heitir það víst sagði hún grafalvarleg á svipinn.  Ég held að þetta stafi af því að þú hreyfir þig ekki nógu mikið bætti hún við ég held að ég skrái þig barasta í líkamsrækt ef það er þá ekki orðið of seint.   Hvað í fjandanum áttu við kona sagði ég steinhissa,  slökknað augnaráð hvað í fjandanum er nú það.  Tja ég fer nú ekki ofan af því að þú hefur nú verið hálf ræfilslegur undanfarið sagði konan og reyndar ef maður hugsar um það þá er eins og þú hafir ekki gert neitt annað en að vera dauður alla þína ævi.  Það er bara ekkert annað sagði ég,  það skaltu vita kona góð að þó ég hafi verið dauður alla ævi þá skal ég bara láta þig vita það að hvorki þú né aðrir skulu fá að skipta sér að minni líkamsrækt enda get ég sagt þér það að ég trimma sko á hverjum morgni eldsnemma.  Ekki hef ég nú séð það sagði konan ég hef nú ekki séð annað en þú sofir eins og rotaður selur alveg þangað til ég vek þig á morgnana.  Ég trimma víst sagði ég,  alveg frá rúmminu og fram á klósett og það án þess að blása úr nös.  En hvaða skyndilegi ótti er þetta eiginlega við heilsufar mitt sagði ég svo og ég skal bara láta þig vita það að ég er sko ekkert að fara að hrökkva upp af strax.  Við sjáum nú til með það sagði konan dularfull á svip um leið og hún gekk inn í eldhús og fór að taka til matinn.  Og af hverju að vera með áhyggjur af þessu sagði ég þetta verður hjá okkur eins og karlinn sagði í denn:  Það er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af þ.e. hvort þú ert heilbrigður eða veikur.  Ef þú ert heilbrigður þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ert veikur þá er bara tvennt sem þarf að hafa áhyggjur af, hvort þú munir lifa eða deyja.  Nú ef þú lifir þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú deyrð þá þarftu bara að hafa áhyggjur af því hvort þú ferð upp eða niður.  Nú ef þú ferð upp þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af neinu en ef þú ferð niður tja þá elskan mín verðurðu svo upptekinn af því að heilsa öllum vinum þínum og frændum og frænkum að þú hefur ekki tíma til að hafa áhyggjur.  Konan horfði undrandi á mig eftir þessa ræðu en varð síðan eins og þrumuský í framan og brunaði inn í stofu og stillti sér upp fyrir framan mig og sagði:  Hvað áttu við karlugla,  að ég fari “NIÐUR”  og verði upptekin við að heilsa öllum þessum ættmennum mínum.  Nei þetta var nú bara svona dæmisaga af því að þú ert með þessar áhyggjur af heilsufari mínu sagði ég sakleysislega og ég meinti ekkert sérstakt með þessu.  En hvað með þig sagði konan ert þú alveg viss um að þú fáir vist í efra þegar þar að kemur,  hvað ef að þér verður nú sparkað niður í neðra.  Það er nú sáraeinfalt sagði ég ef mér verður sparkað niður til andskotans þá bara gríp ég í hófinn á karli og heilsa honum og segi þá bara:  Sæll og blessaður gamli hér er ég kominn,  ég var giftur systur þinni.  Þegar ég sá svipinn á konunni varð mér ljóst að núna væri kjörið tækifæri til þess að hefja líkamsræktina og trimmaði því á harða spretti inn í bílskúr og læsti dyrunum.  Það var svo ekki fyrr en eftir góða stund að ég áræddi að ráðast til inngöngu í stofuna aftur en þá sat konan í stól og var að prjóna eitthvað meðan að það sauð eitthvað í potti inni í eldhúsi.

Ég áræddi því að setjast aftur í stólinn minn og stuttu seinna stóð konan á fætur og stillti sér upp fyrir aftan mig og kyssti mig rembingskoss  á skallann og sagði:  Það er nú svo sem ekki gott að segja hvernig þetta fer allt saman elskan mín en ég vil samt að þú vitir eitt:

 

ÞÚ ERT ÞAÐ LANGBESTA LÍK SEM ÉG HEF NOKKURNTÍMA ÞEKKT:


ALLS EKKERT VESEN

Ég ætla bara að láta þig vita það að ég vil alls ekkert vesen á þessum degi sagði konan mín við mig nokkru fyrir þann margfræga  konudag sem var jú þann 18 febrúar 2007. Þetta varð til þess að mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds því að einmitt þetta sama sagði hún  fyrir konudaginn í fyrra og þá var ég svo vitlaus að trúa því.  Í fyrra dásamaði ég það að konan væri alveg sammála mér með það að allir þessir bónda, konu , valíntínusar og allir hinir dagarnir væru vitlausir og miklu skemmtilegra væri að koma hvort öðru á óvart án þess að þurfa að hafa sér dag á dagatalinu til þess.  Þess vegna svaf ég út á konudaginn í fyrra,  keypti engin blóm,  horfði á fótbolta og reyndar gerði ég það eitt að kyssa konuna á kinnina og óska henni til hamingju með daginn og að ósk hennar sjálfrar var ég ekki með neitt vesen.  Fyrir þessa fáfræði mína hef ég þurft að gjalda allt s.l. ár,  ég hef sem sagt komist að því að konur meina ekki alltaf það sem þær segja.  Þegar leið á konudaginn í fyrra var konan farin að svara mér með eins athvæðis orðum og alveg hætta að tala við mig þegar við fórum að sofa.  Þegar ég svo í sakleysi mínu spurði:  Er eitthvað að elskan mín,  hef ég gert eitthvað núna?  Þú hefur EKKERT gert og þessvegna er ég í vondu skapi hvæsti konan og snéri sér á hina hliðina.  Þrátt fyrir einlægar tilraunir til að bæta fyrir það að hafa ekki gert heljarinnar vesen þegar konan bað mig um að gera alls ekkert vesen á konudaginn í fyrra hef ég þurft að þola háðsglósur og fengið mörg skot allt s.l. ár og því rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds þegar ég heyrði konuna endurtaka sönginn í ár,  hún vildi jú alls ekkert vesen á konudaginn.  Sem betur fer var þetta nokkru fyrir konudaginn svo mér gafst því svolítill tími til þess að skipuleggja það að vera ekki með neitt vesen.  Þegar konudagurinn rann svo upp lét ég klukkuna hringja kl. 5:30 að morgni og laumaðist fram í eldhús og tókst að komast þangað án þess að vekja konuna.  Ég byrjaði á því að hella uppá könnuna og ákvað svo að skella mér í að hæra vöffludeig og líklega væri rétt að baka nokkra kanelsnúða líka  svona til vonar og vara.  Þegar svo allt var að verða tilbúið um níuleitið brunaði ég út í blómabúð og keypti tuttugu rósir og vönd af nellikkum svona til vonar og vara.  Þegar ég kom svo heim aftur var lokahnykkurinn að þeyta rjóma á vöfflurnar og þessu raðaði ég svo öllu á bakka,  vöfflum með rjóma,  nýbökuðum kanelsnúðum,  kaffi,  rósum og nellikkum og réðst svo til inngöngu í svefnherbergið.  Konan varð mjög undrandi að fá þessa sendingu í rúmið en gerði þó morgunmatnum ágætis skil og lagði sig svo aftur.  Ég fór svo fram og skúraði allt í hólf og gólf og fór svo að huga að hádegismatnum.  Ég var svo rétt að verða búinn að flambera nautasteikina þegar konan kom fram.  Yfir matnum rétti ég henni svo kort yfir dekurdag  í Baðhúsinu og keyrði hana þangað eftir matinn.  Á meðan konan var í dekrinu straujaði ég svo sparifötin hennar því meiningin var að bjóða henni út að borða um kvöldið.  Á veitingastaðnum um kvöldið við kertaljós og  góðan mat  rétti ég henni svo öskju með hálsmeni úr skíra gulli.  Þegar heim var komið endaði ég svo kvöldið á því að færa henni Grand Mariner og sérpantað konfekt frá Sviss.  Konan dæsti og virtist hugsi þar sem hún sat í stólnum og horfði á nýlakkaðar táneglurnar eftir dekurdaginn en ég skaust inn í svefnherbergi og laumaði einni rós á koddann hjá henni.   Þegar við svo gengum til náða lagðist konan á koddann en virtist ennþá í þungum þönkum þar sem hún lá og horfði á mig.  Að lokum sagði hún þó:  Mikið er ég feginn að þú skulir loksins vera farinn að hlusta á það sem ég segi Snorri Þór og ég ætla bara að segja þér það svo það sé nú alveg á hreinu að þegar ég á afmæli í apríl vil ég að það verði eins og í dag:

“ ALLS EKKERT VESEN “


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband