KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL

Frú Sólveig sat við eldhúsborðið heima hjá sér í Miðtúninu eitt kvöldið fyrir skömmu síðan og las Morgunblaðið meðan hún beið eftir því að suðan kæmi upp á fiskisúpunni sem ætluð var til kvöldverðar.  Allt í einu leit hún svo upp úr blaðinu og sagði glaðhlakkalega:  Þetta er eins og ég hef alltaf vitað,  aldur er engin fyrirstaða ef fólk ætlar sér bara að gera hlutina.  Hér er ég að lesa um konu  í útlöndum sem er komin vel á sjötugsaldur og var að eignast barn.  Ertu ekki að djóka sagði ég er þetta ekki bara prentvilla ég trúi því nú varla að einhver kerlingarherfa hafi farið að eignast barn á þessum aldri.  Ég er nú aldeilis hrædd um það sagði konan sigri hrósandi og bæði móður og barni heilsast vel.  Guð minn góður sagði ég þetta ætti að vera bannað með lögum,  hvað á að gera þegar barnið stækkar á að setja það á leikskóla eða vista það á ellhiheimilinu hjá mömmunni en reyndar er það kannski eini kosturinn við þetta að hún getur þá trillað því um í barnavagninum og gefið því brjóst í leiðinni.  En barnaverndaryfirvöld ættu líka að koma að þessu máli því að þurfa að sjúga svona gamlar túttur verður örugglega efni í margra ára vinnu fyrir  sálfræðinga þegar barnið stækkar.  Tja kella má nú eiga það að það er kraftur í henni sagði konan og það er reyndar líka kraftur í karlinum sem kemur alltaf öðru hvoru í bankann til mín því hann er kominn á áttræðisaldur en er samt alltaf að gefa mér undir fótinn og reyna við mig.  Hann vill fá mig fyrir konu og er alltaf að bjóða mér með sér í íbúðina sína á Spáni.   Þetta er forríkur karl sem á fullt af eignum út um allt.  Ég velti því fyrir mér smástund hvort þessi skyndilegi áhugi konunnar á öldruðu fólki stafaði nokkuð af því að hún á stórafmæli í apríl og hvort það væri nokkuð farið að fara á sálina á henni að ná þeim áfanga en áræddi þó að spyrja eftir stutta þögn:  Á ég að skilja þetta sem svo að þú viljir skilnað eða hvað.  Nei ætli það svaraði konan, ætli maður dandalist ekki með þér eitthvað lengur ef þú hagar þér almennilega.  Þú ættir kannski að giftast karluglunni svo þú erfir allt góssið og ég get þá bara verið ástmaður þinn þangað til sá gamli hrekkur upp af sagði ég montinn yfir þessari frábæru hugdettu.  Ha Ha Ha Ha konan skellihló góða stund en sagði svo með mikilli alvöru.  Að eiga þig fyrir ástmann væri nú eins og að vera glorsvangur, eiga LÍTIÐ að éta og þurfa svo bara að gera gott úr öllu saman.  En þegar ég sagði þeim gamla að ég væri gift þá bað hann mig að spyrja þig hvort þú værir ekki til í að sleppa mér ef þú fengir Kjarvalsmálverk í staðin.  Hmmm sagði ég móðgaður yfir þessum viðbrögðum við þessari frábæru hugdettu minni,  hvað er þetta Kjarvalsmálverk annars stórt.   Ætlar þú að segja mér það Snorri Snorrason að þér svo mikið sem detti það í hug að skipta á mér og einhverju klessuverki eftir löngu dauðan kall hrópaði konan,  ég hélt nú að þú værir löngu búinn að gera þér grein fyrir því hvurslags kostagripur ég er og hvar ætlar þú að finna aðra konu jafn skemmtilega og mig fyrir utan það að ég skipti aldrei skapi.  Já það er rétt elskan þú skiptir aldrei skapi ert alltaf kolvitlaus tautaði ég ennþá hálf móðagaður.  Hvað sagðirðu spurði konan hvasst.  Ég sagði að þetta væri alveg rétt með skapið sagði ég til að halda friðinn því konan leggur nefnilega  ríka áherslu á að við förum aldrei að sofa ósátt og því vökum við alltaf og rífumst áfram þegar eitthvað bjátar á.  Eftir fiskisúpuna brá konan sér svo í heimsókn út í bæ en ég settist við sjónvarpið.  Þegar konan svo kom heim var farið að halla í háttatíma og eftir að hafa sýslað eitthvað í eldhúsinu kom hún fram  í stofu og kyssti mig á skallann og spurði hvort ekki væri rétt að fara að hátta.  Ég kláraði að horfa á þáttinn sem var í sjónvarpinu en fór svo inn í rúm að hátta en konan var þá komin undir sæng og var að lesa í bók   Ég skreið undir sængina og konan lagði frá sér bókina og tók utan um mig og spurði hvort það væri ekki allt í lagi.  Ég velti mér á hina hliðina og breiddi sængina upp fyrir haus um leið og ég sagði.  Það vona ég að þú sért glorsvöng því þú færð EKKERT að éta og reyndu svo að gera gott úr því.   Þegar ég svo sármóðgaður var að festa svefninn gat ég ekki varist því að hugsa:

 

“KJARVAL ER JÚ ALLTAF KJARVAL”


Ístrubelgurinn í Ólátagarði

 Það var við kvöldverðarborðið heima í Miðtúninu núna í haust að það gerðist atburður sem næstum því kostaði mig lífið.  Þarna sat ég í sælli ró með spússu minni og hundurinn lá á mottunni sinni og nagaði bein.  Ég hafði eldað hrossaket og búið til þessa fínu kartöflumús og á meðan við borðuðum þá var ég að hugsa um hvað það væri nú yndislega kósí og rólegt að vera bara svona tvö ein heima.  Ég heyrði útundan mér að konan var að segja eitthvað,  en ég var svo mikið að reikna í huganum hvað það gætu verið mörg ár í það að allir grislingarnir væru farnir að heiman og hægt væri að skipta um skrá í kotinu og innsigla alla lykla nema tvo,  að ég heyrði ekki hvað það var.   Ég hrökk svo við þegar konan barði hnífnum í borðið og sagði hvasst:  Hvernig er það karlpungur ertu alveg hættur að hlusta á það sem ég segi.   “Þú segir nú svo margt elskan mín” sagði ég afsakandi en hvað varstu annars að segja bætti ég við eftir stutta þögn.   Ég var að spyrja þig að því hvort þér fyndist hann Moli litli ekki hafa dafnað vel hjá okkur,  nú er hann búinn að vera hérna í meira en ár og ég fæ ekki betur séð en hann blómstri alveg hjá okkur.  Ég leit á hundinn sem lá og kjammsaði á beininu og varð að viðurkenna að það hefði ræst furðanlega úr ræflinum.  Það er alveg rétt hjá þér elskan þetta er orðin fyrirmyndar hundur og ennþá er hann að læra sagði ég um leið og stakk upp í mig stærðar flís af hrossaketi.  Já sagði konan og fyrst okkur hefur gengið svona vel að ala upp hundinn og við búinn að gifta okkur þá er þetta orðin spurning um að fara á næsta stig með þetta samband okkar og eignast barn.   Og það var þá sem það gerðist,  mér svelgdist hroðalega á,  hrossakjötsbitinn sat fastur í hálsinum á mér og ég náði ekki andanum.  Þegar ég svo fór að blána bankaði konan í bakið á mér en allt kom fyrir ekki.  Ég sá þó einn ljósan punkt í þessu þegar ég var við það að missa meðvitund og það var það að ég þyrfti líklega ekkert að hafa áhyggjur af neinu barnastússi því ég yrði steindauður,  en þá greip konan brauðbrettið og sló hressilega í bakið á mér og danglaði reyndar í hausinn á mér í leiðinni.   Við þessar aðfarir hrökk hrossakjötsslumman upp úr hálsinum á mér og skaust út um munninn og alla leið fram á gang og lenti reyndar á mottunni hjá hundinum sem var ekki seinn á sér að gleypa dræsuna.   Ég var nokkra stund að ná andanum og jafna mig en gat lokst stunið upp.  Ertu orðin band sjóðandi vitlaus kona,  viltu að við förum að eignast barn á þessum aldri og svo veit ég ekki betur en það sé hreinlega orðið líffræðilega óhugsandi þar fyrir utan.  En bíddu nú við í gær eldaðir þú kjöt í karrý með Grjónum í fyrradag Grjónagraut og daginn þar á undan kjúkling með Grjónum,  plís plís ekki segja mér að þú sért búinn að ættleiða kínverja án þess að láta mig vita af því.  Láttu ekki eins og hálfviti sagði konan hryssingslega og horfði svo á mig nokkra stund áður en hún sagði:  Finnst þér það virkilega svona óhugsandi að við eignumst barn,  þú manst kannski ekki lengur hvernig þau eru búin til og þú ætlar þá kannski líka að hætta  að lúlla hjá mér á nóttinni.  Ég hugsaði mig um smá stund en lét svo bara flakka það eina sem mér datt í hug sem var limra eftir Pál S. Pálsson:

 

Í því húsi og hjá þér

er ég fús að lúlla.

Hagamúsin á þér er

eins og krúsindúlla

 

Hættu þessari vitleysu sagði konan,  ég hafði ekki í huga að við förum að eignast barn með þessari venjulegu aðferð og við erum orðin of gömul til að fá að ættleiða frá Kína,  ég er búinn að tékka á því bætti hún við.  Og hvaða aðferð ætlar þú þá að nota spurði ég forviða,  ætlar mín kannski að ræna leikskóla eða hvað.  Nei nei svaraði konan mér datt bara í hug að við gætum gerst stuðningsforeldrar og hjálpað aðeins til í samfélaginu,  mér skilst að það vanti sárlega fólk sem er tilbúið að létta undir með fjölskyldum sem þurfa þess með og ég veit að ég yrði fyrirtaks uppalandi enda alvön með bæði þig og alla grislingana okkar.  Það sakar allavega ekki að kanna málið sagði hún svo og eftir að hafa rætt málið nokkra stund varð það úr að konan mundi athuga hjá réttum aðilum hvort það vantaði stuðningsforeldra.  Nokkrum dögum seinna kom konan svo heim úr vinnunni og tilkynnti mér það að sárlega vantaði stuðningsforeldra og hún væri búinn að ganga frá því að við tækjum að okkur tvo drengi annan á leikskólaaldri og hinn á forskólaaldri sem yrðu hjá okkur nokkra daga í mánuði þ.e. ef tilsskilinn leyfi fengjust.  Konan byrjaði á því að fara í viðtal hjá félagsmálayfirvöldum og þegar hún kom heim fékk ég fyrsta verkefnið sem sagt að sækja sakavottorð fyrir alla familíuna.  Þegar ég afhenti konunni vottorðin frá Sýslumanni  tilkynnti hún mér að næsta verk væri að mæta í læknisskoðun daginn eftir því læknisvottorð yrði að fylgja líka.  Ég mætti hjá lækninum og settist fyrir framan hann hálf vandræðalegur en herti mig svo upp og sagði:  Konan sendi mig við vorum að spá í börn.  Á ég skil sagði læknirinn og þig vantar væntanlega litlu bláu pillurnar.  Nei nei nei nei  það er ekki þannig sagði ég við eigum fullt af börnum.

Á ég skil sagði læknirinn og þið viljið þá ekki fleiri,  ertu að spá í ófrjósemisaðgerð.

Nei nei nei nei alls ekki sagði ég mig vantar bara svona vottorð til að fá lánaða nokkra grislinga þú veist svona vottorð um að kollurinn sé í lagi sko.  Læknirinn horfði hálf furðulega á mig en spurði svo nokkurra spurninga og skrifaði svo vottorðið og rétti mér.  Ég sat smástund og horfði á vottorðið en missti svo út úr mér:  Jæja fyrst þú endilega villt þá tek ég slatta af bláu pillunum líka.   Næsta skref var svo að félagsmálayfirvöld mættu heim til þess að skoða húsið okkar  og fáeinum dögum seinna vorum við svo boðuð í viðtal þar sem við vorum spurð um allt mögulegt og ómögulegt sem viðkom barnauppeldi.  Að þessu ferli loknu fengum við svo leyfisbréf upp á það að geta gerst stuðningsforeldrar.  Þá var næsta skref að fara að hitta piltana sem ætluðu að dvelja hjá okkur öðru hvoru og allt gekk það ljómandi vel og tveimur dögum seinna fórum við svo og sóttum þá í fyrstu heimsóknina sína til okkar í Miðtúnið.  Þegar heim var komið og við vorum að klæða okkur úr úlpunum benti sá yngri á magann á mér og sagði:  Af hverju ertu með svona stóra bumbu.  Þetta er svona Jólasveina-ístra sagði ég,  það eru mörg ár síðan ég byrjaði að æfa mig í að verða jólasveinn og þá þarf maður að hafa ístru.  Ístrubelgur, ístrubelgur kallaði sá stutti og hljóp inn í eldhús en ég leit á konuna en sagði ekkert því ég sá að henni var stólega skemmt.  Henni var hinsvegar ekki jafn skemmt hálftíma seinna þegar húsið leit út eins og eftir loftárás og vænan jarðskjálfta að auki.  Þessi fyrsta heimsókn þeirra bræðra kostaði heilmikla vinnu og þolinmæði og það var ekki laust við að karl og kerling í koti væru þreytt eftir þessa daga og hundurinn þurfti jú áfallahjálp.  Eftir næstu heimsókn lagði ég svo til að við myndum breyta nafninu á húsinu úr Miðtúni 7 í Ólátagarður 7.   Síðan hafa þeir bræður komið í nokkrar heimsóknir til okkar í Ólátagarð og ég verð að segja það að mikil breyting hefur orðið á, sá yngri kallar mig þó ennþá ístrubelg  en húsið lýtur ekki lengur  út eins og eftir loftárás og hundurinn þarf ekki lengur áfallahjálp.  Ég dáist reyndar að konunni minni sem stjórnar öllu saman eins og henni einni er lagið.  Hún mynnir reyndar mjög svo á Patton Hershöfðingja þegar hún stjórnar matmálstímum og tannburstun og öðru slíku.  Þegar reynslutímanum sem allir aðilar fengu lauk var þess óskað að við framlengdum samninginn sem gerður hafði verið og eftir að við hjónakorn höfðum rætt málið fannst okkur það alveg sjálfsagt og konan sagði reyndar að vel kæmi til greina að gerast stuðningsforeldri fyrir fleiri börn og þegar ég maldaði í móinn og sagði þetta nú ágætt í bili sagði hún bara:  Æ góði láttu mig bara um þetta því að þú ert jú  þegar allt kemur til alls bara:

            ÍSTRUBELGURINN   Í  ÓLÁTAGARÐI

 

T-34

Miðvikudaginn 22 nóvember s.l. sat ég í rólegheitum síðari hluta dags í notarlegum baststól í sólstofunni heima í Miðtúni og horfði út um gluggann,  meðan ég beið eftir því að konan kæmi heim til þess að gefa mér að borða.  Og ekki stóð á því að konan mætti,  því skyndilega sá ég litla bláa Yarisin hennar koma á svo mikilli ferð fyrir hornið á götunni að það var með naumyndum að hún næði beigjunni  og þegar bíllinn straukst við runnana sem standa við safnaðarheimili Vottanna fipaðist hún og sikk sakkaði heim í hlað og það munaði engu að hún strauaði afturendann á jeppanum þegar hún nauðhemlaði í hlaðinu heima.  Hurðin á Yarisinum hentist upp og konan kom á fleigiferð eins og rússneskur T-34  skriðdreki  “nýjasta módel”  fyrir hornið á húsinu,  spólaði síðan upp tröppurnar og útihurðin fór næstum því af hjörunum þegar frúin stormaði inn.  Hún virti mig ekki viðlits heldur hrópaði í sífellu:  Hvar er Mogginn,  hvar er Mogginn.  Síðan sá ég á eftir henni inn í eldhús þar sem blöðin flugu í allar áttir þangað til að hún fann Moggann og hlammaði sér þá í stól og grúði sig yfir blaðið meðan hún muldraði eitthvað sem ég heyrði ekki hvað var.   Eftir að hafa lesið svolitla stund snéri hún sér við og sagði garfalvarleg.  Það hafa orðið alveg hræðileg mistök,  já alveg hræðileg og það versta við þetta allt er að það er of seint að leiðrétta þau.  Hvað áttu við kona sagði ég steinhissa á öllum látunum,  er nokkurntíma of seint að leiðrétta mistök.   Já í þessu tilfelli sagði konan,  mistökin urðu nefnilega á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum.  Já ég á enga sök á þeim flýtti ég mér að segja og er Mogginn virkilega að skrifa um mistök sem urðu á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum.  Nei sagði konan,  mistökin eru að skrifa í Moggann.  Hvað áttu við kona sagði ég og var nú orðin eitt spurningarmerki í framan.  Já það er greinilegt að þegar ég lá á fæðingardeildinni fyrir meira en 20 árum og átti þar stúlkubarn þá hefur orðið einhver ruglingur og ég hef verið send heim með vitlaust barn.  Og nú er vitlausa barnið farið að skrifa greinar í Moggann bætti konan við og var greinilega brugðið.  Og hvað er svona hræðilegt við það spurði ég varfærnislega er hún kannski að skrifa um móðurina og uppeldi sitt.   Nei nei og aftur nei hrópaði konan,  enda á hún uppeldinu það að þakka að hún skuli þó vera það sem hún er í dag.  En hún er að skrifa um það að ekki megi virkja í Skagafirði,  þetta sveitarfélag sem er eitt það verst stæða á öllu landinu má ekki virkja árnar sínar af því að hún vill að eitthvað lið sem er að druslast á gúmíbátum og kajökum  þarna niður 3 mánuði á ári fái að hafa árnar út af fyrir sig.  Samkvæmt þessari grein er þetta að verða eitthvert vinsælasta sport á Íslandi og helst vill hún neiða alla ferðamenn sem koma til landsins til að “rattast” niður einhverja sprænu í Skagafirði á einhverri gúmídruslu.  Og helstu rökin fyrir þessu eru að það verði svo mikil margfeldisáhrif af þessu gúmítutlu dæmi að þeir sem selja gistingu og pulsur geta  lifað af rekstrinum sínum þessa 3 mánuði á ári.  Svo er Menntamálaráðuneytið búið að veita styrk til uppbyggingar á gúmítutlu skóla svo liðið fari sér nú ekki að voða.  Svona er farið með skattpeningana okkar hrópaði konan og svo segir hún að það megi nota gúmítuttlurnar til náttúrutúlkunar,  til að sýna liðinu hvernig árnar grafa sig ofan í bergið.  Ég held að hún hafi nú grafið hausinn rækilega í sandinn í þetta skipti,  hún er komin í lið með Ómari Ragnarssyni og því liði sem ég kalla umhverfisofstækismenn og eru á móti öllum virkjunum hvort sem um er að ræða skynsamlega nýtingu á náttúruauðlindum okkar eða ekki.  Ef ég hitti einhverntíma þennan fjandans fæðingarlækni sem ruglaði grislingunum á fæðingardeildinni og sendi mig heim með vitlausan krakka skal ég svo sannarlega gefa honum eitt spítalavink æpti konan og var nú orðið svo heitt í hamsi að ég forðaði mér hið snarasta aftur inn í sólstofu því ég hef lært það að fenginni reynslu að maður deilir ekki við “nýjasta módel” af rússneskum skriðdreka gerð T-34……………..


Þegar kóngur vill sigla

Þegar kóngur vill sigla….  tja þá pakkar maður bara niður í töskuna og leggur af stað.  Þannig var það allavega hjá mér því það var í brúðkaupsferðinni minni á Kanaríeyjum s.l. vor að konan mín tilkynnti mér að hún hefði fundið á netinu einstakt tilboð á ferð til Barcelona næsta haust.  Já það var ekki nóg með að kóngur væri að sigla heldur vildi hann sigla meira svo auðvitað fékk hún að kaupa ferðina enda lofaði hún því að taka það til athugunar hvort ég fengi að koma með.  Ég hafði orð á þessu á leiðinni á flugvöllinn að kóngur væri farinn að sigla ansi oft en eina svarið sem ég fékk var:  Haltu þér saman ég tók þó Hirðfíflið með núna.   Konan hafði tilkynnt mér viku fyrir brottför að þessi ferð væri einungis ætluð til afslöppunar,  þetta ætti alls ekki að vera verslunarferð og því ástæðulaust að taka einhverjar stórar ferðatöskur og mikið dót  fyrir eina viku í afslöppun.  Það gekk því greiðlega að innrita sig á flugvellinum enda farangurinn lítill en þegar við komum upp í fríhöfnina var það eins og að koma í Kringluna á Þorláksmessu.  Fólksmergðin var slík að það var hvergi hægt að setjast niður og að ætla að reyna að versla eitthvað var nánast útilokað vegna þrengsla.  Þarna sérðu hvað það hafa margir nýtt sér þetta frábæra ferðatilboð eins og ég sagði konan hróðug um leið og hún tróðst inn í eina búðina og hrifsaði  whisky pela af gamalli kerlingu og greiddi hann í snatri  svo Hirðfíflið þyrfti ekki að vera alveg þurrbrjósta á leiðinni út.  Á meðan kíkti ég á brottfararskjáinn og sá að það voru 9 vélar að fara í loftið á svipuðum tíma og okkar vél svo einhverjir hafa væntanlega verið að nýta sér önnur ferðatilboð.  Þegar það var svo kallað út í vél kom babb í bátinn.  Konan dró upp vegabréfið sitt og brottfararspjaldið en þá kom í ljós að rangt nafn hafði verið ritað á brottfararspjaldið og konan hét allt í einu orðið Inga Alfreðsdóttir.  Nú varð mikil rekistefna og konan var að komast í ham og ýtti mér að borðinu og tjáði konunni sem þar sat að ég væri maðurinn sinn og gæti staðfest að við værum að ferðast saman.  Er það rétt sem hún segir spurði konan við borðið ert þú maðurinn hennar.  Áður en ég svara þessu gæti ég þá fengið að sjá hvernig þessi Inga Alfreðsdóttir lítur út spurði ég sakleysislega en konan við borðið hló bara og sagði að þar sem vélinn væri að fara væri og seint að breyta þessu og ákvað að hleypa konunni um borð.  Þegar um borð í vélina kom hélt ég svo að við hefðum villst því að ég sá ekki nokkurn mann en þegar nánar var að gáð kom í ljós að það voru 32 farþegar í þessari 200 manna vél.  Þegar í loftið var komið gat ég ekki stillt mig um að benda konunni á þann gríðarlega fjölda sem hafði nýtt sér þetta frábæra ferðatilboð sem hún fann á netinu en nú brá svo við að hún harðneitaði að ræða málið frekar og steinþagði reyndar og náði sér ekki á strik aftur fyrr en ég pantaði mér þriðja bjórinn og þriðja whisky snapsinn með enda hæg heimatökin það var ein flugreyja á hverja fimm farþega.  Það er nú óþarfi að drekka sig blindfullann áður en leiðin er hálfnuð sagði konan byrst,  þú verður að standa í lappirnar þegar við komum út bætti hún við og horfði illilega á mig.  Ég skal bara láta þig vita það að ég læt ekki einhverja Ingu Alfreðsdóttur skipta sér að því hvað ég drekk sagði ég hinn rólegasti  meðan ég sötraði bjórinn og ég ætla sko að fá mér annann á eftir bætti ég við.  Konan lét þar við sitja og skipti sér ekki frekar af bjórdrykkju minni það sem eftir var af þessari flugferð.  Eftir góðan nætursvefn í Barcelonuborg  trítluðum við svo út í sólina og konan tók stefnuna beint á stærsta verslunar magasínið í borginni og þuldi upp fyrir mig á leiðinni hvað hún ætlaði að kaupa og sá listi var sko ekki stuttur.  Ég hélt að það væri meiningin að þetta yrði afslöppunarferð en ekki verslunarferð sagði ég  og þessvegna tókum við bara litlu töskurnar með bætti ég við en konan leit á mig og brosti og sagði að þetta væri nú bara svona smáhlutir sem ætti að kaupa og hún yrði í engum vandræðum með að koma því í töskurnar.  Eftir að hafa farið í gegnum 2000 fermetra ilmvatnsvörubúð lá mér við yfirliði en fékk kærkomna hvíld uppi á næstu hæð þar sem var 2000 fermetra skóbúð,  því konunni vantaði að eigin sögn nauðsynlega eina götuskó og eina spariskó.  Ég gat því setið í rólegheitum í tvo tíma meðan konan mátaði einhverja tugi af skópörum en var ekki ánægð með neitt af þeim og sagðist ætla að skoða í fleiri skóbúðir.  Síðan var þrammað búð úr búð að leita að spariskóm og götuskóm en hvergi fann konan það sem hún var ánægð með.  Það var ekki fyrr en á fjórða degi og eftir að minnsta kosti 100 km. labb í leit að þessum fjandans skóm að konunni var litið út um gluggann á hótelinu okkar og kom auga á skóbúð hinumegin við götuna og brunaði náttúrulega út og viti menn þar fann hún að eigin sögn nákvæmlega réttu skóna.  Þetta kallaðist í minni sveit að leita langt yfir skammt,  þarna voru skórnir í 30 metra fjarðlægð frá hóteldyrunum en þetta var örugglega síðasta skóbúðin í borginni sem konan átti eftir að skoða.   Í tilefni þess að hafa fundið skóna bauð konan mér á uppáhalds veitingahúsið mitt í borginni og þar fékk ég rosalega kálfasteik og hefði skammturinn dugað vel í fjögurra manna veislu og þessu fylgdi svo tveggja lítra kanna af bjór.  Eftir að hafa dundað við þetta í meira en klukkutíma gat ég svo ekki meira og var orðið hálf illt af öllu átinu en konan pantaði án þess að hika glas af  Irish Coffy handa mér og þegar að rjóminn bættist við bjórinn og kjötið fann ég að litlu mætti muna að kransæðarnar segðu stopp og hafði orð á því við konuna að með þessu áframhaldi fengi ég hjartaáfall.  Konunni brá og hún jesússaði sig í bak og fyrir og tjáði mér að hjartaáfall mætti ég alls ekki fá.  Mér hlýnaði um hjartaræturnar þegar ég sá hvað mikla umhyggju konan bar fyrir mér og hugsaði með mér að það væri leitt að ég hefði látið henni bregða þegar hún bætti við án þess að svo mikið sem hika:  Nei hjartaáfall kemur ekki til greina það yrði alltof dýrt að senda þig heim.  Ég missti út úr mér að ég væri nú tryggður fyrir 15 milljónir en þá horfði konan á mig smástund en pantaði svo annann Irish Coffy handa mér án þess að segja neitt.   Þegar leið að heimferð og konan fór að pakka varð ég glaður mjög þegar að ég sá að allt sem konan hafði keypt komst fyrir í töskunum okkar svo ekki virtist þörf á neinum frekari aðgerðum með farangurinn alveg þangað til að konan ákvað að skreppa eina lokaferð í stóra verslunar magasínið því hún hafði hitt fólk á hótelinu sem sagði henni að það væru líka búðir í kjallaranum í magasíninu og það varð mín auðvitað að skoða.  Þegar þangað var komið blasti við okkur mörg hundruð fermetra búð með vörur fyrir gæludýr.  Ég hélt því að þessi verslunarferð tæki fljótt af en annað kom sko á daginn.  Konan kom auga á stærðarinnar rúmm sem stóð þar á gólfinu með höfðagafli og hlébarðadýnu og fékk hreinlega kast.  Guð minn góður hrópaði hún ég bara verð að kaupa þetta rúmm handa honum Mola mínum,  sérðu hvað þetta er flott hrópaði hún og ýtti mér að rúmminu.  Er þetta nú ekki fullmikið handa hundinum sagði ég,  hann virðist nú bara ánægður þar sem hann sefur bætti ég við um leið og ég snéri mér við.  En konan var þá horfin og ég kom auga á hana úti í horni þar sem hún hafði króað af verslunarstjórann og þar var mikið pat og læti því í ljós kom að hann talaði ekki stakt orð í ensku og hún ekki í spænsku.  Það var nokkur áhyggjusvipur á verslunarstjóranum  alveg þangað til konan gat komið honum í skilning um að hún vildi kaupa rúmmið en ekki fá hann með sér upp í rúmmið.  En þá kom upp smá vandamál,  þetta var nefnilega eina rúmmið sem eftir var í búðinni en konan gaf sig ekki og heimtaði að fá rúmmið keypt og að það yrði tekið í sundur.  Upphófst nú mikill atgangur þar sem ekki dugði minna en að verslunarstjórinn og tvær afgreiðslumeyjar færu í verkið því mikið þurfti að skrúfa og pakka.   Meðan á þessu stóð horfði hópur af spánverjum illilega á konuna þar sem þeir biðu eftir afgreiðslu með eina eða tvær dósir af kattamat í hendinni.  Að lokum tókst þó að taka rúmmið í sundur og konan rogaðist með það á hótelið og skellti því á gólfið á herberginu okkar.  Ætlarðu virkilega að segja mér það að þú ætlir að drösla þessu alla leið frá Miðjarðarhafinu og til Íslands sagði ég og horfði á hrúguna á gólfinu, en  þegar ég sá augnaráðið sem konan sendi mér rölti ég beina leið út í magasínið og keypti stærstu ferðatöskuna sem ég gat fundið.  Þessu dröslaði konan svo með sér á flugvöllinn og heim til Íslands fór rúmmið og þegar þangað var komið sat konan við í heilan dag við að finna út úr því hvernig ætti nú að setja þetta saman aftur.  Loks stóð rúmmið tilbúið og konan sótti hundinn til að sýna honum herlegheitin og ekki stóð á því að hann hoppaði upp í rúmmið en eftir smástund kom ámátlegt ýlfur og hann stökk niður og hefur ekki fengist upp í það aftur með nokkru móti.   Ekki veit ég hvað hundurinn hefur á móti rúmminu nema ef það skyldi vera það að við nánari skoðun  kom í ljós að á höfðagaflinum sem er úr einhverju víravirki er mynd af KETTI.   Ég held því allavega fram að það sé þessvegna sem hundurinn vilji ekki sofa í rúmminu nema honum finnist of hátt upp í það en maður verður sko ekki í vandræðum með jólagjöfina handa konunni í ár,  “hún fær stiga handa hundinum upp í rúmmið.”  Það var svo eitt kvöldið núna um daginn að ég sat í sælli ró yfir sjónvarpinu að konan settist á móti mér og var með bækling í hendinni og sagði:  Þú veist að ég á afmæli í apríl er það ekki elskan og ég er hérna að skoða alveg einstakt tilboð á ferð til útlanda.  Já það er fínt elskan sagði ég við þurfum nefnilega að skreppa til Barcelona og skila rúmminu.  Konan stóð á fætur og sagði ískalt að við myndum ræða þetta síðar en þegar ég rakst svo nokkru seinna á ferðabæklinginn sá ég að konan hafði merkt við siglingu á lúxus skemmtiferðaskipi milli einhverra eyja í Suður Ameríku svo ætli það verði þá bara ekki eins og venjulega þegar KÓNGUR VILL SIGLA…………………………. 


PÍS OF KEIK

Konan mín hefur þá bjargföstu trú að karlmenn geti alls ekki bjargað sér sjálfir svo mikið sem einn dag hvað þá fleiri.  Alveg frá því að við byrjuðum að búa hefur hún bannað mér að koma nálægt allri matargerð og heimilisstörfum yfirleitt því að hún er svo viss um að ég ráði ekki við það.  Hún hefur satt best að segja ekki getað hugsað sér að vera í burtu svo mikið sem eina einustu nótt frá okkur karlpungunum eins og hún kallar það því að hún er svo viss um að myndum verslast upp og deyja ef hennar nyti ekki við.  Ég hef í sjálfu sér ekki haft neitt við þessa tilhögun á heimilinu að athuga en hef þó stöku sinnum andmælt og sagt henni að ég gæti auðveldlega séð um mig og hundinn sjálfur í einn eða fleiri daga.  Þegar konan er svo ekki að sinna skyldum sínum sem húsmóðir þ.e. matbúa, taka til, sjóða sultur og fleira í þeim dúr,  situr hún og saumar heljar mikið veggteppi sem svo aftur á að prýða einn heilan vegg í húsinu okkar.  Það er bara einn galli þar á,  sem sagt inn í miðjunni á veggteppinu er eitthvað feikna mikið dúllerí sem krefst þess víst að maður kunni bæði kross og krúttsaum en eftir fjöldamargar tilraunir við dúlleríið varð konan að játa sig sigraða og viðurkenna að hún kynni ekki kross og krúttsaum.  Ekki gafst þó saumakonan upp heldur fór á netið og leitaði að öllu sem hún fann um kross og krúttsaum og viti menn,  næsta laugardag og sunnudag skyldi verða námskeið í kross og krúttsaumi í Reykjavík og átti það að standa langt frameftir laugardalskvöldinu og byrja svo eldsnemma á sunnudeginum og standa fram á miðjan dag.  Konan ætlaði í fyrstu ekki að fást til að fara á námskeiðið þar sem hún sá fram á að þurfa að gista í Reykjavík  og var alveg viss um að bæði karl og hundur myndu verslast upp og deyja við að þurfa að sjá um sig sjálfir í einn sólarhring.  Það var ekki fyrr en eftir miklar fortölur sem hún fékkst til að fara en fyrst þurfti hún þó að halda námskeið fyrir mig og Mola í eldhúsinu og var þar sérstaklega farið yfir hvernig á að nota örbylgjuofn sem er tæki sem ég hef alltaf talið mig kunna á,  bara stilla tímann og ýta á einn takka.  En við Moli komumst að því að það er meira en að segja það að stýra örbylgjuofni því á námskeiði konunnar kom fram að það er sko aldeilis ekki sama hvort maður er að hita lambaket, kjúkling eða fisk,  ó nei það er sko sér stilling fyrir hvern rétt fyrir sig og síðan að minnsta kosti fjórar undirstillingar fyrir hvern.  Ekki náði ég þessu nú öllu en treysti á að Moli myndi muna þetta ef á þyrfti að halda.  Á föstudagskvöldinu sagðist konan svo vera hætt við að fara hún hefði svo mikið samviskubit yfir því að skilja okkur eina eftir mig og hundinn.  En við Moli gáfum ekkert eftir og sögðumst sjálfir fara á kross og krúttsaums námskeið ef konan færi ekki því það yrði enginn andskotans friður á heimilinu fyrr en veggteppið væri búið og komið upp á vegg.  Þegar svo kom að því daginn eftir að konan þurfti að leggja af stað á námskeiðið fór hún einu sinni enn yfir það með mér hvernig best væri að lifa aðskilnaðinn af en tók síðan hundinn í fangið og síðan fór af stað eitthvað ferli sem ég skildi varla en hljómaði einhverveginn svona:

Ó kondu kondu elsku monsi sponsinn minn,  gúllí vúllí vúllí kondu til mömmu elsku monsi sponsu spíturassgatið mitt,  hver er langsætastur  af öllum dúllsi dúllsi krúsindúllu sponsinn minn. 

Skárri er það nú andskotinn hvernig látið er með hundinn hugsaði ég með mér,  ekki lætur hún svona við mig og síðan reyndi ég að rifja upp hvenær hún hefði síðast verið svona góð við mig en það eina sem ég mundi eftir var þegar hún sagði við mig fyrir tveimur dögum sínan:  Drattastu í bað það er táfýla af þér.  

Loks tókst okkur þó að koma kerlingunni út um dyrnar og þegar við höfðum lokað á eftir henni horfðum við hvor á annan við Moli og vissum báðir að nú var stund sannleikans upprunnin og kæmi nú í ljós hversu mikið starf það væri að vera húsmóðir. Við byrjuðum á að setjast inn í stofu og kveikja á sjónvarpinu og fljótlega fundum við leik til að horfa á og ég spurði Mola hvort ekki væri tilvalið að fá sér bjór yfir leiknum.  Hundurinn horfði á mig en sagði svo woff sem ég túlkaði undireins sem JÁ  svo ég skarpp fram í skúr og náði í einn kaldann.  Í hálfleik ákváðum við síðan að við værum orðnir svangir og kíktum því í eldhúsið.  Á eldhúsborðinu fundum við stafla af pönnukökum og svo fleiri í ísskápnum en þær voru með rjóma.  Einnig var diskur með flatbrauði í ísskápnum og eitthvað fleira með.  Við skófluðum í okkur þangað til við vorum vel mettir og hentum svo diskunum í vaskinn og litum hvor á annan.  Ekki var þetta nú erfitt sagði ég það er greinilega ekkert svo mikið mál að vera húsmóðir bætti ég við þegar við settumst aftur inn í stofu.  Á meðan við vorum að borða hringdi konan fjórum sinnum til að vita hvort allt væri ekki í lagi og við fullvissuðum hana um að ekkert amaði að okkur.  Þegar svo leið að kvöldmatnum vandaðist málið verulega því að á eldavélinni stóð fullur pottur af kjúkling í sósu með kartöflum og grjónum.  Það hafði nefnilega láðst að kenna okkur hvernig ætti að hita upp í örbylgjunni svona flókna máltíð með svona mörgu í en við ákváðum að gera bara eins og venjulega þ.e. stilla bara á 2 mín. og ýta á takkann.  Og viti menn allt gekk eins og í sögu og þetta varð hin ljúfengasta máltíð.  Ekki var þetta nú erfiðara sagði ég við Mola um leið og ég setti diskana í vaskinn.  Eftir matinn tók svo við annar kaldur og friðsæl leti yfir sjónvarpinu þangað til við gengum til náða laust eftir miðnætti.  Morguninn eftir gekk allt eins og í sögu ekkert mál að hella kornfleksi í skál og hella mjólk yfir.  Þegar konan kom svo heim um miðjan daginn varð hún hálf hissa að sjá okkur á lífi en þó fegin held ég,  alla vega fékk hundurinn slatta af “gúllí vúllí “ og hún minntist ekkert á að það væri táfýla af mér.  Við Moli höfum því komist að því að það er ekkert því til fyrirstöðu að konan taki framhaldsnámskeið í kross og krúttsaumi því það er nefnilega alveg eins og við vissum alltaf ekkert mál að vera húsmóðir það var eiginlega bara "PÍS OF KEIK."


Skipulagningin

Ég áttaði mig á því í dag að það eru að verða þrjár vikur frá því að okkar maður flutti búslóð, kerlingu, grislinga og gæludýr í nýja húsið og satt best að segja hefur verið svo mikið að gera að það hefur ekki gefist neinn tími fyrir blogg þessar vikur.  Ég er ennþá að læra á nýju híbýlin sem eru svolítið öðruvísi en var í gamla kotinu okkar,  sérstaklega bílskúrinn eða dótakofann eins og konan kallar það víst.  Þó að dótakofinn sé jú ennþá hálffullur af kössum og stólum og skápum þá á ég það til að laumast þangað sérstaklega á kvöldin og þá til að skipuleggja hvar ég ætla að geyma verkfærin og hengja upp veiðistöngina og þess háttar og konan gerir sér líka alltaf eina ferð þangað út áður en hún gengur til náða en það er til að telja bjórflöskurnar í ískápnum sem áður stóð í geymslunni í gamla kotinu okkar.  Ennþá hefur þó enga dós vantað enda hefur hún ekki ennþá tekið eftir kassanum í efstu hillunni í dótakofanum.   Það var svo eitt kvöldið að ég hafði brugðið mér þangað út og var að mæla hvort bílskúrsdyrnar væru alveg örugglega ekki það breiðar að konan gæti líka keyrt bílinn inn í skúrinn án stóráfalla að ég var truflaður þegar konan kallaði á mig í símann og svo gleymdi ég mér að símtalinu loknu yfir þætti á Skjá einum og var orðin hálfsyfjaður þegar honum lauk.  Ég gekk því til náða og lagðist upp í rúmm við hliðina á konunni og kúrði mig undir hlýja sængina þegar konan sagði:  Þetta var nú meiri dagurinn og síðan geispaði hún alveg ógurlega sem aftur varð til þess að ég mundi hverju ég hafði gleymt.  Ég spratt því undan sænginni og smeygði mér í buxur og bol  og á meðan horfði konan á mig en sagði síðan:  Það tók því að hátta bara til að klæða sig aftur nokkrum sekúndum seinna.  Já það var bara smávegis sem ég gleymdi sagði ég og ætlaði að smeygja mér út um svefnherbergisdyrnar.  Ertu að fara að laumast í bjórinn sagði konan höst,  þú hefur ekkert að gera með að vera að fá þér bjór núna bætti hún við.  Nei nei elskan það var bara þegar þú geispaðir áðan þá mundi ég eftir því að ég gleymdi að loka bílskúrsdyrunum sagði ég og snaraðist fram í bílskúr og lokaði dyrunum.   Þegar ég kom til baka snéri konan baki í mig og þegar ég var kominn undir sængina aftur gat ég ekki að því gert en mér fannst eins og það andaði köldu frá konunni og ég heyrði ekki betur en hún væri að tuldra eitthvað og þó ég heyrði nú varla orðaskil þá fannst mér það hljóma einhverveginn svona þ.e. það sem ég heyrði:  Andskotans ósvífni…… engin hjálp við heimilsstörfin….. alltaf að gera allt sjálf…..

Ég velti því fyrir mér hvort hún ætti við mig en fannst það frekar ótrúlegt enda var ég nýbúinn að mála tvö svefnherbergi og báðar stofurnar FYRIR HANA,  ég var búinn að hengja upp sex ljós FYRIR HANA  og  þegar við fórum á bensínstöð síðast þá dældi ég olíunni á bílinn  FYRIR HANA og síðast í gærkvöldi fór ég út í búð og keypti kók handa mér FYRIR HANA.   Mér þótti því nánast útilokað að hún ætti við mig,  hún hlýtur að eiga við einkasoninn hugsaði ég með mér og huggaði mig við það að kuldaskeiðin hjá konunni í rúmminu eru venjulega ekki löng og þóttist vita að allt yrði fallið í ljúfa löð morguninn eftir.   Ég vaknaði svo morguninn eftir kátur og hress um leið og konan og stormaði sem leið lá á salernið en við höfum þurft að venja okkur á eilítið nýja siði þar eftir að við fluttum því að í gamla kotinu voru nefnilega tvö salerni en í nýja húsinu bara eitt.  Reyndar eru þau tvö en hitt er niðri í kjallara hjá Rússunum og konan fæst ekki með nokkru móti til að fara niður og nota það á morgnana og ber því við að geta ekki sprænt á Rússnesku.  Ég hef því stundum laumast til að pissa þegar ég er alveg í spreng á meðan konan burstar tennurnar.  Ég var hinnsvegar bara hálfnaður að pissa þennan morguninn þegar ég tók eftir því að konan stóð og horfði á mig og sagði síðan höstuglega:  Lærðirðu það þegar þú varst lítill að míga helminginn framhjá klósettskálinni og á gólfið eða tókstu það upp hjá sjálfum  þér eftir að þú byrjaðir að búa.  Fyrirgefðu elskan ég hef víst verið með úðarann á sagði ég og snarhætti að pissa  sem aftur varð til þess að ég misti frá mér smá prump í leiðinni.  Andskotans ósvífni er þetta sagði konan og var hin versta svona lagað gerir maður ekki í viðurvist annara,  þú getur bara drullast fram í bílskúr ef þú þarft að vera að freta þetta.  Engin er synd þótt búkurinn leysi vind sagði ég en fann að meira var að koma svo ég tók á sprett í áttina að bílskúrnum en komst reyndar ekki lengra en inn í garðskálann áður en ég þurfti að hleypa af.  Á meðan velti ég því fyrir mér hvort ástandið væri orðið þannig þegar konan sæti á tolettinu að hún þyrði ekki að prumpa að ótta við að það kæmi loftbóla upp um vaskinn hjá  Rússunum í kjallaranum.   Þó þóttist ég vita að þetta væri bara lokahnykkurinn á kuldakastinu frá kvöldinu áður.   Þegar konan hafði svo lokið við að athafna sig á tolettinu laumaðist ég þangað inn til að klára að pissa en konan hafði þá hengt upp skilti fyrir ofan klósettið sem á stóð:  “ Stattu nær hann er styttri en þú heldur “  Þegar ég hafði svo keyrt konuna í vinnuna fór  ég heim aftur og gerði smá mælingar í bílskúrnum og velti fyrir mér hvort ekki mætti skipuleggja svolítið tolett við hliðina vaskahúsinu í skúrnum.  Ég ákvað þó að bíða eftir því að konan kæmi heim og kanna hvort kuldakastinu væri ekki örugglega lokið áður en ég bæri skipulagninguna undir hana því hún sagði nefnilega við mig þegar við fluttum:  “ Hér verður ekkert skipulagt nema ég skipuleggi skipulagninguna. “


RÚSSNESKAN

Jæja, ekkert verið bloggað nokkuð lengi en fyrir því er góð og gild ástæða.  Ástæðan er sú að ég hef sitið á skólabekk og verið að læra tungumál af miklum móð síðustu vikur og þar sem ég taldi það mjög mikilvægt að ná að læra hrafl í RÚSSNESKU á sem skemmstum tíma þá hef ég ekki gefið mér tíma til þess að blogga neitt þessar síðustu vikur.  Og hver skyldi svo vera ástæða þess að maður sest á skólabekk og það á gamalsaldri til að læra rússnesku,  tja það skal ég segja ykkur og svo getið þið sjálf dæmt um það hvort ekki var bráðnauðsynlegt að hefja lærdóminn.  Þannig var að ég sat fyrir nokkrum vikum í stofunni í raðhúsinu okkar í Miðtúninu á Selfossi og var að virða fyrir mér garðinn sem var að verða heldur loðinn og hugsaði með mér hvað það væri nú gott að vera með svona lítinn garð,  lítið að slá og ekki lengi gert að reyta arfann.  Ég komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri eins bjórs garður þ.e. garðurinn væri svo lítill að ekki þyrfti nema einn bjór þegar farið væri í slátt og fleira.  Þar sem að ég sat og virti þessa dýrð fyrir mér sá ég hvar konan kom kjagandi og dró á eftir sér sláttuvélina með annari hendi en í hinni hélt hún á arfaklórunni.  Ég sá að nú var rétti tíminn til að láta sig hverfa og stökk því upp á loft og lagði mig smá stund.  Úti heyrði ég svæfandi suðið í sláttuvélinni og var rétt að festa blund þegar konan hætti skyndilega að slá og ég heyrði hana vera að skrafa við einhvern úti í garði.  Ég kíkti út um gluggann og sá konuna á spjalli við einhverja konu og virtist báðum mikið niðri fyrir.  Ekki heyrði ég orða skil en þegar spjalli þeirra lauk tók konan ekki til við sláttinn aftur heldur tók strikið inn um garðdyrnar og kallaði í mig og skipaði mér að koma strax niður í stofu.  Ég þarf að ræða við þig alvarlegt mál sagði hún og benti mér að setjast.  Já þetta er grafalvarlegt mál sagði ég,  garðurinn er ekki nema hálfsleginn bætti ég við um leið og ég settist í stofusófann.  Skítt með þessa garðholu sagði konan við eigum hann hvort sem er ekki lengur.  Ha hvað áttu við sagði ég,  eigum við garðinn ekki lengur,  hvernig getur það verið garðurinn  tilheyrir húsinu ekki satt.  Jú mikið rétt sagði konan en við eigum húsið heldur ekki lengur.  Bíddu, hægan hægan þegar ég fór upp á loft áðan vissi ég ekki betur en við ættum þetta hús en hálftíma seinna eigum við skyndilega ekkert hús,  hvernig má það vera sagði ég og var eitt spurningamerki í framan.  Jú sjáðu til konan sem ég var að tala við er konan sem á stóra húsið sem ég var að skoða á netinu um daginn þú veist húsið með herbergjunum fyrir alla krakkana og  passlega íbúð fyrir mömmu og pabba í kjallaranum,  hún var að bjóða okkur húsaskipti,  við borgum bara eitthvað smá í milli og ég ákvað að taka því og það verður skrifað undir eftir helgi sagði konan og brosti út að eyrum.  Kjallarinn er að vísu í útleigu núna það eru þrír RÚSSAR sem búa þar núna en ég verð fljót að henda þeim út sagði konan,  það eina sem við þurfum að gera er að mæta hjá fasteignasalanum og skrifa undir og húsið er okkar bætti hún við.   Og það var þá sem það gerðist.   Tengdó!! Kjallarinn!!  stundi ég upp en síðan fékk ég skyndilegan svima og síðan tak fyrir brjóstið og loks snert af taugalömun,  eða ég held að það hljóti að hafa verið taugalömun.  Það næsta sem ég vissi var að konan var búinn að hringja í dýralæknirinn og láta sprauta mig niður og áður en ég vissi almennilega af mér aftur var ég búinn að skrifa undir kaupsamninga og kaupa stóra húsið og í ljós kom þegar bráði af mér og ég fór að skoða aðstæður að húsinu fylgdi að minnsta kosti sex bjóra garður.  Ekki var fyrr búið að skrifa undir en konan fór að reka RÚSSANA úr kjallaranum en kom blaðskellandi til baka og sagði að bara einn rússi hefði verið heima og hann skildi ekkert hvað ég var að segja,  þú verður að fara og tala við þá sagði hún ákveðin.  Tengdó, kjallarinn,  rússarnir.   Tengdó,  kjallarinn,  rússarnir  var það eina sem ég gat hugsað en fékk svo skyndilega hugljómun.  Ef ég yrði nógu snöggur að læra Rússnesku gæti ég kannski alveg óvart gert eins og þriggja ára leigusamning við rússana en svo aftur myndi þíða að næstu þrjú árin NO TENGDÓ.  Ég hef svo setið á skólabekk síðustu vikurnar og lært rússnesku af miklum móð og nú er ykkar að dæma hvort ekki var nauðsynlegt að setjast aftur á skólabekk þótt á gamalsaldri sé.  Nú ætla ég að biðja alla sem lesa þetta að segja sitt álit á málinu því mér mun ekki veita af stuðningi þegar konan sér samninginn við rússana.  Set svo nokkarar myndir af nýja slotinu hennar Sólveigar í albúm hér til hliðar.

 

PS:  Þegar ég fór svo að gera samninginn við rússana kom í ljós að þarna bjuggu jú þrír rússar, par sem talar ágæta ensku og hann hrafl í íslensku og svo annar til sem talar bara rússnesku en til vonar og vara höfðum við samninginn á rússnesku.


Smjattpattinn í Gúrkubæ

Konan mín þessi Guðs blessun á það til að fá sérkennilegar flugur í höfuðið, jafnvel svo skýtnar að margir myndu kalla það dillur en það dettur mér náttúrulega aldrei í hug að gera.   T.d. í eitt skipti lét hún senda sér stærðar grjóthnullung alla leið frá Patreksfirði, eins og það sé ekki til nóg af grjóti á Selfossi og í annað skipti gerði hún sér ferð í Mosfelsbæ til að sækja nokkur puntstrá af alveg sérstakri gerð að hennar sögn,  sem hún síðan gróðursetti í garðinum okkar og núna þekja þessi puntstrá alveg eitt hornið í garðinum okkar eða illgresishornið eins og ég kalla það.  Þessar flugur sem konan hefur fengið í höfuðið eða dillur eins og mér dettur ekki í hug að kalla þær hafa jú flestar tengst garðinum okkar og því var ekki laust við að maður fengi ofurlítin hnút í magann þegar konan ákvað að gerast bankastjóri í Hveragerði eða Gúrkubæ eins og maður kallaði það þegar foreldrar mínir fóru með mig í bíltúr þegar ég var lítill að þeirra sögn til að heimsækja frænda minn í gróðurhúsinu hjá Palla Mikk.  Ég vissi aldrei hver þessi frændi var en venjulega var mér plantað við apabúrið hjá Palla Mikk og fékk gúrku að naga meðan ég horfði á apana.   En sem sagt þegar konan fór að vinna í þessum mikla garðyrkjubæ átti ég alveg eins von á að hún fengi nú eitt kastið enn og ég þyrfti að fara að byggja gróðurhús eða eitthvað þaðan af meira.  En ótti minn hefur verið ástæðulaus alveg fram til þessa en það var einmitt í miðjum leik í heimsmeistarakeppninni í fótbolta að konan stóð skyndilega á fætur og sagði:  Þetta gengur ekki ég er búinn að vinna í meira en ár í Hveragerði og ekki ennþá komin með græna fingur,  nei nú verður breyting á,  þú kemur með mér út í Hveragerði að kaupa plöntur og blóm og svo förum við að gróðursetja.  En er nokkuð pláss eftir í garðinum elskan mín sagði ég þetta meiga ekki vera nein stórinnkaup ef það á að komast fyrir,  kannski fáeinar Morgunfrúr og Meyjarljómi og kannski einn Ilmskúfur.  Láttu mig um að ákveða allt um það sagði konan og dró mig út í bíl og lét mig aka út í Hveragerði.   Þegar við svo komum í Hveragerði lét konan mig keyra í hverja gróðrastöðina af annari en fann hvergi það sem hún var að leita að.  Ég var því orðin vongóður um að þetta yrði bara léttur bíltúr og konan léti sér bara nægja að skoða öll blómin og plönturnar.  Konan ákvað svo að gera lokatilraun og lét mig aka heim að lítilli gróðrastöð og snaraðist þar inn og hóf skoðunarferð.  Ég tók eftir því að konan virtist hafa meiri áhuga á að skoða gamla kerlingu sem sat við afgreiðsluborðið en plönturnar og blómin sem voru þarna í bunkum.  Það er ég viss um að þessi kona er að vestan hvíslaði konan mér finnst ég kannast eitthvað við svipinn á henni bætti hún við.   Það er nú sami sauðasvipurinn á öllum þessum kerlingum tautaði ég en gláptu ekki svona á konuna farðu heldur og spurðu hana hvort hún sé að vestan.  Konan leit illilega á mig en sigldi svo sem leið lá framhjá burknum og rósavöndum að afgreiðsluborðinu og sagði:  Sæl gæskan ekki getur verið að þú sért að vestan mér finnst ég kannast eitthvað svo við svipinn á þér.  HA kallaði sú gamla.  Ekki getur verið að þú sért að vestan spurði konan aftur og hækkaði róminn.  Jú jú það passar alveg skrækti sú gamla ég er frá Tálknafirði en hárið og tennurnar eru þó úr Reykjavík bætti hún við.  Þarna sérðu bara hvað ég er mannglögg sagði konan og hér ætla ég að versla sagði hún og hófst handa við að tína til plöntur og blóm sem ég bar jafnóðum út á bílpallinn.   Þó tók nú útyfir allt þegar konan keypti poka af hænsnaskít, já trúið mér það er hægt að kaupa hænsnaskít í pokum,  og skipaði mér að fara með hann út í bíl.  Er nú ekki óþarfi að vera að kaupa þetta sagði ég ég get bara látið hundinn skíta á Morgunfrúrnar tautaði ég en flýtti mér síðan með hænsnaskítinn út í bíl þegar ég sá svipinn á konunni.  Það get ég svarið að ég sá ekki betur en pallurinn á bílnum okkar væri um það bil að sligast þegar við ókum heim og má hann þó bera yfir eitt tonn en kannski var það ímyndun í mér.   Konan hófst svo handa við að blanda mold og hænsnaskít í potta og blómabeð þegar heim var komið en ég laumaðist inn í stofu til að kanna stöðuna í heimsmeistarakeppninni.  Eftir góða stund kom konan á harðaspretti og sagði:  Guð minn góður ég steingleymdi einu,  auðvitað átti ég að kaupa grænmeti líka því núna þegar ég er komin með græna fingur er best að taka líka upp hollari lífshætti og hætta kjötátinu og fara meira í grænmetið.  Síðan tók hún strikið út á hlað og ég sá á eftir henni á bílnum á öðru hundraðinu í áttina að Hveragerði.   Eftir góða stund kom hún aftur og hófst handa við að bera inn úr bílnum tómata, gulrætur og gúrkur og eitthvað fleira í kassavís.  Er þetta nú ekki fullmikið af því góða sagði ég og starði á grænmetisfjallið sem komið var á eldhúsborðið.   Allt fyrir hollustuna sagði konan og skaust út í bíl að sækja meira.  Það var þá sem ég gerði mér ljóst að konan var ekki bara komin með garðyrkjubakteríuna heldur er hún á góðri leið með að verða  “ SMJATTPATTI  Í  GÚRKUBÆ “


Sameiginleg áhugamál

Mér finnst komin tími til að við förum að finna okkur eitthvað sameiginlegt áhugamál sagði konan við mig einn daginn þar sem ég sat við eldhúsborðið og las Moggann.  Aha svaraði ég og hélt áfram að lesa blaðið.  Já það er komin tími til að ég fái að kynnast þínum áhugamálum og þú mínum sagði konan ákveðin og ég sá að það var ekkert undanfæri svo ég lokaði blaðinu og snéri mér að henni.  Og hvað er það elskan mín sem þú villt að við gerum saman sagði ég og þér er velkomið að taka þátt í mínum áhugamálum, það er t.d. leikur í sjónvarpinu í kvöld sem þú getur horft á með mér og svo á ég veiðidag fljótlega líka,  og hvað af þínum áhugamálum villtu að ég taki þátt í,  ég hef mjög takmarkaðan áhuga á útsaumi og þessháttar.  Mín áhugamál liggja miklu víðar sagði konan spekingslega og það væri ágætt að byrja bara rólega og taka eitt skerf í einu og ég held að ég prufi að koma með þér í veiði fyrst og þú getur þá prufað eitt af mínum áhugamálum t.d. skúringarnar eða uppvaskið eða þvottavélina.  Mér er nú voðalega illa við að taka öll bestu áhugamálin frá þér stamaði ég skelfingu lostinn og horfði á konuna sem stóð glottandi við eldhúsvaskinn.  Eins og ég sagði bara taka eitt skref í einu og við getum bara byrjað smátt ég er að fara að setja í þvottavél og það er tilvalið hjá þér að læra á hana í leiðinni sagði konan og stormaði inn í vaskahús.  Ég sá að orustan var að tapast  svo ég dróst á eftir henni inn í vaskahús meðan ég hugsaði um hvernig ég ætti að snúa mig út úr þessu.  Þú veist að þegar maður fer í veiði þá verður maður að láta sig hafa það að skríða í görðum að næturlagi í grenjandi rigningu og tína orma og síðan þarf að þræða þá upp á öngulinn sagði ég vongóður og beið eftir viðbrögðum frá konunni.  Ég er ekkert hrædd við einhverja ánamaðkatitti sagði konan ég hef nú glímt við stærri snáka en það og mér verður ekki skotaskuld úr því að þræða þá upp á öngulinn bætti hún við meðan hún hrærði í körfunni með óhreina tauinu.  Síðan tók við fyrirlestur um öll helstu þvottakerfi vélarinnar og ströng fyrirmæli hvað mætti þvo með hverju, hvað mætti sjóða og þessháttar.  Jæja byrjaðu þá sagði hún svo og benti á körfuna með óhreina tauinu.  Hvað er þetta sagði ég,  ætlarðu að þvo lampaskerminn og togaði í eitthvað sem stóð út úr körfunni.  Viltu gjöra svo vel að láta brjóstahaldið mitt í friði hrópaði konan og sló á puttana á mér,  nú á að þvo mislitt tau eins og ég kenndi þér áðan.  Eftir að hafa sett í þvottavél undir ströngu eftirliti settist ég svo niður í stofu og horfði út í rigninguna sem lamdi gluggann og velti því fyrir mér hvort þetta væri ekki fínasta ánamaðka veður  og kallaði svo í konuna og sagði:  Fáðu leyfi hjá systur þinni til að fara í garðinn hjá henni til að  tína ánamaðka í nótt,  við skulum fara og sækja nokkra fyrir veiðitúrinn.  Konan hringdi umsvifalaust til að fá leyfið og fór svo að tína til regnfatnað og stígvél fyrir nóttina.  Það var svo um hálf eitt leitið um nóttina sem við ókum í hlað við umræddan garð og ég varð að viðurkenna að konan var ansi vígaleg í pollagallanum með stærðar sjóhatt og vopnuð vasaljósi.  Svo er bara best að skríða á hnjánum ofur varlega meðan maður tínir sagði ég og greip  stærðar ánamaðk í blómabeðinu og rétti konunni sem kipptist við þegar hann spriklaði í hendinni á henni.  Við skulum bara skipta með okkur garðinum,  þú ferð bak við húsið og ég verð að framanverðu sagði ég,  þá verðum við skotfljót að tína eins og 200 stykki.  Konan greip dolluna undir maðkinn og hvarf á bak við hús og ég hófst handa við að tína í beðinu fyrir framan húsið.  Ekki hafði ég tínt langa stund þegar ég heyrði skaðræðis óp og sá konuna koma á harðahlaupum út úr innkeyrslunni þar sem hún tók krappa vinstri beygju og hélt svo áfram upp götuna í átt að Engjaveginum.  Ég hélt að konan hefði meitt sig og hljóp því á eftir henni en hún var komin langleiðina út á horn þegar ég loksins náði henni og greip í hendina á henni og spurði lafmóður hvað gengi á.  Sniglar, sniglar, sniglar það voru milljón sniglar æpti kona þegar hún loksins náði andanum.  Já auðvitað er líka sniglar í garðinum sagði ég,  þeir fara líka á stjá í rigningunni.  En það voru milljón sniglar,  nei örugglega tvær milljónir æpti konan og ég þoli ekki snigla.  Nú kveiknaði ljós í húsinu sem næst okkur var og eldri maður sem vaknað hafði við lætin kom út á tröppurnar og snéri sér að konunni og sagði:  Ert þú í einhverjum vandræðum kona góð,  villtu að ég hringi á lögregluna fyrir þig.  Ha nei nei sagði konan þetta er allt í lagi en það væri gott ef þú hringdir á meindýraeyði.   Maðurinn horfði undarlega á mig en tautaði svo “ aumingja konan “  og lokaði dyrunum.   Heyrðu elskan sagði ég sniglarnir bíta ekkert og ég skal skipta við þig um stað,  þú tínir fyrir framan hús,  þar er miklu miklu minna en tvær milljónir af sniglum en ég skal tína á bak við hús.  Konan fékkst loks til að fara með mér til baka og stóð góða stund á stéttinni áður en hún áræddi að gera aðra tilraun.  Ég fór því á bak við hús og byrjaði að tína en eftir augnablik kom annað skaðræðisóp og ég sá konuna bruna aftur út innkeyrsluna nema núna beygði hún til hægri í áttina að Vallholtinu æpandi “ sniglar og köngulær, sniglar og köngulær “  Ég stökk upp í bílinn og ók á eftir konunni en svo mikil var ferðin á henni að hún var komin langleiðina út í Fossnesti þegar ég loksins náði henni.  Konan snaraðist upp í bílinn og skipaði mér að keyra heim eins og skot.  En hvað með að taka þátt í áhugamálum hvors annars sagði ég þú vildir endilega kynnast mínum og ég er þegar búinn að kynnast einu af þínum bætti ég við.  Konan leit á mig undarlegu augnaráði en sagði eftir góða stund:  Ég held að það sé best að þú sjáir um ánamaðkana og ég um þvottinn og ég er ekkert svo viss um að það sé svo góð hugmynd að hafa “ sameiginleg áhugamál “  


Hringdu kona, hringdu

Ég vaknaði einn morguninn í svitabaði eftir hræðilega martröð.  Mig dreymdi að ég væri á gangi með stærðar barnavagn og í vagninum lá stúlkubarn klædd í bleikan galla.  Í draumnum arkaði ég svo með vagninn heim á leið og þar tóku við bleyjuskipti og allskonar tilfæringar við að hita mjólk á pela.  Ekki gat ég betur skilið í draumnum en ég ætti þetta barn og því ekki að furða þó ég hafi vaknað með andfælum og í svitabaði.  Þið getið því  gert ykkur í hugalund hvað mér létti þegar ég uppgvötvaði að þetta var bara draumur og það var bara hún Sólveig mín sem lá við hliðina á mér og var hvorki klædd í bleikt né með bleyju.  Er ekki allt í lagi elskan mín sagði konan og snéri sér að mér,  þú varst svo órólegur í nótt, þú reistir þig tvisvar upp og byltir þér á alla kannta.   Það er ekki furða sagði ég,  mig dreymdi að ég ætti ungabarn og var að trilla því í barnavagni í alla nótt og síðan tóku við bleyjuskipti og pelavesen.  Þegar ég sá svipinn á konunni gerði ég mér ljóst að þegar maður er nývaknaður er best að steinþegja og segja hreint ekki neitt nema góðan dag svona fyrsta hálftímann.  Hefurðu verið að gera eitthvað af þér sagði konan, hvaða lausaleikskróa vesen er á þér á nóttinni áttu kannski eitthvað sem ég veit ekki um.  Auðvitað ekki sagði ég þetta var bara draumur og auðvitað varð ég skelfingu lostinn þegar ég átti skyndilega orðið ungabarn.  Það er alltaf sama sagan með ykkur karlmennina sagði konan,  ef þið eigið ekki lausaleikskróa þá dreymir ykkur um þá á nóttinni.  Og með hvaða herfu áttirðu þennan grisling bætti hún við.   Ég bara veit það ekki sagði ég það var ekki komið að því í draumnum og ef þér líður eitthvað betur þá var ég svikinn um getnaðinn líka.  Gott á þig sagði konan ég vil geta sofið í mínu rúmmi á nóttinni án þess að það sé verið að halda framhjá mér við hliðina á mér.  Kannski hefur þetta ekki verið mitt barn,  kannski hefur þú verið orðin amma og ég bara verið að passa tautaði ég og fór að tína á mig spjarirnar.  Það setti óstöðvandi hlátur að konunni og það var ekki fyrr en eftir góða stund sem hún sagði,  það sjá nú allir sem einhverja glóru hafa í kollinum að það er gjörsamlega útilokað að ég sé orðin amma jafn ungleg og ég er enda er ég varla komin af barnsaldrinum sjálf.   Já auðvitað sagði ég þetta var vanhugsað hjá mér,  krakkarnir eru ekki nema 25, 22 og 18 ára og svo eitt örverpi komið að fermingu svo það er náttúrulega algjörlega útilokað að þú verðir amma í bráð.  Og eitt skal ég láta þig vita að það verður sko ekkert pössustand á þessum bæ þegar ég verð orðin amma eftir mörg, mörg, mörg ár sagði konan,  þegar þetta lið fer að eiga börn  getur það bara passað sína grislinga  sjálft ég má ekkert vera að standa í svoleiðis enda komið að því að við förum að slappa af og leika okkur.  Get ég treyst því að þú standir við þessi orð þegar þar að kemur sagði ég hinn ánægðasti  því draumurinn var svo raunverulegur að ég var að spá í hvort þetta geti verið fyrirboði um að það verði nú slys hjá einhverjum grislingunum og þú verðir amma á barnsaldri.  Konan steinþagnaði og horfði á mig með skelfingarsvip en sagði svo:  Það væri náttúrulega eftir þessum grislingum okkar að passa sig ekki og gera mig að ömmu löngu fyrir tímann,   nei nú verður að taka í taumana og gera þeim það morgunljóst að það er dauðans alvara að fara að fjölga mannkyninu og svo er ég viss um að þau hafa ekki hugmynd um það hvað leikskólapláss kostar nú til dags.  Síðan stormaði hún fram á stigapall og brunaði eins og eimreið niður stigann og greip símann.  Ég skal sko kenna þessum grislingum tautaði hún meðan hún var að velja númer.  Ég hljóp á eftir henni niður stigann og greip í hendina á henni og sagði:   Heyrðu nú kona góð þú ferð nú ekki að hringja í krakkana klukkan átta að morgni til að brýna það fyrir þeim að passa sig og nota verjur er það nú ekki full langt gengið.   Hvernig var það sagði konan varst þú ekki að ýta barnavagni í alla nótt í draumi og skipta á bleyjum og hita pela,  var svona gaman hjá þér eða ertu strax búinn að gleyma því.  Ég hugsaði mig um smástund og rifjaði upp drauminn og sleppti svo hendinni á konunni eins og ég hefði brennt mig og sagði:

  Hrindgu kona, hringdu.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband